Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Langsóttur kostur við vonlaust gengi
1.10.2008 | 02:30
Loksins er ég búin að uppgötva einn kost fyrir eina manneskju við gengið, eins og það er þessa stundina. Það er bara engin krafa gerð á okkur, sem erum að bregða okkur úr landi, að mæta heim með allar jólagjafirnar frá útlöndum og fata fjölskylduna upp í leiðinni. Bara allt of dýrt. Ég er alsæl, ekki mjög hrifin af að eyða dýrmætum tíma erlendis í að hanga í búðum sem flestar eru eins um allan heim. Eina undantekningin er bókabúðir, þær eru ekki alls staðar eins og þær eru bara frábærar, flestar hverjar, fer kannski svolítið eftir ríkjandi tungumáli í landinu ;-) þótt ég hafi nú rekist á Kristmann í tékkneskri fornbókabúð og dýrustu bækur í heimi í dönskum meðalbókabúðum.
En sem sagt, slepp við búðarferð, og get einbeitt mér að því að umgangast ættingja og vini, sem er svo miklu skemmtilegra. Gerir ekkert til þótt ég eigi eftir að borga hótelið mitt í Boston með einhverjum fokdýrum dollurum, það er vel þess virði að fá tíma til að kíkja á borgina utan búðanna, stoppa nógu stutt þar samt.
Og nú er að styttast í að bloggfríið mitt styttist í hinn endann. Það hefur verið hálf endasleppt í alla enda. Ætli ég komist ekki í gang aftur fljótlega uppúr helgi.
Hvað getur ósáttur viðskiptavinur gert? Snúið sér annað!
15.5.2008 | 16:16
Lenti í því um daginn að verða ósáttur viðskiptavinur, sem kemur ekki oft fyrir, held ég sé með óþarflega mikið langlundargeð og finnst það stundum kannski of mikið. Ég er þessi sem finnst ég geta sjálfri mér um kennt ef ég kaupi mat á síðasta degi (og ekki á niðursettu verði) og það þarf eflaust nokkur svoleiðis tilvik til að ég hætti að versla í góðri búð.
Hins vegar lenti ég í atviki um daginn sem dugði til að ég ákvað að færa viðskipti mín annað. Kortafyrirtækið mitt, Visa, sem hefur þjónað mér ágætlega í langan tíma, tók upp á því hætta að bjóða upp á gjalddaga um miðjan mánuð, án þess að láta mig vita á fullnægjandi hátt. Það má vel vera að það hafi einhver snepill verið sendur til mín sérstaklega út af þessu, held þó ekki, ég opna allt nema það sem ég get lesið í hraðbankanum og er búin að lesa seinasta Visa-yfirlitið mitt án þess að finna neinn snepil um þetta. Eftir tilkomu heimabanka er sárafátt sem fer framhjá mér og ég fer ekki að grafa í körfunni sem geymir póstinn minn í allt að ár aftur í tímann bara til að sanna eða afsanna eitthvað. Ef ég hef ekki tekið eftir tilkynningu um breytingu á þessu fyrirkomulagi, þá hefur hún ekki verið tilkynnt á fullnægjandi hátt, það er mitt mat.
Og þetta var það sem gerðist: Ég stóð í búð og var að kaupa sæmilega dýran hlut 8. maí síðastliðinn þegar kortinu mínu er neitað. Þar sem ég vissi að ég var í fullum skilum alls staðar þá harðneitaði ég að þetta gæti verið, klukkan komin fram yfir 16 og enginn gat sinnt mér í bankanum mínum. Komst á netið í búðinni og í heimabankann minn og sá að allt var í himnalagi þar. Endaði með því að borga með debetkortinu, sem hafði þó alls ekki verið meiningin, stundum vill maður eiga val.
Morguninn eftir fann ég það út að það var búið að afnema þennan gjalddaga sem hentaði mér, þar sem ég vinn free-lance og fæ mínar launagreiðslur ekki endilega fyrsta hvers mánaðar. Hinn gjalddaginn er í byrjun mánaðar. Enn er boðið upp á gjalddaga í miðjum mánuði hjá öðru kortafyrirtæki þannig að ég sneri viðskiptum mínum þangað.
Svo sá ég frétt um þetta í blaði í dag, smá tilkynningu um afnám þessa gjalddaga sem hentaði mér, hjá Visa. Þar sem við erum bara 3% viðskiptavina þá er hætt með þessa þjónustu. Mér finnst ég alveg nógu merkilegur viðskiptavinur þótt ég tilheyri 3% og tel mig því hafa gert rétt með því að skipta um kortafyrirtæki fyrst svona er litið á málin. Mér sýnist á fréttinni að fleiri hafi lent í að fá þessa breytingu í bakið á sér.
Best að taka það fram að ég ætla að nota gamla kortið mitt í þær ca sex vikur sem ég á eftir fram að endurnýjun, enda hef ég ekki gefið mér tíma til að sækja það nýja enn, sem er búið að liggja tilbúið í bankanum síðan á föstudag.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook
Verður kannski jákvæð barátta um viðskiptavinina? Ef svo verður ætla ég að taka þátt
2.4.2008 | 15:27
Áðan fór ég og fyllti bílinn minn. Sem betur fór tók litla, sæta bensínstöðin mín, Olís í Garðabæ, þátt í verðlækkun dagsins, svo ég þurfti ekki að fara annað. Þau höfðu nóg að gera í dag, en sem betur fór sýndi fólk í verki að þetta er það sem virkar. Það er svo margt sem veldur því að betra er að versla á einum stað en öðrum og notalegt starfsfólk er eitt af því, verð annað, vöruúrval, staðsetning og þjónusta eiga líka sinn þátt.
Það sem mér leiðast stórinnkaup og sérstakar verslunarferðir reyni ég yfirleitt að kaupa inn ,,í leiðinni" þegar ég á erindi framhjá þeim verslunum sem ég fer helst í. Fer oftast í Samkaup í Hafnarfirði, þar er vöruúrval nokkuð gott og verðlag á mörgum vörum þokkalegt. Mikið af tilboðum og þeim fylgist ég með. Fer svo í Bónus og Nettó ef ég er á þeirri leiðinni og kaupi það sem hægt er að geyma og er klárlega ódýrara. En ek ekki auka 5 kílómetra reglubundið til að ,,spara". Samt er ég ekkert sérlega meðvitaður neytandi, því miður. Og ekki nógu umhverfisvæn heldur, en reyni. Kaupi smá lífrænt af og til af því mér finnst það gott, en fokdýrt yfirleitt, umbúðasparnaðurinn felst í að setja bananana sem hanga saman ekki í poka, né heldur appelsínuna einu, sem ég keypti áðan. Plastpokunum á heimilinu hefur frekar fækkað, hvað sem veldur, ekki man ég eftir tauinnkaupapokunum sem af og til eru keyptir. Þeir eru hins vegar fínir til að flokka skjöl í og geyma afmörkuð eftir efnisþáttum.
En þetta var nú útúrdúr. IKEA verðskuldar smá vink hérna. Ekki bara af því stofnandinn er ríkur og sparsamur Svíi, heldur af því þar á bæ hefur fólk dottið niður á alveg brilljant viðskiptahugmynd: Heiðarleika. Að standa við útgefin verð í Ikeabæklingnum. Ég er viss um að þau stórgræða á þessu. Þetta minnti mig alla vega á að tékka aftur á hvort stóllinn sem ég sendi email út af í janúar er loksins kominn (mér var svarað fljótt, vel og kurteislega og sagt að örvænta ekki, það myndi að vísu líða nokkrar vikur þar til hann kæmi aftur, en þessi vara yrði fáanleg áfram). Annars hefði ég kannski gleymt því.
Fyrir löngu skrifuðum við Hildur Jóns, seinna jafnréttisfulltrúi í Reykjavík, innblásna forsíðugrein í VERU þar sem við bentum á þá stýringu á innkaupum sem neytendur hafa á valdi sínu. Þetta er enn í fullu gildi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook
Það er margtuggin staðreynd að lækkanir á alþjóðamarkaði mæta undarlegu fálæti hér á landi, þótt orðrómur um hækkanir skili sér með leifturhraða. Nú er olíuverð á niðurleið í heiminum, en ég hef ekki orðið vör við neinar lækkanir hér heima. Einhver tíma heyrði ég þá (ótrúverðugu) skýringu að svo undarlega vildi til að olía væri alltaf keypt inn þegar verð væri í hámarki. Sé það rétt, þá er til einföld lausn á því fyrir olíufélögin. Spyrjið sama vitleysinginn áfram hvenær eigi að kaupa olíu og gætið þess að kaupa hana aldrei þegar þessi undarlegi innkaupastjóri segir til um það. Er það ekki dagljóst?
Meðan ekki er boðið upp á skynsamlegar almenningssamgöngur hér á landi, sem hlýtur þó að vera eina vitræna framtíðin, þá erum við, fjölskyldur landsins, háð einkabílnum og ef einhver meining er í öllu þessu kjaftæði um að halda verðbólgunni í skefjum þá er hér útgjaldaliður sem vegur hátt í rekstri venjulegra heimila. Ég ætla nú ekki, prívat og persónulega, að leggja Volvonum mínum þvert á Álftanesveginn máli mínu til stuðnings (enda myndu Álftnesingarnir bara rúlla yfir mig), en hef netta samúð með aðgerðum í anda borgaralegrar óhlýðni, enda er það aðferð margra góðra mannvina (Gandhi auðvitað þekktastur). Vörubílstjórarnir í brekkum höfuðborgarsvæðisins eru að berjast fyrir lífsafkomu sinni, þótt þeir pirri ábyggilega marga, þá eru þeir loks að uppskera að á þá sé hlustað. Best hefði verið að það hefði verið gert strax, þá hefði aldrei komið til þessara aðgerða. Miklar líkur eru á því að þau úrræði sem þeim verða (vonandi) boðin gagnist ekki almenningi, þannig að við verðum að veita olíufélögunum aðhald.
Viðbót: Undur og stórmerki: Eitt olíufélagið, N1, er búið að lækka eldsneytisverð um krónu!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook