Drungi og draumalíf í Egilshöll

Ég átti erindi í Egilshöll í dag. Ekki til að taka þátt í krataþingi, heldur var ég að fara á skauta, nokkuð sem ég hef ekki gert í 25 ár og ekki af neinu viti í 40 ár. Þar sem ég rölti í lopapeysunni minni gegnum krataflákana, með skauta um öxl (ekki bara til að skera mig úr kratahópnum) þá fann ég fyrir þunga og drungalegnri stemmningu og fannst hópurinn frekar gleðisnauður. Mjög ólíkt því sem ég fann fyrir í upphafi kosningabaráttunnar í forvali VG þegar allt var hreinlega að springa úr fjöri og sköpunarkrafti, og þá vorum við ekki komin í nema svona 15-17% í skoðanakönnunum. Ég vona, kratanna vegna, að ég hafi bara hitt illa á. Reyndar heyrði ég í útvarpinu á bakaleið að það hefði verið jafnréttisfundur í hádeginu, líklega stóð hann enn þegar mig bar að garði, og kannski var meira fjör þar.

Hins vegar var alger draumur að komast á skauta eftir 25 ára fjarveru úr þeim heimi. Ég naut þeirra forréttinda að alast upp við Bessastaðatjörn frá 12 ára aldri og þar var oft mjög gott skautasvell og hægt að skauta nánast óhindrað svo langt sem augað eygði. Nú eru veður rysjóttari og gott að vita Alsæl á skautumaf þessum tveimur stöðum þar sem hægt er að komast á skauta óháð veðri. Ég hef oft horft öfundaraugum á skautasvellin í New York, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn, á fallegum torgum þar, en þetta er bara fínt þarna í Egilshöll. Fyrst staulaðist ég meðfram handriðinu alveg undrandi á því hvað svellið var sleipt. Harðneitaði þó að taka göngugrind. Svo fór maður að færast í aukana, sleppa sér, en fékk samt smá bakslag þegar Kjartan vinnufélagi minn greip í mig og keyrði áfram, úff, rosalega brá mér, og er þó ekki viðbrigðin. Hótaði að henda mér í svellið og láta öllum illum látum ef hann gerði þetta aftur! Hann lét Geira vinnufélaga okkar um að grípa mig næst, en ýtti sjálfur á Geira, og í það skiptið lifði ég af. Henti mér ekki í svellið og lét ekki öllum illum látum, og olli þar með nokkrum vonbrigðum. Svo loksins þegar ég fór að finna jafnvægið var erfitt að hætta. Eina sem stoppaði mann af var þreyta í ökklunum, sem gerði vart við sig af óvana og stífari skautum en ég var vön hér í eina tíð. Eflaust eru þessir betri fyrir skrokkinn. Skemmtinefnd INNN, þar sem ég vinn(n) á heiður skilinn fyrir framtakið. Hér eru tveir fulltrúar úr þeirri nefnd, Arnar og Hrefna, mikið indælis fólk. Svo skreppum við á árshátíð í kvöld, á Borginni, sæl og glöð eftir skautana, og kannski á Óliver á eftir. Hver veit?

Hrefna rokkaðiArnar var flottur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

frábært ég var alltaf að skauta þegar ég var barn, ólst upp í vík í Myrdal og þar voru sko svaka svell. ætti kannski að skella mér næsta vetrur hérna í dk

ljós og friður til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 14.4.2007 kl. 15:39

2 identicon

Þú ert bara flott á skautum. Svo getur læknaneminn ekki sagt annað en að hann sé svaka ánægður að sjá þig með HJÁLM á hausnum á skautunum...

Ánægð með þig... Skemmtið ykkur svakalega vel í kvöld.

Jóhanna 14.4.2007 kl. 15:55

3 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Já, þú hefur greinilega hitt á matahlé eða eitthvað :) það var alveg ótrúleg stemming á þessum landsfundi okkar kratana, og baráttugleðin og fjörið eiginlega þannig að maður skilur ekki hvernig fólk sem átti leið hjá gat misst af því.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 15.4.2007 kl. 12:07

4 identicon

Hittir þú ekki fyrir gamla Kvennalistann þinn innan um "krataflákana"? Þær voru þarna allar í feiknastuði.

Sjálfur var í Alþýðubandalaginu í "de gamle dager" og veit að það var nú ekki beinlínis það brot úr Allaballeríinu sem þekktast var fyrir "fjör og sköpunarkraft" sem kaus að kljúfa sig út sameiningu alls félagshyggjufólks þegar Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalisti sameinuðust ásamt óháðu félagshyggjufólki og stofnuðu Samfylkinguna.  ;-)

Alfred L.

Alfred L. 15.4.2007 kl. 13:58

5 identicon

..."þá fann ég fyrir þunga og drungalegnri stemmningu og fannst hópurinn frekar gleðisnauður".    Jahá, þá er þá kannski bara best að halda áfram að vera munaðarlaus fyrrum kvennalistakona. HG

HG 15.4.2007 kl. 20:50

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Gott að það var gaman á fundinum. Ég er reyndar ekki sú eina sem hitti illa á í matarhléinu, því það fannst fleiri samstarfsmönnum mínum þungt yfir mannskapnum, en kannski var bara allt hressa liðið á kvefrelsisfundinum. Þætti það ekkert slæmt fyrir hönd gamalla félaga úr Kvennalistanum.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.4.2007 kl. 22:36

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband