Færsluflokkur: Mannréttindi

Allt er vænt sem vel er Vinstri grænt

Trú mínum pistli frá í gær ætla ég að kjósa það stjórnmálaafl sem mér er kærast af þeim sem nú eru í boði, Vinstri græn. Við höfum oftast átt samleið og gildi hreyfingarinnar eru mín gildi, ekki síst kvenfrelsi, jafnrétti, félagslegt réttlæti og efling byggðar um allt land. 

Kosningarétturinn er ótrúlega mikilvægur og ég vona að sem flestir láti eigin sannfæringu ráða hvaða stjórnmálastefnu þeir kjósa að styðja, ekki eitthver önnur atriði. Hef heyrt mikið um að svokallaðar taktískar kosningar eigi það til að koma í bakið á fólki og það er varla neitt voðalega gaman. Meiri samúð hef ég með fólki sem upplifir að engu stjórnmálaafli sé treystandi og ,,þessir stjórnmálamenn" séu allir eins. Því get ég alla vega lofað að svo er ekki og verður áreiðanlega aldrei. Það að allir vilji sækja í að komast til valda er vinsæl skoðun, ef einhver er staðinn að því að vera ekki tilbúinn að gera hvað sem er til að komast í valdastóla er viðkomandi afgreiddur sem óstjórntækur eða áhættufælinn. Það upplifðum við í Kvennalistanum þegar ætlast var til að þau samtök kæmu í einhvers konar stjórnarsamstarf, en þegar ákveðnar réttlætiskröfur voru settar fram af hálfu okkar, þá vorum við ,,ósveigjanlegar".

Lengst af valdatíma stjórnar VG, Sjálfstæðismanna og Framsóknar voru hægri sinnuðustu stjórnarþingmennirnir kvartandi yfir því að VG væri að valta yfir Sjálfstæðismenn og réðu öllu. Innan VG þótti mörgum hins vegar að áhrif okkar væru ekki nógu mikil. Áhrifin sem  stjórnmálasamtök hafa eru ekki alltaf augljós. Margt af því sem VG hefur gert gott hefur lítið verið til umræðu, en skiptir máli. Mikilvæg skref hafa verið stigin í kvenfrelsismálum, því hef ég vel fylgst með en á öðrum jafnréttissviðum eru aðrir hæfari til að dæma. Mig langar að vitna í þungavigtarmanneskju á sviði jafnréttismála fatlaðra. Þuríður Harpa Sigurðardóttir hefur verið ein ötulasta talskona öryrkja seinni árin. Það kom samt mörgum að óvörum þegar hún tók sæti á lista VG núna fyrir kosningarnar. Hún segir í grein á Vísi: ,,Vinstri græn settu fram áherslur í ríkisstjórnarsamstarfinu um virðingu fyrir mannréttindum fatlaðs fólks þar sem markmiðið var að bæta lífskjör og lífsgæði þessa hóps og unnu markvisst að því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði innleiddur og lögfestur. ... Mikil ábyrgð fylgir því að taka ákvarðanir um líf, heilsu og framfærslu einstaklinga. Tækifæri þeirra til samfélagsþátttöku og sjálfsagðra réttinda. Ég upplifði að bæði fyrrverandi forsætisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra vönduðu sig, og í snúnu samstarfi með öðrum stjórnarflokkum náðu þau að sigla þessu stóra máli í höfn." 

Eftir á að hyggja held ég að Sjálfstæðismennirnir sem höfðu áhyggjur af því að Vinstri græn hefðu mjög mikil áhrif innan ríkisstjórnarinnar hafi haft töluvert til síns máls. Fyrir mér er það hins vegar ekki áhyggjuefni, heldur gleðst ég yfir því.

 


Allt sem gengur á

Velti mikið fyrir mér tímasetningum þessa dagana. Hvers vegna sífellt fleiri hugrakkar konur stíga fram og svipta hulunni af bitrum veruleika kvenfyrirlitningar og kynferðisofbeldis? Heyrði líka utan að mér í útvarpi viðtal við fagmanneskju sem velti því fyrir sér hvort mikil fjölgun mála er vörðuðu ofbeldi og/eða vanrækslu í garð barna væri tilkomin vegna fjölgunar þessara mála eða aukinnar vitundarvakningar um brotin. Aðdragandinn er auðvitað langur, ótal konur ruddu brautina og aðrir fylgdu í kjölfarið. En engum ætti að blandast hugur um að nú er eitthvað að gerast, það er eins og sprenging hafi orðið í umræðunni. Þótt ekki sé hægt annað en verða döpur þegar slíkur sannleikur kemur í ljós, þá er þessi umræða líka öðrum þræði sterk og fyrir suma jafnvel frelsandi. Svo margar sem hafa þagað þurfa ekki lengur að gera það. Því miður fá þær sem nú ryðja nýjum björgum úr brautinni yfir sig illsku líka, en fyrst og fremst stuðning.

