Enginn tími fyrir spennufall

Enginn tími hefur gefist til að fara í spennufall eftir æsispennandi kosningakvöld í gærkvöldi. Tvær fermingar í dag, sem betur fer bara ein veisla, Snædís og Sigga Lóa föðursystir hennar (já, alveg rétt) fermdust og haldin var glæsileg veisla í Vonarholti hjá tengdamömmu. Síðan var haldið í smá endurskipulagningu á heimilinu sem lyktaði með mikilli páskavæðingu, þar sem við vorum að eignast forkunnarfagran páskagulan sófa, sem mamma var að láta okkur fá  og í tilefni af því var auðvitað settur upp páskadúkur og páskaliljur í vasa á borðstofuborðið. Smá svipmynd úr símanum mínum:

 Páskar 2007

Ég þarf nefnilega að taka forskot á páskana (fengum okkur páskaegg nr. 1 í kvöld til að fá sinn málsháttinn hvert). Á miðvikudaginn fljúgum við Elísabet systir til Ameríku til Nínu systur, enda ekki seinna vænna að heimsækja hana, þar sem hún hyggur á heimflutning til Íslands. Hún átti góðar stundir við kennslu í Háskóla Íslands fyrir rúmum tveimur árum og langar heim. Við höfum trú á því að það sé þörf á konu með doktorspróf í amerískum bókmenntum, mikinn feminista, sem hefur m.a. kennt bókmenntir indjána við Háskóla Íslands og fleira spennandi. Það hlýtur að bíða hennar spennandi staða hér heima, en það verður að vera hér á höfuðborgarsvæðinu því við erum búin að vera nógu lengi aðskilin systkinin. Nenni ekki að útskýra það í þaula, það myndi taka ca. tvo hæðarmetra af bloggi. 

En alla vega páskar í Santa Fe, þar sem Nína er viss um að okkur þyki skemmtilegra þar en í Portales, litla háskólabænum þar sem hún býr. Hún gaf mér þvílíkt yndislega bók frá Santa Fe fyrir tveimur árum að ég bíð spennt. Svo skilst mér líka að þar séu falleg, bleik hús (þótt fleiri séu Santa Fe blá, eins og hurðirnar í sumarbústaðnum okkar). Fyrir þá sem ekki vita þá mun ég einn góðan veðurdag afhjúpa verkið mitt, bleik hús. Ykkur verður öllum boðið á opnunina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Skilaðu innilegri kveðju til systur þinnar og auðvitað Elísabetar líka, skelfilega langt síðan ég hef séð hana. Mikið held ég að það verði gaman hjá ykkur!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 2.4.2007 kl. 00:18

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk, hvort ég skal. Já, tíminn flýgur með eindæmum hratt.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.4.2007 kl. 00:33

3 identicon

Góða ferð og vonandi njótið þið systur hverrar mínútu saman.

Verkið bleik hús!, það er nú orðið ansi stórt, er það ekki, og teygir sig víða um heiminn!

Bestu kveðjur um gleðilega páska í Santa Fe.

HG 2.4.2007 kl. 00:58

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Jú, það er í útrás, eins og sum íslensku fyrirtækin.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.4.2007 kl. 01:03

5 identicon

Þið systurnar ættuð endilega að taka með ykkur lítil páskaegg til ameríku fyrir Nínu og Anne og ef að Sóley verður með fjölskylduna. Um að gera að kenna þeim íslenska siði. Ég veit að Nína man eftir þessu, en veit ekki með stelpurnar. Þó það sé ekki nema lítið með málshátt....

Bið svakaleag vel að heilsa til Ameríku og heyri vonandi í þér áður...

Jóhanna 2.4.2007 kl. 04:34

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk, fyrstu páskaeggjainnkaupin þegar hafin og skipulag í gangi varðandi þau.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.4.2007 kl. 10:45

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband