Allt getur gerst

Reyni alltaf að hlusta á Vikulokin á Rás 1 á laugardögum. Oft skemmtilegir þættir en einn sá allra besti sem ég hef heyrt í langan tíma var núna áðan. Hægt að hlusta á hann hér. Guðný Halldórsdóttir, Þórlaug Ágústsdóttir og Reynir hjá Framtíðarlandininu (er hann ekki Harðarson?) fóru hreinlega á kostum enda var þátturinn undir mjög faglegri stjórn eins og oftar frá fréttastofu RUV. Niðurstaðan eftir þáttinn: Allt getur gerst! og einhvern veginn finnst mér að nú séu í vændum viðlíka tíðindi í umhverfismálum og urðu í kvenfrelsismálum þegar Kvennalistinn kom fram. Bein áhrif Kvennó voru vissulega umtalsverð en óbein áhrif á aðra flokka jafnvel enn meiri, að minnsta kosti hvað varðaði möguleika kvenna í þeim til að komast í ,,örugg sæti". Það sem Kvennalistinn gerði í kjölfarið var að breyta umræðunni, en það ferli hefur þegar byrjað í umhverfismálum. Þátttakendur í Vikulokunum skilgreindu sig þannig að öll voru græn en tvö til hægri og ein til vinstri. Og öll komu þau skýrum skilaboðum á framfæri: Stjórnvöldi eru ekki að standa sig, ekki í umhverfismálum, ekki í Byrgismálinu, ekki í atvinnumálum, ekki ... og sú tíð er liðin að það verði látið óátalið! Bloggið á stóran þátt í gróskunni í samfélagsumræðu, eða eins og eitt þeirra sagði: Hvað átti maður að gera hér áður? Láta prenta bækling og standa á götuhorni til að koma skoðunum sínum á framfæri? Hvet ykkur til að hlusta á þáttinn, oft hefur tekist vel til við val á viðmælendum en sjaldan eins vel og í þetta sinn. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Veistu að ég  ætla að hlusta á þáttinn núna!! Ég hef bundið svo miklar vonir við að það væru miklar breytingar í gerjun og ef þarna er eitthvað spennandi að gerast vil ég vita af því. Svo ég geti hætt að röfla.

Takk.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 10.2.2007 kl. 15:23

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Gott, vona að þú hafir jafn gaman af honum og ég, og ég er líka sannfærð um að það er mikil gerjun í gangi.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 10.2.2007 kl. 17:03

3 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæl, - náði bara að hlusta á upphafið á honum en ætla að reyna að klára að hlusta. Er líka að fara horfa á Inconvenient truth by Al Gore. 

Skil þetta með umhverfismálin, en er ekki alveg að ná þessu með atvinnumálin.  Eigum við að gera betur en 1,2% atvinnuleysi?  Eigum við að gera betur en að þurfa flytja inn þúsundir erlendra starfsmanna inn í landið vegna skorts á starfsmönnum?  En hlýt að skilja þetta betur þegar ég er búin að hlusta.

Varstu í Kvennalistanum? Bkv. Eygló 

Eygló Þóra Harðardóttir, 10.2.2007 kl. 17:34

4 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Það er álitamál hvort vel  tekst til í spjallþætti,þegar þátttakendur eru sammála um allt! Þetta var  of einlit hjörð. Athyglisvert  var að  heyra að  álverið í Straumsvík væri komið inn í miðjan bæ! Þegar álverið var reist var það nokkuð langt frá byggðinni í Hafnarfirði. Byggðin hefur  síðan mjakast að álverinu. Þar er  við  bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að  sakast, en ekki virðist  fólk hrætt við að  reisa  sér  hús  nálægt veggjum verksmiðjunnar.

Eiður Svanberg Guðnason, 10.2.2007 kl. 18:26

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Varðandi atvinnumálin þá finnst mér lýst eftir meiri fljöbreytni og minni stjóriðjustefnu. Atvinnuleysi hefur sjaldan verið mikið á Íslandi síðan á kreppuárunum. Einstakar stéttir (iðnaðarmenn) hafa búið við tímabundið atvinnuleysi og í lok síldarævintýrisins um 1970 og aftur með auknu framsali kvóta komu upp skammvinn atvinnuleysisvandamál, að hluta til staðbundin. Ég er alveg sannfærð um að fjölbreyttari atvinnustefna mun skila okkur miklu betra jafnvægi í atvinnulífinu og eins og bent var á í þættinum þá eru ákveðnar gildrur í því að setja öll eggin í sömu alkörfuna, rétt eins og áður í sömu fiskikörfuna. Gefur stórum fyrirtækjum allt of mikið kverkatak á samfélaginu. Í hugbúnaðargeiranum, þar sem ég starfa, er verið að grátbiðja um aðeins brotabrot af þeim stuðningi sem álversframkvæmdir fá, en fram til þessa hefur ekki annað gerst en að hugbúnaðarfyrirtæki fara úr landi eða reyna að þrauka hér, og halda sig á landinu af þrjóskunni einni saman, í sumum tilvikum.

Vissulega voru allir sammála í þættinum en það er ekki vegna þess að þetta sé fólk sem kemur allt úr sömu áttinni. Þvert á móti, bakgrunnur fólksins og lífsviðhorf eru mismunandi en niðurstaðan í sumum málum alla vega sú sama. Það er áhugavert.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 10.2.2007 kl. 19:50

6 Smámynd: SM

góður þáttur

SM, 11.2.2007 kl. 11:50

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband