Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2023

Skotin í Skotlandi - minningar - en svolítið langt síðan seinast

Önnur utanlandsferðin mín, sú sem kom næst á eftir hálfs árs dvöl okkar mömmu og ömmu í Andalúsíu heilum sjö árum fyrr, var til Skotlands. Það var fermingarferðin mín, átti að vera í staðinn fyrir veislu(r) en reyndist viðbót við ótrúlega fjörleg veisluhöld sem ég hef gert skil í öðrum pistli.

Skotland var ekki áfangastaður af tilviljun, heldur hvorki meira né minna en staðurinn þar sem mamma kynntist Ólafi fóstra mínu, þriðja eiginmanni sínum og þeim eina sem ég fékk að velja. Við vorum báðar sammála um að það hefði verið vel valið. Ólafur var kominn vel yfir tvítugt og var við nám í Edinborgarháskóla og mamma unglingur á fínum kvennaskóla, St. Denis, þar sem var bæði kuldi og matarskortur á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Hún bjó hjá Gunnu Watson, vinkonu ömmu, í fríum, en eyddi öllum stundum sem hún gat heima bjá Sigursteini Magnússyni konsúl í Edinborg, og þangað komu allir íslensku stúdentarnir við hvert tækifæri. Magnús (Bússi) Magnússon sonur hans átti eftir að afla sér frægðar gegnum þáttinn Mastermind síðar og dóttir hans, blaðakonan Sally Magnússon hefur líka vakið athygli fyrir sín skrif. En það gerðist seinna. 

IMG_5371 (2)

Mamma var fyrst í Glasgow og sótti kúrsa í Glasgow School of Art og gerði það nógu gott til að vera boðin skólavist ef hún héldi áfram, en amma og afi ákváðu að hún ætti að fara til Edinborgar til Gunnu og Alisters og það varð úr. Hún var mjög ósátt við það, en átti ekki annarra kosta völ. Mögulega voru skólagjöldin í Glasgow of há (það var kenning mömmu), þótt amma og afi væru ágætlega stæð voru þau að byggja sér hús í Faxaskjóli þegar þetta var. En hún var líka bara 15-16 ára. Ólafur úskrifaðist frá Edinborgarháskóla sem náttúrufræðingur og sneri aftur til Íslands og þá var mamma orðin eldri, svo hann gat boðið henni á stúdentaböll, en svo kom að því að hún giftist fyrri eiginmönnum sínum og Ólafur bara hinkraði við eftir henni. 

utskriftEdin (2)

Við litum við í skólanum í Glasgow fermingarferðinni minni, haustið 1966, en þar var fátt að gerast svona snemma hausts, þótt andi MacIntosh svifi óneitanlega yfir vötnunum. Svo ég var drifin í verslunarleiðangur í Sauchiehall Street og fataði mig upp með fancy fötum þegar sixties tískan var í algleymingi, áður en hippatískan hélt innreið sína. Síðan var haldið til Edinborgar með viðkomu í einhverjum köldum köstulum og þótt ég ætti síðar eftir að nema sagnfræði er ég mjög kræsin á kastala og kann alls ekki að meta þá alla. Edinborgardvölin var ótrúlega skemmtileg. Edinborgarkastali, já óhjákvæmlega, eins Scott Monument, lofthrædda ég elska að fara upp í turna. Svo hittum við Hermann Pálsson skólabróður Ólafs fóstra míns, sem þá hafði verið háskólakennari þarna í 16 ár og átti alla sína starfsævi í Edinborg. Þá fór að vera virkilega gaman. Um hádegisbil fór hann með okkur á gamlan pöbb á horni í lítilli brekku og gömlu húsi. Þar var ekki margt fólks, við fengum okkur eitthvert snarl sem var eins og barmatur bara allt í lagi. Þarna var líka grannvaxinn gamall karl (hefur áreiðanlega verið vel yfir fimmtugt) og lét lítið yfir sér. Ja, þangað til hann greip nærstaddan kúst og fór að dansa við hann eftir lágværri bakgrunnstónlist. Svona listavel, margir snúningar og kústurinn lét vel að stjórn. Svo kláraðist lagið, hann skilaði kústinum, hneigði sig kursteislega og hélt áfram að drekka bjórinn sinn, eða hvað það nú var sem hann var með í glasinu. Ekkert okkar sagði orð, það átti ekki við.

skotlandsferd

Næst fórum við að heimsækja vinafjölskyldu í Aberdeen, the Harways. Þau bjuggu aðeins fyrir utan borgina, áttu einhvern slatta af börnum (ekki eins mörg og önnur vinafjölskylda sem gisti með börnin sín 8-9 hjá okkur um svipað leyti á leið frá Ameríku til Englands). Tvær voru á mínum aldri, Ayliffe (sama nafn og Ólafur, sem var nafn fóstra míns, héldu þau fram), hún var árinu eldri en ég, Morwenna var árinu yngri og við áttum meira skap saman. Þær voru elstar og voru með risastórt háaloft til umráða og þar gisti ég. Húsið var mjög stórt, svolítið kalt á kvöldin en veðrið almennt gott þessa septemberdaga. Mér var boðið með í reiðtúr þegar uppgötvaðist að ég hafði gaman af hestamennsku og átti innkomu í reiðskólann og hestaleiguna á Bala hjá henni Heidi, sem var með hesta á beit ofan við húsið okkar. Bara að að klífa upp þennan risastóra hest sem mér var fenginn var afrek. Hann var illa hastur, og það virtist eiga við um hina hestana líka, því systurnar hossuðust ekkert minna en ég. Við fórum mest fetið um skógarstíga og þetta var hinn ljúfasti reiðtúr, en við fengum ekki að hleypa þessi klunnum neitt, rétt náðum smá brokki á beinu köflunum á stígunum, og varla það þó.

Við fórum líka á ballettsýningu hjá yngri systur þeirra, eins og fólk gerir þegar það heimsækir vini og ættingja. 

Næstu árin ferðaðist ég talsvert með Gullfossi og fannst alltaf dagsstoppið í Leith mjög heimilislegt, en þá var ég eldri, sjálfstæðari og búin að uppgötva Bítlana. hippaföt og búðaferðir. Reyndar kom Bítlarnir við sögu í þessari fyrstu Skotlandsferð minni, því á litla hótelinu okkar í Claremont Cresent, var þetta fína sjónvarp og þar uppgötvaði ég tónlistarvídeó úr Revolver sem var nýútkomin og varð alveg húkkt, einkum á Eleanor Rigby. 

Síðan hafa Skotlandsferðir mínar verið allt of fáar og stopular, en ég mun bæta úr því og pósta aðeins nýrri myndum, bráðum. 


Í framhaldi af blogginu um hvíslandi vatnslitamyndir, lofaði öskrandi

Bloggaði seinast um hvíslandi vatnslitamyndir og nefndi Emil Nolde sem andstæðu þeirra. Það var hann sem sannfærði mig um að vatnslitamyndir gætu öskrað. Mæli með að þið kíkið á sem flestar af ,,ómáluðu" myndunum hans, sem eru vatnslitamyndir sem tóku lítið pláss og hægt var að fela fyrir nasistunum á stríðstímanum. Þótt Nolde hefði sjálfur verið orðaður við þá stjórnmálastefnu, með réttu eða röngu, var þeim list hans ekki þóknanleg en hann bara ,,varð" að fá að halda áfram að skapa og gerði það á heimili sínu skammt frá landamærum Þýskalands og Danmerkur. Heimsókn í það hús opnaði fyrir mér nýjan heim. Það er svolítið úrleiðis, en vel heimsóknarinnar virði. Hér er hins vegar tengill á fróðleik til að byrja með:

Ómáluðu myndir Nolde.

 

Eftir að ég fór seinast að sinna vatnslit af römmustu alvöru, fyrir 3-4 árum, hef ég verið að vinna úr áhrifum úr ýmsum áttum og prófa mig áfram. Hér eru nokkrar myndir sem ég flokka undir meira öskrandi en hvíslandi: 

i286260064365824036._szw1280h1280_kattakaos 1 (3)

unnamed.golf


Að hvísla og öskra í vatnslit

Frá því ég tók upp þráðinn í vatnslitun fyrir rúmum þremur árum hef ég verið mjög forvitin um allt sem viðkemur þeirri tækni. Lengi vel bar ég einfaldlega of mikla lotningu fyrir tækninni til að hætta mér of langt út á þær brautir. Kannski var það þegar ég sá fyrst ,,ómáluðu myndirnar" (þær voru faldar fyrir yfirvöldum) sem Emil Nolde gerði á stríðsárunum, þegar honum var bannað að mála sínar óverðugu og litsterku myndir, sem ég íhugaði fyrst að kannski heillaði þessi tækni. Mér fannst vatnslitur fram til þess tíma vera svo brothætt tækni, eins og þynnsta postulín en þarna var kominn listamaður sem hikaði ekki við að öskra með litunum sínum. Seinna lærði ég að meta léttar og hálfpartinn hvíslandi myndir á borð við vatnslitamyndir Turners, sem mér fannst áður sterkari í olíunni. Undanfarin þrjú ár hef ég spreytt mig á hvoru tveggja, hvíslandi og öskrandi myndum og í stað þess að birta hér auðgúgglanlega, heimsfræga listamenn gef ég sýnishorn af hvíslandi myndum úr eigin safni. Hvíslandi myndirnar verða gjarnan til á kaffihúsum. Geymi þær öskrandi til betri tíma. 335336671_1511628772696075_6793422268081962496_n

unnamedfas (3)


Seinþreytt til vandræða, en ...

Hef líklega yfirleitt verið talin seinþreytt til vandræða. Eitt sinn gerði ákveðin manneskja mjög alvarlega á hlut minn og ég ákvað að setja á náttborðið minnismiða til að minna mig á að vera ekki að heilsa þessari manneskju með virktum ef við rækjumst saman, eins og ég hefði mögulega óvart gert annars. 

En það kemur fyrir að mér misbýður alvarlega. Sem betur fer er ég ekki (svo vitað sé) göldrótt, en það varð samt ástæða til smá athugasemdar á Facebook þegar ég gagnrýndi fyrirtæki sem sýnilega var að reyna að svindla á fólki, og það meira að segja staðsett í öldrunarblokk, þar sem mögulega voru einhverjir sem gátu illa séð í gegnum svindlið. Aðallega gagnrýndi ég þó getu- og eða viljaleysi þeirra aðila sem ég tilkynnti um svindlið til að taka á því (hjá fyrirtækinu). Tveimur eða þremur dögum eftir að ég setti mína gagnrýni á Facebook var tilkynnt í fjölmiðlum að fyrirtækið hefði farið á hausinn. Augljóslega átti ég engan þátt í því, en kannski voru sömu öfl sem stóðu fyrir svindlinu og komu fyrirtækinu á hausinn. Engu að síður fékk ég dásamlegt komment í tengslum við þetta, frá djúpvitri dóttur minni, eitthvað á þessa leið: Don´t mess with my mother, you might regret it! 

Lengi vel trúði ég því að það fyki bara í mig á svona fimm ára fresti, en mögulega er það eitthvað að breytast. Blessaðir yngri strákarnir í sveitinni minni urðu logandi hræddir þegar ég reiddist eitthvað þriðja sumarið sem ég var þar, mér sem fannst ég svo meinlaus. Einhverju sinni varð systir mín, sem þá var búsett erlendis, vitni að því að sýningarhaldari hafði/eða þóttist hafa týnt 2-3 málverkum eftir mig. Ég leit víst eitthvað hvasst á hann og sagði lágum rómi og sjálfsagt með samanbitnar tennur: Þú finnur þessar myndir! Hún sagði eftir á að hún hefði orðið hálf smeyk, en þetta dugði. Hann fór bakatil og sótti verkin og afhenti mér.

Þannig að ef þið haldið að ég sé meinleysisgrey, eins og ég lít út fyrir að vera, þá er það bara ykkar mál. En ég tek það fram að ég held ég eigi bara alls ekkert sökótt við ykkur, kæru lesendur. 


Þú ættir endilega að ,,láta" hann hlæja í útvarpið!

Þegar ég byrjaði í blaðamennsku og þáttagerð fyrir útvarp, rétt tæplega þrítug, fann ég vel fyrir því hvað margir höfðu sínar eigin hugmyndir um hvernig þætti ég ætti að gera. Þetta var heldur skárra þegar ég fór í pappírsblaðamennsku, þá var auðveldara að útfæra þær hugmyndir sem voru raunverulega bitastæðar á sinn hátt. Núna get ég hlegið að því, en mér var ekki hlátur í hug þegar manneskja mér nákomin vildi endilega að ég tæki blásaklausan, sameiginlegan vin í útvarpsviðtal af því hana langaði svo óskaplega að heyra dillandi hláturinn hans í útvarpi. Það var þrautin þyngri að finna undir hvaða yfirskini ég lokkaði hann í viðtal, en vegna velvilja í garð þessarar konu tókst mér loks að ná honum í viðtal í þætti um húsbyggingar og meiningin var að ,,láta" hann hlæja, enda var það verkefnið sem mér hafði verið falið. Hann var auðvitað gaddfreðinn í þessu viðtali og það seinasta sem honum hefði dottið  í hug þann daginn var að hlæja. Röddin kreist og kvalin og sama þótt ég hefði fundið alla heimsins fleti á því að gera listina að byggja að fyndnu útvarpsefni, vitnaði meira að segja í Gísla J. Ástþórsson, ekki tókst mér svo mikið sem að kreista fram bros (enda hefði það ekki sést í útvarpi). 

Lítið skárra var það þegar frændi minn vænn króaði tvo sæmilega þekkta karla af í lyftu í London þegar þar stóð yfir samveldisráðstefna. Hann gerði sér lítið fyrir og tók við þá óralöng viðtöl ,,handa mér" og afhenti mér síðan spólur með hátt í tveggja tíma efni, ómarkvissu og ekkert voðalega áhugaverðu. Fór í gegnum efnið með það fyrir augum að fylla í skörðin og skýra orð þeirra betur og samhengið sem Íslendingar þekktu ekki nema takmarkað. Þetta hefði getað orðið skítsæmilegur þáttur, en reyndist þegar til átti að taka mæta fullkomnu áhugaleysi hjá útvarpsfólkinu og þetta var í eina skiptið sem hugmyndum ,,mínum" að útvarpsþáttum var hafnað. Ég fékk náðarsamlegast að búa til 10 mínútna innskot í morgunþátt sem Páll Heiðar og Sigmar B. voru þá með á útvarpinu eina.  Hrikalega mikil vinna og afraksturinn að vísu alveg þokkalegur, en ég hefði aldrei í lífinu gert þetta að umfjöllunarefni ef ekki hefði verið fyrir ,,hjálpsemi" frænda míns. Þrátt fyrir skaðræðis gott uppeldi lærði ég fljótlega að segja nei og/eða humma svona sértækar hugmyndir ákveðið fram af mér.

Aftur á móti eru ábendingar, sem eru ekki svona sértækar, oft upphafið að stórskemmtilegum viðtölum og greinum, en æ, ekki biðja okkur um að ,,láta" einhvern hlæja í útvarp eða henda í okkur haug af óklipptu efni og segja okkur að gera úr því kraftaverk. Meira að segja komandi páskar geta ekki reddað því. 


Föstudagurinn laaaaaaaaaaaaaaaaangi framundan

Við erum ekkert svo fá sem munum þá tíð þegar föstudagurinn langi var enn lengri en á seinustu árum. Þegar allt var lokað, ekkert mátti, alla vega alls ekki spila á spil, og fólk átti bara almennt að vera grafalvarlegt í bragði. Enn eimir eftir af þessari tilhneigingu, ég kynnti mér um daginn hvaða kaffihús, það er að segja þau sem selja almennilegt kaffi (!) væru opin á föstudaginn langa og það kom í ljós að ótrúlega mörg af mínum uppáhalds voru annað hvort lokuð eða skelltu í lás um miðjan morgun (kl. 16 til dæmis) þann dag.

Eins og margir Íslendingar er ég alls ekki trúlaus og kunni ýmislegt sem ég lærði forðum í sunnudagsskólanum sem Inga og Sjöfn vinkonur mínar sáu um að ég sækti. En viðurkenni fúslega ákveðið kæruleysi í trúnni og föstudagurinn langi var kannski helst svolítið trúarlegur eftir að Ólafur fóstri minn uppgötvaði Jesus Christ Superstar og spilaði alltaf á föstudaginn langa. Merkilegt, þar sem hann sýndi yfirleitt lítinn áhuga á tónlist þar fyrir utan. 

Mig hlýtur að misminna að ég hafi einu sinni verið meðal læknanema í Debrecen yfir páska og annars árs nemar hafi átt að mæta til að æfa sig að kryfja lík einmitt á þessum fræga dánardegi, að vísu fyrir næstum 2000 árum (dánardægrið, ekki krufningin). 

Þó verð ég að játa að einu sinni naut ég virkilega góðs af því hversu langur föstudagurinn langi var. Þá var ég hjá henni Sigrúnu Guðmundsdóttur í skúlptúrtímum í Myndlistaskólanum og ákveðið var að hittast til að steypa styttur kl. 11 á föstudaginn langa. Þetta var óralangur dagur, en svo vel vildi til að fermingarveisla Óla okkar hafði verið daginn áður, og þótt ég hefði svarið það að ég væri alveg fullfær um að sjá um veitingar að þessu sinni, þá treysti fjölskyldan mín því greinilega ekki og húsið fylltist af brauðtertum og alls konar góðgæti, ofan á vel ríflegan skammt sem ég hafði útbúið með talsverðu stolti. Það vildi nefnilega svo til, sex árum fyrr, að hún Hanna dóttir okkar (þá 9 ára gömul) sagði með áhyggjusvip: Mamma, þú veist að þú verður að ferma í næstu kosningabaráttu. Og það gekk eftir. Hún var fermd fjórum árum síðar og meira að segja upplýsingahópur Kvennalistans kom með kræsingar, en systur okkar Ara, Elísabet og Síví, áttu samt stærstan heiðurinn það árið og ég nánast ekki nokkurn. Svo það var kannski ekki skrýtið að plan B hefði verið virkjað þegar næsta ferming var yfirvofandi (þótt engar kosningar væru).

376807_4207579426198_1134309722_n

Við vorum allar, nemendur Sigrúnar, í fullri vinnu á þessum tíma og sumar gott betur, svo það kom sér vel að þessi tiltekni föstudagur var svona voðalega langur. Afgangarnir úr fermingarveislu 2 reyndust okkur heilladrjúgir þennan dag (ekkert sérlega mikið af kjötmeti, svo því sé haldið til haga) enda vorum við að framundir miðnætti og vorum orðnar hæfilega ruglaðar í lokin, þótt engar væru hættulegu gufurnar, eins og í sumri myndlist. Til dæmis fékk steinsteypta styttan sem ég er að slá utan af á myndinni nafnið Klara Mikk, í höfuðið á sænskri blöndu sem ég bar utan á hana af því henni var ætlaður staður utan dyra. (Væntanlega eitthvað Clara Mix, glær blanda, býst ég við). Aðallega notað á legsteina, sem okkur fannst vel við hæfi. 

Komandi föstudag (langa) erum við tvær vinkonur frá þessum Myndlistarskólaárum að fara að hittast, já, það eru til uppáhaldskaffihús sem skella ekki á nefið á okkur um miðjan morgun. 


Kæra Krít, taka 2

Eins og fram hefur komið hér á síðunni hef ég tekið miklu ástfóstri við eyjuna Krít og fór þangað fjórum sinnum frá nóvember 2016 til júní 2020, þar af tókst mér einu sinni að fá Ara minn með. Fornleifarnar í Knossos hef ég skoðað í tvígang, í báðum tilfellum þegar fáir voru þar á ferli og tók góðum ráðum og fékk mér leiðsögn, hana Alexöndru í fyrra skiptið sem einkaleiðsögumann, en í seinna skiptið vorum við Ari í öðrum af tveimur, litlum hópum á svæðinu, þeim enskumælandi, en hinn var grískumælandi. Eins og mér finnst nú fallegt að skoða fornleifar þar sem málning fortíðarinnar hefur máðst út, þá er svolítið hressilegt að sjá að á Krít hafa menn ekki hikað við að endurmála hluta þeirra fornminja sem þar eru varðveittar, reyndar er varðveisluaðferðin rakin til Sir Arthur Evans, sem á mestan heiður á endurheimt Knossos að öðrum ólöstuðum fyrir rúmlega einni öld eða svo og hélt þar áfram verki fyrirrennara síns, Minos Kalikairinos, sem sjaldan er getið. Fann skemmtilega grein um málið, af því sagnfræðingurinn í mér vildi fá að vita aðeins meira en hún Alexandra sagði mér, sem var þó heilmargt. 

https://www.khanacademy.org/humanities/ancient-art-civilizations/aegean-art1/minoan/a/conservation-vs-restoration-the-palace-at-knossos-crete

IMG_5508

Það er ekkert ósennilegt að ég eigi eftir að blogga meira um Krít og vonandi að fara þangað enn einu sinni (tvisvar ... þrisvar ... ). Til dæmis uppgötvaði ég borgina Chania ekki strax, en dvaldi þar hjá henni Despoinu seinast þegar ég kom við á Krít, í vikunni eftir að ýmsum samkomutakmörkunum var aflétt þar, tímabundið auðvitað. Gamli bærinn er sérlega skemmtilegur og þar er fullt af stórfínum gististöðum, kaffihús á hverji horni og fallega, rómverska höfnin er umvafin ágætis veitingahúsum og skemmtilegu mannlífi, en við moskuna eru alls konar menningarviðburðir tíðir og þeir höfða meira til íbúanna sjálfra, sem leita í götu fyrir ofan hana þegar þeir fara sjálfir út að borða (og drekka). Þangað beindi hún Despoina mér auðvitað, þótt hún væri ekkert að dissa veitingahúsin við höfnina góðu, þar sem sjórinn er svo tær að fiskarnir næstum glápa á móti á túristana sem eiga leið þar hjá. Mér skilst að það geti orðið ansi heitt þarna stundum á sumrin, en ég hef undantekningarlaust verið í mjög þægilegu loftslagi í október/nóvember og maí/júní. Meira seinna, býst ég við :-)

33463154_10216426664877625_1943977712284598272_n (2)


Ekki snúin af glæpa(sagna)brautinni - hliðarspor og áframhald

Vatnsliturinn hefur átt hug, hönd og hjarta þetta misserið, en ég er ekki hætt að hugsa (um glæpi). Þannig þróast mínar glæpasögur, í hausnum á mér. Þegar ég fór aftur í fasta vinnu eftir fjögurra ára eftirlaunatíma (sem var erilsamur í meira lagi) þá var ég langt komin með glæpasögu nr. 3, en hins vegar var nr. 2 ekki komin út og kom ekki formlega út fyrr en um mánaðarmótin maí/júní í fyrra. Hausinn á mér hefur nokkrum sinnum farið á yfirsnúning síðan, eins og gjarnan gerist þegar ég er að setja saman andstyggileg plott og hugsa einhver svikráð á glæpa(sagna)brautinni og tíminn frá útkomu síðustu bókar er engin undantekning. Hef haldið í við að skrá hjá mér allar vendingar á söguþræðinum og unnið í einstökum köflum en í augnablikinu er meira eftir óskrifað af þeirri sögu en var fyrir rúmu ári þegar ég henti mér aftur út á vinnumarkaðinn. Engin tilviljun að ég er ekki að fara í páskaflippsreisu í ár, eins og í fyrra (þegar ég fór til Rómar í annað sinn á hálfu ári). Fyrir utan fjölskyldusamveru er ég ,,bara" búin að skipuleggja að hitta tvær vinkonur, og á ekki nema tvær hálfkláraðar vatnslitamyndir sem gætu gripið hugann. Held samt að blessuð sagan mín fái að njóta páskanna að þessu sinni. 

290566812_10228409526081666_7266678403555551340_n

Annars hef ég alls ekki lifað eins glæpasnauðu lífi og ætlað mætti nú í vetur. Tók nefnilega hliðarspor og skellti mér í verkefni sem er glæpagáta sem þú, lesandi góður, getur nálgast í símanum þínum, væntanlega með vorinu. Þá er ætlunin að koma út allmörgum morðgátum og ég á eina þeirra, og vonandi sjáum við fólk hlaupandi með símana sína út um allar koppagrundir í leit að vísbendingum. Sá sem fékk mig til að taka þetta hliðarspor er sami maður og gaf út vel lukkað leiðsögukerfi fyrir snjallsíma, kringum.is og eftir samskiptum okkar að dæma veit hann svo sannarlega hvað hann er að gera á glæpa(appa)brautinni. Kápan sem hér er sýnd er ekkert endilega sú sem verður á minni glæpagátu þegar nær dregur formlegri útgáfu, en ég held að nafnið haldist. Alla vega nafnið á höfundinum :-) Leyfi ykkur blogglesendum mínum að fylgjast með. 

316891228_871377287635362_5154563558059990801_n

Svo þegar útgefandinn minn góði, á pappírsglæpasögunum tveimur sem út hafa komið, kemur heim úr næstum árlegri langferð sinni, þá setjumst við sjálfsagt niður og plönum næstu skref. Hvort sem við ætlum að vera samferða áfram eða ekki. Ég er með ákveðnar hugmyndir og hann er alls ekki skyldugur til að vera sammála mér, það vitum við bæði, en fyrst þurfum við bara að ná að vera bæði á landinu á sama tíma. Með fullri virðingu fyrir fjarfundum og þess konar samskiptum, eru þetta mál sem mest gaman er að ræða saman yfir kaffibolla og meira að segja í há-covid, þegar hinar bækurnar mínar komu út, tókst okkur það. Bara spennandi, hvaða leið sem við veljum, mun áreiðanlega líka halda bloggvinum mínum upplýstum um þann hluta tilverunnar. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband