Færsluflokkur: Dægurmál

Máttur og máttleysi auglýsinga

Dagskrárhefti sem datt inn um lúguna í dag var aldrei þessu vant lesið á heimilinu, venjulega fer það beint til mömmu, sem ekki fær svona ,,þéttbýlispóst" enda býr hún nokkra tugi metra frá skipulögðu gatnakerfi.

Nema hvað, ég sá þessa frábæru auglýsingu frá hreingerningarfyrirtæki þar sem það benti fyrirtækjum og húsfélögum á að það gerði fólki tilboð í reglubundnar ræstingar að kostnaðarlausu. Nú býst ég við að tilboðið sé gert að kostnaðarlausu en ekki að þrifin séu að kostnaðarlausu, en blessuð málfræðin gerði auglýsinguna skemmtilega tvíræða. Sú tilgáta kom reyndar fram á heimilinu að einhver myndi láta á þetta reyna, en líklega nennir því enginn.

Reyndar voru fleiri auglýsingar í þessu litla riti sem virkuðu vel, aðallega niðurtalning á nokkrum nýjum og gömlum sjónvarpsþáttum sem toguðu (ekki meira þó en svo að ég man ekkert hvaða þættir þetta voru, fyrir utan Grey's Anatomy sem er sárt saknað, hefst í apríl! og dagskrárritið sem nær fram til  16. apríl sýnir ekki tangur né tetur af nýjum þáttum úr seríunni). En á hinn bóginn verð ég að viðurkenna að aðrar dagskrárauglýsingar hafa þveröfug áhrif á mig. Svalbarði er gott dæmi. Eflaust er þetta vænsti þáttur, og Ágústa Eva gerði góða hluti með Silvíu Nótt og í Mýrinni, en þessar auglýsingar virka þannig á mig: Ekki horfa! Alveg sama þótt ég þykist elska absúrd húmor. Ég elska líka fyndinn húmor. En svo getur vel verið að ég detti niður í þennan þátt einn góðan veðurdag og hrífist með.


Saga sem margir kattaeigendur geta lifað sig inn í

Smá framlag frá YouTube sem margir kattaeigendur geta eflaust skilið vel. Simbi okkar er alla vega grunaður um að lifa eftir þessum lífsreglum.

 


Garri

Fallegt gluggaveður en garri og hryssingskalt. Vonandi fer að vora og hlýna fljótlega, er þetta ekki bara orðið gott? Sól í hjarta og sól í sinni er það sem okkur vantar núna, en helst ekki með frostroki í leiðinni.

Veðurklúbburinn á Dalvík hefur talað

Veðurklúbburinn á Dalvík er kominn með næstu spá sína. Rysjótt veður framundan, ekki verra en að undanförnu þó, best að skoða þetta á hlekk Dalvíkurbæjar. Verð að viðurkenna að mig dreymdi um aðra spá, kannski svona 5-10 stiga hita og hægan andvara. En það er ekki líklegt að svo verði, þannig að til vara þá býr maður sig bara undir það sem þau hafa að segja sem mynda þennan ágæta klúbb. Draumar og snjótittlingar eru ekkert verri veðurspárgildi en hver önnur, en ég kíki nú samt á Einar Sveinbjörnsson af og til.

11 dagar í snjó

Fyrir mörgum árum var framhaldssaga í Vikunni eftir Margit Sandemo (fyrir tíma Ísfólksins) og þessi saga hét: 11 dagar í snjó. Mér sýnist að veðurspáin stefni í það sama, að vísu með smá rigningarinnskotum kl. sex síðdegis í dag og á morgun, skrýtið innskot.

Fyrir allmörgum árum þurfti ég að fara á fund í Stykkishólmi ásamt ágætu fólki og skemmst er frá þvi að segja að þegar við nálguðumst hótel Stykkishólm síðla dags eftir fundahöld þá var orðið ansi þungt og við þurftum að brjótast gegnum skafla seinustu tugi metra, en sumir í hópnum voru talsvert eldri og veikari fyrir en ég. Mér fannst þó nóg um. Minnti helst á páskana 1966 eða 1967 þegar ég lenti í bindbyl á leiðinni upp í KR-skálann í Skálafelli þar sem ég eyddi páskunum. Þungfært og blint og litið hægt að fara út nema einn dag þá páskana. Reykingamennirnir áttu bágast og við urðum vitni að ótrúlegum viðskiptum þar sem okrað var á hverri sígarettu. Var heppin að reykja ekki, hefði farið á hausinn.

En félagar mínir í Stykkishólmi forðum kunnu mér litla þökk fyrir að rifja upp þetta heiti á framhaldssögu, 11 dagar í snjó, enda var þetta fyrir nettengingar hótela og dæmi um að fólk flytti aðsetur sitt að faxtæki hótelsins. Ég var ekki svona ómissandi og fékk óvænt og kærkomið tækifæri til að hvílast og koma mér inn í mál sem höfðu setið á hakanum. Eftir 2-3 daga var fært til að fara til baka, svo ekki urðu þetta neinir 11 dagar í snjó.

Þessi pistill er tileinkaður Grindvíkingum, merkilegur fréttapistill í gær um staðbunda ófærð í þeim indæla bæ.  


Í upprifjunarlandi

Fréttaannálar, áramótaskaup, áhrifamikil kvikmynd ,,Syndir feðranna" og fleira hefur gert þessi áramót að miklum upprifunaráramótum, bæði um nýliðna og löngu liðna fortíð. Lítið horft á sjónvarp að undanförnu en á einstaka kvikmynd, og því hefur nærvera þessa sjónvarps- og útvarpsefnis, sem ég hef að vísu hlustað meira á en horft, verið mjög áberandi. Mér er reyndar tamara að horfa til framtíðar en fortíðar (þótt sagnfræðingur sé) og þetta fortíðarflipp þar af leiðandi svolítið yfirþyrmansi, ég er þó ekki að kvarta, það er stundum hollt að líta til baka. 

Fyrst um kvikmyndina ,,Syndir feðranna" sem ég var ekki búin að sjá í bíói þannig að ég límdist við hana þegar við duttum niður á hana í sjónvarpinu, líklega snemma myndar. Þetta er fantalega góð mynd (stækkið letrið fyrir endursýningu í sjónvarpi!) um mikinn fantaskap og enn ein birtingarmynd þess máls sem kom upp á yfirborðið á liðnu ári. Þótt flestar þessara staðreynda hafi verið komnar fram, þá er myndin svo vel gerð að hún nístir enn á ný, og svona lagað má ekki liggja í þagnargildi, nokkurn tíma. Mér fannst sterk athugasemd eins Breiðuvíkurdrengjanna sem sagði að samfélagið skuldaði þeim alla vega menntun eftir málamyndakennslu. Hins vegar er ekki hægt að kaupa syndaaflausn.

Það sem hins vegar er hægt að gera er að læra af þessu og hlusta á þá sem hafa liðið fyrir afglöpin. Og við megum ekki gleyma því að eitthvað hliðstætt er kannski að gerast á Íslandi núna. Nú eru það ekki óharðaðir drengir sem eru fórnarlömbin heldur eru hér á landi núna allmörg fórnarlömb mansals og annarrar misbeitingar kvenna frá fátækum löndum. Spyrjið konurnar í Stígamótum og Kvennaathvarfinu. Réttleysið er ekki landfræðileg einangrum heldur einangrun vegna tungumálaerfiðleika, einangrun þeirra sem hafa hag af því að einangra réttlausar konur og einangrum vegna þekkingarleysis á réttindum í samfélaginu. 

Fréttayfirlitin voru líka fróðleg og skaupið dugði mér til að hlæja, en heyrði þó óvenju mikið af því að fólk skildi ekki til hvers var verið að vísa. 

Af fréttum liðins árs finnst mér að árið hafi verið ótrúlega viðburðaríkt, en það er efni í nýtt blogg, ef ég set mig í þær stellingar. Sé þó enn og aftur hvað hlutur Svandísar Svavarsdóttur var stór á árinu og hlakka til að fylgjast með henni á þessu ári.  

Á gamlárskvöld vorum við hér heima, fjölskyldan mínus Óli okkar sem fór norður með 11 vinum sínum að heimsækja vinina þar. Kominn aftur í bæinn og ég er afskaplega ánægð með það, því það er ekkert grín að vetrarfærðinni gerandi. Mamma, Georg bróðir og Katrín Ólöf, yngsta dóttir hans, komu í mat í gærkvöldi og mæður okkar Ara báðar í dag, og við erum búin að hafa það alveg óskaplega notalegt. Heiða vinkona leit líka við í dag en átti von á gestum eins og við. Góð áramót.


Áramótin, hjálparsveitirnar og friðarósk til ykkar allra!

Áramótin eru skammt undan. Mér finnst fátt eins hátíðlegt og að heyra ,,Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka" en hins vegar missi ég nú orðið oft af þeirri stund, ýmist hlaupandi út og inn að skoða sprengjuglaða fjölskyldumeðlimi og vini láta ljós sitt skína, og auðvitað að styrkja hjálparsveitirnar í leiðinni. Áður var það verkefni mitt að halda í ,,hendina" á hundinum okkar, Tinna, en Simbi köttur, sem er eina eftirlifandi gæludýrið okkar, og líka farinn að eldast, er bara furðu hugrakkur þegar flugeldar og sprengjur eiga í hlut, en meinilla við ryksuguna, eins og heiðarlegum köttum sæmir.

Hjálparsveitirnar hafa verið eftirminnilega kallaðar út frá flugeldasölu í aðdraganda þessara áramóta og ég vona að afleiðingin sé sú að sem flestir vilji styrkja þær, en ekki að salan detti niður vegna vonda veðursins.Meðan hjálparsveitirnar hafa þennan tekjustofn sem sinn helsta þá hefur ljósadýrðin tvöfalt gildi.  

Þetta hefur verið viðburðaríkt ár, kannski rifja ég það aðeins upp (helstið alla vega) á næstunni, kannski ekki. Mér þykir alla vega merkilegt að hægt sé að hagga ,,náttúrulögmálum" eins og sitjandi stjórnum, hvort sem eru í borginni eða annars staðar. Þetta ,,annars staðar" er reyndar eitthvað sem völvur hafa verið að spá að undanförnu, mér finnst auðvitað Völva Vikunnar vera þessi eina sanna. Hver önnur hefur látið sér detta í hug að spá Vestmannaeyjagosi og þessu tilteknu borgarstjórnarslitum en einmitt hún?

Óska ykkur öllum gleðilegs árs og þakka liðið ár. Vona að friður, fallegar hugsanir og mátuleg angurværð í bland (fyrir þá sem það fíla) geri áramótin ykkar eftirminnileg og góð.

 


Stysti dagurinn

Upplifi tvo stystu daga ársins í þetta sinn. Stóð endilega í þeirri meiningu að 21. desember væri stysti dagur ársins en svo var það 22. des. í þetta sinn alla vega. Slétt sama, mér líkar ágætlega við skammdegið og myrkrið en samt er alltaf gaman að fylgjast með deginum lengjast. Þótt ég sé ekki eldheitur aðdáandi kulda og gallharður andstæðingur hálku þá finnst mér veturinn oftast ágætis árstíð.  Sumarið líka. Haustið markar endalok sumarsins og af þeim sökum ekki (lengur) í uppáhaldi hjá mér og vorið er yfirleitt of kalt til að ég kunni að meta það. Þegar litgreiningarfárið gekk yfir landið var ég lauslega greind sem sumar eða vetur, mjótt á mununum, en alls ekki sem vor og haust. Passar ágætlega við smekk minn á árstíðum. Mig minnir að Steinunn Sigurðardóttir hafi sagt í einhverju ljóða sinna (finn ekki réttu ljóðabókina eftir hana, þessa litlu rauðu): Það eru svik í þessu vori, eins og brosi hrekkjusvínsins ...

 


Forðist pestina og saga af tveimur miðbæjum, grænum og gráum

Þá er það ljóst, pestinni tókst að hafa af mér annað prófið, sem ég þarf þá að taka í janúar. Ekki alveg það sem ég hafði ætlað mér, en úr því sem komið er var það svo sem orðið nokkuð ljóst. Þannig að ég bendi ykkur hinum bara á að vara ykkur á pestinni sem gengur. Trúði því svona mátulega á laugardaginn þegar mér var sagt að fólk væri upp í 14 daga að losna við hana. Trúi því betur núna og finnst frekar lélegt. En alla vega þá fór ég til heimilislæknisins í dag og veit að ég er að gera allt rétt, eftir því sem það er hægt.

Tveir miðbæir eru mér ofarlega í huga núna, sá nýi sem á að fara að byggja hér á Álftanesi, lágreist byggð og grænn miðbær og svo því sem mér sýnist enn og aftur vera að gerast í Reykjavík (ef ekki verður gripið í taumana, leyfi mér að binda vonir við nýja meirihlutann) að það eigi að gera enn eina atlöguna að lágreistu byggðinni þar og þeim sjarma sem Laugavegurinn hefur yfir sér, og reyna að gera hann gráan og háan í staðinn. Þar sem ég er fædd og uppalin til fimm ára aldurs í miðbænum í Reykjavík, þannig að ég lærði þessi orð í réttri röð: Mamma, pabbi og Víííssssiiiiirrr! þá hef ég alltaf taugar til gamla miðbæjarins okkar allra, Íslendinga. Reykjavík er nefnilega höfuðborg okkar allra og eins gott að hún fái að halda sjarma sínum. Þrátt fyrir óhóflegan svefn í þessari pest, þá náði ég brotum úr kvöldfréttum þar sem Íslendingur búsettur í Barcelona er kominn í baráttuna gegn niðurrifi gamalla húsa í Reykjavík. Fór í fyrsta sinn til Barcelona nú í haust og það er borg sem hefur gert mikið úr sínum menningartúrisma, einmitt út á gömul hús. Enginn sálarlaus miðbær þar. 


Húmor í hálku og jólalitirnir!

Ótrúlegt hvað það er hægt að finna upp lygilega hála hálku! Ein(n) þarna uppi liggur undir grun, sé hann til. Og ef svo er, hvað vakir fyrir viðkomandi? Er fyndið að horfa á okkur stjálka eins og asna um flughálar gangstéttir og bílastæði? Ég veit reyndar að mitt göngulag er fyndið, reyni alltaf að láta sem ég sé bara svona íhugul þegar ég geng á 0,3 km hraða yfir flughálar lendur malbiksins í leit að grastó til að geta aðeins gefið í, upp í svona 2,6. Gleymi því ekki þegar ég stóð ein og yfirgefin í brattri malbiksbrekku og komst hvorki afturábak né áfram. Ekki alveg klædd í að renna mér á rassinum (sem allt stefndi þó hvort sem var í) þegar ljúfur vinnufélagi minn skrapp eftir mér, á blankskónum sínum! Og einhvern veginn komumst við í mötuneytið, sem var í næstu götu fyrir NEÐAN!

Sá fyrstu jólalitina á gamalli mynd á blogginu hennar Gurríar (gömum og himnesk Gleðibankamynd).  Mínir jólalitir eru nefnilega fjólublár, svartur, bleikur og blágrænn með smá silfri og gulli! Ef þetta þarfnast skýringar hjá ykkur rauðu, grænu og hvítu jólabörnum þá er hún eftirfarandi: Á tíma grænu krítartaflnanna var til siðs að teikna jólamynd á töfluna í skólastofunni fyrir jólin. Ég var svo lánsöm að fá að gera það, alltaf, fyrir minn bekk. Flest árin valdi ég einhver biblíutengd efni, ekki síst brá oft fyrir vitringunum frá Austurlöndum (sem ég hélt reyndar alltaf að hétu vitfirringarnir frá Austurlöndum, og dáðist að umburðarlyndi kristninnar). Ástæðan einföld, ég var afskaplega hrifin af fallegu fötunum á klæðum fólks á biblíumyndunum sem við fengum í sunnudagaskólanum í Neskirkju (og eflaust víðar ;-)

Eitthvað skárra en þessir eilífu jólasveinar og snjór (í líki snjókalla eða bara þungra þaka) alltaf með stöku grenitré. Þá sjaldan að ég var lokkuð til að teikna eitthvað annað en Jesú, Maríu og Jósef ásamt blessuðum vitringunum, þá tókst mér alltaf að koma stórum blásvörum himni fyrir þarna einhvers staðar, stjórnum og tungli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband