Tækni, vit og allir vinirnir

Dagurinn sem er kominn að kvöldi tók aldeilis óvænta stefnu. Elísabet systir á afmæli og ég hringdi í hana í morgun til að óska henni til hamingju með daginn og líka að tékka á hvort hún væri að halda uppá hann, því ég hef verið sorglega léleg í að mæta í afmæli í fjölskyldunni hennar að undanförnu. Átti uppbyggilegt spjall við talhólfið hennar um stund og tékkaði svo á póstinum mínum. Einn vinnufélagi minn hjá INNN hafði veikst þannig að manna þurfti 4 tíma aukavakt á sýningunni Tækni og vit í Fífunni, en ég hafði einmitt ætlað með mömmu í langt hádegi, þannig að ég stökk á að taka vaktina frá 15-19. Sé sannarlega ekki eftir því. Ég er svo sem ekki búin að skoða sýninguna heldur hélt mig á mínum bás, en þau viðfangsefni sem við vorum að glíma við leystust eitt af öðru og farsællega, sem er alltaf ósköp gaman. Verð á vakt um helgina líka, 2 * 2,5 tíma þannig að ég á eftir að finna tíma til að skoða betur.

Það sem hins vegar setti svip á daginn öðru fremur var að í dag voru eingöngu fagaðilar að skoða sýninguna og þeirra á meðal fullt af vinum og kunningjum úr tölvunördastétt. Þarna var álitlegur hópur skólafélaga minna, fullt af viðskiptavinum, samstarfsfólki og fyrrverandi starfsmönnum INNN. Og gömlu vinnufélagarnir mínir úr Betware fjölmenntu heldur betur. Við vorum þrjú fyrrverandi á þremur nærliggjandi básum og svo stormaði gamla gengið mitt um allt. Afskaplega yndislegt að sjá þau öll, enda eyddi ég næstum fimm árum með þeim flestum og það voru sannarlega góð ár sem ég sakna af og til þótt ég sé ánægð með að hafa fært mig um set yfir í vinnu sem á en betur við mig en sú gamla. Munaði minnstu að ég elti þennan gamla hóp minn á djammið, en var búin að gefa fyrirheit um að skreppa annað um kvöldið ef á þyrfti að halda. Svo varð reyndar ekki, þannig að ég endaði kvöldið eins og ég hafði ætlað mér upphaflega, í skemmtilegu afmælisboði hjá Elísabetu systur og skoðaði myndir úr ferðinni til Kanarí og rak óspart áróður fyrir því að hún mætti aftur með fjölskylduna og nágrannana. 

Og ef þið skoðið frétt Moggans (myndbút) þá sjáið þið Ágúst vinnufélaga minn pikka á tölvuna í básnum okkar, með close up af lyklaborðinu, svo ég gefa nú fullnægjandi leiðarlýsingu.

En ég er bráðspennt að skoða sýninguna sjálf, það er það sem ég á eftir óskoðað, sem sagt næstum allt nema vinina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband