Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Fylgst með úr fjarlægð og ævisaga Elfu Gísladóttur

Þegar ég var á leið Keflavíkurveginn um daginn áleiðis til móts við flugið sem bar mig hingað til Bandaríkjanna hlustaði ég á seinustu þingmennina gera grein fyrir atkvæði sínu varðandi ESB-aðildarumsókn, mál sem mér finnst það stærsta sem íslensk stjórnvöld hafa glímt við að undanförnu. Samfylkingin, sem sótt hefur aðildarviðræður hvað harðast, hafði naumlega betur í þeirri viðureign.

Síðan hef ég fylgst með á færi, fyrst með ESB-málunum, síðan Icesave og reyndar ýmsu öðru. Mér finnst af einhverjum ástæðum enn einkennilegra að vera stödd hér í Bandaríkjunum núna en það var í október síðastliðinn, þegar bankahrunið varð, en þá var ég líka hér vestan hafs.

Hins vegar er þessi ferð mín hingað til Washington-fylkis, rétt norðan við Seattle, hið besta mál. Ég er að skrifa ævisögu Elfu Gísladóttur leikkonu með meiru, sem rekur öfluga menningar- og listastarfsemi í héraðinu norðan við Seattle. Það hefur ekki gengið átakalaust fyrir hana að fá öll leyfin fyrir starfseminni, en hún hefur haft sigur í baráttunni við yfirvöld, dýran að vísu, en hún er baráttujaxl.  CIMG3708

 


Atkvæðagreiðslan um ESB-aðildarumsókn á morgun - valkostir í atkvæðagreiðslu fyrir þingmenn

Baráttan gegn ESB-aðildarumsókn er að ná hámarki, hvort sem okkur ESB-andstæðingum líkar betur eða verr. Var að fá smá facebook-pælingu sem mér finnst rétt að fara aðeins í gegnum:

Mgi langar að kortleggja og lesa aðeins í möguleikana sem þingmenn hafa til að segja hug sinn á morgun. Tel hjásetu ekki með, þótt hún hafi verið iðkuð í EES-samningnum:

1. Með breytingartillögu - hún felld - móti aðildarumsókn.

2. Með breytingartillögu - hún felld - með aðildarumsókn.

3. Móti breytingartillögu - hún felld - móti aðildarumsókn.

4. Móti breytingartillögu - hún felld - með aðildarumsókn.

5. Með breytingartillögu - hún samþykkt - móti aðildarumsókn.

6. Með breytingartillögu - hún samþykkt - með aðildarumsókn.

7. Móti breytingartillögu - hún samþykkt - móti aðildarumsókn.

8. Móti breytingartillögu - hún samþykkt - með aðildarumsókn.

 

Ég ætla ekki að raða þingmönnum á þessa bása að svo stöddu. Hef samt grunsemdir, en ekkert er víst í þessum efnum nema að Samfylkingin mun eflaust raða sér öll á bás 4 eða 8 eftir því hver örlög breytingartillögunnar yrðu.  Ef ég sæti á þingi núna myndi ég væntanlega kjósa nr. 1 eða 5.

Er í þeirri undarlegu stöðu að vera að fara utan á morgun en mun fylgjast með atkvæðagreiðslu, umræðu, eða hverju því sem verður í gangi þar til ég fer í flugið síðdegis. 

 

 

 

 

 


Erfitt verk fyrir höndum að bjarga heilu þjóðfélagi - eyðum ekki tímanum í ESB-vitleysu

Við eigum erfitt verk fyrir höndum að bjarga heilu þjóðfélagi og það er vandaverk. Enn er ég sannfærð um að hæfileikaríkara fólk að upplagi en fulltrúa vinstri grænna eigum við ekki til að sinna því verki, en leiðir stjórnmálanna eru sannarlega dularfullar og tengsl Icesave og ESB-málsins eru þess eðlis að ég tel að enn séu ekki öll kurl komin til grafa. En eitt svíður mér sárt, að á þessum tímum skulum við vera að eyða tíma, peningum og orku fólks, sem ætti að fá frið til þess að bjarga samfélaginu, í ESB-vitleysu. Er það í raun og veru satt að Samfylkingin sé með hótunum að þoka þessu máli, sem alþjóð vill alls ekki að gangi fyrir björgun samfélagsins okkar, yfir á næsta stig, með hlutaðeigandi peningaaustri, orkusóun (fólks) og tímasóun?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband