Smá upprifjun frá Herferð gegn hungri
4.3.2007 | 01:16
Ætli ég hafi ekki verið 13-14 ára þegar ég hljóp á milli bæja hér á Álftanesi og safnaði fyrir Herferð gegn hungri. Þá voru það börnin í Biafra sem við vorum að reyna að bjarga og síðan höfum við séð margar tilraunir hér á Vesturlöndum (Live Aid, Live 8 o.fl.) til að bjarga hungrinu í heiminum, lært margar lexíur, grátið mörgum söltum tárum og horfið svo aftur til leikja og starfa eins og gengur. Sumir hafa gerst þátttakendur í að reyna að hjálpa, sem einstaklingar í hjálparstarfi, og ég hef alltaf verið svolítið hugsandi eftir að hafa í tvígang tekið viðtal við Sigríði Guðmundsdóttur, eina okkar allra öflugust manneskju í hjálparstarfi fyrr og síðar. Fyrst fyrir blað sem gefið var út fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar og síðan fyrir bók sem hét Lífsreynsla, en sú frásögn hét ,,Ekki varð öllum bjargað".
Þar sem ég er nú allt í einu farin að horfa á sjónvarp, þá datt ég inn í kvikmynd (Beyond Borders) sem byrjaði (með svona smá útúrdúr) í hjálparstarfi í Afríku og enn og aftur fékk maður þessa magnleysistilfinningu að ekki yrði öllum bjargað. En það var bara hollt að rifja upp þessa tilfinningu frá unglingsárunum í skugga Biafra stríðsins, fyrst var maður að reyna að safna peningum, svo að gera einhverjar áróðursmyndir (teikningar - man ekki hver stóð fyrir því átaki) og svo fjaraði þetta einhvern veginn út. Aftur vaknaði aftur með hverri aðgerð. Raunsætt séð veit ég ósköp vel að engin töfralausn er til, en það merkir ekki að maður eigi að gleyma þessum málum, af því þau eru erfið eða vonlítil. Sagt er að gleymskan sé það versta, gleymd stríð, gleymt neyðarástand. Held að þessi kvikmynd hafi verið gerð af góðum hug, þótt hún sé svolítið væmin á köflum.
Þegar við vorum að safna fyrir Herferð gegn hungri á sínum tíma sagði ráðskonan á Bessastöðum í gríni: Fransbrauð eða rúgbrauð? Ég varð hálf vandræðaleg yfir því að fara að hlæja, fyrir 13 ára stelpu var þetta auðvitað allt of mikið alvörumál til að grínast svona með það. Fyrsta kast af vondu samvisku Vesturlandanna og greinilega ekki vaxin upp úr því enn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þið verið endilega að sjá myndina blood diamond. Hún sýnir ástandið hvernig það var (vonandi ekki lengur er) á vinnslu demanta í afríku.
Alveg svakalega góð mynd að mínu áliti og pabbi hefði líka örugglega gaman að henni þar sem þetta er spennumynd...
Jóhanna 4.3.2007 kl. 09:04