Suðurnes

Mér hefur alltaf fundist eitthvað svo heillandi við Suðurnesin. Ákveðin dýnamikk sem maður finnur ekki alls staðar á landinu. Ég er reyndar Innnesingur og Álftanesið mitt, sem er auðvitað næstum fullkomið, telst ekki til Suðurnesja. Þegar ég var sex ára fór ég til Keflavíkur þar um borð í skip sem bar okkur, þrjá ættliði í kvenlegg, til Spánar þar sem við vorum næsta hálfa árið. Mér fannst alveg Asandgerdistjorneins spennandi að hafa farið til Keflavíkur eins og til Gibraltar, þar sem við tókum land, en svo festist Spánardvölin auðvitað betur í minni og yfirskyggði annað. Á unglingsárum gerðu sumar vinkonur mínar sér ferð til Keflavíkur til þess að kaupa flottustu skóna á landinu, þeir fengust ekki annars staðar. Og svo var ég ekki nema fimmtán ára þegar ég fór á ball í Stapanum, það var toppurinn. Jónsí vinkona mín úr skátunum og Sirrý, sem ég flæktist með í Köben þegar ég var fimmtán, voru tveir töffarar úr Keflavík. Og svo voru Hljómar auðvitað þaðan, og gott ef ekki Óðmenn líka. Seinna kynntist ég svæðinu mjög vel, þegar ég var í þingmennsku í sex ár fyrir svæðið. En það sem mér finnst einkenna Suðurnesin er að þar eru hlutirnir ekkert svo mikið mál, fólk er mjög sveigjanlegt, hörkuduglegt og frekar kátt. Mikið um aðkomufólk, fólk að koma að fara, sumir ílendast, aðrir ekki, og þannig hefur þetta lengi verið, enda margar góðar verstöðvar. Ekki spillir að þetta er hliðið til útlanda og heim aftur.

Vinna sem ég innti af hendi við ritum sögu Sandgerðis á árunum 1999-2001 og aftur núna síðastliðinn vetur og fram á sumar að hluta, hefur enn styrkt mig í þessari skoðun minni á svæðinu og ég nýt þess alltaf að fara þangað. Og svo finnst mér hreinlega fallegt á Suðurnesjum! Hafið þið farið að (og inní) Hvalsneskirkju? Eða siglt út frá Keflavík og undir fallegu fuglabjörgin? Ekið frá Garði og yfir í Sandgerði og komið að Sandgerðistjörn og öllu því fuglalífi sem þar er. Eða út á Reykjanes? Í Ögmundarhraun? -  þar sem Björn Þorsteinsson dró okkur sagnfræðinemana oftar en einu sinni niður að merkilegum rústum sem þar eru. Og hvergi er fallegra að horfa á Snæfellsjökul en á smá spotta á Miðnesheiði, þar sem ekið er beint á móts við jökulinn og hann er svo ótrúlega stór. Suðurnesin eru spes.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef oft haft á tilfinningunni að Suðrnesin séu mjög svo vanmetið náttúrusvæði. Ég á bernskuminningar frá Suðurnesjum því að einn bróðir rpabba bjó (og býr enn) í Keflavík og annar bjó í Vogum á Vatnsleysuströnd. Við systkinin skruppum þess vegna oft á Suðurnesin með pabba og mömmu.  Man sérstakelga eftir jólaboðunum í Keflavík. Þau voru alltaf svo grand, með kalkún og fleira fíneríi sem ekki var algengt að væri á borðum á þeim tíma. Flottur pistill - takk

Anna Ólafsdóttir (anno) 6.9.2008 kl. 17:51

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jabb þau eru spes.  Bjó í Keflavík í nokkur ár en lærði ekki að meta svæðið fyrir en nýlega.  Margir unaðslegir staðir.

Vó, ég man eftir skókaupunum í Kefló og Stapanum.  Jösses hvað það var spennó.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.9.2008 kl. 18:49

3 identicon

góður pistill. Búin að búa hér í 3 ár og vil varla vera annarsstaðar nema þegar mar skreppur heim til Bolungarvíkur. Gleðilega ljósanótt! ;)

Einar Örn 6.9.2008 kl. 18:56

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mig grunaði að fleiri en ég ættu góðar minningar tengdar Suðurnesjum, gaman að heyra ykkar sýn.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.9.2008 kl. 08:14

5 Smámynd: Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir

Æðisleg lesning.  Oftar sem maður les eitthvað neikvætt um svæðið svo þetta var gott mótvægi við því.  Nú í lok ljósanæturskemmtunar getur maður ekki annað en verið stoltur af bænum og ekki verra að deila því með einhverjum sem kann einnig að meta svæðið .  Reyndar finnst mér nær allir staðir á landinu hafa sinn sjarma - bara að koma auga á sjarmann.

Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir, 7.9.2008 kl. 15:01

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband