Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Þetta þarf að verða að lögum sem fyrst - fylgjumst grannt með hvort og hverjir verða á móti

Ríkisstjórnin er búin að samþykkja að leggja fram mikilvægt frumvarp um skattlagningu arðs í skattaparadísum og vonandi ber alþingi gæfu til þess að samþykkja það hið allra fyrsta. Það er auðvitað með ólíkindum að þessi lög, sem eru hliðstæð lögum í nágrannalöndunum, skuli ekki hafa verið í gildi hér á landi. Þetta er eitt af mörgum skrefum sem þarf að stíga í átt til meiri jöfnuðs og réttlætis. Lagaumhverfið í landinu er greinilega fáránlega rýrt þegar kemur að réttlæti í því að bera sameiginlegu byrðarnar.
mbl.is Tekið á skattaparadísum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara pólitík ... smá tónlistarsagnfræði: Kinks á Íslandi 1965, ásamt Tempó og Bravó

Á síðu Dr. Gunna á Eyjunni og áður hjá Agli Helgasyni er að finna tengil á upptöku frá tónleikum Kinks í Austurbæjarbíói. Þetta er tónlistarsagnfræði af bestu gerð og þar að auki staðfestir þetta myndband það sem mig minnti, þetta voru ótrúlega flottir tónleikar. Trúi því varla að þetta hafi verið árið 1965, það merkir nefnilega að ég hef ekki verið nema 13 ára í æpandi mannhafinu sem sótti tónleikana, fékk meira að segja sæti frekar framarlega, þannig að ef þið sjáið stelpu með sítt hár, topp og svört ,,Manfred Mann" gleraugu - austarlega í salnum (fyrir ykkur sem eruð áttvís í Reykjavík) á ca. 7.-8. bekk, þá gæti það verið ég, en hef ekki leitað af neinu viti.

YouTube býður ekki uppá að fella þetta myndskeið inn í aðrar síður en hér er tengillinn og njótið vel:

http://www.youtube.com/watch?v=t3oe0k9KyOA 

 


Forvalsbæklingur VG í Reykjavík kominn á vefinn

Forvalsbæklingur VG í Reykjavík er kominn á vefinn. Þar er kynning á öllum 32 frambjóðendum VG í Reykjavík (þar af innan við þriðjungur konur). Þar er einnig kynning á forvalsreglum og fyrirkomulagi. Eins og ég hef þegar nefnt þá stefni ég á toppinn í þessum frábæra félagsskap. Það er hægt að skrá sig í VG í Reykjavík alla næstu viku fram á föstudag. Allir geta skráð sig í Reykjavíkurfélagið ef þeir vilja, án tillits til búsetu, en þeir geta auðvitað ekki kosið nema í einu kjördæmi.

Bæklingurinn er á þessari slóð og hægt að skoða hann sem .pdf skjal: http://www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/3924


Nýr seðlabankastjóri á morgun, hægir á verðbólgu, gengið að styrkjast og næsta vaxtaákvörðun vonandi í rétta átt

Sú lamandi tilfinning sem flestir fundu fyrir þegar á vikunum fyrir jól, að ekkert væri verið að gera til að koma efnahagsmálum aftur á réttan kjöl var án efa einnig ein helsta undirrót búsáhaldabyltingarinnar sem varð þegar þing kom saman eftir áramót. Þá var illur grunur staðfestur, fátt hafði verið gert, ef eitthvað þá var það ekki upplýst og ekkert stóð til að gera annað en ræða brennivín og tóbak á alþingi eftir jólaleyfið.

Loksins þegar ný ríkisstjórn tók við, eftir smá upphlaup Framsóknar, voru ermar brettar upp, ákvarðanir teknar og nú erum við að byrja að sjá bjartsýnina koma til baka. Bjartsýni sem svo sárlega hefur vantað. Reyndar þykir bjartsýni virðulegri undir dulnefninu ,,jákvæðar væntingar" en niðurstaðan er sú sama, hjólin fara að snúast á nýjan leik, lamað kerfi hins opinbera og einkageirans fer að þora að setja verk af stað og búa til vinnu handa fólki. Stofnanir þora að fara að taka á vandanum sem hlaðist hefur upp í aðgerðarleysismókinu.

Það eru til lausnir á jafnvel erfiðustu málum, en þær finnast ekki meðan setið er með hendur í skauti og beðið eftir kraftaverki eða kollsteypu.


Verðtryggingin

Steingrímur J. er kominn í fjármálaráðuneytið og hann hefur haft hugrekki til að setja spurningamerki við verðtrygginguna, sem er að leika marga grátt um þessar mundir. Það eru ekki bara fórnarlömb myntkörfulána sem hafa farið illa á hækkunum lána, verðtryggð innlend lán hækka og hækka. Vitanlega er bent á hina hliðina á málinu, eigendur fjárins, þá sem spara, lífeyrisþega og lífeyrissjóðina, og í venjulegu árferði hafa þau rök dugað til að halda henni áfram. En eins og staðan er núna, þegar fjöldi manns mun ekki geta borgað af lánum sínum tapa allir. Frysting í ár gæti verð fyrsta skrefið og að nota tímann sem skapast til að leita varanlegri lausna. Það er allt hægt ef vilji er fyrir hendi, viljinn er til staðar hjá VG.

Komst inn á gmail, vona að ykkur hinum gangi líka vel

Þá komst ég inn á gmail og ósköp var það gott. Vona að það sé ekki bara tilfallandi, heldur að vandinn sé leystur.

 

 


Gangi þeim vel að koma póstinum okkar upp aftur

Þá er komin skýring á því sem ég var að pirra mig á í morgun, gmail-inn minn er raunverulega niðri, þótt einhverjum hafi tekist að brjótast í gegn, kannski áður en hann hrundi endanlega. Vona að vel gangi að koma þessu upp. Vefþjónustupóstur er orðinn svo snar þáttur í lífi velflestra að svona árás eða tæknivandamál (ekki ljóst um hvort er að ræða þykist ég vita) er alltaf bagaleg. Mér er enn í fersku minni þegar hotmail lagðist á hliðina í heila þrjá daga í febrúar 2001. Ástæðan er sú að ég var að snurfusa handrit að sögu Sandgerðis (sem dregist hefur að gefa út þannig að á endanum var ég beðin bæta nokkrum árum við það - en það er önnur saga). Og þar sem ég var stödd úti á Kanaríeyjum þegar ég taldi mig vera búna að fínpússa handritið, þá kom sér illa að geta ekki sent það gengum hotmail frá eina netkaffi Ensku strandarinnar sem þá var starfandi. Sem betur fór var ég með annað netfang hjá strik.is en það var talsvert hæggengara á þeim tíma, en sendingin tókst á endanum og eftir þrjá daga var hotmail aftur komið í lag.
mbl.is Gmail þjónustan liggur niðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gmail er úti - veit einhver eitthvað um málið?

Gmail er úti núna - næst ekkert samband við þessa annars frábæru þjónustu google, tölvupóstfangið sem ég hef lengi notað sem mitt aðal póstfang. Eins og venjulega var ég búin að senda fyrirspurnir og sjálfri mér minnispunkta og gögn í þetta netfang, en ég minnist þess ekki af nokkurra ára kynnum við gmail að hafa lenti í einhverju af þessu tagi. Veit einhvern eitthvað um málið, hef ekki séð neinar tilkynningar á netinu, en reyndar ekki leitað ýkja mikið.


Hverjir eru sérfræðingarnir? Þessir með torskildu titlana eða þeir sem eru með hugmyndirnar og reynsluna?

Ég hef aldrei talað við manneskju sem vinnur í heilbrigðiskerfinu sem ekki hefur lumað á einu eða fleirum sparnaðarráðum. Og núverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, á án efa eftir að leita í þann sjóð til að finna sparnaðarleiðir - þess vegna er svo mikilvægt að hann fái að halda áfram í þessu mikilvæga ráðuneyti, sem hann er í en heldur varla nema VG bæti við sig fulltrúum í öllum kjördæmum. Ögmundur vill nefnilega ekki vinna 1. sætið í suðvesturkjördæmi eins og seinast, heldur annað sætið og fá Guðfríði Lilju í fyrsta sætið, sem er flott. Til að þetta geti orðið er einfalt að grípa til ákveðinna aðgerða - skrá sig í Vinstri græn, taka þátt í forvali vinstri grænna og skila VG þeim 20-35 prósentum atkvæða sem stemmning virðist fyrir! Góð útkoma í næstu kosningum skilar Vinstri grænum í sterka stöðu eftir kosningar í stjórnarmyndun.

Það er plagsiður að forðast eins og heitan eldinn að spyrja þá sem vit hafa á málunum ráða. Flatur niðurskurður, heilög prósentutala yfir línuna er vissulega ,,einföld" aðferð til sparnaðar og útheimtir nákvæmlega enga hugsun. Að tala við fólkið sem stendur í strögglinu að ná endum saman er hins vegar tímafrekt en skilar hins vegar miklu réttlátari niðurstöðu. Þeim tíma og því fé er hins vegar vel varið. Flatur sparnaður sem yfirmönnum er gert að ná fram ,,í hvelli" eins og oftast er gert er bara della, della sem við horfum aftur og aftur uppá. Ekki meir af því, takk!!!! En allar litlu sparnaðarhugmyndirnar sem fólkið með reynslu á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðum luma á, þær myndu enda með að spara milljarða, ef fram næðu að ganga.

Allir tala um nýsköpun eins og eitthvert innihaldslaust töfraorð, enn eina hókus-pókuslausnina. Ég er orðin frekar pirruð á innantómum allsherjarlausnum. Í hugbúnaðargerðhefur verið mikið um nýsköpun, ný atvinnutækifæri og það sem mest er um vert, þarna eru ennþá miklir vannýttir möguleikar. Þar sem ég vann í þessum bransa í næstum sjö ár og fylgdist grannt með því sem þar var að gerast þá langar mig að segja frá því sem hægt er að gera. Ágæt kona, Sigrún Guðjónsdóttir, gerði meistaraprófsritgerð sem snertir þetta og ég mæli með því að þeir sem áhuga hafa trítli upp í Þjóðarbókhlöðu og blaði gegnum ritgerðina. Árið 2005 gerðu Samtök upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) stjórnvöldum tilboð. Það snerist um að gera upplýsingatækni að þriðju meginstoðinni í verðmætasköpun. Konkret tillögur, beint úr greininni, en dauflegar undirtektir stjórnvalda, því miður. Þessar tillögur eru til, þessar tillögur eru í fullu gildi. Almennileg stjórnvöld eru nýtekin við og það verður að gefa þeir meira en þessa 80 daga til að byggja upp nýtt og raunsærra atvinnulíf. Svo ég stikli aðeins á nokkru því sem þarf að bæta og SUT hafa bent á, þá erum við að keppa við þjóðir sem veitt hafa miklu fé (skynsamlega) í þennan málaflokk, en íslensk stjórnvöld hafa daufheyrst við ábendingum um úrbætur. Þetta voru ítarlega útfærðar hugmyndir og má nefna meðal þeirra eftirfarandi:

  • Endurgreiðslu þróunarkostnaðar í stað skattlagningar á greinina.
  • Gengisstöðugleika (hann myndi koma fleirum til góða en þessari grein, eins og við vitum svo biturlega núna).
  • Leggja meiri áherslu á fjölbreytta menntun í hugbúnaðar- og tölvunarfræðum

Í staðinn buðu SUT ekkert smávegis (þó þetta hafi verið árið 2005 þá er fátt af forsendunum sem mælir gegn því að tilboðið sé snjallt) og þótt aðeins helmingur gengi eftir væri það býsna stórt skref. Fáránlegt af því að vita að talað skuli hafa verið að allt of miklu leyti fyrir daufum eyrum - þótt á einhverjar hugmyndir hafi verið hlustað er meginniðurstaðan sú að þessu ,,tilboði SUT" eins og það var kallað - hefur enn ekki verið tekið.

  • Að tífalda gjaldeyristekjur í upplýsingatækni frá 4 milljónum í 40 milljarða
  • Að fjölga starfsmönnum um 3000 og þar af 2000 ný störf 
  • Að auka hlutfall staðlaðs hugbúnaðar sem þróaður væri af íslenskum fyrirtækjum
  • Að stórauka hýsingu á Íslandi fyrir erlend fyrirtæki   

Ef við lítum lengra inn í framtíðina og reynum að sjá fyrir þróun tölvuumhverfis þá erum við komin inn á fræðasvið sem var efni í minni meistaraprófsritgerð - þar var ekki hægt að styðjast við reynslu en hins vegar eru frjóar og freskar hugmyndir um þróun mála á kreiki og þær þurfum við að þekkja. Hér og nú eru hugmyndir SUT þær sem þarf að bregðast við. Síðan tökum við næstu skref og byggjum upp alvöru nýsköpun, ef við berum gæfu til að leita að hugmyndum og þora að framkvæma þær. Til þess þurfum við stjórnvöld sem þora, vilja og geta!


 


Málefnaleg Evrópusambandsumræða á Café Rót í dag - og áframhalds má vænta hjá mörgum góðum bloggurum

Fundur Heimssýnar á Café Rót í dag var fróðlegur og gott dæmi um þá málefnalegu umræðu sem oft hefur skort í Evrópusambandsumræðunni. Fundaröð Heimssýnar hefur verið haldið úti í því skyni að skapa umræðugrundvöll sem sárlega vantar.

Egill Jóhannsson frummælandi er einn þeirra manna sem ekki hefur gert upp hug sinn varðandi aðild Íslands að ESB og tók það fram í upphafi fundar. Hann hefur hins vegar á bloggi sínu (www.egill.blog.is) spurt áleitinna spurninga varðandi þá umræðu sem upp gaus í haust í kjölfar efnahagshrunsins þegar sumir töldu að nú ætti að nota tækifærið og drífa Ísland, umræðu- og gagnrýnilaust inn í ESB og taka upp evru hið snarasta til að ,,redda öllu" (allir sem til málsins þekkja vita að við uppfyllum ekki þau skilyrði sem eru fyrir upptöku evru innan ESB svo það út af fyrir sig var marklaus umræða).

Umræðan í dag var svo yfirgripsmikil að ég ætla mér ekki þá dul að endursegja fundinn, eins og mig hefði langað. Þess í stað vísa ég til góðs efnis á blogginu, bæði þess sem Egill hefur skrifað og aðrir sem þátt tóku í umræðunni í dag. Þar ber fyrstan að nefna Gunnar Albert Rögnvaldsson sem búsettur hefur verið í Danmörku og bloggar undir yfirskriftinn: Tilveran í ESB. Hans blogg er að finna á þessari slóð: http://tilveran-i-esb.blog.is/ - á blogginu hans er einnig að finna ýmis gögn um veru Danmerkur í ESB og fleira sem eiginkona hans, Sigrún Guttormsdóttir Þormar hagfræðingur ræddi um við okkur fundargesti eftir fundinn, en þá hélt áfram líflegt spjall meðal fundagesta. Loks má nefna að enn einn fundargestur og þungavigtarmaður í Heimssýn, Bjarni Harðason, bloggar oft um ESB á bloggi sínu, www. barnihardar.blog.is þó ég sé nú ekki sammála þeim vangaveltum sem bærast í huga hans nákvæmlega í dag um Evrópusambandsmálin og VG. Miklu bjartsýnni en hann á að VG haldi við þá stefnu sem fylgt hefur verið í ESB málum fram til þessa. 

ESB-umræðan er í nokkrum dvala núna en hins vegar getur hún blossað upp hvernær sem er og umræðan er enn skammt á veg komin á Íslandi. Egill Jóhannsson lýsti þeirri skoðun sinni á fundinum í dag að líklega ættum við Íslendingar 10-15 ára verk fyrir höndum til að sinna þessari umræðu af einhverju gagni.

En núna eru það lausnir í efnahagsmálum sem eru mér efst í huga, það er mál sem brennur á öllum þessa dagana og sem betur fer er umræðan frjórri en svo að einblína bara á einhverjar hókus-pókus aðferðir, hvort sem eru ESB-innganga eða aðrar. Í næstu bloggum er röðin komin að þeirri umræðu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband