Anna Ólafsdóttir Björnsson
Feministi, anarkisti og alls konar -isti. Fyrrverandi hreppsnefndarfulltrúi á Álftanesi og þingkona Kvennalistans 1989-1995. Varaþingkona fyrir VG í Reykjavík norður 2009-2012. Stjórnmálaáhuginn í blóð borinn auk fjölmargra annarra áhugamála. Sagnfræðingur og tölvunarfræðingur; BA ritgerðirnar tvær fjölluðu um anarkisma Krapotkins og ljóðagerð Leonards Cohen en cand. mag. ritgerðin (M.A. ígildi) um byggðasögu Álftaness. M.S. í tölvunarfræði vorið 2008, lokaverkefnið fjallaði um Ubiquitous Computing.
Myndlistarnám og -störf: Myndlista- og handíðaskóli Íslands (dagskóli) 1972-1974. Myndlistaskólinn í Reykjavík af og til frá 1980, grafík, teikning og málun. Aðalkennarar Valgerður Bergsdóttir, Hringur Jóhannesson og Ingólfur Örn Arnarsson. Vatnslitamálun hjá Gunnlaugi Stefáni Gíslasyni á vegum Dægradvalar á Álftanesi 1998 og Keith Hornblower 2019 og Alvaro Castagnet 2022. Einkasýningar 1984, 1987, 2008 og 2009, 2019 og 2022. Þátttaka í ýmsum samsýningum 1996-1999 og frá 2009. Veggskreyting á veitingahúsinu Eldvagninum við Laugaveg og myndskreytingar fyrir tímarit. Vannabí myndlistarkona sem lýsir eftir meiri tíma.
Hefur skrifað allmargar bækur um sagnfræðileg málefni, eina ævisögu (Elfu Gísla) og tvær glæpasögur til þessa, Mannavillt og Óvissu.
Þar sem presturinn sem skírði mig gerði þau mistök að skila ekki inn föðurnafninu mínu heldur bara skírnarnafni og ættarnafni er ég nauðug til að gera sjálfa mig, eins og ég birtist í þjóðskrá, að föðurlausum ábyrgðarmanni fyrir skrifum mínum. Mannaði mig upp í það nýlega að spyrja hvers vegna ég væri skráð svona undarlega þar, og þá kom í ljós að það var aldrei ætlunin að svipta mig föðurnafninu. Ef til vill breyti ég einhvern tíma um nafn í þjóðskrá, en það útheimtir endurnýjun ýmissa skírteina og persónuupplýsinga og er ekki á dagskrá í bili.