Framboð sem fæðast af brýnni þörf - Regnboginn og Kvennalistinn

Tvisvar hef ég átt þátt í að skapa framboð sem varð til af einskærri eftirspurn. Fyrst þegar Kvennalistinn kom fram, en hreyfingin var stofnuð 13. mars 1983, eftir nokkurn aðdraganda, meðal annars kvennaframboð í sveitarstjórnum ári fyrr. Kosningar voru haldnar 23. apríl. Það sem knúði á um að Samtök um kvennalista væru stofnuð, þrátt fyrir að ýmsar kvennaframboðskonur væru því andvígar, var hrikalegt áhrifaleysi kvenna í landsstjórninni og þar með fullkomið skeytingaleysi um þau málefni sem við vildum beita okkur fyrir. Þá sátu 3 konur á þingi, 5% þingmanna. Eftir kosningarnar 1983 og framboð Kvennalistans urðu þær 9 eða 15%, þrjár af lista Kvennalistans, sem aðeins náði að bjóða fram í þremur kjördæmum af átta þá, og konum annarra flokka fjölgaði einnig um þrjár, þrýstingur frá framboði Kvennalistans átti sjálfsagt þátt í því. 

Ekki bjóst ég við að eiga aftur eftir að taka þátt í framboði sem yrði til af brýnni þörf. Og enn á ný með nokkrum aðdraganda. Allt þetta kjörtímabil hefur óánægja ESB-andstæðinga, ekki síst þeirra sem teljast róttækir í stjórnmálum, farið vaxandi eftir því sem Ísland hefur sogast æ meira inn í stórveldið sem ESB óneitanlega er. Mörg okkar, sem reyndum án þess að vitundarögn væri á okkur hlustaði, að hafa áhrif á forystu VG, hrökkluðumst burtu, ekki öll í sömu átt, en býsna mörg. Það er ómögulegt að gera sér fulla grein fyrir því hversu langur aðdragandinn hefur verið. En ef ég lít í kringum mig á það fólk sem ég á nú samleið með í Regnboganum, þá sé ég að þar er fólk sem ég hef verið að vinna með í mörg ár og samherjar þess og mínir úr ýmsum áttum. Þetta er hreyfing sem á rætur sem liggja víða. Fólk með sömu hugsjónir og ég í mikilvægum málum, ekki síst andstöðunni við valdablokkir, hvort sem þær eru innan flokka, samfélaga eða stórríkja. Verst er þetta þó innan stórríkja, þar sem áhrif stórgróðafyrirtækja eru yfirþyrmandi og máttleysi hins almenna borgara algert þegar á hólminn er kominn. Samskiptin eru falin í Kafka-ísku skrifræði þar sem enginn skilur hvernig það má vera að mál eru allt í einu komin einhvern veginn svo hræðilega illa. 

Það er eins og stundum sé ekki hægt að sleppa því að gera eitthvað. Við sem viljum binda enda á aðildarferlið sem sogar okkur sífellt meir inn í ESB, áttum fárra kosta völ fyrir næstu kosningar, annarra en að reyna að skapa veröldina sem við viljum sjálf. Ekki gátum við kosið stórvaldaflokkana sem hröktu okkur út í hrunið, þótt þeir hafi á tímabili virst vera harðir (en alls ekki óskiptir) í ESB-andstöðu sinni. Nú þegar þeir fara undan í flæmingi í þeirri umræðu allri, þá kemur hagsmunapotseðli þeirra einfaldlega æ skýrar í ljós. Vissulega voru aðrir kostir íhugaðir, en fyrir okkur Jón og Gunnu sem vildum alls ekki stofna enn einn flokkinn, leggjast í ítarlega flokkslagagerð og flókna málefnaumræðu um eitthvað sem kannski gæti hugsanlega varðað okkur einhvern tíma, þá var rétta leiðin eilítið anarískari. Efnt var til framboðs, þar sem byggt væri á mikilvægum grunngildum, en fjölbreytnin fengi að blómstra. Þannig varð Regnboginn til. 

Andstaðan við ESB-stórveldið og tröllatrú að mannkynið verði að stefna ötullega að sjálfbærri þróun, þó ekki væri nema til að jörðin, sem við byggjum í samfélagi við alls konar annað líf og náttúru, fái skárra atlæti en skít og skömm. 

Stórveldi sem ná yfir viðfeðm landsvæði hafa orðið til gegnum söguna en þau deyja líka eða liðast í sundur. Sú var eflaust tíðin að menn héldu að Rómaveldi yrði eilíft. Og árum saman hvarflaði ekki að nokkrum að Sovétblokkin myndi liðast í sundur. Því meira stjórnræði, þeim mun meiri líkur á að stórveldi kollvarpist, og um þessar mundir virðist ESB á leið til stóraukins stjórræðis. Hagsmunir stórfyrirtækja og verndun jarðarinnar sem okkur hefur verið trúað fyrir fara yfirleitt ekki saman. Við Íslendingar ættum að velja leið lítilla og farsælla lausna sem hæfa ekki bara okkar umhverfi heldur umhverfi út um allan heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband