Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Regnboginn er: Bjarni Harðarson, Jón Bjarnason, Harpa Njálsdóttir, Baldvin H. Sigurðsson, Friðrik Atlason, Valdís Steinarsdóttir, Atli Gíslason og margir fleiri

Mér skilst að það séu ekki allir búnir að átta sig á því hvað Regnboginn er í þessum kosningum. Það er annað hvort hægt að skoða allt um Regnbogann á www.regnboginn.is eða þetta hér: Regnboginn er ekki flokkur heldur framboð fólks, meðal annars þessara sem eru taldir upp hér á eftir: Bjarni Harðarson, Jón Bjarnason, Harpa Njálsdóttir, Baldvin H. Sigurðsson, Friðrik Atlason, Valdís Steinarsdóttir, Atli Gíslason, Þorsteinn Bergsson, Sædís Ósk Harðardóttir, Arnþrúður Heimisdóttir, Karólína Einarsdóttir, Guðmundur Brynjólfsson og margir fleiri og ég er stolt af því að vera í hópi þessa góða fólks.

Regnboginn


Ef skakkar skoðanakannanir eru nú skoðanamyndandi ...

Skoðanakannanir undanfarna daga virðast gefa vísbendingar um hvert stefnir varðandi úrslit kosninganna. En er það svo?

Óvenju margt bendir til að skekkjur séu margar nú, og sumir félagsvísindamenn reyna vissulega að vekja athygli á því.

1. Sveiflur á fylgi flokka eru óvenju miklar svo skömmu fyrir kosningar.

2. Kjósendur eldri en 67 ára (35 þúsund manns heyrðist mér sagt í útvarpinu) eru ekki spurðir í sumum könnunum. Það hefur verið gagnrýnt. 

3.  Ótrúlega hátt hlutfall kjósenda hefur ekki gert upp hug sinn. Þegar aðeins næst í 63,2 % kjósenda og aðeins 67,8 % þeirra hafa gert upp hug sinn, er í raun ekki komið á hreint hvað næstum 60% kjósenda ætla sér, heldur aðeins um 42%. 

Skoðanakannanir á þessum mjög svo ótrausta grunni eru engu að síður skoðanamyndandi að einhverju marki. 

Mjög oft í undanförnum kosningum hafa skoðanakannanir skömmu fyrir kosningar reynst býsna nálægt úrslitum kosninga. Reyndar ekki endilega í takti við það hversu fagleg vinnubrögð eru ástunduð. Í fyrstu árum mínum í blaðamennsku bauð Blaðamannafélagið upp á ýmis mjög metnaðarfull blaðamannanámskeið, aðallega í samstarfi við Háskóla Íslands. Ég sótti nokkur þeirra, meðal annars námskeið um skoðanakannanir. Þar lærði ég margt um hvernig faglegar skoðanakannanir eru gerðar. En hins vegar vildi oft svo til að þeir sem gerðu þær kannanir sem þóttu minnst ábyggilegar (en alls ekki óábyggilegar) römbuðu á réttustu útkomuna. En þessar kannanir byggðu á allt öðrum veruleika en nú er uppi. Miklu fleiri höfðu gert upp hug sinn. Sveiflur eins og nú sjást voru ekki til staðar, heldur miklu meiri langtímasveiflur. 

Hver mun tapa og hver mun njóta góðs af ef veruleikinn sem kemur upp úr kjörkössunum verður annar en sá sem skoðanakannanir halda að okkur veit enginn. Eitt af því sem hefur áhrif er hvort skakkar skoðanakannanir verða skoðanamyndandi. 

Gott að hafa þetta í huga! 

400_f_45803204_r3bastk7s6wen97ink0vtjl0ktd2cd2t_-_copy.jpg


Ég meina það

Mér finnst ekki hægt að vera í stjórnmálum nema að meina það. Stjórnmál eru ekki endilega áhugamál, eiga ekki að vera lífsstíll og þaðan af síður einhver rós í hnappagatið. Kringum búsáhaldabyltinguna fann ég að verið var að umbylta æði mörgu, meðal annars hugmyndum um hvað stjórnmál væru og hvernig þau ættu að vera. Allt í einu var farið að setja spurningamerki við svo ótal margt og enginn gat lengur sagt að hann eða hún ætlaði bara að kjósa eins og pabbi og mamma, enda gat allt eins verið að pabbi væri farinn til Noregs að vinna og mamma að tromma á potta niðri á Austurvelli, eða öfugt. Vonbrigði þess kjörtímabils sem nú er að ljúka eru ekki vegna þess sem vel hefur verið gert, sem er vissulega fjölmargt, heldur vegna þess sem hefur brugðist. Við höfum öll okkar hugmyndir um hvað hefur einkum brugðist og hvers vegna.

Mín er þessi: Ómældum tíma, fé og orku hefur verið eytt í vitleysu. Toppurinn á ísjakanum er Icesave, en hin 90% eru aðildarferlið að ESB. Þar hefur peningum verið sóað og tíma fjölda fólks, sem átti að vera að sinna því að finna úrræði til að bjarga fjölskyldum og einstaklingum sem hafa verið að missa allt sitt, verið kastað á glæ á altari ESB-trúarinnar. 

Og ég meina það!

 


Stokkað upp á nýtt

Allt er á fleygiferð í íslenskum stjórnmálum nú. Formaður flokks sem hefur löngum gert kröfu um að vera sá stærsti á Íslandi veit ekki í hvorn fótinn hann á stíga. Önnur ágjöf er á sumum vonarpeningunum, sem komið hafa fram á sjónarsviðið.

Það merkilega er að nú eru aðeins tvær vikur til kosninga. 

Jafnvel Framsóknarflokkurinn veit ekki hvort fylgið í skoðanakönnunum skilar sér upp úr kjörkössunum. Heyri sífellt oftar að þar á bæ hafi menn áhyggjur af tvennu: Annars vegar að kosningarnar skuli ekki vera yfirstaðnar nú þegar, eða alla vega áður en meiri umræða verður um efnahagstillögur þeirra og hins vegar að einhver kunni að fatta að þeir eru einn af fjórflokknum. Margir segja nú: Alla vega ekki fjórflokkinn! Kannski geta þeir í Framsókn eignað sér gamlan brandara sem var stundum sagður þegar þorri Íslendinga skildi skrýtlur sem sagðar voru á dönsku:

Ceasar er död!

Napoleon er död!

Og selv föler jeg mig faktisk lidt slöj!

 220px-giulio-cesare-enhanced_1-800x1450.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvað sem verður þá er eitt víst að ekkert er víst. Og vonandi verður niðurstaðan að fólk kýs eftir málefnum sem það trúir að verði fylgt eftir af heilindum og heiðarleika. Í rauninni kallar skuldavandi heimilanna ekki á minna en að allir snúi bökum saman. Við getum tekist á um önnur mál, svo sem ESB-aðild, þar sem við í Regnboganum erum kannski þau einu sem munum örugglega ekki ljá máls á að stuðla að aðild Íslands að ESB- með beinum eða óbeinum hætti. En ráðstafanir til að koma til bjargar þeim sem enn eru að ströggla við að ná endum saman og endurheimta sjálfsögð mannréttindi eins og lífsviðurværi og húsaskjól: Gera verður kröfu til að í þeim aðgerðum taki allir þátt og klári málið þannig að þessi hópur fái ekki minni fyrirgreiðslu og fé en stórskuldarar sem fá niðurfellingu á milljarðatugum, fjárglæframenn og sjálftökustéttin nýja. 

 

 


Framboð sem fæðast af brýnni þörf - Regnboginn og Kvennalistinn

Tvisvar hef ég átt þátt í að skapa framboð sem varð til af einskærri eftirspurn. Fyrst þegar Kvennalistinn kom fram, en hreyfingin var stofnuð 13. mars 1983, eftir nokkurn aðdraganda, meðal annars kvennaframboð í sveitarstjórnum ári fyrr. Kosningar voru haldnar 23. apríl. Það sem knúði á um að Samtök um kvennalista væru stofnuð, þrátt fyrir að ýmsar kvennaframboðskonur væru því andvígar, var hrikalegt áhrifaleysi kvenna í landsstjórninni og þar með fullkomið skeytingaleysi um þau málefni sem við vildum beita okkur fyrir. Þá sátu 3 konur á þingi, 5% þingmanna. Eftir kosningarnar 1983 og framboð Kvennalistans urðu þær 9 eða 15%, þrjár af lista Kvennalistans, sem aðeins náði að bjóða fram í þremur kjördæmum af átta þá, og konum annarra flokka fjölgaði einnig um þrjár, þrýstingur frá framboði Kvennalistans átti sjálfsagt þátt í því. 

Ekki bjóst ég við að eiga aftur eftir að taka þátt í framboði sem yrði til af brýnni þörf. Og enn á ný með nokkrum aðdraganda. Allt þetta kjörtímabil hefur óánægja ESB-andstæðinga, ekki síst þeirra sem teljast róttækir í stjórnmálum, farið vaxandi eftir því sem Ísland hefur sogast æ meira inn í stórveldið sem ESB óneitanlega er. Mörg okkar, sem reyndum án þess að vitundarögn væri á okkur hlustaði, að hafa áhrif á forystu VG, hrökkluðumst burtu, ekki öll í sömu átt, en býsna mörg. Það er ómögulegt að gera sér fulla grein fyrir því hversu langur aðdragandinn hefur verið. En ef ég lít í kringum mig á það fólk sem ég á nú samleið með í Regnboganum, þá sé ég að þar er fólk sem ég hef verið að vinna með í mörg ár og samherjar þess og mínir úr ýmsum áttum. Þetta er hreyfing sem á rætur sem liggja víða. Fólk með sömu hugsjónir og ég í mikilvægum málum, ekki síst andstöðunni við valdablokkir, hvort sem þær eru innan flokka, samfélaga eða stórríkja. Verst er þetta þó innan stórríkja, þar sem áhrif stórgróðafyrirtækja eru yfirþyrmandi og máttleysi hins almenna borgara algert þegar á hólminn er kominn. Samskiptin eru falin í Kafka-ísku skrifræði þar sem enginn skilur hvernig það má vera að mál eru allt í einu komin einhvern veginn svo hræðilega illa. 

Það er eins og stundum sé ekki hægt að sleppa því að gera eitthvað. Við sem viljum binda enda á aðildarferlið sem sogar okkur sífellt meir inn í ESB, áttum fárra kosta völ fyrir næstu kosningar, annarra en að reyna að skapa veröldina sem við viljum sjálf. Ekki gátum við kosið stórvaldaflokkana sem hröktu okkur út í hrunið, þótt þeir hafi á tímabili virst vera harðir (en alls ekki óskiptir) í ESB-andstöðu sinni. Nú þegar þeir fara undan í flæmingi í þeirri umræðu allri, þá kemur hagsmunapotseðli þeirra einfaldlega æ skýrar í ljós. Vissulega voru aðrir kostir íhugaðir, en fyrir okkur Jón og Gunnu sem vildum alls ekki stofna enn einn flokkinn, leggjast í ítarlega flokkslagagerð og flókna málefnaumræðu um eitthvað sem kannski gæti hugsanlega varðað okkur einhvern tíma, þá var rétta leiðin eilítið anarískari. Efnt var til framboðs, þar sem byggt væri á mikilvægum grunngildum, en fjölbreytnin fengi að blómstra. Þannig varð Regnboginn til. 

Andstaðan við ESB-stórveldið og tröllatrú að mannkynið verði að stefna ötullega að sjálfbærri þróun, þó ekki væri nema til að jörðin, sem við byggjum í samfélagi við alls konar annað líf og náttúru, fái skárra atlæti en skít og skömm. 

Stórveldi sem ná yfir viðfeðm landsvæði hafa orðið til gegnum söguna en þau deyja líka eða liðast í sundur. Sú var eflaust tíðin að menn héldu að Rómaveldi yrði eilíft. Og árum saman hvarflaði ekki að nokkrum að Sovétblokkin myndi liðast í sundur. Því meira stjórnræði, þeim mun meiri líkur á að stórveldi kollvarpist, og um þessar mundir virðist ESB á leið til stóraukins stjórræðis. Hagsmunir stórfyrirtækja og verndun jarðarinnar sem okkur hefur verið trúað fyrir fara yfirleitt ekki saman. Við Íslendingar ættum að velja leið lítilla og farsælla lausna sem hæfa ekki bara okkar umhverfi heldur umhverfi út um allan heim.


Flokkar eiga ekki fólk en sumt fólk á flokka

Flokkar eiga ekki fólk, þótt sumir þeirra hagi sér stundum eins og svo sé. Hver og einn kjósandi getur ráðstafað atkvæði sínu eins og henni eða honum lystir og þau mannréttindi eru dýrmæt. Þarf ekki einu sinni að kjósa flokk, ef annað er í boði.

Hins vegar vita það allir, sem hafa fylgst með stjórnmálum í meira en korter, að fólk getur ,,átt" flokka í krafti auðs og valda. Það kaupir sér ekki flokk af því það sé svo gaman að eiga flokk, svona eins og að eiga persneskt teppi eða listaverk eftir Eggert. Nei, að eiga flokk merkir ekkert annað en að ætla sér að nota flokkinn til þess að skara eld að sinni köku. Þetta ætti að vera öllum þeim áhyggjuefni sem ráðstafa atkvæði sínu í kosningunum eftir þrjár vikur. 


ESB-aðildarviðræðurnar: Viljum við ekki frekar fá að vita það sem máli skiptir?

Það ferli sem Ísland sogaðist inn í með aðildarumsókn að ESB er rammasta alvara. Það veit þorri þjóðarinnar og það er engin tilviljun að andstaðan við aðild Íslands að ESB var orðin mjög mikil áður en ljóst varð í hvaða óefni var komið á Evru-svæðinu.

Hvað er það sem við viljum raunverulega fá að vita?

Viljum við ekki fá að heyra það sagt af fullum heiðarleika hvað aðildarferlið kostar okkur raunverulega? Hvað það kostar að borga öllu því ráðuneytisfólki og starfsfólki stofnana, opinberra sem annarra, kaup fyrir að breyta regluverki samfélagsins svo það uppfylli kröfur ESB? Væri þessum tíma og þessu fé ekki betur varið í annað? Og þá eru ekki talið það vinnutap og kostnaður sem hlýst að utanferðum. 

Viljum við ekki fá að vita hversu miklar breytingar er verið að gera á stjórnsýslu Íslands áður en við ,,fáum að vita hvað er í pakkanum"? 

Viljum við ekki fá að vita hvort þessar breytingar eru gerðar með hagsmuni almennings í huga eða til að hlýða tilskipunum og dómum sem fallið hafa í ESB?

Viljum við ekki fá að vita hvort þær breytingar sem verið er að gera eru afturkræfar ef þær reynast nú ólánlegar?

Viljum við ekki fá að vita hvaða afleiðingar sumar þær reglugerðir sem við erum að undirgangast nú þegar munu hafa á atvinnulíf og lífið í landinu?

Viljum við ekki fá að vita hversu miklu stendur til að breyta áður en óvinsælu og umdeildu kaflarnir, um landbúnaðarmál og sjávarútveg verða opnaðir?

Ef við viljum vita það sem raunverulega skiptir máli þá þýðir ekki að bíða endalaust. Við viljum vita sannleikann núna og ekki halda áfram ESB-aðildarviðræðum sem geta tekið óratíma og engu skilað, nema einhverjum pakka sem við annað hvort verðum að taka við, hvað sem í honum er, eða henda á haugana. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband