Stolt, Vinstri græn og netverji
2.3.2007 | 20:10
Ég ætlaði ekki að blanda mér í umræðuna um Steingrím J. og ummæli hans um klám á netinu og netlögguna. Hann er fullfær um að skýra sitt mál og hefur gert það með sóma. Tek fram að ég er feministi og anarkisti sem uni mér vel innan VG og ekki hrifin af lögregluríki, enda hefur VG aldrei varið lögregluríki, innan flokksins eru þar að auki fullt af fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á þeim vísi af lögregluríki sem hefur nýlega verið afhjúpaður af góðum sagnfræðingum.
En mér hefur alltaf fundist of mikil viðkvæmni í okkur netverjum gagnvart leit fólks að úrræðum gegn glæpum sem framdir eru með aðstoð netsins. Það er ábyggilega flestra skilningur að það sé ógeðslegur glæpur að nota netið til að lokka börn á fund barnaníðinga eða dreifa og stundum auðgast á því að misnota aðra, í sumum tilvikum að misþyrma börnum grimmilega og jafnvel drepa. Þótt netið sé ekki eini miðillinn sem notaður er til slíkra glæpa, þá firrir það okkur, sem unna því, ekki ábyrð á því að grípa í taumana.
Það eru einmitt frábær dæmi til um að fólk geri slíkt. Kannski eru allir búnir að gleyma sláandi dæmi fyrir allmörgum árum, meðan IRK-ið var upp á sitt besta þegar ungt par á Akureyri kom upp um barnaníðing, einmitt með IRK-ið að vopni. Ég var svo lánsöm að fá tækifæri til að taka viðtal við þau (auðvitað á IRK-inu) og flytja frásögn þeirra sem kveðju frá þeim á ráðstefnuröð gegn kynferðisofbeldi sem haldin var í Háskólabíó. Netið er nefnilega eitt besta tækið sem við höfum til að hafa upp á slíkum glæpamönnum og best er að það sé gert á forsendum okkar, sem viljum ekki skerða frelsið á netinu. Mér finnst þetta einstaklingsframtak að mörgu leyti einn merkilegra en glæsilegt frumkvæði fjölmiðla um daginn, einmitt vegna þess að það spratt upp úr grasrótinni, frá fólki sem var í fremstu röð í umræðu á netinu en jafnfram var nóg boðið.
Það eru önnur öfl, miklu hættulegri en andstæðingar kláms og barnaníðinga, sem ógna netinu. Við höfum nú þegar mjög hættulega aðila sem vilja svo gjarnan stöðva frjálsa umræðu um samfélagið og stjórnmál. Það eru nú þegar stundaðar njósnir um saklausa borgara á vegum fjársterkra, öfgafullra aðila beggja vegna hafsins hvort sem við erum að tala um CIA og enn leynilegri stofnanir eða Kína og önnur ritskoðunarstjórnvöld (og hér með, með því að nefna CIA, er ég komin í sjálfvirkan fæl yfir hættulegt fólk hjá CIA).
Ef við verjum glæpamenn á netinu þá eykur það möguleika öfgafullra aðila til að verja gerðir sínar, rétt eins og atburðirnir 11. september voru vatn á myllu öfgafullra eftirlitsaðila í Bandaríkjunum. Ekki sætta okkur við að netið sé griðastaður fyrir glæpi, ekki myndum við lána barnaníðinginn kjallarana okkar til að fremja sína glæpi. Netið er raunar alveg frábær vettvangur fyrir alla sem eru á móti ógeði að gefa skýr skilaboð.
Varð bara að koma þessu frá mér, sakna þess að hafa ekki getað lesið of mikið af efni um þetta mál, enda hefur sumt af því sem ég hef séð valdið mér nokkrum vonbrigðum. Það er ekkert vandamál, jafn ánægð yfir frelsi þeirra til að tjá þær skoðanir sem ég er ósammála og frelsi mínu til að segja nákvæmlega þetta sem ég hér með hef komið frá mér
Arlo Guthrie sagði eitt sinn í yndislegum söng sínum frá seinasta manni í heimi sem hringdi símtal og sagðist ætla að hleypa öllu í bál og brand, og viti menn, hann var ekki lengur síðasti maður í heimi, CIA var mætt! Höfum áhyggjur af réttum aðilum, andstæðingar kláms og ofbeldis eru besta fólk, trúið mér!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2007 kl. 15:08 | Facebook
Athugasemdir
"Ég ætlaði ekki að blanda mér í umræðuna um Steingrím J. og ummæli hans um klám á netinu og netlögguna. Hann er fullfær um að skýra sitt mál"
Rétt hjá þér! Láttu Steingrím einan um að útskýra leið hins himneska friðar í netmálum. Sé þig svo í nefndinni sem leggur skrílnum reglurnar um hvað má og má ekki gera hérna á hinu frjálsa neti.
tseng tsao 2.3.2007 kl. 22:49
Þú ert ekki alveg að skilja, það verður engin nefnd skipuð, við sjáum um þetta sjálf á netinu og verðum hugmyndarík, ábyrg og umfram allt gætin að gera ekki á hlut saklauss fólks, hvorki fórnarlamba ofbeldis á netinu né annarra.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.3.2007 kl. 23:02