Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Ljúf helgi á næsta nesi

Eyddi ótrúlega miklum tíma á næsta nesi, Seltjarnarnesi, þessa helgina. Í gærkvöldi fórum við Ari á skemmtilega söngskemmtun í tilefni af 40 ára afmæli Selkórsins, sem er kórinn sem Elísabet systir CIMG4119er í núna, gaman að sjá hana í rokkhljómsveit sem líktist Grýlunum ótrúlega mikið! Og önnur söngatriði og skemmtiatriði voru stórfín líka. Svo var að skreppa á eigið nes aftur en innan sextán stunda vorum við aftur mætt á sama stað, í félagsheimili Seltjarnarness, í þetta sinn á ættarmót í tengdafjölskyldunni minni, sem var vel heppnað eins og við var að búast. Þess á milli hafa fundarsetur, smá tiltekt og vinkonuheimsókn sett svip sinn á tilveruna. Ljúf helgi. Nesjamennska, já, mér datt það orð í hug, sem ég heyrði reyndar ekki fyrr en ég var komin upp í háskóla og þá alveg sannfærð um að það hlyti að vera eitthvað voðalega jákvætt, þar til ég komst að því að það orð væri notað yfir það sama og ég notaði orðið afdalamennska. Líklega ræður uppeldi einhverju, hef nefnilega lengst af búið á Álftanesi og þar á undan í grennd við Seltjarnarnes, en sumir vilja reyndar halda því fram að stór hluti Reykjavíkur standi á því nesi. Blanda mér ekki í þá umræðu. Þess má geta að kennarinn minn góði sem kenndi mér orðið ,,nesjamennska" og merkingu þess var alinn upp í (af)dölum Borgarfjarðar. Skemmtilegur skilningur á orðum, ég elska bæði dalina í Borgarfirði og nesið mitt góða.


Mergjuð ummæli Ólafs Gunnarssonar rithöfundar um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Ólafur Gunnarsson rithöfundur er í viðtali í Fréttablaðinu í dag. Það er út af fyrir sig gleðiefni. Og ég hlakka rosalega til þess að lesa Dimmu rósirnar hans. En það sem einkum vakti athygli mína í þessu viðtali eru ummæli Ólafs um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þau eru á þessa leið:

,,Ég er opinn fyrir öllum kúltúráhrifum. En ég er samt skíthræddur við Evrópusambandið. Eins og stendur í Egilssögu: Konungsgarður er víður inngöngu en þröngur útgöngu. Var það ekki í fréttum í vikunni að Evrópusambandið hygðist engar tilslakanir gera vegna fiskimiðanna? Vilja Íslendingar missa sjálfstæðið? Einhver fugl stakk upp á því að við ættum að breyta stefnu sambandsins hvað varðar þessi mál þegar við værum gengin í það. Hver vitiborinn maður hlýtur að sjá að þetta er brjálsemi; svipuð heimspeki eins og að segja að gott væri að komast í helvíti vegna þess að maður gæti haft svo góð áhrif á djöfulinn."


Kaldhæðnislegt - og samt ekki Megasi að kenna (alla vega ekki beint)

Var að hlusta á Rás 2 (Lögin við vinnuna ;-) núna áðan þegar Megas brast á með eitt af sínum bestu lögum. Nema ég fór í sakleysi mínu að fletta laginu upp á YouTube og fann það, mikið rétt, en í alveg ótrúlega kaldhæðislegu samhengi. Njótið vel og tékkið á allri íróníunni út í gegn.

 


Afmæli Myndlistarskólans í Kópavogi og vinkonuhittingur

Eftir smá vinnutörn í dag fór ég stutta stund í 20 ára afmæli Myndlistarskólans í Kópavogi, sem er CIMG3194kominn í frábært húsnæði á Smiðjuveginum. Þar eru nú margir af gömlu félögum mínum úr Myndlistarskólanum í Reykjavík, sumir að elta kennara og aðrir aðra nemendur, sem fóru milli skóla á undan og eflaust eru ástæðurnar margar, eins og gengur. Sumir eru svo snjallir að vera í báðum skólunum, bæði kennarar og nemendur, enda báðir skólarnir virkilega fínir skólar. Glæsileg afmælisveisla og gaman að hitta svona marga sem ég hef ekki séð lengi.CIMG3197

Á eftir hitti ég Guðnýju vinkonu mína á Brons, en þar mælum við okkur stundum mót og fáum okkur súpu og gott kaffi, í mínu tilfelli Latte, er orðin frekar háð því. En því miður er búið að skipta um súpumatseðill og kókos-kjúklingasúpan ekki fáanleg lengur. Það er synd og skömm, en þetta er eflaust allt með ráðum gert. Það er aukaatriði, aðalatriðið er að hitta góða vinkonu og skiptast á fréttum og pælingum.

CIMG3199CIMG3200 

Svipmyndirnar eru úr skólanum fyrr í vetur.


Sjónvarpsdagskrá fyrir Björn Bjarnason

Það er auðvelt að detta niður í Bond-myndir þessa dagana, ýmsar stöðvar, íslenskar og erlendar, greinilega búnar að dusta rykið af Bond-spólunum í tilefni af því að sú nýjasta hefur verið tekin til sýninga. Ég var alltaf mjög sátt við Roger Moore sem Bond, minnst reyndar að það hefðu verið fyndnustu myndirnar, en eftir að hafa séð 2-3 að undanförnu er ég ekkii eins viss. Þetta er auðvitað rakin dagskrá fyrir Björn Bjarnason, en hvorugt okkar hefur sennilega tíma til að horfa mikið á sjónvarp, og þó, ég kíki aðeins á House, Bond og Grey´s - svona þegar ég get. Og fréttirnar, ekkert enn sannfært mig um að þetta fari skánandi ...

Lán eða lánleysi

Það er áhugavert að heyra stjórnarsinna kalla á kosningar og segir ekki annað en að viðkomandi telji að stjórnvöld hafi klúðrað málum, væntanlega meðal annars þeim lánum sem nú er verið að taka með verulegt lánleysi í farteskinu. Það má ekki gleyma því sem okkur er hótað að sé framundan: Krónan lækki enn í verði, stýrvextir fari enn hærra. Ef við erum bundin á klafa ákvarðanatöku sem ekki er okkur í hag fer svona. Hér eru þrjú óheillaskref, lánleysið okkar:

1. Bankaútþenslan var í krafti regluverks sem hentaði okkur ekki, þar sem við máttum ekki stöðva bankana okkar í að þenjast allt of mikið út erlendis samkvæmt regluverki ESB gegnum EES. Sama hvaða úrræði aðrar þjóðir kunna að hafa fundið, þess hefur jafnan verið vandlega gætt að við spilum eftir leikreglunum sem stóru þjóðirnar setja, þótt þær fari ekki alltaf eftir þeim sjálfar.

2. Skilyrði IMF (þótt þau komi ekki upp á yfirborðið nema í orðalaginu: sameiginlegur skilningur) fyrir stóra láninu eru þess valdandi að krónan mun væntanlega falla enn meira og stýrvextir hækka og hverjir gjalda þess mest: Auðvitað fjölskyldurnar í landinu, sem flestar eru æði skuldsettar, illu heilli.

3. Ef við færum i Evrópusambandið myndum við ekki fá undnanþágur í sjávarútvegsmálum við inngöngu, í mesta lagi eitthvað óverulegt. Við erum hugguð með því að í staðinn ættum við að reyna að hafa áhrif innan frá, en erum við ekki nýbúin að fá skýr skilaboð um það hverjir ráða ferðinninn innan ESB? Stóru þjóðirnar. Við uppfyllum ekki skilyrði myndbandalagsins þannig að Evruupptaka er einhvern framtíðartónlist, ef við færum inn, og ef það þætti þá eitthvert vit í því.

Skyldu Samfylkingarráðherrarnir sem vilja kosningar til þess að hjól atvinnulífsins færu að snúast, í krafti kosningaloforða? 

 


Ekki bara krónan sem fer á flot ...

Flestir komnir með hnút í magann af því krónan er að fara á flot. Því er spáð að verðgildi hennar rýrni enn um sinn, mikið eða lítið. En enginn veit það samt, ekki vitundarögn. Hnúturinn sem okkar mál eru komin í (hann er svolítið stærri en þessi í maganum), hvort sem lánsumsóknin hjá IMF verður tekin fyrir á morgun eða ekki (eitt plan, ef sú er raunin, er ekki gott, hvorki við þessar aðstðður eða aðrar) - með þeim afleiðingum sem það kann að hafa á framtíð blessaðrar þjóðarinnar okkar. Eins og venjulega hófst dagurinn á heldur nöturlegum fréttum, í þetta sinn sá Davíð um skammtinn. Nú þarf að fá einn dag með góðum fréttum, svo annan, annan ... en því miður er ég hrædd um að það augnablik sé liðið hjá í bili, á meðan biðjum við fyrrverandi fréttafíklar (FF-samtökin) um að bataferlið fari að byrja og síðan komi í kjölfarið fullt af fréttasnauðum dögum. Mér fannst það alltaf fyndið að það skyldi vera kínversk bölbæn að óska öðrum þess að þeir lifðu á áhugaverðum tímum.

 

 


Játning: Til er sitt af hverju sem er mikilvægara en að fá (allar) fréttirnar strax

Eins og fleiri Íslendingar er ég hrikalegur fréttafíkill. Forfallin reyndar. En þegar ég frétti það í dag að Guðni Ágústsson hefði sagt af sér þá gerði ég ekki annað tveggja:

  1. Dreif mig út í bíl að hlusta á útvarpið (af því þvíumlíkt var ekki til staðar hjá okkur í Myndlistaskólanum í Kópavogi, þar sem ég mála eins oft og ég get) eða
  2. Æddi heim í tölvu eða annan fréttamiðil.

Nei, ég hélt bara hreinlega áfram að mála.

CIMG4030Veit svo sem ekki hvað hefði gerst ef ég hefði verið búin að frétta af ákvörðun Guðna þegar ég kom úr viðtalinu sem ég var að taka vegna Álftaness sögu áður en ég brá mér í vinnugallann uppi í skóla, hvort ég hefði drifið mig upp í skóla að vinna í myndlistinni eður ei. Það var svo sem ekki eins og ég væri að skrópa í tíma, heldur höfum við sem erum í frjálsri málun vinnuaðstöðu í skólanum fjögur síðdegi í viku og fáum svo kennara til okkar tvisvar í mánuði. Auðvitað ræddum við pólitíkina, en lögðum ekki frá okkur penslana, nei síður en svo, kannski unnuð við af auknu kappi ef eitthvað var. Þetta er lítill og yndislegur heimur sem ég er komin inn í eftir að hafa vanrækt myndlistina í nokkur ár á meðan ég var að ljúka tölvunarfræðináminu.

Ég hef alltaf átt góða að þegar ég hef leitað athvarfs í myndlistarskólum landsins, sem ég geri reglubundið. Aldrei hægt að læra of mikið og þetta hentar mér vel, hitta kennara tvisvar í mánuði (fínan kennara) og vinna vel á milli. Fer reyndar eftir vinnuálagi hversu miklum tíma ég get varið í myndlistinni, en ég hef aldrei litið á mína myndlist sem dund, hobbý eða áhugamál (en myndlist annarra er reyndar ákaft áhugamál mitt). Nei, myndlist er eitthvað sem verður að leggja mikla rækt við, þetta er sífelld æfing, þekkingarleit, líka leit að einhverju sem hvorki flokkast undir æfingu né þekkingu. Þegar ég var lítil var ég það sem kallað var: ,,Flink að teikna", og jú, það var svo sem rétt. En ég lít hreinlega á það sem (oftast ljúfa) skyldu að hlúa að þeim myndlistarhæfileikum sem ég lagði upp með, þróaði, teygði á og togaði í ýmsar áttir, og jafnframt er ég drifin áfram af einhverjum krafti sem ekki er hægt að útskýra en ég veit að margir skilja nákvæmlega hvað ég á við. Mér finnst ég reyndar fara óvenju hægt af stað núna, kannski af því ég hef sniðið mér óvenju þröngan ramma til að vinna innan við (enn sem komið er - og þetta er reyndar ekki líkingamál, en nenni ekki að skýra það).

CIMG4031Mér er hreint ekki sama um afsögn Guðna. Hann hefur lengst af verið nokkuð staðfastur gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og margt í hans áherslum finnst mér hreint og beint og fellur vel við þá jarðtengingu sem hann hefur, þótt aldrei hafi ég kosið Framsókn, eins og segir í spakmælinu. Sárgrætilegt ef Evrópusambandsöflin hafa hrakið hann af vettvangi. Það er líka sjónarsviptir af Guðna af þingi.

Og auðvitað er myndlistin ekki það eina í lífinu sem er mikilvægara en að fylgjast með fréttunum. Fjölskyldan mín góða og nánustu vinirnir skipta svo miklu meira máli en jafnvel þær efnahags- og stjórnmálahamfarafréttir sem ég límist stundum við.

CIMG4051aMyndirnar sem fylgja eru sýnishorn af þeirri braut sem ég er að feta, hægum skrefum, þessa dagana. Módelmyndin er fullgerð (nema ég ákveði annað ;-) en hinar síður en svo (bollarnir virðast til dæmis absúrd, en þetta er bara byrjun á ákveðinni pælingu) - og ættu svo sem ekki að fara í umferð - en svona er þetta bara, núna.


Sumum virðist ekki duga að kyssa vöndinn - þarf að éta hann líka? (og heiðarlegar undantekningar)

Nú er það orðið vel ljóst, sem áður voru sterkar grunsemdir um, að Evrópusambandið kúgaði okkur Íslendinga til þess að hlýða sér í einu og öllu eða hafa verra af ella! Burtséð frá því hvaða skoðun við höfum atburðarásinni og ákvarðanatökunni, þar mátti vissulega margt betur fara, sömuleiðis á því hverjum bæri að axla ábyrgð gagnvart sparifjáreigendum sem vildu þá ávöxtun sem Icesave bauð uppá - eitt er dagljóst og það er á hverja er hlustað innan Evrópusambandsins. Þá stóru og sterku.

Og þótt regluverk EES (upprunnið hjá ESB) hafi valdið því að við máttum ekki hafa hemil á útþenslu bankanna og ofvexti erlendis, þá er svo búið um hnútana að sama batterí og setur leikreglurnar ber enga samábyrgð á afleiðingum reglnanna. Og enn eru þau öfl sem vilja koma okkur inn í Evrópusambandið að fara hamförum í kröfunni um að koma okkur í Evrópusambandið. Framsókn búin að losa sig við alla viðspyrnu (mögulega líka flestalla kjósendur í kjölfarið) og Sjálfstæðisflokkurinn orðinn ansi ráðvilltur líka. Það lítur út fyrir að sumir vilji ekki bara kyssa á þennan vönd yfirgangs Evrópusambandsins heldur sé verið að búa sig undir að éta hann líka. Gott ef ekki að að setja tómat og sinnep á skaftið til að koma því betur niður.

Þess vegna er hressandi að heyra einn og einn heiðarlegan krata með snúast gegn ofríki ESB, eins og Kristján Pétursson, bloggvin minn.


Hvaða ,,kreppuviðbragða-týpa" ert þú?

Fólk bregst misjafnlega við kreppunni. Ég er bara að byrja þessa umræðu, á eftir að velta henni miklu betur fyrir mér, kannski að búa til könnun úr henni, og hver veit nema að þetta endi sem formuð könnun á síðunni minni. Þangað til er innlegg ykkar, uppástundur og játningar (hvaða týpa?) vel þegin. En hér er til að byrja með svona frekar losaralegur listi af sumum þeim ,,kreppuviðbragða-týpum" sem ég þykist hafa rekist á:

  • Sumir bera sig rosalega vel, þótt allt sé komið á vonarvöl.
  • Aðrir bera sig rosalega vel af því allt er í fína lagi hjá þeim og ,,þeirra fólki".
  • Sumir bera sig rosalega illa ÞÓTT allt sé í fína lagi hjá þeim og ,,þeirra fólki".
  • Sumir hætta að horfa á útvarp og sjónvarp og neita að ræða fréttirnar, strútastefna eða skynsemi.
  • Eitt það fyrsta sem ég heyrði, og ætlaði varla að trúa því, þegar ég var að hlusta á (efnislausa) blaðamannafundi stjórnvalda en var enn í öðrum veruleika úti í Bandaríkjunum var að fólki væri ráðlagt að hlusta ekki á fréttirnar nema tvisvar á dag (eða var það þrisvar) - sem sagt að missa sig ekki í þunglyndi. Sumir hlýða því og verða samt þunglyndir.
  • Sumir hlýða ofanverðu og líður bara miklu betur.
  • Sumir hreinlega missa sig í þunglyndi.
  • Sumir verða afbrigðilega umhyggjusamir.
  • Sumir hafa alltaf verið umhyggjusamir.
  • Margir gera allt sem þeir geta til að ,,lágmarka skaðann" - eru miklu sparsamari en venjulega, baka brauðið sitt sjálfir og eyða engu (ja, eða nánast engu) í óþarfa.
  • Sumir falla í píslarvætti.
  • Svo eru það sumir sem eru búnir að missa vinnuna, samannurlað spariféð eða hvort tveggja og hafa engan tíma til að velta svona asnalegum greiningartilraunum fyrir sér.
  • Og enn eru þeir til sem halda áfram að eyða gígantískum fjárhæðum, þótt þær séu í eigu annarra strangt til tekið. Þeir skiptast í tvo hópa: Þá sem kunna ekki að skammast sín og þá sem kunna ekki að skammast sín, en fara lágt með það.
  • ... og sumir bregðast við með því að veita almenningi engar upplýsingar, völdum fjölmiðlum einhverjar (sem ekki má segja) og virðast ekki vera að gera neitt af viti. Því miður eru sumir þeirra stjórnmálamenn.
  • Einhverjir flýja land eða undirbúa landflótta.
  • Og svo eru það margir, margir, fleiri, á kannski eftir að pússa og bæta við eða fella úr þessari greiningu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband