Bloggfærslur mánaðarins, desember 2023

Við C-fólkið

Var að glíma við svolítið lúmskt erfiða vatnslitamynd meira og minna frá kl. 16 í gær, með heilmiklum hléum til kl. hálf tvö í nótt. Þá þurfti ég að fara að sofa, því ekki vildi ég mæta seinasta vinnudaginn í hefðbundnu 9:40-17:40 vinnunni minni geispandi út í eitt.

unnamed (6)a

Er oft spurð hvort ég sé A eða B manneskja, því ég hef aldrei farið leynt með svefnvenjur mínar, að því leyti sem ég get ráðið þeim. Það eru allmörg ár síðan ég áttaði mig á því að ég er C-manneskja. Þetta merkir það að ef ég ætla að sofa þokkalega út, þá þarf ég að meta það hvort það er of snemmt fyrir mig að stilla vekjaratóninn í símanum á 12:20 til að missa ekki af hádegisfréttunum. Það merkir líka að ég þekki varla flugþreytu nema af afspurn, því ég er þaulvön frjálslegum svefnvenjum. Sömuleiðis kom það fyrir á aðal lausamennskuárunum mínum, þegar ég sinnti bæði myndlist og blaða- og útvarpsmennsku, að ég náði að elda hafragraut handa eiginmanni og börnum áður en ég fór að sofa, eftir langa nótt við grafíkpressuna mína. Hins vegar er ég gefin fyrir fallega sumardaga og hika ekki við að fara á fætur milli kl. 9 og 10 á fögrum sumardögum, heima og erlendis, til að njóta sólar og alls konar stúss í góðu veðri. En mér finnst nóttin og myrkrið líka góðir vinir mínir. Skammdegið hefur aldrei verið óvinur minn, bara hálkan og einstaka sinnum ófærðin. Elska líka bjartar sumarnætur og miðnæturgolf, þegar bakið leyfir mér svoleiðis lúxus.

unnamed (7)

Veit ekki hvort líf C-manneskjunnar á heimilinu, mitt sem sagt, mun taka neinum sérlegum stakkaskiptum þótt ég fari í annað sinn á ævinni á eftirlaun frá og með dagslokum í dag. Vissulega hefði ég haldið áfram með myndina sem ég var að glíma við fram eftir nóttu, ef ég hefði ekki verið bundin við að fara í vinnuna í morgun. Það er gott að geta lifað í takt við líkamsklukkuna, þótt hún gangi alla vega, og ég er jafn forvitin og aðrir um það hvernig hún muni haga sér næstu misserin. 

 

 


Vinnustaðir - morð á ganginum og gengið yfir brúna

Hef unnið á allmörgum (mishefðbundnum) vinnustöðum á starfsævinni og oftar en ekki verið í vinnu með góðum hópi fólks sem ég þekkti ekki fyrir. Nú, þegar ég er á 72. aldursári og búin að segja upp hefðbundnu launavinnunni minni veit ég ekki almennilega hvort ég á að skilgreina mig í lausamennsku, sem er vinnutilhögun sem ég er svosem vön (8 ár af starfsævinni alla vega), eða að ég sé ,,bara" að fara á eftirlaun, sem ég hef reyndar áður gert, í næstum fjögur ár, áður en ég fór að vinna í núverandi vinnu. Aðalmunurinn er vinnustaðurinn og vinnufélagarnir. Þótt minn ágæti eiginmaður hafi bent mér á að ég sé í góðum félagsskap þegar ég er í lausamennskunni (ein með sjálfri mér mestanpart) þá hef ég upplifað nokkra alveg óborganlega vinnustaði og uppátæki í góðra vina hópi. Fyrsti langtíma-heilsárs vinnustaðurinn minn var Vikan. Þar var ég í hópi einvalaliðs vinnufélaga í fimm ár. Helgi Pé var ritstjórinn sem réð mig í þá vinnu en hann og Eiríkur Jónsson (já, sá) voru skamma stund með okkur og við tók hópurinn sem er á þessari mynd. 

Vikan

Eins manns sakna ég af þessari mynd (sem NB ég þurfti að teikna fríhendis, því ekkert photoshop var komið þá). Hann var greinilega ekki byrjaður með okkur, en það var virðulegi auglýsingastjórinn okkar. Hann var ögn eldri en við flest, gríðarlega vel klæddur í óaðfinnanleg jakkaföt og datt hvorki af honum né draup (þrátt fyrir að hann ritað mjög umdeildar kjallaragreinar í annað blað). En, lengi skal manninn reyna. Í fyrsta sinn sem það gerðist uggðum við ekki að okkur, ritstjórnin, allt í einu heyrðist rosalegur hvellur á hljóðbæra ganginum okkar í Síðumúlanum og síðan hljóp þessi virðulegi maður út úr fremstu skrifstofunni á ritstjórninni, að því er virtist skelfingu lostinn og hrópaði: Hvað er að gerast, var verið að drepa mann? Enginn fann neitt, en þegar þetta fór að endurtaka sig sáum við hann laumast fram á gang með stóran, uppblásinn bréfpoka, sprengja hann frammi, hraða sér á skrifstofuna sína og svipta svo upp dyrunum og bera fram sömu spurninguna og síðast, og þaráður!

Ég var líka um það bil fimm ár hjá Betware, í fyrsta starfi mínu við hugbúnaðargerð, meðan ég var enn í mastersnáminu mínu í tölvunarfræði. Það voru skrautleg og skemmtileg ár, bæði vinnulega séð og af því að ég ákvað að hella mér út í skemmtanalífið með vinnufélögunum, börnin mín uppkomin og þau (vinnufélagarnir og börnin) flest án nokkurra fjölskylduskyldna, enn sem komið var. Við hliðina á okkur í Ármúlanum var ,,slísí" bar á annarri hæð, þar sem sungið var karókí og ekki síst með fulltingi ótrúlegra söngfugla úr okkar hópi. Hann gekk undir eldra nafni sínu, Jensen, meðal vinnufélaganna. Þar var svona Allie McBeal-stemning fyrir þá sem muna eftir þeirri sjónvarpsseríu. Þá kynntist ég líka alls konar tölvuleikjum og þrautum sem hafa síðan fylgt mér gengum þessa tvö áratugi sem ég hef starfaði við hugbúnaðargerð. Vegna persónuverndarsjónarmiða birti ég bara sjálfa mig hér, en ekki hina vinnufélagana, en lofa því að þau hlógu alveg jafn dátt og ég við eitt slíkt tækifæri.

Þrátt fyrir stuttan stans hjá Iceconsult féll ég alveg fyrir vinnufélagahópnum þar, og í fórum mínum á ég mynd af einum vinnufélaga sem fór í ,,brú" meðan annar síðan gekk yfir brúna og sá þriðji passaði upp á að hann dytti ekki af þessari ótrúleg brú. Aftur, skrambans persónuverndin sem stoppar mig í að birta þessa mynd en treysti á ímyndunarafl lesenda.

unnamed,Frau.W

Aftur á móti er nýrri mynd af ágætlegar óþekkjanlegum vinnufélaga mínum alveg birtingarinnar virði, efast um að nokkur þekki viðkomandi, en segir allt um fjölbreytileikann við leik og störf. 

393074400_909616107193300_2582729761996044063_n

Auðvitað hafa vinnustaðirnir mínir verið misfjörlegir, en sumir svo óborganlegir að ég bara varð að setja þetta á blað, og reyndar eftir hvatningu eins núverandi vinnufélaga svona rétt í bland. Og af hverju gæti ég ekki persónuverndarsjónarmiða vinnufélaga minna hjá Vikunni? Þessi mynd var á forsíðu blaðsins á sínum tíma, og þegar þú flettir síðunni, hvað blasti þá við? Nú, auðvitað bakhliðin. 

Vikan2

 

 


Gríðarlega mislangir mánuðir

Tíminn líður mismunandi hratt í hugum flestra. Breytilegt eftir æviskeiðum, er mér sagt, þótt ég geti ekki tekið undir það, hjá mér líður tíminn einfaldlega mjög mishratt. Jú, reyndar, að einu leyti. Vikurnar fjórar eða svo fyrir jólin voru alveg hrikalega lengi að líða þegar ég var lítill krakki, nú er leitun að hraðskreiðara tímabili. 

Eitt afhjúpar vel hve hratt tíminn líður. Þegar eitthvað endurtekur sig með nokkuð reglulegu millibili. Seinustu sex árin höfum við bekkjarfélagarnir úr MR mælt okkur mót mánaðarlega um vetrartímann eftir því sem unnt hefur verið. Tíminn sem líður milli þess að við hittumst er grunsamlega mismunandi langur og það helgast ekki af því að fyrsta laugardag í mánuðinum ber upp á daga missnemma í hverjum mánuði fyrir sig. Nei, það er eitthvað allt annað. Stundum hafa fleiri en einn á orði að það sé langt síðan við höfum hist, þótt það sé aðeins um mánuður, oftar er eins og við séum að taka upp þráðinn eftir fyrri viku eða næstsíðustu. 

Undanfarinn mánuður hefur verið ótrúlega langur, venjulega er nóvember með styttri mánuðum í lífi mínu, en ekki núna. Margvíslegir viðburðir í samfélaginu, bæði nærsamfélagi, á landinu okkar og á plánetunni okkar hafa áreiðanlega spilað þar inn. Seinustu mánaðarmót og dagarnir kringum þau buðu reyndar ekki upp á MR-hitting. Þess í stað fór ég í stutta og skemmtilega ferð til Skotlands og Englands, á hljómleika og sýningar, og ég bað jarðskjálftahópinn minn vinsamlegast að sjá til þess að skjálftarnir sem voru þá byrjaðir, mundu hætta áður en ég kæmi heim aftur. Völd þessa hóps eru augljóslega engin. Heim komin setti ég í snatri upp vatnslitasýninguna mína, sem ég tók niður í fyrradag og eftir yndislega opnun var einn árviss viðburður á dagskrá hjá mér. Kannski það eina sem var á réttum tíma og tók venjulegan (góðan) tíma. 

Var að velta því fyrir mér hvort það lengdi mánuðinn eitthvað að ég var búin að segja upp vinnunni minni, eins og ég nefndi í seinustu færslu. Var sem sagt farin að vinna uppsagnarfrestinn. Það skekkir þá mynd að ég sagði upp fyrir 7-8 vikum þótt uppsagnarfresturinn hæfist ekki fyrr en fyrir liðlega mánuði, sem sagt m.v. mánaðarmót. Mín reynsla hefur líka yfirleitt verið sú að að uppsagnarfrestur er allt of fljótur að líða, einkum fyrir fólk eins og mig, sem langar að klára svo margt áður en það fer. 

Böndin berast því að því sem eru ytri aðstæður fyrir mig, en snerta annað fólk svo hræðilega djúpt. Fólkið sem beið eftir að jarðskjálftum linnti en fékk þá bara verri, beið þess að líf þess á flótta undan náttúruöflunum reyndist bara vondur draumur. Og enn frekar fólkið á Gaza-svæðinu sem er statt í miðjum alvarlegum hörmungum sem ekki sér fyrir endann á. En líka fólkið í nærumhverfi mínu sem átti þess ekki kost að velja hvort það hætti í vinnunni sinni eða ekki. Við sem vinnum í sveiflukenndum heimi hugbúnaðargerðar höfum flest orðið vitni að eða upplifað þær skyndilegu sveiflur sem fylgja þessum bransa, en samt er það aldrei auðvelt, þegar niðursveifla á sér stað og fjöldi fólks missir vinnuna. 

Á þá jólaósk heitasta að allt þetta fólk fái sem allra fyrst öryggi og ró í tilveru sína. Og að tíminn þangað til verði fljótur að líða.  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband