Atvinnulausir og/eða athyglissjúkir bloggarar?
28.2.2007 | 17:32
Missti ég af fjörlegri umræðu hér á blogginu meðan ég var í fríi eða er ég eina manneskjan sem les blöð á pappír? Ég rak nefnilega augun í svo bráðskemmtilega skilgreiningu Víkverja (eða Staksteina, skiptir ekki máli) á bloggurum í Mogganum fyrir líklega rúmri viku. Þar sem systir mín var svo sæt að koma með Moggann til okkar á Kanarí þá var hvert snifsi í blaðinu lesið upp til agna og þar kom að röðin var komin að Víkverja sem skildi bara alls ekki í því hvernig bloggarar hefðu tíma til að tjá sig um allt mögulegt og ómögulegt. Varpaði fram spurninginni hvort þeir væru ekki upp til hópa annað hvort atvinnulausir eða athyglissjúkir, ef ekki hvort tveggja.
Nú skal játast að ég sinnti internetinu ekkert óskaplega mikið í fríinu og vera má að þessi umræða hafi farið ljósum logum um Moggabloggið, en ef ekki þá langar mig endilega að heyra álit fleiri á þessari skilgreiningu á manni ársins (bloggaranum). Hafi athyglissýki rekið Víkverja til þessara skrifa, þá finnst mér líka fróðlegt að vita hvort hann hefur haft erindi sem erfiði. Ég hefði nefnilega haldið að þetta væri pottþétt aðferð til að fá svolítið krassandi umræðu og gruna Víkverja um að hafa einmitt langað til koma einhverju slíku af stað ;-) því augljóslega les hann bloggið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Aha, nafna mín komin með játningu. Það dugar nú ekki bara að vera athylgissjúkur ef enginn nennir að lesa, og ég veit ekki betur en fullt af fólki lesi pistla vélstýrunnar sér til mikillar ánægju. Best að gera þá grein fyrir sjálfri sér, ég er heldur ekki atvinnulaus og hef gaman af jákvæðri athylgi í hófi, finnst neikvæð athygli frekar leiðinleg, þannig að það er erfitt skilgreiningaratriði. Hins vegar finnst mér rosalega gaman að taka þátt í þessari menningu sem bloggið óneitanlega er, mér er slétt sama hvort þetta er há eða lág menning, þarna er umræðan og fjörið ;-)
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.2.2007 kl. 18:40
Missti alveg af þessari umræðu í pappírsmogganum, ég er ekki atvinnulaus og hef mikla samvisku af því að vera að blogga eða lesa blogg þegar ég ætti að gera allt þetta merkilega sem vinnan krefst af mér.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.2.2007 kl. 19:58
Mér finnst alltaf svo skemmtileg athugasemdin hjá margra barna mömmunni sem var spurð hvernig hún gæti deilt ást sinni milli svona margra barna. ,,Deilt?" spurði hún. ,,Ég margfalda." Verðum við ekki bara að gera það með tímann líka?
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.2.2007 kl. 20:15
Ég hef pottþétt gaman af athygli ... í hófi. En ég var ekki byrjuð á þessu fyrir viku
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.2.2007 kl. 21:01
Mér finnst hins vegar merkilegast að einhver skuli vera að láta það fara í taugarnar á sér, eða þykjast láta það fara í taugarnar á sér að fjörugur spjallhópur fari að skiptast á skoðunum opinberlega, taka undir sumar skoðanir, skammast út af öllum, en umfram allt prófa nýtt samskiptaform, sem kannski fór aðeins af stað með IRK-inu en er í miklu skemmtilegri fasa hér á blogginu, þar sem alls konar samfélagsumræða á sér stað.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.2.2007 kl. 21:10
Ég er ekki atvinnulaus og held að ég sé ekki athyglissjúkur. Ég er hins vegar fréttasjúkur og áhugasamur um alla mögulega hluti og þessa alla mögulegu hluti sé ég hér og hér fæ ég nokkuð góða þjóðfélagsumræðu beint í æð. Mun víðari heldur en ég hef möguleika á í dreifbýlinu. Já, og svo er ég í fæðingarorlofi og nýti "dauða" tíma inn á milli heimilsstarfa og uppeldis til að tjá mig, þá losnar konan við að heyra tjáningar mínar um þjóðfélag og fréttir. Maður hittir nefnilega færri þegar maður er heima í fæðingarorlofi.
Ragnar Bjarnason, 28.2.2007 kl. 21:17
Þetta minnir mig á finnabrandarann: "Er vi kommet for at drikke eller prattta?"
Ég sé ekki að það sé tímafrekara að blogga en að kjafta við kaffivélina.
Blaðamenn þurfa samkeppni. Með fullri virðingu fyrir þeim þá treysti ég nútíma blaðamönnum ekki til að sjá einir um að vera fjórði fótur lýðræðisins, ólíkt keðjureykjandi ölkunum, forverum þeirra :)
Kári Harðarson, 28.2.2007 kl. 22:01
ég er alls ekki atvinnulaus er í 110% starfi og skóla í viðbót við það, ég bara margfalda tímann því mér finnst bloggsamfélagið hérna bráðskemmtilegt, fullt af skoðunum og mismunandi viðhorf til ýmissa hluta. Mér er nokk sama hvort einhverjum finnist þetta lágmenning eða eitthvað annað, meðan ég hef gaman að þessu, verð ég hér og hana nú
Jóhanna Fríða Dalkvist, 28.2.2007 kl. 22:09
Halló krakkar! Athugasemd moggaskríbents snýst ekki um ykkur eða bloggara upp til hópa. Hún fjallar um hann sjálfan án þess að hann (ég veit ekki af hverju ég held endilega að "hann" sé "hann") átti sig á því. Það er auðvitað alls konar bull á netinu. En það er alls konar bull líka sem flýgur um loftin á kaffihúsum, öldurhúsum, strætóskýlum..... Hvers vegna ekki að gera um það athugasemd? Netheimar eru eins og hvert annað torg eða almenningur. Skríbentinn heldur að blogg og net sé einhver formlegur fjölmiðill. Athugasemd hans er álíka fíflaleg eins og að skrifa grein um hvað umræður í saumaklúbbum geta verið innihaldslausar um stjörnuspeki og piparkökur.
Fjölmiðlafólk þarf að kljást við þá staðreynd að netið leiðir í ljós aðr að það er fjöldi fólks er ekki aðeins ágætlega ritfært heldur líka klárt í kollinum. Þar með fullkomlega boðlegur vinnukratur á hvaða fjölmiðli sem er. Þetta er pínan og kvölin. Þeir sem vinna á fjölmiðli þurfa að sýna fram á að þeir hafi eitthvað meira en vera ritfærir/málfærir og klárir í kollinum.... Við erum það býsna mörg. En þarft þú ekki að gera eitthvað meira en það? Til dæmis að "lesa fyrir morgundaginn"?
Pétur Tyrfingsson, 1.3.2007 kl. 00:23
Þetta eru asnar, Guðjón.
Karl Gauti Hjaltason, 1.3.2007 kl. 00:39
Auðvitað tekur maður tíma frá öðru sem maður "ætti" að gera, en mér þykir bara svo mikið skemmtilegra að blogga en að ryksuga, þvo upp, skúra og bóna að ég læt það eftir mér.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.3.2007 kl. 09:51
Púkinn veltir fyrir sér hvort Víkverjinn sé ekki bara svolítið öfundsjúkur.
Púkinn, 1.3.2007 kl. 12:30
Alla vega er hann ekki alveg að skilja þetta ...
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.3.2007 kl. 14:21
Ég er búin að blogga í milljón ár - reyndar undir dulnefni og ekki á Moggablogginu - en ég hef komist að þeirri niðurstöðu að fólk sem fettir fingur út í skoðanaskipti á netinu er fólkið sem engar skoðanir hefur sjálft.
Elín Arna Ellertsdóttir, 1.3.2007 kl. 14:47