Biblían, tölvunarfræðin og kannski bráðum lagasafnið líka
9.2.2007 | 17:27
Gaman að heyra af því að gera á þessar breytingar á biblíuþýðingunni, hætta að ávarpa kristið fólk í karlkyni eingöngu. Það hafa verið gerðar ýmsar skemmtilegar tilraunir til að breyta karlmiðuðu tungutaki á undanförnum árum. Ég hef lúmskt gaman af þeim tilraunum sem ganga lengst í þeim efnum, einkum vegna þeirra hörðu viðbragða sem þær vekja. Þegar Auður Eir fór að segja: Hún guð! þá urðu margir óskaplega hneykslaðir. Ég hlakka til að sjá í hvaða kyni guð verður í næstu biblíuútgáfu, verður gengið svo langt að hafa guð í hvorugkyni?
Annars hef ég orðið vör við tilraunir til að leiðrétta hefðbundnar ímyndir í tungumáli á óvæntustu stöðum. Tölvunarfræðin er mikið karlafag enn sem komið er en ótrúlega margir höfundar bóka á því sviði hafa valið að kvenkenna alla sem vísað er til í bókum sínum og ekki eru manneskjur af holdi og blóði: Verkfræðingar, forritarar, verkefnisstjórar og fleiri eru allir ,,she" en ekki ,,he" eins og maður er vanastur. (Maður er vanastur ... ég veit að Rauðsokkur sögðu Konan er maður, en samt :-). Frá hinni yndislegu bók: The joy of Linux til Contextual Design með viðkomu í ótal bókum og tímaritsgreinum. Þarna er ráðist gegn þeirri viðteknu hugsun að ,,normið" sé karlmaður og frávikið kona. Oddur Benediktsson prófessor í tölvunarfræði gekk reyndar svo langt að reyna að hafa sama háttinn á þegar hann var að kenna kúrs í Gæðastjórnun í hugbúnaðargerð í meistaranámi háskólans, en eftir áratuga uppeldi við annað tungutak er þetta ekkert auðvelt. Búin að lofa sjálfri mér að grufla aðeins meira í þessu þegar ég er búin að berjast í gegnum seinustu stærðfræðina sem bíður mín.
En hvenær ætli lögin endurspegli þá staðreynd að bæði konur og karlar eru hluti samfélagsins? Man eftir rimmu í lagasetningu um kynferðisofbeldi þar sem ekki var hægt að hagga þeirri orðnotkun að nauðgun fælist í að maður beitti annan mann ofbeldi. Við sem vildum breyta þessu og nota til dæmis orðið manneskja í staðinn fengum liðsstyrk úr óvæntri átt, Eykon (Eyjólfur Konráð Jónsson heitinn, Sjálfstæðisþingmaður) sagði þá að honum þætti miklu manneskjulegra að nota okkar orðalag. En auðvitað var ekki eytt miklum tíma í þennan hluta umræðunnar, því hversu mjög sem hún skipti máli, þá voru þó lagabæturnar sem verið var að gera enn mikilsverðari.
Þótt ég kunni enga algilda lausn í þessum efnum þá held ég að samhengið verði að ráða mestu. Í lagatextanum skaut þetta skökku við, kona og karl hefði verið nákvæmara og manneskja ásættanlegt. En ég er ekki búin að venja mig af því að segja: maður segir ... og langar ekki að dauðhreinsa málið. Þannig að ég held ég skilji hvað við er átt með orðalaginu ,,þar sem því verður við komið" í fréttinni um biblíuna. Alla vega vona ég það.
Biblía 21. aldarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Facebook