Hlakka til að kjósa til Stjórnalagaþings - en hvað svo?
30.10.2010 | 16:57
Verð að viðurkenna að ég hlakka alveg sérlega mikið til að kjósa til Stjórnlagaþings. Búin að finna býsna margt fólk sem ég vil ólm kjósa og vissulega einnig örfáa sem ég vona heitt og innilega að nái ekki kjöri. En þetta er lýðræði og við erum ekki komin lengra en á það stig og nýtum það því vonandi vel. Síðan mun þetta fólk koma saman í alla vega tvo mánuði og ég er mjög spennt að heyra niðurstöðuna og ekki síður að sjá hvernig farið verður með þessa niðurstöðu. Hef setið í einni af fjölmörgum stjórnarskrárnefndum lýðveldisins og það gekk hvorki né rak þar. Ekki þar með sagt að allt sé ómögulegt í núverandi stjórnarskrá, en ég á mér þá ósk heitasta að það verði til stórkostleg stjórnarskrá fyrir sjálfstætt og framsækið (og þá á ég ekki við í sömu merkingu og útrásarpakkið notaði það orð) Ísland, þar sem mannréttindi, mannsæmandi lífskjör og sjálfsákvörðunarréttur fólks verður tryggður. Nú, eins og ávallt, er veður til að skapa.
Ef minn óskalisti nær kjöri kvíði ég engu og ég er viss um að margir fleiri hæfir fulltrúar, sem aðrir þekkja deili á og skoðunum þeirra, eru í framboði. Tvennt veldur áhyggjum, það er frítt að hafa áhyggjur segir góður maður sem ég þekki og rétt meðan það verður ekki sálfræðinga- eða lyfjadæmi. Ég hef áhyggjur af því að leyft er að auglýsa fyrir allt að 2 milljónir, því fólkið sem ég þekki réttsýnast hefur flest hvert ekki slíka peninga á milli handanna. Ég hef líka áhyggjur af því að þetta endi sem sýndarspil, ekki vegna þess að ég treysti ekki VG heldur koma fleiri flokkar að afgreiðslu þessara mála og þeim er mis-umhugað um réttsýnar breytingar. Varðandi fyrra atriðið þekki ég reyndar fullt af fólki sem ætlar EKKI að kjósa neinn þann fulltrúa sem eyðir peningum í auglýsingar, prinsippatriði. Íhugunarvert!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook