Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Vísir að sögulegum viðsnúningi Samfylkingarinnar gagnvart ESB?

Las á vef ríkisútvarpsins áhugaverða frétt um ferð Ingibjargar Sólrúnar til Afríku. Meðal þess sem þar bar á góma er sá áhugi sem hún skynjaði meðal Afríkuríkja á framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Nú er ég með nokkra varnagla varðandi það framboð, einkum vegna þess að mér hefur þótt ríkisstjórn Íslands of mikill taglhnýtingur Bandaríkjamanna í utanríkismálum og mér finnst ekkert fengið með því að fjölga atkvæðum Bandaríkjanna í þvísa ráði. En hins vegar þótt mér eftirfarandi hluti fréttarinnar einstaklega fróðlegur:  

,,Ingibjörg Sólrún segir að sér virðist sem talsverður stuðningur sé við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna meðal Afríkuríkja. Að sögn Ingibjargar er stofnun sambandsríkis Afríku mikið rædd á fundinum. Ástæðan sé sú að ráðamenn í Afríku vilji láta meira að sér kveða á alþjóðlegum vettvangi. Þar sem að margir telji nú nauðsynlegt að Afríka verði einhvers konar mótvægi við Bandaríkin og Evrópusambandið geti það verið kostur fyrir Ísland í baráttunni um sæti í öryggisráðinu að vera utan Evrópusambandsins."

Ég hef reyndar ekki farið dult með þá skoðun mína að það skapi Íslandi margfalt fleiri tækifæri á alþjóðavettvangi að standa utan sambandsins en innan. Hins vegar verð ég að vona að skilningur fréttamanns ríkisútvarpsins, og minn á frétt RUV, sé réttur að hér örli á skilingi einnar helstu þungavigtarmanneskju Samfylkingarinnar á tækifærum Íslands utan ESB. Mikið væri þá gaman að lifa. 


Fátt um fínar gúrkur

Það stefnir í uppskerubrest í gúrkutíðinni, því sannar fréttir yfirskyggja alveg hinar hefðbundnu gúrkufréttir þessa árstíma. Þótt sumt sé kannski eins og endurtekið efni (dómur fallinn í Baugsmálinu, deja vu) þá eru bara allt og margar þungavigtarfréttir af stóriðjuáætlunum, virkjanaframkvæmdum, umferðarafbrotum, bönnuðum einkadönsum, nýrri stjórn í Englandi (mestmegnis) og ýmsu fleiru ... til þess að við fáum að vita nokkuð um horfurnar í gúrkuræktinni. Og svo er veðrið bæði himneskt (hér) og harðneskjulegt (þar) og spennandi að finna út hvernig restin af sumrinu verður. Má ég koma með pöntunarlista stórfrétta:

  1. Fallið verði frá frekari stóriðjuframkvæmdum, það mætti til dæmis kalla þá frétt. Stóriðjustopp. Hugsið ykkur fyrirsagnirnar!
  2. Bandaríkjamenn og aðrar viljugar þjóðir dragi herlið sitt frá Írak og alþjóðasamfélagið veiti fé og stuðningi í uppbygginguna þar.
  3. Raunverulegt vopnahlé verði samið í Mið-Austurlöndum og friðsæl framtíð Palestínu tryggð.
  4. Vitundarvakning gegn ofsaakstri skili slysalausu sumri.
  5. Launakönnun í lok sumars sýni að launamunur kvenna og karla á Íslandi sé úr sögunni.
  6. Aukin eftirspurn verði eftir störfum á Landspítalanum vegna góðrar launahækkunar, einkum í núverandi kvennastéttum.
  7. Langtímaveðurspá sýni gott veður um allt land í allt sumar.
  8. Hugbúnaðarfyrirtækjum og garðyrkju verði veitt sömu kjör og fyrirgreiðsla á Íslandi og stóriðju (þetta er gúrkufréttin, gróðurhúsin gera íslenskar gúrkur þær samkeppnishæfustu í Evrópu).

Ykkur er velkomið að bæta við ...  

 


Blogg og ritmál

Þetta er smá manifesto (stefnumarkandi texti frá mér - hér varðandi blogg): Blogg er ekki ritmál, heldur ritað talmál. Það er alla vega minn skilningur. Þess vegna blogga ég eins og ég tala. Stundum finnst mér textinn minn óttalega þvælulegur, stundum heiðskýr, rétt eins og ég tala stundum af innlifun og öryggi, en fikra mig stundum í gegnum setningarnar. Ef blogg væri eitthvað annað í mínum huga en skrifað rabb, þá myndi ég ekki nenna að blogga.

Fyrir manneskju sem alla tíð hefur borið mikla virðingu fyrir rituðu máli þá þurfti þrotlausa ögun og hugarfarsbreytingu til að tileinka sér þetta viðhorf. Mikla sjálfsstjórn til að ráðast ekki á allan textann og endurskrifa nánast frá grunni, stytta, snyrta, lagfæra, hugleiða inntakið og orðaröðina, skipta út óviðeigandi orðum, bara allt! Mikil þjálfun í glósum hjálpaði, msn agaði mig í spontant tjáningu með puttunum en enn stend ég mig í að breyta, leiðrétta aðeins og hnika til, þess vegna stendur svo oft ,,Breytt s.d. (sama dag)"  fyrir neðan textann minn ;-) en þetta er allt að koma.  

 


Trúarumræður í sjónvarpinu

Líklega er ég ekki nógu áhugasöm um þá trú sem ég þó þykist eiga til. Alla vega þá er ég alls ekki með á nótunum um hvað þjóðkirkjuprestarnir og Hjörtur Magni fríkirkjuprestur eru að karpa um í endurteknu Kastljósi. Eins og fleiri Íslendingar á ég mjög óskilgreinda trú, finn helst þörf fyrir hana þegar ég þarf að þakka fyrir eitthvað sem mér finnst með ólíkindum gott og hef enga mannlega veru í ábyrgð fyrir því. Sjaldnar, en þó hefur það komið fyrir, á erfiðari stundum. Fer helst í kirkju við jarðarfarir og finnst þær skapa ljómandi ramma um það sem annars myndi kannski bara leysast upp í ráðaleysi eftirlifenda, hvernig eigi að kveðja þann sem er dáinn og hitta þá sem eftir lifa til að votta þeim samúð. Stundum skiptir það reyndar meginmáli að eiga þó þennan menningarlega og fyrir suma (mig stundum) trúarlega ramma. 

Ég er hvorki að afsaka mig eða hreykja mér yfir þessari afstöðu, ég er sátt við að vera svona hálfvolg. Ósátt við afstöðu þjóðkirkjunnar gagnvart samkynhneigðum, sátt við Grétu djákna, Örn Bárð, Birgi Thomsen og Jónu Hrönn og ýmsa aðra presta, ósátt við svartstakka allra trúarbragða. Ég er hrifin af ýmsu sem ég hef hent á lofti í öðrum trúarbrögðum og mér finnst margt fallegt í kristninni en líka ljótt. Hundóánægð með ,,allt þetta fólk sem í gullsölum himnanna gist" en myndi samt þiggja að lenda ekki í ,,annarri vist" (lesið Jón Helgason, eitt snjallasta ljóðskáld okkar, ef þið viljið fá frekari skýringar og þekkið ekki til hvers ég er að vísa). 

Og hvers vegna er ég að skrifa þennan pistil? Jú, mér finnst svo merkilegt að ég, þessi frekar forvitna manneskja um fréttir (meira en fólk) skuli ekki nenna að setja mig inn í þessar umræður um trúmál eða eitthvað annað, þótt mér líki afskaplega vel við það litla sem ég hef haft af Hirti Magna að segja. Heyri utan að mér að það er hægt að telja þessa umræðu persónulega eða um grundvallarmál, en æi, stundum er allt í lagi að setja sig ekki inn í öll mál og kirkjan vekur minni áhuga hjá mér en ýmis grundvallargildi, sem ef til vill mætti segja að trúarbrögð fjölluðu um.


Skin og skúrir (eða él)

Merkilegt að búa á Íslandi. Ekki verður þetta snjólétt sumar, morgunfréttirnar sögðu frá vetrarfærð á Hellisheiði eystri og krapa á Fjarðarheiði. Það er val að fara Hellisheiði eystri en Fjarðarheiði, er ekki Norræna að leggja að bryggju alla miðvikudaga, eða hefur það breyst? En við hverju er að búast í landi sem á orð eins og Jónsmessuhret og grjótfok?

En svo lýstist allt upp þegar ég fékk bæði í sms og á msn að vita að stelpan mín hefði massað stóra efnafræðiprófið sitt, langhæst á prófinu í dag en fyrr í morgun sagði hún á msn að hún bara tryði ekki öðru en að þetta hefði gengið vel. Þetta er skrambi erfitt nám, sem hún valdi sér, læknanám í Ungverjalandi, þar sem hún er ásamt hátt í 40 öðrum löndum sem hafa fundið sér griðastað korteri frá Rúmeníu og klukkutíma frá Úrkraínu. Ég hef oft ástæðu til að vera stolt af krökkunum mínum og þetta er einn af þeim góðu dögum. 


Ég er jafnaðarmaður, sagði Hannes Hólmsteinn í dag

Hannes skólabróðir minn lýsti þessu yfir á Rás 2 í viðtali í dag. Ég sperrti eyrun. Ekki langt síðan Hannes taldi að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur væru svo líkir að þeir ættu að sameinast. Ég skil Hannes reyndar alls ekki alltaf. Hitt er annað mál að hann hefur svo sannarlega rétt fyrir sér að Tony Blair hafi að mörgu leyti verið arftaki Thatcher og því miður held ég að hann hafi talsvert til síns máls að ekki sé svo ýkja langt á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, en það mun einnig hafa í för með sér að margir góðir og gegnir félagar í Samfylkingunni verða færðir lengra til hægri en þeir hafa ef til vill hugsað sér fyrir kosningar. Hins vegar tel ég að hann greini það rangt að andstæðurnar í íslenskri pólitík séu úr sögunni, þvert á móti magnast þær en pólarnir eru vinstri grænar áherslur versus hægri stefna Sjálfstæðisflokks og ríkjandi afla í Samfylkingu. Ég hef ekki hugmynd um hvar Framsókn stendur í þessu nema mig grunar að Bjarni Harðar eigi samleið með okkur vinstri græningjunum.

Verður Íslandi drekkt í skógi ? Virkjanablús 2. hluti

Stóriðja, virkjanir, stóriðja. Það er eins og aldrei áður hafi verið eins mikið kapphlaup um að virkja meira og koma meiri stóriðju á. Öllum brögðum er beitt, forstjórnar mæta með alls konar gylliboð fyrir sveitarstjórnir í meintum virkjana- og stóriðjusveitarfélögum og það nýjasta: Ekkert mál að uppfylla Kyoto, bara að planta 100 milljónum trjáplantna. Skógrækt er ósköp hugguleg en í guðanna bænum ekki drekkja landinu í skógi! Ég er næstum farin að iðrast þess að hafa keypt mér syndaaflausn á volvo-inn minn undir dulnefninu kolefnisjöfnun.

Virkjanablús

Næstu dagar og vikur verða prófsteinn á svokallað ,,stóriðjustopp" sem Samfylkingin boðaði. Er eitthvert hald í því eða ekki. Flóamenn funda í kvöld, forstjóri Alcan er eins og fló á skinni út um allt suðvesturland að redda stóriðjumöguleikum fyrir 1. júlí og víðar um land styttist í að dragi til tíðinda. Við bíðum og sjáum.

Dóttur minni brá aðeins ...

... þegar ég fór að tala um bleika þvottavél hér í fyrri pistli. Hún trúði því alveg að ég hefði spreyjað þvottavélina bleika. Mér fannst það nú alveg óþarfa áhyggjuefni, þangað til ég mundi allt í einu eftir því þegar ég fékk nóg af plastfurueldhúsinnréttingunni okkar, sem hékk til bráðabirgða í eldhúsinu í yfir tuttugu ár. Eina nóttina tók ég rúllu af sjálflímandi plasti og límdi yfir allar hurðarnar á eldhúsinnréttingunni, bleikt, nema ein hurðin fékk að vera lillablá. Mjög stolt af þessu og dóttir mágkonu minnar var líka hrifin af framtakinu. Hmmm já, það held ég hafi verið allt og sumt af hrifningu. Ætli það hafi ekki verið að næturþeli nokkrum árum síðar sem dóttir mín tók að rífa þetta aftur af og þegar ég lauk verkinu fannst mér plastfuran bara ágæt. En núna er loksins komin alvöru eldhúsinnrétting.

Og eins og höfundurinn segir í hinni frábæru bók Litli prinsinn: ,,Börn, varið ykkur á baóbabtrjánum" þá segi ég: ,,Börn, varið ykkur á húsbyggingum." Við byggðum barnung og blönk og erum enn að endurbyggja, laga og bæta það sem gert var af vanefnum. En stundum er það reyndar bara gaman, eins og í kvöld, þegar við tókum enn eina ,,seinustu" steypu af flotinu uppi á lofti. Við héldum að þessi væri raunverulega sú seinasta. En sennilega þurfum við bara að taka eina litla bunu á þriðjudag til að klára. Sennilega. 


Sólarlandaferð í Borgarfjörðinn og mis-mishæðótt gólf

Eftir flotið á föstudagskvöldið vorum við búin að vinna okkur inn sólarlandaferð í sumarbústaðinn í Borgarfirði. Hreinn draumur, því neðri pallurinn okkar var alveg rok-laus og þar lá ég eins og sleggja í sólbaði allan laugardagseftirmiðdaginn, en um morguninn vorum við í hestastússi, hestarnir þurfa nýtt vatn og það tók smá tíma að koma öllu í stand, en allt gekk vel að lokum.

Á laugardagskvöldið fórum við að kíkja á Halla, væntanlegan ferðafélaga Ara í hestaferð kringum Langjökul í næsta mánuði, en hann hefur verið að gera upp eldgamalt höfuðból fjölskyldu sinnar í Borgarfirði. Mishæðótt gólf eru bara flísalögð eins og þau koma af skepnunni og ekkert smá flott. Ég fór að hugleiða hvort við værum ekki of orthodox heima í leit að sléttum gólfum. En alla vega, við erum búin að flota svo mikið að ein sletta í viðbót gerir ekkert til. Svo fórum við í nágrannabústað þar sem systir Halla,  Inger Anna var með fjölskyldu sinni, og þau tóku yndislega á móti okkur, þótt við kæmum sem óvæntir gestir. Áttum frábært kvöld með þeim og húmorslausa hundinum þeirra, henni Regínu, sem er ógnarsæt. Inger hefur ekki staðið í minni stórræðum og búin að mála bústaðinn yndislega djúprauða, liturinn er hreinlega ávanabindandi. 

Í dag þrifum við heita pottinn uppi í bústað, ég var bara fegin að sólin var ekki eins mikil og í gær, því það var nóg komið í bili. Heiti potturinn sem Sæja, tengdamóðir mín, gaf okkur er enn ekki komin í gagnið, vegna leka, sem innflytjandi pottins er alltaf ,,alveg" að fara að láta gera við. Við eltum hann reyndar uppi á Kanaríeyjum og það var mjög undrandi maður sem gaf okkur símanúmer píparans sem átti að vera búinn að gera við þetta. Yourright! Alla vega þá verður allt gott sem endar vel, við létum fara vel um okkur í vatnslausum pottinum þegar við vorum búin að þrífa hann. Skil ekkert í okkur að hafa ekki tekist að koma þessu í lag í fyrra, en við höfum verið í öðrum framkvæmdum, vissulega, þetta var fyrir 2 pöllum, stiga og 3 herbergjum síðan! Þannig að enn eru verkefni framundan áður en maður fer að færa út kvíarnar í öðrum landshlutum, fyrir norðan til dæmis Cool


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband