Stjórnlagaþing, pólitík, Sprengisandur, Smugan og Svipan

Þjóðmálaumræðan er of spennandi til að hægt sé að slíta sig frá henni. Oft hef ég verið komin á fremsta hlunn með að skrifa status á Facebook, nafn á bloggi eða færsluna: Hætt í pólitík og farin að spila golf! En það er hægt að gera hvort tveggja og auk þess er golfkunnáttan rýr. Hins vegar þarf oft að forgangsraða ansi hressilega til þess að geta sinnt öllu, vinnunni (9:30-17:30), heilsunni (golfinu og skvassinu) og fjölskyldunni sinni (sem ekki er hægt að afgreiðan innan sviga).

Ef ofan á þetta bætist pólitískur áhugi, sem útilokað er annað en sækja sér stuttar og hnitmiðaðar upplýsingar og velja þær vel. Eins og ég er nú hrifin af RUV þá er engu að síður þáttur á annarri stöð sem ber af því sem þar er að finna, það er Sprengisandur á sunnudagsmorgnum. Þegar líður á sunnudagsmorgun og ég farin að rumska fálma ég eftir tökkum á útvarpi og renni yfir á þann þátt. Vissulega verð ég stundum öskureið þegar ég heyri fólk vera með gáfulegt bull, því það heyrist þar sem annars staðar, en Sigurjóni er það lagið að fá til sín einkar spennandi fólk í umræðuna.

Smugan er vefmiðill sem ég nýti mér oft og finnst sérlega gott að lesa suma af föstu pennunum þar, ritstýruna Þóru Kristínu, Einar Ólafs, þann góða mann og Ármann Jakobsson, sem virðist sjá fleti á málum sem öðrum tekst ekki og er ég þá eflaust að gleyma einhverju uppáhaldinu mínu.

Þá er það Svipan. Eftir að hafa leitað að almennilegri umfjöllun um þá sem bjóða sig fram til stjórnlagaþings sá ég að Svipufólk er að gera fantagóða hluti í umfjöllun sinni um þingið og frambjóðendurna, betra en aðrir sem ég hef fundið. Í kommentakerfinu er þegar búið að afhjúpa tengsl sem ekki voru gefin upp. Yljaði gamla anarkistahjartanu mínu því ég hef trú á ,,fólkinu" og opinni umræðu. Margt gott á þessum vefmiðli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband