Játning: Til er sitt af hverju sem er mikilvægara en að fá (allar) fréttirnar strax

Eins og fleiri Íslendingar er ég hrikalegur fréttafíkill. Forfallin reyndar. En þegar ég frétti það í dag að Guðni Ágústsson hefði sagt af sér þá gerði ég ekki annað tveggja:

  1. Dreif mig út í bíl að hlusta á útvarpið (af því þvíumlíkt var ekki til staðar hjá okkur í Myndlistaskólanum í Kópavogi, þar sem ég mála eins oft og ég get) eða
  2. Æddi heim í tölvu eða annan fréttamiðil.

Nei, ég hélt bara hreinlega áfram að mála.

CIMG4030Veit svo sem ekki hvað hefði gerst ef ég hefði verið búin að frétta af ákvörðun Guðna þegar ég kom úr viðtalinu sem ég var að taka vegna Álftaness sögu áður en ég brá mér í vinnugallann uppi í skóla, hvort ég hefði drifið mig upp í skóla að vinna í myndlistinni eður ei. Það var svo sem ekki eins og ég væri að skrópa í tíma, heldur höfum við sem erum í frjálsri málun vinnuaðstöðu í skólanum fjögur síðdegi í viku og fáum svo kennara til okkar tvisvar í mánuði. Auðvitað ræddum við pólitíkina, en lögðum ekki frá okkur penslana, nei síður en svo, kannski unnuð við af auknu kappi ef eitthvað var. Þetta er lítill og yndislegur heimur sem ég er komin inn í eftir að hafa vanrækt myndlistina í nokkur ár á meðan ég var að ljúka tölvunarfræðináminu.

Ég hef alltaf átt góða að þegar ég hef leitað athvarfs í myndlistarskólum landsins, sem ég geri reglubundið. Aldrei hægt að læra of mikið og þetta hentar mér vel, hitta kennara tvisvar í mánuði (fínan kennara) og vinna vel á milli. Fer reyndar eftir vinnuálagi hversu miklum tíma ég get varið í myndlistinni, en ég hef aldrei litið á mína myndlist sem dund, hobbý eða áhugamál (en myndlist annarra er reyndar ákaft áhugamál mitt). Nei, myndlist er eitthvað sem verður að leggja mikla rækt við, þetta er sífelld æfing, þekkingarleit, líka leit að einhverju sem hvorki flokkast undir æfingu né þekkingu. Þegar ég var lítil var ég það sem kallað var: ,,Flink að teikna", og jú, það var svo sem rétt. En ég lít hreinlega á það sem (oftast ljúfa) skyldu að hlúa að þeim myndlistarhæfileikum sem ég lagði upp með, þróaði, teygði á og togaði í ýmsar áttir, og jafnframt er ég drifin áfram af einhverjum krafti sem ekki er hægt að útskýra en ég veit að margir skilja nákvæmlega hvað ég á við. Mér finnst ég reyndar fara óvenju hægt af stað núna, kannski af því ég hef sniðið mér óvenju þröngan ramma til að vinna innan við (enn sem komið er - og þetta er reyndar ekki líkingamál, en nenni ekki að skýra það).

CIMG4031Mér er hreint ekki sama um afsögn Guðna. Hann hefur lengst af verið nokkuð staðfastur gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og margt í hans áherslum finnst mér hreint og beint og fellur vel við þá jarðtengingu sem hann hefur, þótt aldrei hafi ég kosið Framsókn, eins og segir í spakmælinu. Sárgrætilegt ef Evrópusambandsöflin hafa hrakið hann af vettvangi. Það er líka sjónarsviptir af Guðna af þingi.

Og auðvitað er myndlistin ekki það eina í lífinu sem er mikilvægara en að fylgjast með fréttunum. Fjölskyldan mín góða og nánustu vinirnir skipta svo miklu meira máli en jafnvel þær efnahags- og stjórnmálahamfarafréttir sem ég límist stundum við.

CIMG4051aMyndirnar sem fylgja eru sýnishorn af þeirri braut sem ég er að feta, hægum skrefum, þessa dagana. Módelmyndin er fullgerð (nema ég ákveði annað ;-) en hinar síður en svo (bollarnir virðast til dæmis absúrd, en þetta er bara byrjun á ákveðinni pælingu) - og ættu svo sem ekki að fara í umferð - en svona er þetta bara, núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda litla

Mér finnst nú að það hefðu einhverjir aðrir átt að segja af sér en hann Guðni Ágústson.

Skal alveg viðurkenna það að ég á eftir að sjá eftir honum.

Eigðugóðan dag Anna mín.

Linda litla, 18.11.2008 kl. 08:44

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Æðislegar myndir!!! Þú er sannarlega enn "flink að teikna" eða "listræn" (arg, óþolandi orð). Ég kaus Framsókn þegar ég bjó hér á Skaganum í kringum 1980 og ansi góðar konur í framboði, önnur var Ingibjörg Pálmadóttir síðar heilbrigðisráðherra, karl vissulega í fyrsta sætinu ...

Mun sakna Guðna og líka Bjarna Harðar, báðir skemmtilegar týpur sem settu svip á þingið. Ég er rosalega hrædd við að fólk gleypi Evrópusambandsáróðurinn hráan og átti sig ekki á því að margir þeirra sem mærðu útrásina sem mest hafa fundið sér nýtt áhugamál ... eða að innganga þangað sé það besta fyrir þjóðina. Held að Evrópusambandið sé ekkert alslæmt en það er vissulega ekki jafngott fyrir okkur og t.d. hið sterka Bretland að vera þar innandyra. Fulltrúi okkar fengi ekki, skv. lögum þess, að standa vörð um hagsmuni Íslands, hann yrði að hafa hagsmuni sambandssins í fyrirrúmi ... og ef það hentar sambandinu vel að veiða fisk á Íslandsmiðum þá er líklega ekkert við því að gera ...Páll Pétursson, sá mæti Framsóknarmaður, sagði mér í viðtali einu sinni þar sem hann m.a. minntist á andstöðu sína við Evrópusambandið að það versta væri að innganga í það væri óafturkræf! Evrópusamvinnan hefur þó vissulega gefið okkur skemmtileg frumvörp sem hafa farið í gegnum þingið eins og uppáhaldið: Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum. Algjör snilld.

Guðríður Haraldsdóttir, 18.11.2008 kl. 15:18

3 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Impressive!   Send me one!   :)

Baldur Gautur Baldursson, 18.11.2008 kl. 18:01

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Reyndar er ég að komast vel á skrið, bæði í umræðunni sem brennur á mér (ESB) og myndlistinni, þannig að það er rosalega gaman að lesa það sem þið skrifið. Sammála, það eru sannarlega ýmsir sem frekar hefðu mátt missa sig úr pólitíkinni en Guðni (og Bjarni reyndar) og nú vantar aldeilis að taka góða rispu á ESB umræðu og myndlist.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 18.11.2008 kl. 21:04

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Heyrðu Gurrí! Þetta er annars snilldarhugsun hjá þér, og mikið rosalega er ég hrædd um að þú hafir rétt fyrir þér: ,,[fólk] átti sig ekki á því að margir þeirra sem mærðu útrásina sem mest hafa fundið sér nýtt áhugamál ... eða að innganga þangað sé það besta fyrir þjóðina"

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 19.11.2008 kl. 02:59

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband