Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2023

Er húmorsleysi glæpsamlegt?

Þegar ég var 16-17 ára og skrapp að heilsa upp á gamlan uppáhaldskennara á kennarastofu gamla gaggans míns (þetta orðalag skilur fólk á mínum aldri) lenti ég í orðaskaki við annan kennara í fjarveru þess rétta. Efnið var hvort húmorsleysi væri hættulegt eða jafnvel glæpsamlegt, eða ekki. Auðvitað gáleysistal ungs beturvitrungs sem var að reyna að slá næstum miðaldra kennara út af laginu. Ég var sem sagt sú sem hélt því fram að húmorsleysi væri hættulegt ef ekki glæpsamlegt. Hann reyndi að tala um fyrir þessari harðbrjósta unglingsstelpu. Seinna kom reyndar í ljós að þessi maður var ekki sérlega vandaður pappír, en það vissi ég ekki þarna. Húmorslaus eða -lítill hefur hann þó alla tíð verið. 

Datt þetta í hug út af dálitlu í kvöld og þá rifjaðst líka upp fyrir mér alveg yndisleg ritdeila sem ég lenti í í norskum hannyrðahópi á samfélagsmiðli fyrir nokkrum misserum. Þessi hópur gaf sig út fyrir að hafa auga fyrir húmor í hannyrðum og það fannst mér spennandi. En þarna, af öllum stöðum, lenti ég sem sagt algerlega óvart í harðri ritdeilu við sjálfskipaðan hrútskýrara um óleysta stærðfræðiþraut (ekki handavinnuna), en ég hafði vogað mér að sauma útsaumsverk út frá ferli þessarar stærðfræðiþrautar, sem byggð er á glæru skólabróður míns úr tölvunarfræðinni. Og mér fannst það náttúrulega mjög fyndið.  

Henti mér auðvitað í snatri út úr þessum hópi og átti ekki orð yfir fáránleika málsins. Þetta var hannyrðahópur! Á ekki ýkja skarpa mynd af útsaumsverkinu og frummyndin er geymd á góðum stað svo ég birti bara mynd af tveimur gleðigjöfum á pöbb í Englandi í staðinn. 

65908469_10219648851470276_2126216829671047168_n

Því miður henti ég mér út úr hópnum áður en ég var búin að finna réttu greinina sem sýndi svo ekki var um villst að þar að auki hafði ég rétt fyrir mér varðandi þrautina og hann alrangt. Sá smá eftir því að hafa verið svona bráðlát ... en veit ekki hvort hinir Norðmennirnir í hópnum hefðu haft húmor fyrir því. Aftur á móti voru mínir vænu FB-vinir ábyggilega sammála mér ef ég hef haft rænu á að segja þessa furðusögu þar, sem mér þykir líklegt. 

Skil svo þessa spurningu eftir hjá ykkur, kæru blogglesendur mínir, og efast ekki um að þið eruð bæði mildari og mun síður dómhörð en ég.  


Emmmmm Errrrrrr

Er að fara í gegnum bókasafnið okkar Ara míns og reyndar líka hluta safns foreldra minna. Grisja, henda í endurvinnslu, gefa þær sem hægt er. Hef ekki numið staðar við margar bækur til þessa, enda gengi þá hægt, en í kvöld fletti ég í fyrsta sinn í fjórða bindinu af sögu Menntaskólans í Reykjavík, skólans míns. Kom mér á óvart hversu margar myndir voru kunnuglegar, m.a. fær minn bekkur, nýmáladeildin, tvær myndir af sér, sem er stórmerkilegt miðað við hversu stór árgangurinn var (meira en 300 sálir sem útskrifuðust). Það var samt ekki bekkjarmynd sem greip athyglina heldur mynd frá skemmtilegum dögum milli jóla og nýárs þegar við vorum að skreyta Laugardalshöllina fyrir áttadagsgleðina.

unnamed (6)

 

Þetta var eftirminnilegur desembermánuður í lífi mínu, 1970. Rétt fyrir jól kom ég heim eftir hálfs árs dvöl í Englandi, 18 ára unglingurinn, og fékk náðarsamlegast að setjast aftur á skólabekk í MR, meira að segja hjá Guðna kjafti, sem talinn var strangur. Það var ekkert sjálfgefið að ég yfir höfuð kæmi heim frá Englandi, þar voru að opnast ýmis tækifæri. Mér bauðst til að mynda að gerast gluggaskreytingamanneskja í tískuvörukeðjunni Gypsy, sem þá var með fjölda búða í London, og æ síðan hef ég flakkað á milli þeirrar hugsunar að þetta hefði verið frábært skref í mínu lífi og yfir í að spyrja sjálfa mig hvað ég hefði verið að hugsa. Kathy hin írska, sem ég leigði hjá, vildi ólm koma mér í au-pair starf í úthverfi Lundúna, mikið held ég að það hefði verið ömurlegt, lítið kaup og ekkert frí. Ég gerði henni það til geðs að hitta fjölskylduna og mikið rosalega hljómaði starfslýsingin eins og þrælahald, þótt fólkið virtist pent og prútt. Vinur minn (sem hélt hann væri kærasti minn) vildi senda mér lestarmiða til borgarinnar sinnar við Miðjarðarhafið fyrir jólin og ég held að meiningin hafi verið að ég færi ekki til baka. Hef alltaf haft vonda samvisku yfir að hafa ekki svarað bréfunum hans. Of seint núna, ítarlegt gúggl löngu seinna sagði mér að hann hefði dáið árið 1983, þá orðinn háskólakennari og með dómararéttindi. Þess í stað þáði ég flugmiðann sem mamma sendi mér fyrir jól. Hún hafði heimsótt mig í október og séð að ég var ekkert í neinu rugli, annars hefði ég eflaust verið sótt fyrr, ef það hefði verið hægt. 

unnamed (5)

Það var ótrúlegt að koma aftur í áhyggjuleysi menntaskólaáranna og allt fjörið í MR. Vissulega tók ég ekki þátt í öllu sem þar fór fram, datt ekki í hug að sækjast eftir því að komast á fiðluböllin frægu, sem byrjuðu um þetta leyti og kannski segir það mest um minn ,,stíl" að ég var yfirleitt spurð hvort ég væri ekki í Hamrahlíð, þar sem hippalegri nemendur héldu sig. MR leyndi samt á sér. Þar var frábært starf á vegum Listafélagsins, miðvikudagskvöldin þegar Sverrir Haraldsson leiðbeindi okkur myndlistaráhugafólkinu, upp á kók og prinspóló. Hann var gefandi kennari. Ég tók þátt í öllu sem viðkom myndlist, þess vegna var ég rétt nýkomin til landsins farin að skreyta Laugardalshöllina, rétt eins og um vorið áður en ég fór til Englands og við í Herranótt höfðum Háskólabíó til umráða vikum saman (fram að bíósýningum dag hvern). Ég vann í leikmyndinni og var meira að segja dregin í að sminka aukaleikara fyrir sýningar. Lærði textann í Lýsiströtu næstum utanbókar, þótt ég væri ekki (og vildi ekki vera) í hópi leikaranna. 

Í einu orði sagt, MR var ævintýraheimur okkar ótal margra sem vorum í námi þar á þessum árum. Þótt hálfa árið mitt í Englandi hafi verið mun lærdómsríkara en árin þrjú og hálft í menntó, þá var bara svoooo gaman að vera menntaskólanemi sem þurfti enga ábyrgð að taka (nema að ná prófum á milli ára).  


Þegar sólin sest í jökulinn og önnur sólarlög

Tvisvar á hverju ári bíðum við Álftnesingar spenntir eftir að sjá sólina setjast í Snæfellsjökul. Ekki efa ég að þetta sé tilhlökkunarefni fleira fólks á Suðvesturlandi. Við þykjumst samt eiga sérlega mikið í þessum viðburði, þar sem einstakt útsýni er af nesinu til jökulsins, ef skyggni leyfir. Það er auðvelt fyrir mig að muna hvenær ég á að eltast við þennan viðburð. Að vori kringum afmæli dóttur minnar og síðsumars nálægt afmæli eiginmannsins.Þetta árið hef ég ekki gripið augnablikið, hvort sem skýjafari var um að kenna eða öðru, en meðfylgjandi mynd er frá nýliðnu ári eða því næsta á undan. 

unnamed (4)

Það er ekki þar með sagt að við njótum ekki sérlega fallegs sólseturs alla jafna. Síminn minn finnur 1136 slíkar myndir í svipinn og flestar eru einmitt útsýnið af Álftanesi. Í gær var eitt slíkt kvöld og ,,ófært" heim vegna fegurðar, nokkur myndatökustopp áður en ég komst í áfangastað, heim. 

366350709_232736433064586_8025292177172625391_n


Búin að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór

Það eina sem ég hef engan húmor fyrir og tek gríðarlega alvarlega, af því sem ég hef fengist við, er myndlistin. Hún er ekki hobbí, heldur lífið sjálft. Mundi til dæmis aldrei spyrja heittrúaða manneskju hvort það væri nú ekki gaman að hafa trúna sem hobbí. Legg þetta svona á vissan hátt að jöfnu. Samt hef ég bæði valið að verða ekki myndlistarkona (þá var ég 22 ára) og jafnframt sinnt þessari köllun af miklum móð og talsverðri elju. 

mhi

Þetta merkir sannarlega ekki að ég sinni ekki öðru af mikilli ánægju. Flest störf sem ég hef fengist við (meira að segja uppvask í þremur löndum) hafa verið mjög skemmtileg. Seinustu tvo áratugina hef ég verið í ýmsum hlutverkum í hugbúnaðargerð og nýt þess í botn, einkum félagsskaparins við þá vinnufélaga mína sem ég get flokkað sem sam-nörda. Datt inn í pólitík um hríð og fannst ég gera gagn. Skriftir hafa alltaf verið mín ástríða, hvort sem er umfjöllum um þing meltingarlækna, snobb, Grýlurnar eða sögu Álftaness. Glæpasagnaskrif seinustu ára (tvær bækur og ein gáta í glæpa-appi komnar út nú þegar) eru nákvæmlega það sem mig dreymdi um að gera þegar ég færi á eftirlaun, sem ég gerði um stund og mun gera aftur. EN - nú er ég búin að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór. Taka til baka ákvörðunina sem ég tók þegar ég var 22 ára og gerast myndlistarkona. 

242103043_10226749247655743_6750454971589571632_n (1)

Eitt skrefið á þeirri leið er að ég er að byrja að setja myndirnar mínar í vefgalleri Apollo Art og líst mjög vel á þann vettvang. Eldri málverk og nýrri myndir, aðallega vatnslitir, í bland, nú þegar eru sex myndir komnar inn og undir lok mánaðarins verða þær orðnar 14. Það fer svo eftir undirtektum hvort ég bæti við myndum og þá hvers konar. Lífsverkið fram til þessa er æði stórt og bætist hratt við. Fleiri nýlegar vatnslitamyndir byrja að koma inn í lok vikunnar og enn fleiri fyrir mánaðarmótin. Svo eftir enn eina einkasýningu í nóvember set ég ef til vill eitthvað óselt af þeirri sýningu inn. Allt fer þetta eftir áhuga þeirra sem skoða, en á þessum vef er fjöldi góðra verka og ég bæði í góðum félagsskap og harðri samkeppni. Það er bara gott. 

https://apolloart.is/collections/anna-olafsdottir-bjornsson

v uppvaskið - olía á striga - millistor


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband