Baráttan um hurðarhúnana og Ísland í stíl
6.3.2007 | 21:14
Við Ari minn höfum verið að kljást við að innrétta háaloftið okkar, sem hafði safnað drasli í 26 ár, og hentum bróðurpartinum út þar og erum búin að innrétta þar þriggja herbergja vistarverur ásamt geymslukríli. Krakkarnir okkar (28 og 29 ára), sem báðir eru enn í skóla, eru að flytja úr skápunum sínum og í alvöru herbergi af því tilefni. Ýmislegt er ógert og núna þegar draumahurðirnar eru komnar á útsölu í Byko þá þurfti auðvitað að nálgast þær. Fékk þetta fína símtal þegar ég var að borga fyrir klippinguna mína áðan:
- Voruð þið búin að skoða hurðarhúna?
- Já, ég fór með krökkunum að skoða milli jóla og nýárs, en þau eru ekki sammála.
- Eigum við þá ekki að bíða með það?
- Nei, mér finnst að þau eigi að fá að hafa mismunandi hurðarhúna! Það sést ekki einu sinni á milli herbergjanna [háaloftið er eins og húsið alltí vinkil].
- Mismunandi húna! Mér líst ekki á það.
- Nei, engum líst á það nema mér :-(
Í heil 17 ár var ég með opið hús fyrir vini og vandamenn á sunnudagskvöldum og lengst af lagði ég mig fram að vera með mjög litskrúðuga bolla og ekki alla í sama lit. Einn var flöskugrænn og gulur að innan og diskurinn við þá kannski fjólublár. Einhvern tíma varð mér á að láta einhvern gestinn fá bolla og kökudisk aðeins of mikið í ,,stíl" og fékk þessa sármóðguðu athugasemd: ,,Af hverju fæ ég allt í stíl, er þér eitthvað illa við mig?" Seinna komst þetta misræmi í tísku um hríð, þannig að ef til vill á ég eftir að sjá heimili með hurðarhúna sem eru ekki í stíl, einhvern tíma í framtíðnni. Eða ekki ;-]
Athugasemdir
Meiri symmetriuáráttan í fólki Anna. Ég skil þig vel Anna bæði með bolla og húna. Lífið er mun skemmtilega þegar það er ekki allt í stíl.
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.3.2007 kl. 21:28
Takk, stappar í mig stálinu í baráttunni um hurðarhúnana.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.3.2007 kl. 21:45
Ég stend algjörlega með þér í sambandi við húnana, þetta er snilldarhugmynd og einmitt alveg í þínum stíl. Vona að aðrir í fjölskyldunni samþykki þetta!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.3.2007 kl. 23:16
Alveg örugglega ekki, en ég gæti samt haft mitt fram ;-)
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.3.2007 kl. 02:16
Blessuð skelltu þér bara í að hafa ólíka hurðarhúna - hef reynslu af því. Keypti síðustu tvo hurðarhúnana í verslunni og ætlaði að bæta öðrum tveimur við þegar næsta sending kæmi, en það fór óvart þannig að ég keypti aldrei nema þessa fyrri tvo. Ólíkt því sem er heima hjá þér þá prýddu þessir fjórir hurðarhúnar hurðir á dyrunum sem allar opnuðust inn í sama ganginn og ekki nóg með að þeir væru ólíkir heldur voru þeir nýju 50 árum yngri en hinir tveir. "Kurteisir" gestir höfðu ekki orð á þessu, en horfðu mikið!
HG 7.3.2007 kl. 10:02
Í hinni fullkomnu veröld allra veralda væri lífið ábyggilega svona, allir hurðarhúnar fengju að vera með sín einstaklingseinkenni, mér líst vel á þessa umræðu.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.3.2007 kl. 11:08
Hurðarhúnar heimsins eru af öllum gerðum og stærðum. Megi þeir allir fá að njóta sín í dásamlegheitum hinnar hringlandi óreiðu
Jenný Anna Baldursdóttir, 7.3.2007 kl. 12:31
Sorrí. Það VERÐA allir hurðahúnarnir að vera eins. Annað gengur ekki. Það er skelfilega ljótt og gerir gjörsamlega út við allt prinsip hjá mér.
Ég treysti því bara að pabbi verði sendur einn í búð að kaupa hurðarhúna (alla eins). Hann fór ekki með í þessa frægu búðarferð og ég treysti að hann velji rétt ;)
Elska ykkur öll samt...
Jóhanna 8.3.2007 kl. 21:52
Það er vandlifað, en ég er yfir mig hamingjusöm yfir öllum stuðningsyfirlýsingunum.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.3.2007 kl. 23:49