Þögn og þöggun er oft vegna þess að einhver, stundum allir, eru sammála því að vera ekki að hrófla við hinu fullkomna samfélagi, hinni fullkomnu fjölskyldu, hinu fullkomna landsliði eða einhverju svipuðu. Sumt af því sem verið er að afhjúpa núna gerðist ekki endilega í gær, ekki í fyrradag, heldur fyrr, stundum miklu fyrr. Það hafa margir upplifað rask í tilverunni á undanförnum misserum. Sorgleg dauðsföll, erfið, langvinn veikindi herja á marga. Það að treysta ekki náttúrunni lengur þegar öfgar koma í ljós er sífellt algengara. Þótt við eigum lítið og krúttlegt eldgos í grennd við helstu þéttbýlisstaði, þá kom það í kjölfar erfiðs jarðskjálftatímabils og eflaust fleiri en ég sem rifjuðu upp orð Seyðfirðings eftir hamfaraskriðurnar rétt fyrir jólin: Ég treysti ekki fjallinu lengur.

Undir þessum kringumstæðum er þöggun og afneitun, sem oft er nærð af utanaðkomandi aðilum, erfiðari en áður. Það er ekki lengur hægt að segja: Svona ,,getur“ ekki gerst. Hann Lilli frændi er góður maður og gæti ekki hafa gert þetta. Hann Xman er svo góð fyrirmynd að þetta hlýtur að vera einhver misskilningur. Það er ekki verið að raska besta heimi allra heima lengur, rjúfa bestu fjölskyldubönd allra fjölskyldubanda. Fáir (en ekki engir) eru svo skyni skroppnir að átta sig ekki á að allt getur gerst og hefur gerst. Sumt er gott, annað mjög vont.

Það sem er að gerast hér á landi má allt eins yfirfæra á umrótið í heiminum, öfgar bæði í stjórnarfari, viðhorfum og viðbrögðum náttúruaflanna við áorðnum og yfirvofandi loftslagsbreytingum. Sú umræða er miklu stærri, afneitunin sums staðar miklu rótgrónari, þögn og þöggun enn meiri en við þekkjum af eigin raun.

Hugmyndasmiðir anarkista fyrri tíma köstuðu fram þeirri hugmynd að þörfin fyrir að eyðileggja væri jafnframt skapandi kraftur (Bakúnín og fylgismenn hans). Ekki treysti ég mér til að giska á hvað þeim fyndist um þær aðstæður sem nú hafa skapast eða afhjúpast. Hvort þeim tækist að halda í þá grimmilegu bjartsýni sem mér finnst felast í þessari hugmyndafræði veit ég einfaldlega ekki.  banksy


Söguvefur Sjálfsbjargar kominn í loftið - fyrsta verkefnið mitt af þessu tagi

Sjálfsbjörg - landssamband fatlaðra - fagnaði 50 ára afmæli sínu í stórkostlegu veðri í dag. Ég hef tekið miklu ástfóstri við Sjálfsbjargarhúsið að undanförnu, allt fólkið það, starfsemina og andrúmsloftið sem er engu líkt. Haft vinnuastöðu í herbergi þar sem hljóðfæri eru geymd og í dag fékk ég loks að heyra í hljómsveitunum sem hafa verið að æfa þar á öðrum tímum en ég er þar að öllu jöfnu.

Aðalviðburðurinn fyrir mig í dag - og vonandi fyrir fleiri - var opnun söguvefs Sjálfsbjargar á www.sjalfsbjorg.is/saga - þetta hefur verið meginverkefni mitt að undanförnu og sérlega skemmtilegt að kynnast þessari merkilegu baráttusögu. Fyrsta útgáfa vefsins er sem sagt tilbúin og ég er þegar farin að fá smá gersemar frá Sjálfsbjargarfélögum sem ég ætla að nota í viðbætur, því þessum vef er ætlað

10_ting_heidrun_m_gitar_858979.jpg

að þróast og dafna og gerir það án efa, hvort sem ég fylgi honum eftir að annar háttur verður hafður á. Helst langar mig auðvitað að halda utan um hann sjálf en aðalatriðið er að binda vefinn

 

ekki á klafa einhvers strangleika, það stríðir alla vega gegn mínum hugmyndum um þróun efnis á vefnum. Þannig að ég veit hreinlega ekki hversu lengi þetta ,,baby" mitt kýs að vera í mínum höndum og hvenær það fer að lifa sjálfstæðu lífi, en mitt er að fylgja því eftir með eins góðu veganesti og ég mögulega get.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband