Sprungið á þriðja hjólinu

Grunar að ég hafi verið frekar jákvæð gagnvart Íslandshreyfingunni. Tek það til baka, því mér líst bara ekkert á það sem kemur frá hreyfingunni, því miður. Hafði alltaf séð hana fyrir mér sem þriðja hjólið undir vagninum í góðri stjórn, en bæði fylgið og sumar athugasemdirnar sem hafa komið frá þessu herbúðum hafa gert mig alveg afhuga þeirri hugmynd. Skil ekki alveg hvað hefur gerst, eða kannski var ég bara svona græn ;-) 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Greinilega svona græn ;-) - Sammála þessu öllu. Reyndar er ég búin að vera frá upphafi þeirrar skoðunar að það hafi verið vont fyrir græna málstaðinn að Ómar skyldi velja þá leið að fara í framboð, fannst hann einfaldlega í miklu sterkari stöðu með náttúruverndarbaráttu sína meðan hann stóð fyrir utan hið pólitíska litróf og var BARA grænn.

Anna Ólafsdóttir (anno) 15.4.2007 kl. 22:49

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er á því að þetta framboð hafi stórskaðað Framtíðarlandið.  Ég hef sent þeim póst þar sem ég spyr um hvað það skarist Framtíðarlandið og Íslandshreyfingin, þeir hafa ekki séð neina ástæðu til að svara því.  Og ég er líka á því að þau hafi svolítið eyðilagt fyrir stjórnarandstöðunni, þó maður eigi aldrei að segja svona.  Auðvitað eiga allir rétt á að bjóða fram og hér er nú einu sinni allavega í orði lýðveldi.  En samt.... Svo þessi endalausi vandræðagangur með málefnin og framboðslistana. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.4.2007 kl. 23:21

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Svolítið leið yfir því að þetta skuli vera svona mikið klúður, en það er það og best að viðurkenna það áður en lengra er haldið. Þetta er ekki fýsilegur samstarfskostur og þótt innan um sé hið vænsta fólk þá finnst mér allt lykta af ruglingslegri hreyfingu og ennfremur finnst mér vont að þetta skuli skaða Framtíðarlandið, en sammála um að svo er. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.4.2007 kl. 23:28

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já því miður.  En þegar byrjunin er ekki á réttum forsendum þá er ekki við góðu að búast.  Ómar er hugsjónamaður og góður drengur, en hann lét því miður teyma sig út í vitleysu.  Það er meira en að segja það að byggja upp trúverðugt framboð, þar þarf mikla skipulagningu og þekkingu.  Það vill stundum gleymast, og þá er verr af stað farið en heima setið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.4.2007 kl. 00:01

5 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Það er leiðinlegt Anna að þú sért orðin neikvæð gagnvart Íslandshreyfingunni. Skil nú ekki alveg afhverju fylgið ætti að gera þig neikvæða en það væri áhugavert að heyra hvaða athugasemdir úr okkar herbúðum hafa gert þig neikvæða.

Og Anno. það er nú þannig á Íslandi að það er lýðræðislegur réttur fólks að bjóða fram þótt að samfylkingarfólk eins og þú og vinstri grænir eins og Hjörleifur séu á móti því. og svo held ég þínir menn í Hafnarfirði og á NA- landi séu miklu meir skaði fyrir græna málstaðinn en Ómar.

Og Ásthildur, ekki veit ég hvernig framboð Íslandshreyfingarinnar skaðaði Framtíðarlandið. Innan þess eru fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum og ég veit ekki til að framboð þeirra hafi skaðað það. Og... ég held að annar flokkur sé að skemma meira í stjórnarandstöðunni með ákveðnum máli...mér heyrðist t.a.m. á VG manninum í Silfri Egils í gær að hann væri nú ekki lengur spenntur fyrir kaffiboðinu.

Lárus Vilhjálmsson, 16.4.2007 kl. 00:04

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég er hálf leið yfir því líka að Íslandshreyfingin skuli ekki hljóma eins og góður samstarfskostur. Hafði vonað að hér væri á ferðinni áhugaverður samstarfskostur. Það sem helst stingur mig er afdráttarlaus vilji Íslandshreyfingarinnar til að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandsins og kasta krónunni fyrir evruna. Forsvarsmenn taka jafnvel dýpra í árinni þar en stefnuskráin. Annað sem gengur ekki alveg upp í mínum huga er annars vegar að sjá fyrir sér landið allt sem eitt kjördæmi og hins vegar að ætla að skoða persónubundnar kosningar, sem ég get ekki skilið sem annað en einmenningskjördæmi. Ég er algerlega á móti hinu síðarnefnda og tel að fyrrnefda fyrirkomulagið muni síður en svo draga úr hrepparíg. Svo eru auðvitað ákveðnar hægri áherslur sem ég er ekki sammála varðandi einkavæðingu og skattamál. Reyndar er stefnuskráin illskárri en sumt af því sem hefur verið að stuða mig í samtölum og ég get ekki heyrt að forsvarsmennirnir tali einum rómi, eins og fleiri hafa reyndar kafað betur ofan í en ég. En ég endurtek, mér finnst þetta hálf leiðinlegt líka :-\ 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.4.2007 kl. 00:23

7 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Anna, ekki veit ég hvar í flokki þú stendur en man eftir þér úr kvennalista þar sem þú vannst gott starf. Varðandi ESB þá viljum við ólíkt flokkum yst á hægri og vinstri vængnum hefja undirbúning að aðildarviðræðum áður en að EES samingurinn fjarar út og tollmúrar ESB loka okkur úti. Og þá auðvitað með hrein samningsmarkmið um yfirráð yfir auðlindunum í höndunum og þjóðaratkvæði ef að næðust samingar. Og já við erum ósammála um eitt kjördæmi og já við erum frjálslyndur miðjuflokkur í efnahagsmálum. Og svo má nú alveg fyrirgefa fólki að þó það sé ekki alveg að tala í vel æfðum kór eins og í fjórflokknum, við erum nú bara venjulegt fólk. Og já, það eru núna tveir grænir flokkar í landinu Íslandshreyfingin og VG og það finnst mér hreint ekki leiðinlegt   

Lárus Vilhjálmsson, 16.4.2007 kl. 00:41

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Án þess beinlínis að ætla að verja Íslandshreyfinguna þá er skrítið að lesa að það komi Önnu á óvart að flokkur sem gefur sig út fyrir að vera hægri-grænni sé hægri.

EN hitt er rétt að Íslandshreyfingin virðist enga grein gera sér fyrir hve alvarlegt tjón hún hefur unnið á eigin trúverðugleika með þessum drætti á birtingu framboðslista og marg endurnýjuð loforðum um hvenær þeirverði tilbúnir á morgunn eða hinn. - Það getur ekki verið einhverra sæta virði fyrir Margréti og co að tefja svo útgáfu listanna að enginn beri neina tiltrú til þeirra þegar þeir verða birtir.

- En trúlega gráta VG menn krókudílatárum yfir því.

Helgi Jóhann Hauksson, 16.4.2007 kl. 02:28

9 identicon

Smáárétting vegna orða Lárusar. Ég virði fullkomalega rétt fólks til að bjóða sig fram. „Pointið mitt“ snerist ekki um það. Það sem ég átti við var að mér finnst það hafa veikt stöðu Ómars með sitt baráttumál að staðsetja hugsjónir sínar inni í hinu pólitíska litrófi með því að stofna til pólitísks framboðs. Fer ekki ofan af því. Lárus fullyrðir svo að ég sé „Samfylkingarfólk“. Verið getur að ýmislegt sem ég skrifa, t.d. skoðanir mínar á niðurtali um Ingibjörgu, rit Samfylkingar um efnahagsmál og þvílíkt gefi honum tilefni til að ætla slíkt. Og það er örugglega auðvelt að sjá á skrifum mínum að ég er ekki hlynnt því að sama stjórn starfi næsta kjörtímabil. Það er líka auðvelt að lesa í skrif mín andstöðu við áframhaldandi stóriðjuáform og náttúruspjöll vegna virkjana. En gerir það mig endilega að „Samfylkingarfólki“? Eða kannski er spurningin: Þarf það að staðsetja mig innan einhvers ákveðins flokks? Svei mér þá ef þetta er ekki líka spurningin um það hvort við hugsum í línu eða hring - segi bara sisona 

Anna Ólafsdóttir (anno) 16.4.2007 kl. 10:16

10 Smámynd: Jens Guð

Íhaldshreyfingin -  langt í land er andvana fædd.  

  Í fyrsta lagi var of seint um rassinn gripið.  Fáeinum vikum fyrir kosninar er rokið til,  nokkrir framagosar sem ekki hafa náð frama innan annarra flokka,  orðið undir (lúserar) koma saman og reyna að klambra saman flokki utan um Ómar Ragnarsson.  Einungis hefur eftir mikið puð, vandræðagang og togstreitu að raða í efstu sæti í tveimur kjördæmum.  Allt er óklárt í öðrum kjördæmum.  Ekki hefur tekist að fylla meðmælendalista í einu einasta kjördæmi.

  Í öðru lagi er dauðadæmt að ætla að gera út á að hægri menn flykki sér um grænt framboð.  Flest eigum við að muna eftir því þegar Ólafur F.  Magnússon var púaður niður á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum.  Stóriðjustopp er ekki eitthvað sem dregur atkvæði frá Sjálfstæðisflokknum.

  Í 3ja lagi er afar sérkennilegt að Í-hreyfingin skuli skipa sér á bekk með kvótaflokkunum en jafnframt taka upp baráttu fyrir inngöngu í Evrópusambandið.  Þetta er kúvending frá fyrri baráttumálum Möggu Sverris og því fámenna klofningsbroti sem fylgdi henni úr Frjálslynda flokknum.  Skrýtið og ekki traustvekjandi að Magga og félagar skuli kokgleypa þetta.

  EF svo afar ólíklega vildi til að Í-hreyfingunni takist að bjóða fram í öllum kjördæmum þá verður þetta 1 - 2ja %,  steindautt dæmi eins og framboðsbrölt aldraðra.     

Jens Guð, 16.4.2007 kl. 12:02

11 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Það er náttúrulega um að gera að gefa nýjum framboðum sem allra minnstan séns, enda vita allir að aukið val er ekkert nema hælsæri fyrir kjósendur sem gætu þá farið að "skemma" fyrir gömlu góðu flokkunum.

Og auðvitað leggst fólk í framboð vegna þess að það er svo eftirsóknarvert að komast á þing. Svo ekki sé talað um hversu gaman það er að láta tala illa um sig og gera grín að sér í aðdraganda kosninga. Svo fær fólk fullt af peningum fyrir enga vinnu. Þetta er átakalaust - að koma fram með nýjan flokk - og allir eru tilbúnir að ausa aurum yfir þá sem standa í þessu. Jahá! Reyndar hefur ný löggjöf um framlög til flokka aðeins sett strik í reikninginn en hva...

Annars er þetta ekki alveg svona. Það er óþarfi að gera lítið úr tilraunum fólks til þess að koma hugsjónum sínum á framfæri. Það er erfitt og mikið verk að koma flokki á koppinn - mikið regluverk sem þarf að fara varlega í gegn um. Það kostar mikla peninga að leggja í þessa vinnu og mikinn tíma.

Ég er að minnsta kosti á þeirri skoðun að það beri að fagna auknu vali, jafnvel þó maður sé ekki sammála þeim sjónarmiðum sem koma fram. Ég hef til dæmis engan veginn ákveðið hvað ég mun kjósa í vor, þó ég hafi þegar útilokað ákveðna kosti. Því finnst mér ágætt að hafa sem mest val. 

Það gilda sömu lögmál þarna og úti á markaðnum. Aukið framboð er gott fyrir neytendur (kjósendur) á meðan að fákeppnin er vond.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 16.4.2007 kl. 12:30

12 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég hef litlu við þessa ágætu umræðu að bæta, öðru en því að ég var fyrirfram afskaplega sátt við hægri grænt framboð og leit á það sem vænlegan samstarfskost fyrir VG sem ég tel að eigi ótvírætt að eiga hlut að næstu ríkisstjórn.

 Það sem hins vegar gerir mig fráhverfa Íslandshreyfingunni er fyrst og fremst afstaðan til ESB, hins vegar ákveðinn hringlandaháttur í ýmsum málum (þar má meira að segja finna misræmi í kjördæmamálum, eins og ég benti á, einmenningskjördæmi eða eitt stórt, það passar bara ekki saman) - en þó aðallega að fólkið sem talar fyrir munni hreyfingarinnar er mjög ósamstíga og ég veit ekki fyrir hvað hreyfingin stendur þegar grænu málunum og ESB sleppir.

Hins vegar er ég alltaf jákvæð gagnvart nýjum framboðum fyrirfram, fjórflokkurinn Á ekkert, hvorki fólk né fylgi. Málefnin valda því síðan hver þeirra eru sett á og hver ekki. Mér sýnist að hægri grænt framboð af því tagi sem komið er fram verði ekki sett á af þjóðinni og viðurkenni enn og aftur að mér þykir það mjög miður að það skyldi ekki verða barn í brók. Ég hefði svo vel getað unnt mínum hægri sinnuðu vinum að eiga skýran valkost, en skil að þeir velji ekki Í, eins og það hefur verið kynnt til þessa.

Varðandi það að framboðið sé of seint fram komið þá er það eflaust líka orsakavaldur, en sundurleit markmið vega að mínu mati þyngra í gæfuleysi framboðsins - ef marka má skoðanakannanir.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.4.2007 kl. 13:03

13 identicon

Mér líst mjög vel á Íslandshreyfinguna.. stuðning við vistvæna og lífræðna framleiðslu, sjávarútvegsmálin, aðildarviðræður að ESB.. (sem eru bara viðræður en gæti stóraukið útflutning okkar á vistvænni landbúnaðarvöru sem er orðin ansi eftirsótt vara innan landa ESB og hreinlega bjargað landbúnaðinum okkar) Tillögu um að lækka skatta á fyrirtæki sem eru úti á landi þar sem fjölbreyttari atvinnu vantar. Enga hækkun á sköttum og síðast en ekki síst.. Draga úr stóriðju og leyfa öðrum iðnaði loksins að fá að blómstra í þessu landi.

Áfram Íslandshreyfingin :-)

Björg F 16.4.2007 kl. 14:05

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband