Frumbyggjar
13.4.2007 | 20:57
Þegar ég var lítil þá vildi ég alltaf vera indjáninn í kúreka og indjánaleikjunum, enda með fléttu(r) og dökk yfirlitum. En ekki bara það, það var bara svo töff eitthvað. Svo er maður búinn að sjá flutt af meðvituðum Hollywood og ekki Hollywoodmyndum þar sem taumur indjána er dreginn, ólíkt því sem gerðist í Roy Roggers (við töluðum aldrei um Rogers) myndunum, þar sem aðallega voru kúrekar, góðu með hvíta hatta og vondu með svarta. En alla vega, þá hefur verið vaxandi skilningur á málum frumbyggja um allan heim, og það er flott.
Þegar ég fór til Ástralíu fyrir 13 árum þá voru frumbyggjarnir nýbúnir að harma landnám hvítingjanna þar í álfu og báðu um að fá að endurheimta menningu sína sæmilega óáreittir. Menningu sem er mjög spennandi, rétt eins og indjánamenningin sem ég er að byrja að fá smá smjörþef af. Nína systir er nefnilega æði vel tengd við indjánasvæðin í Ameríku, auk þess ein fárra hvítra sem hefur kennt kúrsa í indjánabókmenntum. Þegar hún bjó í Wyoming var hún í mikilli nánd við indjánamenningu, fór með mér á svæði þeirra í Arizona meðan hún bjó það, og þegar við vorum í Santa Fe um daginn þá hittum við vini hennar, bæði af indjánaættum og sem vinna með indjánum. Bæði í tengslum við menningu þeirra og einnig þau vandamál sem komið hafa upp við misvelheppnaðar tilraunir við að deila landinu með innflytjendum víða að úr heiminum. Reyndar þarf ég endilega að finna við tækifæri mynd sem ég prentaði út einu sinni af tveimur indjánum sem sitja upp á hæð og horfa yfir Manhattan. Annar segir við hinn: Ekkert af þessu hefði gerst ef við hefðum haft strangari innflytjendalöggjöf!
Við hittum nokkra núna í túrnum, keyptum list og listmuni af þeim, en þar er hvað öðru fallegra. Ég er hugfangin af því sem ég sá og heyrði. Keypti mér diska með indjánatónlist, mjög heillandi tónlist, en áður féll ég kylliflöt fyrir tónlist Ástralíufrumbyggja. Reyndar rifjast það upp fyrir mér þegar Nína systir hafði vit á að toga mig með sér á frumbyggjatónleika í Salnum í Kópavogi fyrir tveimur árum eða svo. Debbie, sjálfmenntuð listakona sem málar og sker í dúk sýndi okkur brot úr sögunni á veitingahúsi þar sem fullt af vinum Nínu og vinkvenna hennar borðuðu með okkur og svo heimsóttum við hana og vinkonu hennar og skoðuðum myndirnar hennar. Elísabetu langaði mest í stórt málverk, en við létum okkur nægja smærri og flytjanlegri myndir á fáránlega góðu verði. En allt er ódýrara í Ameríku. Mér er þó eiginlega minnisstæðastur hljóðlátur maður í verslun í Santa Fe, sem ég heimsótti í tvígang. Keypti af honum þrjú lítil veggteppi og fékk hann til að velja fyrir mig perlusaumaða buddu til að setja um hálsinn. Systur mínar segja að ég hafi neytt hann til þess, en hann gerði það ábyggilega með gleði og yfirvegun, því á henni er björn fyrir okkur Björnssonana. Vissi ekkert í hvað ég átti að nota hana í, en auðvitað smellpassar linsuhulstrið í þetta. Og það kemur sér vel núna þegar ég er búin að vera með aðra linsuna í fríi. Tók mynd af indjánamarkaðnum í Santa Fe, úr fjarlægð og án áreitis, því maður má ekki taka myndir af indjánum, nema í hæsta lagi eins og þessa. Allt sem selt er á indjánamarkaðinum í Santa Fe er unnið af indjánunum sjálfum eða fjölskyldumeðlimum og þarna fékk maður tækifæri til að spjalla við yndislega listamenn, fallegt og lífsreynt fólk, sem hafði gaman af að útskýra verk sín. Annie frænka keypti rosalega flottan hring sem er hægt að snúa eftir árstíðum, og Elísabet fékk sér eftir nokkra umhugsun hliðstæðan. Ekki smá flott, en ég fékk mér heilsuskartgrip (sem er auðvitað glæsilegur líka) með onyx og sólargeislum, ekki hægt að útskýra. En alla vega, það er gaman að vera þarna. Mig langar aftur til Santa Fe. Salvör var að kommentera um spilavítin, já þau eru þarna og urmull af þeim. Ég hef ekki komið inní þau og séð smókingklædda indjána, og ég viðurkenni að ég yrði eflaust frekar sorgmædd við þá sjón. Hins vegar var bara gaman að sjá þá með kúrekahattana sína, það var ekkert nema flott. Það er mjög umdeilt hvernig áhrif spilavítanna eru á samfélag indjánanna. Sumir fagna því fé sem kemur inn og segja það fara til samfélagsins, aðrir vilja meina að þetta sé bara neikvætt og jafnvel að peningarnir skili sér ekki. Jæja, eitt enn, hér er hún Debbie, hún er af Navahó ættum, og fín myndlistarkona.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:10 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessa frásögn. Ekki vissi ég að indíánar væru á móti því að teknar væru myndir af þeim, en þetta er alls ekki svo algengt meðal þjóðarbrota vítt og breitt um heiminn. Í Kína er fólk sem trúir því að ef ókunnug manneskja tekur mynd af þeim í leyfisleysi þá sé hún að stela sálinni þeirra. Að síðustu, mikið svakalega væri gaman ef hún Nína systir þín býður upp á námskeiðið í indíánum hér á landi.
HG 13.4.2007 kl. 22:47
Leiðrétting: Hér að ofan á að sjálfsögðu að standa: ...ekki svo óalgengt.. (kennir manni að lesa yfir áður en ýtt er á send).
HG 13.4.2007 kl. 22:49
Þetta með að stela sálinni er líka það sem indjánar segja, og líka sumar Afríkuþjóðir, þess vegna álpaðist ég til að spyrja Nínu, þegar mig langaði að taka close-up af einhverjum, en vildi ekki gera það af því ég hélt kannski að þetta gilti þar líka, og það var rétt. Annie sagði mér svo að þetta væri út af sálinni og Nína sagði mér að Debbie væri alveg sama, sem reyndist rétt. En sem sagt, gott að ég spurði. Kúrsinn um indjánabókmenntir sem Nína kenndi í Háskóla Íslands fyrir tveimur árum fylltist strax, þannig að ég yrði ekki hissa þótt hún yrði fengin til að kenna hann aftur þegar hún flytur heim.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.4.2007 kl. 23:13