Færsluflokkur: Lífstíll

Sautjándinn: Bómullarís í Tívolí og ísköld nótt (nokkru) eftir útskriftardaginn

Við vinnufélagarnir óskum hvert öðru yfirleitt góðrar helgar þegar við tínumst út á föstudögum. ,,Fáið ykkur svo candy-floss á sautjándann," sagði einn félagi minn í kveðjuskyni dag. ,,Bómullarís?" spurði ég. Man þessa klístruðu, bleiku sem festust á kinnunum í Tívolí í Vatnsmýrinni. Þau hin auðvitað ekki, enda áratugum yngri. 

Skrúðgöngur og fánar, mættum samviskusamlega í allt svoleiðis, einkum þegar krakkarnir okkar voru komnir í skátana hér á Álftanesi, og eflaust hefur einhvern tíma verið boðið upp á bómullarís undir dulnefni hér á nesinu. Þekkti líka flestar fjallkonurnar með nafni og sumar voru vinkonur mínar.

Sautjándinn er alls konar, árið þegar ég útskrifaðist úr MR og vildi helst vera í venjulegum, hvítum bómullarbol með húfuna aftan á hnakka (en ekki fína útskrifarkjólnum sem Auður á Hvoli saumaði á mig) þegar ég fór á djammið frostnóttina eftir útskriftina 16. júní, eða jafnvel fyrr (15.6.). Engu að síður ,,sautjánda" minning. Var hún ekki í Háskólabíói, við vorum svo stór árgangur? Jú, segir timarit.is. Ég sem man allt, man það ekki fullkomlega. Alla vega fóru mamma og Ólafur fóstri minn með okkur Gunnu vinkonu í kaffi í Grillinu á eftir, en ég harðneitaði að halda stúdentaveislu. Svo var Gunna farin í sveitina sína. Ég vona annars að hún hafi náð kaffinu með okkur, það stóð eitthvað tæpt. Amma Kata mætti þó á sautjándann og þá hafði hlýnað og við sátum úti, báðar með húfur. Día frænka gaf mér orðabók í stúdentagjöf. Sumir voru einbeittari og neituðu að setja upp húfu, en mín hefur reynst vel og tyllt sér á ýmsa kolla í fjölskyldum okkar Ara míns. 

vid.amma (2)

17


Að komast (loksins) á áttræðisaldurinn

Þegar ég átti stórafmæli fyrir hartnær ellefu árum fannst mér mjög spennandi að vera komin á sjötugsaldur, en ónei, ekki fékk ég nú lengi að njóta þess. Ótrúlegasta fólk reyndi allt hvað af tók að fá mig ofan af þeirri firru að með því að verða sextug væri ég komin á sjötugsaldur, það ætti ekki að verða fyrr en ég yrði 61 árs. 

Bráðum er ár síðan ég varð sjötug og ég hef þagað þunnu hljóði yfir því að vera komin á áttræðisaldurinn, þótt ég efist ekki andartak um að svo sé. Hins vegar nenni ég ekki aftur að taka þennan slag. Biðin er brátt á enda og þá ætla ég svo sannarlega að fagna því upphátt að vera komin á áttræðisaldurinn. Mér finnst það auðvitað bæði guðsþakkarvert og svolítið fyndið líka, af því ég hef aldrei almennilega náð mér uppúr því að vera átján. 


Besta barn í heimi brýtur leirtau

Mér hefur oftar en einu sinni verið sagt að sumar vinkonur mömmu hafi ekki þolað mig þegar ég var lítil. Ég var nefnilega svo hrikalega þægt, ungt barn og það var víst óhagstæður samanburður fyrir sum vinkvennabörnin. Var uppnefnd BBH, besta barn í heimi. Man auðvitað ekkert eftir þessu, en til er saga, sem ég hálfparinn man sjálf, frá því við bjuggum á Uppsölum í Aðalstræti. Hittum Helga Hjörvar, sem bjó rétt hjá, neðst í Suðurgötunni og við hann sagði ég víst, eftir mínu minni eða annarra: Vond börn blóta, góð börn þora ekki að blóta. Býst við að þetta segi allt sem segja þarf. 

Mamma sagði mér síðar að hún hafi orðið mjög glöð þegar ég fékk óþekktarkastið eina, sem ég man alls ekki eftir. Þá vissi hún að hún var ekki að kúga mig. 

Svona leið ég um í þægðarró fram eftir aldri. Lifði samkvæmt væntingum. Orti algera Pollýönnu-vísu snemma í barnaskóla: 

Það er gaman að lifa

og lesa og skrifa

og líka að reikna

en mest þó að teikna

Mér fannst alveg óskaplega gaman að verða unglingur. Ungmennafélagsböll, og -ferðir, partí með unglingunum á Álftanesi. Skemmti mér með KR-ingum í skíðaferðum sem stóðu heilar helgar, þar sem þotusleðinn var meiri vinur minn en skíðin. Sveitaböll í Rangárvallasýslu þau sumur sem ég var í sveitinni minni, Fljótshlíðinni, en minnisstæðast var að fara að ferðast ein til erlendra borga.  

Sumarið þegar ég var sextán ára var ég að vinna í uppvaski á stúdentahótelinu í Osló. Sennilega hefur það verið þar sem ég gerði í fyrsta sinn eitthvað umtalsvert af mér. Lít til baka í forundran. Þá var ég nýkomin í uppvaskið á aðalhótelinu, eftir þrjár vikur í starfsmannamötuneytinu, sem var sældarlíf. Við vorum aldrei fleiri en 2-3 á vakt (ekki pláss fyrir fleiri í skotinu okkar), en 17 þjónustustúlkur báru í okkur óhreina diska, glös og önnur skítug mataráhöld. Röðuðum þessu stanslaust í bakka alla vaktina og bakkarnir fóru eftir lestarteinum inn í uppþvottavélina og komu út hinu megin. Þaðan þurftum við að bjarga þeim í burtu nógu hratt. Gallinn var bara sá að málmhillurnar sem bakkarnir áttu að komast í, fylltust jafnharðan og bakkarnir voru ekki teknir nógu hratt í burtu hinu megin í hillusamstæðunni. Ég fann ráð við því. Setti okkar bakka bara samt inn og ýtti hinum þar með niður á gólfið móttökufólksmegin, svo allt sem í þeim var hefur eflaust mölbrotnað, eftir hljóðunum að dæma. Enginn sagði neitt við mig út af þessu og eftir nokkur brothljóð kom ég alltaf að auðum hillum.

Var loks ,,leyft“ að fara að vinna aftur í starfsmannamötuneytinu og átti góða tíð með mömmulegu konunum þar.

Er ekki sagt: Neyðin kennir naktri konu að spinna? -  eða eins og Þórarinn á Skriðuklaustri sagði í miðri ræðu þegar hann mundi þetta ekki alveg: Bera konan með spottann.


Eftir heimsfaraldur: Heimaskrifstofan

Þegar hrunið varð var ég stödd hjá systur minni í New Mexico í Bandaríkjunum og heimsótti í framhaldi af því vinkonu mína norðan við Seattle. Á báðum stöðum voru hagfræðingar í vinahópi þeirra óðir og uppvægir að ræða hrunið við mig og voru bæði forvitnir og með miklar skoðanir. Sem betur fór hafði ég nokkurra ára reynslu í að ræða efnahagsmál, auk þess að vera sérfræðingur í þeim eins og allir Íslendingar á þessum tíma (seinna urðum við öll sérfræðingar í smitsjúkdómum). Eitt af því sem ég leyfði mér að segja á þeim tíma var: Something good will come out of this, enda forhert bjartsýnismanneskja, svona oftast nær. Núna finnst mér þetta hafa verið frekar mikið bull.

Svo kom næsta lexía, heimsfaraldur, og ég fullyrði: Eitthvað gott kom út úr því. Meiri skilningur á því að hægt sé að vinna vinnuna sína (sumt) á heimaskrifstofu. Mér þykir afskaplega vænt um þessa kaótísku heimaskrifstofu mína, sem ég gat notað í dag, þegar ég þurfti á henni að halda. Yfirleitt finnst mér langbest og skemmtilegast að fara á vinnustað, ekki síst þar sem vinnufélagarnir eru einstaklega góður félagsskapur, en að þessi möguleiki sé fyrir hendi er jákvætt og hentar eflaust mörgum enn betur en mér. 

348836936_666010668685065_3062110794015081138_n


Uppgerðar skoðanir og annað af svipuðu tagi

Þegar verið var að kljást um bjórmálið forðum, meðal annars á þingi, blandaðist ég aðeins, óvart, inn í þá atburðarás. Án þess að rekja það í smáatriðum, enda svolítið flókið, þá var mér sagt það blákalt og í óspurðum fréttum að ég væri á móti bjórnum. Þar sem ég sat nú við kaffiborðið þar sem mér voru sagðar þessar fréttir, og glotti, mótmælti önnur manneskja því, réttilega, fyrir mína hönd. Upphófst nokkuð karp um það, og hafði manneskjan, sem var viss um að ég væri bjórandstæðingur, betur, þar til ég skarst í leikinn og sagðist vera hlynnt bjórnum. ,,Af hverju vissi ég það ekki?" spurði viðkomandi forviða. ,,Þú hefðir kannski átt að spyrja mig," svaraði ég. Um þessar mundir sá ég um ritstjórn og blaðamennsku fyrir ýmis félagasamtök, meðal annars SÁÁ, og þar var enginn misskilningur á ferðinni, heldur voru gerðar skipulagsbreytingar á SÁÁ-blaðinu sem skrifuðu mig út úr því handriti. Svo ég fórnaði meira að segja skemmtilegu verkefni fyrir bjórinn. Hafði þó fullan skilning á afstöðunni en það haggaði ekki minni skoðun. 

Þegar ég var í Cordóba fyrr á árinu var spánskur félagi okkar Íslendinganna, virðulegur eldri maður, að segja mér að ég þyrfti alls ekki að vera svona hógvær og feimin eins og ég væri. Hmm, það má vel vera að ég hafi einhvern tíma verið bæði hógvær og feimin, en það hefur elst vel af mér. Reyndi að segja honum það, en hann sat við sinn keip. Daginn eftir þennan fræðslupistil sem hann færði mér alveg frítt, vildi svo til að við vorum í sameiginlegri skoðunarferð um fornleifasvæði með fínasta leiðsögutæki um hálsinn. Nema hvað ég var búin að stilla vel á rétta, enskumælandi rás og setja á réttan hljóðstyrk þegar hann kom askvaðandi og ætlaði að fara að stilla þetta allt saman ,,fyrir mig". Alveg ósjálfrátt sló ég á fingurna á honum áður en þeir náðu að klófesta leiðsöguhálsmenið mitt. Það var alveg dásamlegt að sjá hvað blessaður maðurinn hrökk í kút. Held hann trúi því núna að ég sé ekki beint feimin.

335078214_928969771565715_7299436930915457062_n

Skömmu eftir heimkomuna kom upp faglegur ágreiningur milli mín og annars aðila, eins og gengur. Það var í sjálfu sér bara eitthvað sem getur gerst, en mér fannst ákveðinn óheiðarleiki í vinnubrögðum í málinu. Þá var mér sagt að það væri fullur skilningur á því að ég væri frústreruð út af þessu. ,,Frústreruð?" sagði ég og var fljót að leiðrétta málið. ,,Ekki frústreruð, bara reið." 

Mér þætti gaman að vita hvort karlmenn lendi oft í svona stöðu? Að einhver segi blákalt fyrir framan þá hvaða skoðun þeir hafa á ákveðnum málum. Jú, ég hef reyndar séð vandræðalegt dæmi um slíkt en þá var það dómadags frekur nemandi (karlkyns) sem ákvað að útskýra fyrir okkur samnemendum hvað óvenju kurteisi kennarinn (líka karlkyns) hefði í rauninni verið að segja í kennslustundinni sem var nánast á enda. Einhverjar aldraðar frænkur mínar gætu líka hafa verið eins handóðar og roskni Spánverjinn í Cordóba. En þegar ég máta þær inn í svona aðstæður sé ég ekki betur en að þær tækju það frekar út á börnum og gamalmennum en miðaldra, hvítum karlmönnum. Og nýjasta dæmið, um frústrasjónina, sé það engan veginn fyrir mér að karlmanni sé tilkynnt að hann njóti fulls skilnings á því að vera frústreraður. Alveg sama hversu frústreraður hann kynni nú annars að vera.

Þessar svipmyndir gamlar og nýjar hafa skotið upp kollinum hjá mér af og til að undanförnu, og hvað er þá betra en að varpa þessum vangaveltum yfir til ykkar, kæru lesendur?

 


Forréttindi að fæðast í flókna fjölskyldu

Fyrst: Ofstuðlunin í fyrirsögninni er viljandi og kórrétt. Ekki meira um það.

Held að ég sé fædd inn í óvenju flókna fjölskyldu. Við sem hittumst í kaffi í gær, eins og við gerum stundum, vorum auðvitað bara að spjalla ofurvenjulega saman. Litla systir sagði stóru systur frá einhverju um móðursystur hennar (stóru systur) sem er einnig móðursystir frænku hennar (stóru systur, en ekki okkar hinna) en hún (frænkan) var einmitt með okkur á kaffihúsinu. Móðursystir þeirra frænkna (sem eru fæddar 1949) er aftur á móti fædd sama ár og litla systir (1965). Ég sagði þeim að Kristján bróðir hans Georgs bróður hefði verið að spyrjast fyrir um mynd, sem ég var þegar búin að lofa frænku okkar í Danmörku. 

En þetta er bara sýnishorn úr föðurfjölskyldunni. Ég er vön að gera grein fyrir mér, ef fólk er eitthvað að ruglast á mínum fjölskylduhögum, með því að segja, réttilega, að ég sé einkabarn í móðurætt og af mið-hjónabandi beggja foreldra, sem er rétt. Núna þegar ég og minn góði eiginmaður höfum búið saman í 48 ár held ég að hann sé alveg hættur að kynna sig sem fyrsta eiginmann minn, sem hann vissulega er þó. 

Mér finnst alltaf besta lýsingin á móðurfólkinu mínu þegar ég var að skila kveðju til frænku minnar, sem ég nánast bjó hjá á unglingsárum og ólst upp með sonum hennar, sem fyrst voru heimagangar á mínu heimili, flestir, en síðan fékk ég gott athvarf hjá þeim í miðbænum þegar ég var að koma af böllum (sem gat verið upp í 4 kvöld í viku) þegar ég var í menntó og að byrja í háskóla. Skólasystir mín í sagnfræðinni bað fyrir góðar kveðjur til þessarar frænku minnar en hún var ekki alveg að kveikja strax. Svo fattaði hún auðvitað, já, hún, hún er systir seinni konu fyrri mannsins míns, indælis kona! 

Ekkert af þessu væri samt gott nema vegna þeirra yndislegu ákvörðunar foreldra minna að halda góðu sambandi áfram eftir skilnaðinn. Þeirra næstu makar voru sannarlega ekki síðri. Mamma giftist fóstra mínum sem hafði beðið eftir henni meðan hún gifti sig í tvígang og þau áttu farsæl 45 ár saman. Pabbi giftist góðri konu sem var mér einstaklega góð og taldi það ekki eftir sér að hafa mig á heimilinu hluta úr sumri meðan þau bjuggu á Seyðisfirði, en það voru mikil sæluár, því miður féll hún frá allt of ung og pabbi líka. Hann var líka heimsins besti sunnudagspabbi þegar hann var í því hlutverki og leyfði mér að klifra upp í vita og leika mér að ritvélum og reikninvélum þegar ég fór með honum á skrifstofuna hans. Golfskálinn í Öskjuhlíð og heimsóknir okkar þangað voru líka nóg til að ég ákvað að gerast golfari á efri árum. Öll töluðu þau foreldrar mínir mjög vel hvert um annað. Ég vissi ekki þá, en veit það nú, að það er ekkert sjálfgefið að svo sé. Ekki voru allir í fjölskyldunni jafn heppnir og ég.

1385185_10202358444060897_1870412648_n (1) - Copy

Mamma hélt góðu sambandi við föðurfólkið mitt eftir að hún skildi við pabba eftir sjö ára hjónaband og ég gat gengið út og inn hjá föðursystur okkar sem þekkti mig betur en margir, því hún færði mér alltaf kaffi, ost og ostaskera (ekkert kex eða brauð, sko!) þegar ég kom í heimsókn, sem var býsna oft. Eina manneskjan sem þekkti mig svo vel. Hjá henni fékk ég oftar hvalkjöt í matinn en heima (þar sem það var þó ekki óþekkt) og furðu vel matreitt. 

Var aðeins að reyna að útskýra fyrir danskri náfrænku minni (bræðradætur) eitthvað um fjölskylduna okkar, en við ætlum að hittast núna um helgina í Kaupmannahöfn. Sendi henni auðvitað skipuritið sem ég útbjó fyrir Jónsmessusýningu Grósku, líklega 2019. Sem bara rétt dekkar okkur systkinin fjögur og okkar fjölskylduþræði. En við spjöllum betur á laugardaginn.

Hana hef ég ekki hitt síðan við fórum ásamt fleiri ungum ættingjum í þriggja stunda reiðtúr frá Hrísbrú í Mosfellsdal, upp að Tröllafossi og niður með honum (það var þá sem ég var komin fram á eyru á hestinum, en ég held að Salli frændi og fararstjórinn hafi verið þeir sem toguðu mig aftur á réttan stað). Þetta hefur verið 1964 eða 1965, ég var alla vega ca. 12 ára og Pia frænka árinu yngri. Hún segir að þetta hafi verið reiðtúr ævinnar fyrir hana og fannst björtu kvöldin hreinasta ævintýri, mig minnir að þetta hafi verið snemmsumars. 

Ykkur finnst textinn kannski óþarflega ruglingslegur. Þið ættuð þá að sjá fjölskylduna. 

Vor í Kaupmannahöfn framundan og kannski kynnist ég fleiri fjölskylduflækjum. 

 unnamed78 (2) 

 


Seinþreytt til vandræða, en ...

Hef líklega yfirleitt verið talin seinþreytt til vandræða. Eitt sinn gerði ákveðin manneskja mjög alvarlega á hlut minn og ég ákvað að setja á náttborðið minnismiða til að minna mig á að vera ekki að heilsa þessari manneskju með virktum ef við rækjumst saman, eins og ég hefði mögulega óvart gert annars. 

En það kemur fyrir að mér misbýður alvarlega. Sem betur fer er ég ekki (svo vitað sé) göldrótt, en það varð samt ástæða til smá athugasemdar á Facebook þegar ég gagnrýndi fyrirtæki sem sýnilega var að reyna að svindla á fólki, og það meira að segja staðsett í öldrunarblokk, þar sem mögulega voru einhverjir sem gátu illa séð í gegnum svindlið. Aðallega gagnrýndi ég þó getu- og eða viljaleysi þeirra aðila sem ég tilkynnti um svindlið til að taka á því (hjá fyrirtækinu). Tveimur eða þremur dögum eftir að ég setti mína gagnrýni á Facebook var tilkynnt í fjölmiðlum að fyrirtækið hefði farið á hausinn. Augljóslega átti ég engan þátt í því, en kannski voru sömu öfl sem stóðu fyrir svindlinu og komu fyrirtækinu á hausinn. Engu að síður fékk ég dásamlegt komment í tengslum við þetta, frá djúpvitri dóttur minni, eitthvað á þessa leið: Don´t mess with my mother, you might regret it! 

Lengi vel trúði ég því að það fyki bara í mig á svona fimm ára fresti, en mögulega er það eitthvað að breytast. Blessaðir yngri strákarnir í sveitinni minni urðu logandi hræddir þegar ég reiddist eitthvað þriðja sumarið sem ég var þar, mér sem fannst ég svo meinlaus. Einhverju sinni varð systir mín, sem þá var búsett erlendis, vitni að því að sýningarhaldari hafði/eða þóttist hafa týnt 2-3 málverkum eftir mig. Ég leit víst eitthvað hvasst á hann og sagði lágum rómi og sjálfsagt með samanbitnar tennur: Þú finnur þessar myndir! Hún sagði eftir á að hún hefði orðið hálf smeyk, en þetta dugði. Hann fór bakatil og sótti verkin og afhenti mér.

Þannig að ef þið haldið að ég sé meinleysisgrey, eins og ég lít út fyrir að vera, þá er það bara ykkar mál. En ég tek það fram að ég held ég eigi bara alls ekkert sökótt við ykkur, kæru lesendur. 


Föstudagurinn laaaaaaaaaaaaaaaaangi framundan

Við erum ekkert svo fá sem munum þá tíð þegar föstudagurinn langi var enn lengri en á seinustu árum. Þegar allt var lokað, ekkert mátti, alla vega alls ekki spila á spil, og fólk átti bara almennt að vera grafalvarlegt í bragði. Enn eimir eftir af þessari tilhneigingu, ég kynnti mér um daginn hvaða kaffihús, það er að segja þau sem selja almennilegt kaffi (!) væru opin á föstudaginn langa og það kom í ljós að ótrúlega mörg af mínum uppáhalds voru annað hvort lokuð eða skelltu í lás um miðjan morgun (kl. 16 til dæmis) þann dag.

Eins og margir Íslendingar er ég alls ekki trúlaus og kunni ýmislegt sem ég lærði forðum í sunnudagsskólanum sem Inga og Sjöfn vinkonur mínar sáu um að ég sækti. En viðurkenni fúslega ákveðið kæruleysi í trúnni og föstudagurinn langi var kannski helst svolítið trúarlegur eftir að Ólafur fóstri minn uppgötvaði Jesus Christ Superstar og spilaði alltaf á föstudaginn langa. Merkilegt, þar sem hann sýndi yfirleitt lítinn áhuga á tónlist þar fyrir utan. 

Mig hlýtur að misminna að ég hafi einu sinni verið meðal læknanema í Debrecen yfir páska og annars árs nemar hafi átt að mæta til að æfa sig að kryfja lík einmitt á þessum fræga dánardegi, að vísu fyrir næstum 2000 árum (dánardægrið, ekki krufningin). 

Þó verð ég að játa að einu sinni naut ég virkilega góðs af því hversu langur föstudagurinn langi var. Þá var ég hjá henni Sigrúnu Guðmundsdóttur í skúlptúrtímum í Myndlistaskólanum og ákveðið var að hittast til að steypa styttur kl. 11 á föstudaginn langa. Þetta var óralangur dagur, en svo vel vildi til að fermingarveisla Óla okkar hafði verið daginn áður, og þótt ég hefði svarið það að ég væri alveg fullfær um að sjá um veitingar að þessu sinni, þá treysti fjölskyldan mín því greinilega ekki og húsið fylltist af brauðtertum og alls konar góðgæti, ofan á vel ríflegan skammt sem ég hafði útbúið með talsverðu stolti. Það vildi nefnilega svo til, sex árum fyrr, að hún Hanna dóttir okkar (þá 9 ára gömul) sagði með áhyggjusvip: Mamma, þú veist að þú verður að ferma í næstu kosningabaráttu. Og það gekk eftir. Hún var fermd fjórum árum síðar og meira að segja upplýsingahópur Kvennalistans kom með kræsingar, en systur okkar Ara, Elísabet og Síví, áttu samt stærstan heiðurinn það árið og ég nánast ekki nokkurn. Svo það var kannski ekki skrýtið að plan B hefði verið virkjað þegar næsta ferming var yfirvofandi (þótt engar kosningar væru).

376807_4207579426198_1134309722_n

Við vorum allar, nemendur Sigrúnar, í fullri vinnu á þessum tíma og sumar gott betur, svo það kom sér vel að þessi tiltekni föstudagur var svona voðalega langur. Afgangarnir úr fermingarveislu 2 reyndust okkur heilladrjúgir þennan dag (ekkert sérlega mikið af kjötmeti, svo því sé haldið til haga) enda vorum við að framundir miðnætti og vorum orðnar hæfilega ruglaðar í lokin, þótt engar væru hættulegu gufurnar, eins og í sumri myndlist. Til dæmis fékk steinsteypta styttan sem ég er að slá utan af á myndinni nafnið Klara Mikk, í höfuðið á sænskri blöndu sem ég bar utan á hana af því henni var ætlaður staður utan dyra. (Væntanlega eitthvað Clara Mix, glær blanda, býst ég við). Aðallega notað á legsteina, sem okkur fannst vel við hæfi. 

Komandi föstudag (langa) erum við tvær vinkonur frá þessum Myndlistarskólaárum að fara að hittast, já, það eru til uppáhaldskaffihús sem skella ekki á nefið á okkur um miðjan morgun. 


Kemur sjómannadagurinn öllum við?

Þegar ég var lítil vissi ég lítið af sjómannadeginum. Það var ekki fyrr en pabbi flutti til Seyðisfjarðar og ég fór að fara til hans á sumrin, að ég áttaði mig á því hvers konar roknadagur þetta væri. Pabbi var alltaf að reyna að koma því svo fyrir að ég yrði komin til hans á sumrin þegar sjómannadagurinn væri, en það stangaðist á við að geta haldið upp á afmælið mitt 4.júni fyrir vinkonurnar hér fyrir sunnan. Þess í stað sýndi hann mér skemmtilegar myndir sem hann hafði tekið og sagði mjög lifandi frá viðburðum dagsins þegar ég kom, yfirleitt örfáum dögum eftir herlegheitin. 17. júní, sem ég hélt yfirleitt uppá á Seyðisfirði, var víst bara svipur hjá sjómannadagssjóninni en nógu góður samt. 

Það þurfti spákonu til að vekja athygli mína á því að örlög fjölskyldu minnar hefði snarsnúist vegna drukknunar sjómanns í fjölskyldunni. Aha, hugsið þið, þetta er hægt að segja við alla. Já, eflaust, en það vill bara svo til að þetta fékk mig til að hugsa um hann langafa sem lést frá eiginkonu og tveimur ungum börnum, þar á meðal ömmu Kötu, þá bara rúmlega eins árs. Amma var sett til vandalausra eða á munaðarleysingjahæli, eins og hún kallaði það og man víst eftir sér þar. Langamma fluttist til Seyðisfjarðar og eignaðist þar nýja fjölskyldu, vel metinn kennara og/eða skólastjóra og eignaðist með honum sjö börn í viðbót. Amma mundi eftir sér á þessu munaðarleysingjahæli (hef ekki fundið heimildir um hvað það var, en þar var slæðingur af börnum). Tvær vel stæðar frænkur í veitingarekstri á Uppsölum í Reykjavík ákváðu að finna litla, ljóshærða stúlku og taka hana að sér, en amma (sem var hvorki lítil né ljóshærð) ákvað að þær tækju hana, sem varð. Hún var viljasterk kona. Síðar ætluðu þær að taka einnig að sér aðra, litla og ljóshærða stúlku, en amma hrakti hana á brott og það sagði hún mér sjálf. Langamma á Seyðisfirði sagði börnum sínum þar að amma væri prinsessa í Reykjavík, og víst var um það að farið var með hana sem slíka, en hún taldi að mamma hennar hefði alveg orðið afhuga henni. Magga systir hennar, elst þeirra sjö yngri, sagði okkur mömmu hins vegar frá þessu.

En sjómaðurinn langafi minn, hann Ólafur, sem var víst vænsti maður? Fyrir nokkrum árum fór ég að grufla aðeins meira í allt of stuttri jarðvist hans. Hann var vélstjóri og aðeins nýorðinn 27 ára þegar hann lést. Eitthvað vissi amma af því að hann hefði tengst Kötlunum í Kotvogi aðeins meira en Íslendingabók gefur upp núna en mér hefur ekki tekist að sanna það né hrekja, enda skiptir það minnstu máli, þetta var bara almannarómur. Hins vegar fann ég fyrir víst fréttir af því þegar hann fórst, eða réttara sagt þegar stórbóndinni í Nesi, sem mikið er mærður, fórst og með honum var maður sem ekki var einu sinni getið með nafni í einni fréttinni. Það var langafi. Mynd sýnir þrjár af fréttunum (þar sem hann er nafngreindur), önnur ömmu eftir að frænkurnar ættleiddu hana og sú þriðja er um2022-06-12_21-55-34 fraekorn.drukknun.langafalangafa í Íslendingabók. IMG_5358drukknun.langafa

drukknun.langafa.betri.frett


Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér ...

Nei, ég er ekki týnd og ég var ekki týnd þegar dóttir mín sagði þetta við mig í byrjun þessa árs. Hún hafði hins vegar rétt fyrir sér. Allt frá því ég fór í lausamennsku/eftirlaun/glæpasagnaskrif/vatnslitun fyrir fjórum árum hef ég haldið því opnu að fylgjast með því hvort eitthvert upplagt starf innan hugbúnaðariðnaðarins byðist. Þetta hafa mínir nánustu vitað mætavel og þess vegna varð dóttur minni þetta að orði. Ég kannaði málið og mikið rétt, skemmtilegu tækifærin fyrir tæknihöfunda bjóðast jafnvel í okkar litla samfélagi. Svo núna um mánaðarmótin byrjaði ég í nýrri vinnu hjá fyrirtæki sem ég held að sé með þeim framsæknustu og áhugaverðustu á landinu nú um stundir, enda hefur það rakað til sín verðlaunum og skipt miklu máli í baráttunni við covid. Held samt að ég ætti að vera búin að vinna þar lengur en í tæpan mánuð áður en ég segi ykkur meira af því, en það er reyndar full ástæða til.

Það kom mér á óvart hversu gaman er að koma aftur í vinnu í þessum ævintýraheimi sem hugbúnaðargerð er. Hefðu blessuð bekkjarsystkini mín í MR átt að segja hvert okkar í bekknum væri ólíklegast til að útskrifast úr verkfræðideild Háskóla Íslands hefðu eflaust einhverjir veðjað á mig. Sú varð þó raunin þegar ég ákvað þessa stefnu um miðjan aldur. Ætlaði reyndar að útskrifast úr raunvísindadeild, fannst það raunverulegra, en svo æxlaðist að fagið mitt var flutt í verkfræðideildina og síðan hef ég verið með mastersgráðu frá þeirri deild. Síðan hefur starfsferillinn að mestu verið bundinn við nördinn í mér. Það var hreinlega eins og að koma heim að fara að vinna á þessum vettvangi. 

Þessi fjögur ár frá því ég vann seinast í þessum bransa hef ég notað vel. Fékk meiri tíma fyrir fjölskylduna en oft áður á mikilvægum tíma í tilverunni. Byggði upp glæpa(sagna)ferilinn þannig að ein bók er komin út og gekk alveg ágætlega, sú næsta kemur út eigi síðar en í apríl á þessu ári, ég er langt komin með fyrstu gerð af þriðju bókinni og byrjuð að henda inn hugmyndum og smáköflum í þá fjórðu. Auk þess datt ég enn einu sinni í að sinna myndlistinni af kappi, tveimur árum áður en ég ætlaði að henda mér út í þá djúpu laug, enn einu sinni. Lífið er ljúft. 

 

716e7a226594230ea3c57cb307c16c02


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband