ESB-aðildarviðræðurnar: Viljum við ekki frekar fá að vita það sem máli skiptir?

Það ferli sem Ísland sogaðist inn í með aðildarumsókn að ESB er rammasta alvara. Það veit þorri þjóðarinnar og það er engin tilviljun að andstaðan við aðild Íslands að ESB var orðin mjög mikil áður en ljóst varð í hvaða óefni var komið á Evru-svæðinu.

Hvað er það sem við viljum raunverulega fá að vita?

Viljum við ekki fá að heyra það sagt af fullum heiðarleika hvað aðildarferlið kostar okkur raunverulega? Hvað það kostar að borga öllu því ráðuneytisfólki og starfsfólki stofnana, opinberra sem annarra, kaup fyrir að breyta regluverki samfélagsins svo það uppfylli kröfur ESB? Væri þessum tíma og þessu fé ekki betur varið í annað? Og þá eru ekki talið það vinnutap og kostnaður sem hlýst að utanferðum. 

Viljum við ekki fá að vita hversu miklar breytingar er verið að gera á stjórnsýslu Íslands áður en við ,,fáum að vita hvað er í pakkanum"? 

Viljum við ekki fá að vita hvort þessar breytingar eru gerðar með hagsmuni almennings í huga eða til að hlýða tilskipunum og dómum sem fallið hafa í ESB?

Viljum við ekki fá að vita hvort þær breytingar sem verið er að gera eru afturkræfar ef þær reynast nú ólánlegar?

Viljum við ekki fá að vita hvaða afleiðingar sumar þær reglugerðir sem við erum að undirgangast nú þegar munu hafa á atvinnulíf og lífið í landinu?

Viljum við ekki fá að vita hversu miklu stendur til að breyta áður en óvinsælu og umdeildu kaflarnir, um landbúnaðarmál og sjávarútveg verða opnaðir?

Ef við viljum vita það sem raunverulega skiptir máli þá þýðir ekki að bíða endalaust. Við viljum vita sannleikann núna og ekki halda áfram ESB-aðildarviðræðum sem geta tekið óratíma og engu skilað, nema einhverjum pakka sem við annað hvort verðum að taka við, hvað sem í honum er, eða henda á haugana. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband