A,B,C og D fólk, svefnvenjur Íslendinga og ein lygasaga frá London
24.3.2007 | 21:13
Skemmtilegar umræður í ýmsum bloggum um A og B fólk (kannski út af frétt frá Danaveldi í hádegisútvarpinu). Alla vega þá er fólk farið að skilgreina sig sem A, B og D fólk (pólitískur fnykur af stafavalinu) en ég hef í mörg ár skilgreint mig sem C-manneskju. Skrifaði reyndar einu sinni sögu í Vikuna undir dulnefni um stofnun baráttusamtaka morgunsvæfra. Þarf að finna hana einhvern tíma. Kannski fékk ég fyrstu blaðamannavinnuna mína á Vikunni út á þá sögu, veit það ekki, sagan segir reyndar að ég hafi fengið þá vinnu út af sannsögli, ég játaði nefnilega þegar ég sótti um vinnuna að ég væri sjálfmenntuð á ritvél. Helgi Pé, sem þá ritstýrði Vikunni, kom labbandi fram í ritstjórn og sagði: Hér er ein sem er með öll próf í lagi og hefur líka húmor!
En þessi sannsögla manneskja, sem ég reyndar er, enda þýðir ekki annað fyrir fólk sem sést á langar leiðir ef það reynir að ljúga, á sér reyndar eina aðra játningu. Þegar ég bjó 18 ára gömul um hríð í Englandi, þá var ég orðin langþreytt á spurningum um eskimóa, snjóhús og eilífan vetur. Ætlaði að kveða þetta niður í eitt skipti fyrir öll og fór að segja Bretunum nógu yfirdrifnar furðusögur af Íslandi: Þar byggju allir í snjóhúsum, ég byggi t.d. á 8. hæð í igloo-blokk þar sem lyftan gengi bara upp í móti en við renndum okkur alltaf eftir ísrennibraut niður. Á veturna væri samfélaginu lokað, lágmarksþjónusta í gangi, svo sem smá hiti og viðhald nauðsynlegustu tækja og mannvirkja, en allir legðust í dvala, af því það væri mönnum eðlilegt við þessar aðstæður, þegar allt væri dimmt. Svo sparaði þetta svo mikið í ljósum og annarri orku og væri svo umhverfisvænt (þurfti auðvitað að umorða það áður en það orð var fundið upp). Ég komst á þvílíkt flug. Þóttist sanna þetta með því að benda á að nafnið mitt Björnsson, væri algengt á Íslandi, og vísaði til lífsstíls bjarna, sem sagt vetrarsvefns. Og eflaust hef ég sagt fleira, sumrin eru auðvitað vinnutíminn í svona samfélagi og allt það, þið getið bara bætt við sjálf. Af nógu að taka.
Mér finnst reyndar eftir á að hyggja að þetta sé að hluta til bara ekkert svo vitlaust, það er að segja að taka meira mið af því hvernig umhverfið býr okkur lífsskilyrði. Í heitum löndum er t.d. enn tekin siesta á heitasta tíma (að vísu á undanhaldi) og sagt: Only mad dogs and Englishmen go out in the mid-day sun (og Íslendingar). Mér finnst t.d. alltaf svolítið gleymast að hádegi í Reykjavík er um kl. 13:30 þannig að þegar verið er að senda krakkana í skóla klukkan 8 á morgnana þá er klukkan í rauninni 6:30. Og kem ég þá aftur að morgunsvæfa fólkinu ....
Athugasemdir
Þú hefur svo rétt fyrir þér (ekki í lygasögunni), heldur þessu með næturbrölti okkar Íslendinga yfir vetrartímann. Sem segir mér að ég vakni um miðja nótt þegar klukkan hringir kl. 6.15 á morgnana. Arrrggg!
Lygasagan er frábær, þú hefur gott ímyndunarafl! Ég reyndi einu sinni að ljúga svona á pöbb í London (á au-pair árunum mínum) en tókst ekki jafnvel upp. Þegar ég ætlaði síðan að leiðrétta þetta fékk ég samúðaraugnaráð frá fólkinu sem sagði mér að ég þyrfti ekkert að skammast mín fyrir að búa í snjóhúsi! Gat ekki aflogið þetta!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 25.3.2007 kl. 00:01