Það er líka óstundvísi að mæta of snemma
25.3.2007 | 14:51
Samkvæmislíf helgarinnar - óvirk hestakona og tímaskyn tveggja ætta
25.3.2007 | 13:39
Fermingavertíðin er hafin og hófst með miklu brag í tengdafjölskyldunni minni, sem er reyndar ekki bara fjölskylda heildur heill ættbálkur. Á hverju ári eru haldin nokkur fjölskyldumót og meðalþátttaka aldrei undir 70 manns, oft nær 100. Fall er fararheill, við mættum stundvíslega, klukkutíma of seint. Smá misskilningur í gangi, í þetta sinni meðal innfæddra í ættbálknum, ég átti sem sagt ekki sök á þessum misskilningi að þessu sinni. En þar sem ég veit að ligg ávallt undir grun, þá fékk minn ástkæri að útskýra seinkunina óvenju ítarlega. Stundvísi hefur aldrei verið minn helsti kostur, þótt ég geti, með miklum sjálfsaga, haldið mig á mínútunni ef ég er í erindum vinnunnar eða að fara í jarðarfarir. Og svo giftist ég manni með sama þol fyrir tímasetningum þannig að við ættum sennilega að biðja börnin afsökunar á gölluðum genum. Velkist einhver í vafa um að svona geti legið í genum þá vil ég benda á að tvö hálfsystkini mín eru alin upp í systkinahópum allsendis óskyldum okkur, og skildu aldrei af hverju þau voru svona miklu frjálslegri í mætingu en hin systkini þeirra. Þegar við fjögur systkinin í okkar ætt loksins náðum saman og fórum að bera saman bækur okkar, þá kom ýmislegt merkilegt í ljós, m.a. ótrúlega lík rithönd þriggja systkinanna og óstundvísi annarra þriggja ... sú okkar sem á svissneska móður er stundvís. En þetta ætlar að verða skemmtileg fermingarvertíð.
Svo er auðvitað sveitin mín, Álftanesið, með öllu sínu fjölbreytta félagslífi. Við sláum mörgum afskekktari bæjum úti á landi við í félagsstarfi innan sveitar. Með eigin ungmennafélag, kvenfélag, Lions, Rauða kross deild, Fugla- og náttúruverndarfélag, skáta, hestamannafélagið Sóta, Dægradvöl (menningarfélag), eldri borgara félag, kór og þannig mætti lengi telja, - eitt sinn var hér meira að segja eigið hundaræktarfélag. Í gær var það hestamannafélagið sem var með Góugleði, sem alltaf er mikil gleði. Í pínulitla félagsheimiliu var etið vel, drukkið, spilað á gítar og sungið undir forystu fyrrverandi bæjarstjóra og Jörundar Dalamanns (vissuð þið að Eurovisionlagið (Ég les í lófa þínum) er frábært sing-a-long lag?) Og loks var dansað eins og gólfrými leyfði. Þetta eru einstakar skemmtanir og hesthúsin eru á miðju nesinu (ennþá) þannig að allir gátu gengið heim sem ekki voru svo heppnir, eins og við, að eiga son sem sótti okkur.
Ég telst til óvirkra hestamanna. Þeir gera allt sem aðrir hestamenn gera, nema fara á hestbak. Ég drekk sem sagt kaffi, get drukkið brennivín og etið hákarl, tekið í nefið, ég heyja, rek saman hesta, kembi, fer í hestaferðir og var á tímabili liðtæk í hestaættum. En fer helst ekki á bak síðan ég hryggbraut mig um árið. Átti yndisleg unglingsár á hestbaki, en þau eru liðin.
A,B,C og D fólk, svefnvenjur Íslendinga og ein lygasaga frá London
24.3.2007 | 21:13
Skemmtilegar umræður í ýmsum bloggum um A og B fólk (kannski út af frétt frá Danaveldi í hádegisútvarpinu). Alla vega þá er fólk farið að skilgreina sig sem A, B og D fólk (pólitískur fnykur af stafavalinu) en ég hef í mörg ár skilgreint mig sem C-manneskju. Skrifaði reyndar einu sinni sögu í Vikuna undir dulnefni um stofnun baráttusamtaka morgunsvæfra. Þarf að finna hana einhvern tíma. Kannski fékk ég fyrstu blaðamannavinnuna mína á Vikunni út á þá sögu, veit það ekki, sagan segir reyndar að ég hafi fengið þá vinnu út af sannsögli, ég játaði nefnilega þegar ég sótti um vinnuna að ég væri sjálfmenntuð á ritvél. Helgi Pé, sem þá ritstýrði Vikunni, kom labbandi fram í ritstjórn og sagði: Hér er ein sem er með öll próf í lagi og hefur líka húmor!
En þessi sannsögla manneskja, sem ég reyndar er, enda þýðir ekki annað fyrir fólk sem sést á langar leiðir ef það reynir að ljúga, á sér reyndar eina aðra játningu. Þegar ég bjó 18 ára gömul um hríð í Englandi, þá var ég orðin langþreytt á spurningum um eskimóa, snjóhús og eilífan vetur. Ætlaði að kveða þetta niður í eitt skipti fyrir öll og fór að segja Bretunum nógu yfirdrifnar furðusögur af Íslandi: Þar byggju allir í snjóhúsum, ég byggi t.d. á 8. hæð í igloo-blokk þar sem lyftan gengi bara upp í móti en við renndum okkur alltaf eftir ísrennibraut niður. Á veturna væri samfélaginu lokað, lágmarksþjónusta í gangi, svo sem smá hiti og viðhald nauðsynlegustu tækja og mannvirkja, en allir legðust í dvala, af því það væri mönnum eðlilegt við þessar aðstæður, þegar allt væri dimmt. Svo sparaði þetta svo mikið í ljósum og annarri orku og væri svo umhverfisvænt (þurfti auðvitað að umorða það áður en það orð var fundið upp). Ég komst á þvílíkt flug. Þóttist sanna þetta með því að benda á að nafnið mitt Björnsson, væri algengt á Íslandi, og vísaði til lífsstíls bjarna, sem sagt vetrarsvefns. Og eflaust hef ég sagt fleira, sumrin eru auðvitað vinnutíminn í svona samfélagi og allt það, þið getið bara bætt við sjálf. Af nógu að taka.
Mér finnst reyndar eftir á að hyggja að þetta sé að hluta til bara ekkert svo vitlaust, það er að segja að taka meira mið af því hvernig umhverfið býr okkur lífsskilyrði. Í heitum löndum er t.d. enn tekin siesta á heitasta tíma (að vísu á undanhaldi) og sagt: Only mad dogs and Englishmen go out in the mid-day sun (og Íslendingar). Mér finnst t.d. alltaf svolítið gleymast að hádegi í Reykjavík er um kl. 13:30 þannig að þegar verið er að senda krakkana í skóla klukkan 8 á morgnana þá er klukkan í rauninni 6:30. Og kem ég þá aftur að morgunsvæfa fólkinu ....
Þarfagreining síma og stórkornóttar myndir
24.3.2007 | 01:56
Vinnufélagar mínir hlógu þegar ég var að þarfagreina næsta símann sem ég ætlaði að kaupa, mig vantaði síma með meiri hljómgæðum og aðdráttarlinsu. Þeir gerðu enga athugasemd við kostina sem ég valdi fyrir símann, en hins vegar fannst þeim fyndið að ég skyldi þarfagreina símann. Tek fram að ég vinn hjá hugbúnaðarfyrirtæki.
Svo fékk ég mér nýjan síma, með aðdráttarlinsu og skárri hljómgæðum, sem er gott fyrir manneskju sem hlustaði á Magna gegnum símann syngja uppáhaldslagið mitt til margra ára, Creep. En þetta með aðdráttarlinsuna er blendin gleði, myndirnar verða ansi stórkornóttar í nýju símamyndavélinni, þrátt fyrir það er þetta mikill nytjahlutur og ég tek líklega fleiri myndir á símann en á myndavélina okkar fjölskyldunnar. Mig dreymir vissulega um tæknin verði enn skemmtilegri - svona í anda Ubiquitous computing, ef einhver veit hvað það fyrirbæri er - en á móti kemur að mér er á móti skapi að eyða einhverri formúu í græjur og þess vegna á ég bara grófkornaðan síma. Tilefni þessa pistils er að nú er ég búin að setja inn í nokkrar myndir frá Cambridge ferðinni fyrir nokkrum dögum.
Ótrúlegur endasprettur, ekki í X-factor heldur Gettu betur
23.3.2007 | 22:19

Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook
Áfram Guðbjörg!
23.3.2007 | 21:29
Spennan magnast og línur skýrast með óskýrum áherslum
23.3.2007 | 18:58
Það ar alveg með ólíkindum hvað pólitíkin er spennandi núna. Nýtt framboð er gersamlega óskrifað blað, með allt þetta þekkta fólk innanborðs, þá er það í rauninni alveg ótrúleg niðurstaða, en rétt. Mjög misgrænt fólk sem komið er til liðs við Ómar. Mér finnast línurnar vera að ,,skýrast", þær eru óskýrar og verða það sennilega áfram.
Svo þessi yndislega skoðanakönnun að vakna við í morgun, styrkur VG er svo margvíslegur, ekki bara á sviði umhverfisverndar heldur ekki síður feminískur flokkur og flokkur róttæks réttlætis, sem stundum er kennt við vinstri.
Gróf upp gamla plötu með Scaffold
23.3.2007 | 01:35
Til hamingju Borgarnes!
22.3.2007 | 19:45
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook
Jæja, Ómar!
22.3.2007 | 19:05
Þetta er framboðið hans Ómars, finn það betur nú en nokkru sinni fyrr. Margrét væri ekki með nema vegna þess að hún varð undir í innanflokksátökum í Frjálslynda flokksins. Aðrir vega léttar. Eins manns framboð hafa ekki orðið langlíf, hvort sem þau eru kennd við Albert eða Vilmund, nema einhverjir steli þeim, eins og gerðist með framboðið hans Sverris Hermannssonar. Samt sem áður óska ég nýja framboðinu alls góðs en þarf samt að koma á framfæri nokkrum brotum sem vonandi rata aldrei á síðuna mína: Þetta sagði ég þér!
Ég fagna framboðinu af því það er grænt og þrátt fyrir að það sé hægri. Hins vegar er ég ekki viss um fyrir hvað það mun standa í ýmsum málum og það verður merkilegt að giska á það hver stefnan verður í öðrum málum en umhverfis-, nýsköpunar- og kvótamálum. Best hefði auðvitað verið að Margrét hefði unnið sigur í Frjálslynda flokknum því þá sætum við ekki uppi með flokk sem virðist stefna hraðbyri til aðskilnaðarstefnu og óréttlætis í innflytjendamálum. Ég set stór spurningarmerki við það að Jakob Frímann sé innanborðs, vegna þess að þá er Jón Baldvin væntanlega innan seilingar og afstaða hans gagnvart inngöngu í ESB er mér mjög lítið að skapi. Nema hann hafi kúvent þar eins og í ýmsum fleiri málum? Hrædd um ekki, en útiloka ekki kraftaverk. Margrét ítrekar að hún sé á móti aðild að ESB vegna sjávarútvegsins, en Ómar er ekki eins skýr í svörum, sem er auðvitað mjög miður. Vitnar í Þorstein Pálsson sem er brostinn í blekkingarleik um ESB og sjávarútvegsmál.
Fyndið að sjá viðtal við Ómar og Margréti og sjá hana gjóta augum til hans, eins og hún væri að passa upp á að hann talaði ekki af sér. Og allt í einu áttaði ég mig á einu, Ómar er vanur að spila sóló og það með miklum brag, hvað verður um hann þegar hann þarf að passa sig að tala í takt við alla hina? Eitt sinn eyddi ég heilum vinnudegi með Ómari og skrifaði um það ævintýrið: Dagur í lífi Ómars Ragnarssonar. Það var mikil keyrsla. Hann er afskaplega kraftmikill maður en mikill sólóisti. Ábyggilega eini fréttamaðurinn sem hefur sprungið á limminu í ,,hlutleysinu" á meðan hann var í starfi, sem var reyndar mjög virðingarvert. Tvennt getur gerst, honum verður kippt niður í hægra-miðjumoð eða hann mun styggja einhverja samherja sína.
Ég óska þeim alls góðs og vona að það finnist nógu margir miðju og hægri umhverfissinnar til að færa þeim áhrif í pólitík - en ég er svolítið kvíðin að sjá stefnuskrána í öðrum málum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook