Færsluflokkur: Dægurmál

Dagur títuprjónanna og aðrir dagar í þessari viku

Heyri talsvert af samanburði milli ,,gamla" tímans (þegar ég var barn) og nútímans þessa dagana, saltkjötið var saltara, baunirnar lengur að mýkjast, bolluvendirnir meira notaðir og svo er það öskudagurinn, sem er orðinn að hrekkjavöku í Pollýönnubúningum (sem sagt enginn hryllingur) en var áður dagur títuprjónanna. Man reyndar eftir því að hafa heyrt um miðja síðustu öld af krökkunum á Akureyri sem voru að ,,slá köttinn úr tunnunni" í alls konar búningum og á siðurinn rætur sínar í svolítið sóðalegum, dönskum athöfnum sé þetta rétt: ,,Að slá köttinn úr tunnunni er gamall siður á Akureyri. Um er að ræða danskan sið sem hingað barst á 19. öld.  Upphaflega var haldinn sérstakur kattarslagsdagur, en seinna meir var þessi siður færður yfir á öskudag. Leikurinn var í upphafi í því fólginn að slá dauðan kött úr tunnu en með tímanum hvarf nú dauði kötturinn úr tunnunni og hrafn kom gjarnan í staðinn." (https://www.no.is/is/um-no/frettir/ad-sla-kottinn-ur-tunnunni)

2023-02-20_21-42-56

Hér fyrir sunnan beygðum við títuprjóna og saumuðum ótrúlega flotta öskupoka og laumuðumst svo aftan að blásaklaus fólki úti í bæ og hengdum öskupoka á það. Þeir sem höfðu bestu samböndin höfðu meira að segja aðgang að efnisprufum og gátu saumað öskupoka í öllum litum og mynstrum. Svo komu þessir óbeygjanlegu títuprjónar og allt var þetta til ónýtis og við tóku einhverjir skrípaleikir, sælgætissníkjur, búningar og misfagur söngur. Viðskiptahugmynd, sem kemur of seint: Af hverju fór enginn að framleiða bogna títuprjóna?  


Meira um ketti

Simbi okkar er sannur köttur. Sat á bíl þegar ég kom heim og ákvað að koma kannski inn. Eða ekki. Eða koma með inn. Tókst að blekkja mig enn einu sinni til þess að halda dyrunum opnum meðan hann var að hugsa. Loks ákvað hann að koma ekki inn ...

cimg2264.jpg


Daginn eftir kvöldið á undan ... (og ein viðbót um magnaðan seið)

Veit einhver hvaðan setningin ,,the day after the night before" er komin? Google vinur minn tengir þetta við timburmenn og fleira óskemmtilegt, en líka ýmislegt hvert úr sinni áttinni, þannig að ég er aldrei þessu vant litlu nær. Mér finnst þetta alltaf svo flott setning, en vil gjarnan að hún eigi sér skemmtilegri skírskotun. Dagurinn í dag hefur verið svona dagur, án timburmanna þó. Hef sem sagt verið talsvert í símanum að endurlifa gærkvöldið og spennuna í Útsvarinu gegnum lífsreynslu annarra. Svo var ég reyndar sofnuð í sófanum þegar Ari setti endursýninguna á Útsvari á og þá fyrst gerði ég mér grein fyrir hversu erfiður þessi þáttur hefur verið fyrir þá sem héldu með okkur Álftnesingunum. Reyndar fínt að horfa á hann þegar maður veit hvernig fór. Ara fannst það líka ;-)

Ég verð eiginlega að upplýsa það að Álftnesingurinn Margrét Pála Ólafsdóttir, sem var gestur í Kastljósi, og þar af leiðandi í sminkinu líka, sagðist hafa magnað seið okkur til handa, miðað við gang þáttarins þá virkaði hann, takk! Margrét Pála er í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur lengi verið og ég fékk það skemmtilega hlutverk fyrr á árinu að taka viðtal við hana, sem var auðvitað púra ánægja. Óska henni velfarnaðar með allt hennar skólastarf og frumkvöðlahlutverk.

En það er ýmislegt fleira verið að gera núna, ég er að undirbúa ágætis lotu í tilverunni, koma Sandgerðissögu í prentun og leggja lokahönd á enskan texta sem ég er að skrifa fyrir Álftanes. Og svo styttist í Ameríkuferðina og ég var að heyra í Nínu systur, sem er alltaf gaman, eftir að hafa verið að kjafta við Elísabetu systur lengi vel í dag. Miklar pælingar í gangi eins og alltaf.

Svo er ég búin að fá að vita að fyrsta vikan í skólanum hjá Hönnu þessa önnina var bara alveg ágæt, sem er ákveðinn léttir, því ég veit að sennilega er þetta strembnasta önnin á skólaferlinum hjá henni. Þar sem ég var rétt búin að átta mig á því að Óli er búinn að bóka ansi stíft á sína önn, þá var þetta auðvitað að bera í bakkafullan lækinn, en mér finnst samt aðeins auðveldara að vera innan seilingar fyrir hann, ég meina, ég get alla vega lesið yfir ritgerðir, en minna gagn að senda á mig einhverjar læknisfræðiglósur. Ég var lengi að átta mig á því hvað er skrýtið, það er að ég er ekki byrjuð í skólanum (reyndar einn myndlistarskúrs framundan).

Sem sagt, dagurinn eftir kvöldið áður er að kvöldi kominn og ég get ekki hreykt mér af miklum afköstum (kannski er fullt eftir að deginum samt, en að mér læðist syfja og það allt of snemma).

 


Suðurnes

Mér hefur alltaf fundist eitthvað svo heillandi við Suðurnesin. Ákveðin dýnamikk sem maður finnur ekki alls staðar á landinu. Ég er reyndar Innnesingur og Álftanesið mitt, sem er auðvitað næstum fullkomið, telst ekki til Suðurnesja. Þegar ég var sex ára fór ég til Keflavíkur þar um borð í skip sem bar okkur, þrjá ættliði í kvenlegg, til Spánar þar sem við vorum næsta hálfa árið. Mér fannst alveg Asandgerdistjorneins spennandi að hafa farið til Keflavíkur eins og til Gibraltar, þar sem við tókum land, en svo festist Spánardvölin auðvitað betur í minni og yfirskyggði annað. Á unglingsárum gerðu sumar vinkonur mínar sér ferð til Keflavíkur til þess að kaupa flottustu skóna á landinu, þeir fengust ekki annars staðar. Og svo var ég ekki nema fimmtán ára þegar ég fór á ball í Stapanum, það var toppurinn. Jónsí vinkona mín úr skátunum og Sirrý, sem ég flæktist með í Köben þegar ég var fimmtán, voru tveir töffarar úr Keflavík. Og svo voru Hljómar auðvitað þaðan, og gott ef ekki Óðmenn líka. Seinna kynntist ég svæðinu mjög vel, þegar ég var í þingmennsku í sex ár fyrir svæðið. En það sem mér finnst einkenna Suðurnesin er að þar eru hlutirnir ekkert svo mikið mál, fólk er mjög sveigjanlegt, hörkuduglegt og frekar kátt. Mikið um aðkomufólk, fólk að koma að fara, sumir ílendast, aðrir ekki, og þannig hefur þetta lengi verið, enda margar góðar verstöðvar. Ekki spillir að þetta er hliðið til útlanda og heim aftur.

Vinna sem ég innti af hendi við ritum sögu Sandgerðis á árunum 1999-2001 og aftur núna síðastliðinn vetur og fram á sumar að hluta, hefur enn styrkt mig í þessari skoðun minni á svæðinu og ég nýt þess alltaf að fara þangað. Og svo finnst mér hreinlega fallegt á Suðurnesjum! Hafið þið farið að (og inní) Hvalsneskirkju? Eða siglt út frá Keflavík og undir fallegu fuglabjörgin? Ekið frá Garði og yfir í Sandgerði og komið að Sandgerðistjörn og öllu því fuglalífi sem þar er. Eða út á Reykjanes? Í Ögmundarhraun? -  þar sem Björn Þorsteinsson dró okkur sagnfræðinemana oftar en einu sinni niður að merkilegum rústum sem þar eru. Og hvergi er fallegra að horfa á Snæfellsjökul en á smá spotta á Miðnesheiði, þar sem ekið er beint á móts við jökulinn og hann er svo ótrúlega stór. Suðurnesin eru spes.


Stórafmæli skátafélagsins Svana á Álftanesi og Fjörudagurinn á morgun

Skátafélagið Svanir á Álftanesi er 25 ára í ár og haldið var veglega upp á það í í dag. Veðurguðirnir eru greinilega í skátahreyfingunni því þeir skrúfuðu fyrir rigninguna, hækkuðu hitann og drógu skýin frá sólinni, enda eiga Svanirnir ekkert annað skilið. Mér hlýnaði heldur betur um hjartarætur þegar ég áttaði mig á því að hún Jóhanna dóttir mín, sem hefur verið á fullu starfandi fyrir skátana á Álftanesi í sumar, setti hátíðina. Vel var mætt, gamlir og nýjir skátar, foreldrar, bæjarstjórnin, íþrótta- og tómstundaráðsfólk og formenn hinna félaganna á nesinu. Yndislegur dagur og hoppukastalinn var hærri en Skátakot, þótt þar sé nú ekki í kot vísað.

skata

Og nú er Fjörudagurinn okkar á morgun og þá verður 130 ára afmælis Álftaness fagnað og allt mögulegt á döfinni, sjá www.alftanes.is.


Bæjarferð

Nú er ég farin að gera út frá Borgarfirði, þannig að það má segja að ég hafi skroppið í bæjarferð eftir ágætis stund í sólinni fram yfir hádeginu. Mamma var búin að útbúa fallegt blómaker á leiðið hennar Möggu frænku og við skuppum með það í Fossvoginn, síðan aðeins í Kringluna, Hafnarfjörð og enduðum í ,,kaupfélaginu" í Norðurbænum. Fallegur dagur bæði í bæ og sveit.

Íslensk sól

Sólin er óneitanlega notaleg og nóg af henni hérna á suðvesturhorni landsins. En mér finnst kalt! Kannski af því ég hef ekki fundið mér skjólsælt horn heldur reynt að vera að stússa þegar ég er úti, sem reyndar hefur verið takmarkað. Þarf að finna leið til að bæta ráð mitt í þessum efnum, fyrst ég er með sveigjanlegan vinnutíma, minn eigin. Sólin er vissulega sú sama alls staðar á jörðinni en samt eigum við þetta indæla hugtak ,,íslensk sól" sem merkir oftast að hún skíni skærar og sé sterkari hér en víðast hvar annars staðar. Á meðan ég fékkst við útvarpsþáttagerð stóðst ég ekki mátið og kallaði einn þáttinn minn einmitt: ,,Íslensk sól" þar sem ég skoðaði fullt af ljóðum, söngvum og prósum um sólina, af nógu var að taka. Eflaust eru flestir þessir þættir glataðir núna, en það væri kannski gaman að endurtaka leikinn einhvern tíma ;-)

Frekar skemmtileg aðferð á símasölumenn ...

Best að leyfa fleirum að njóta ... sonur minn var að senda mér þetta og þetta er hugmynd sem má alveg fara í dreifingu.

 


Þarf Vodafone ekki að ættleiða Dr. Spock?

Þá er það ljóst að Eurovision er í raun barátta á milli stóru símafyrirtækjanna. Mercedes Clube myndbandið var sumsvifalaust að símaauglýsingu (og sést mikið og vel) og nú ætlar Nova að taka Eurobandið að sér. Þar sem ég kaupi hluta af minni símaþjónustu af Vodafone þá fer ég fram á að þar á bæ íhugi fólk að ættleiða Dr. Spock, enda kúlið mikið á þeim bænum. Hinn símaþjónustuaðilinn minn er Síminn og dyggir lesendur bloggisins míns vita af því að ég hef haldið óspart með Barða og Mercedes Club, með dassi af laumuhrifningu á Dr. Spock, þannig að þetta myndi vera bara gott. Eurovision er hvort sem er bara stór auglýsingamarkaður og gaman að hafa það grímulaust.

Vor í lofti og er þjóðin tilbúin í smá bjartsýniskast (eða ekki)?

FAllegir vordagar og bjartsýnismælirinn í Hafnarfirði sýndi 9 gráðu hita í gær meðan sá raunsæi í bílnum hélt sig við 4 gráðurnar. Eins virðist örla á bjartsýni innan um svartsýnishjalið, auglýsendur auglýsa lækkun vöruverðs vegna styrkingar krónunnar meðan Seðlabankinn spáir hruni  fasteignaverðs og talsmaður SA spáir hruni trúverðugleika Seðlabankans, eða er hann bara að óska þess svo han sjái þær breytingar sem hann vill fá? Rétt eins og vorið með fallegu gluggaveðri og kulda í bland, þá eru teiknin á lofti efnahagsvorsins misvísandi. Ég á eftir að taka sérstaka rispu á þeirri undarlegu umræðu sem hefur verið um ESB-aðild og evrumál, þar sem Eiríkur Bergmann hefur tekið saman skýrslu um ágæti aðildar að ESB og/eða upptöku evrunnar á buddu almennings. Hverjar eru fréttirnar, Eiríkur Bergmann að útmála kostina við að ganga inn í Evrópusambandið? Það væri fréttnæmt ef hann teldir einhverja annmarka á slíku, ÞAÐ væri frétt. En ég þarf að fara í gegnum alla fyrirvarana sem hann setti í frétt annarrar hvorrar sjónvarpsstöðvarinnar á fimmtudagskvöld til að segja ykkur nánar frá því. Nóg í bili, úti skín sólin og veðrið í stofunni minni er að gefa einhver fyrirheit um góðan dag, jafnvel gott vor.

Slæðingur af ljóðabókum hefur verið á stofuborðinu okkar að undanförnu, meðal annars borgarskáldið Tómas. Það er hann sem yrkir:

Í nótt hefur vorið verið á ferli

og vorið það er ekki af baki dottið

því áður en fólk kom á fætur í morgun

var fyrsta grasið úr jörðunni sprottið

Reyndar sé ég aðallega fagurfjólubláa krókusa stinga sér upp úr moldinni þessa dagana en ekki mörg strá. Það er svo alveg óþarfi af Tómasi að  enda ljóðið eins og hann gerir, en þetta er bara svo fyndin vísa að hún fær að fljóta með, og sumir vilja nú reyndar halda því fram að við séum á þessu stigi núna, eftir þenslufyllerí undanfarinna ára:

En sumir halda að hausti aftur

þá hætta víst telpur og grös að spretta

og mennirnir verða vondir að nýju

því víxlarnir falla og blöðin detta.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband