Uppgerðar skoðanir og annað af svipuðu tagi

Þegar verið var að kljást um bjórmálið forðum, meðal annars á þingi, blandaðist ég aðeins, óvart, inn í þá atburðarás. Án þess að rekja það í smáatriðum, enda svolítið flókið, þá var mér sagt það blákalt og í óspurðum fréttum að ég væri á móti bjórnum. Þar sem ég sat nú við kaffiborðið þar sem mér voru sagðar þessar fréttir, og glotti, mótmælti önnur manneskja því, réttilega, fyrir mína hönd. Upphófst nokkuð karp um það, og hafði manneskjan, sem var viss um að ég væri bjórandstæðingur, betur, þar til ég skarst í leikinn og sagðist vera hlynnt bjórnum. ,,Af hverju vissi ég það ekki?" spurði viðkomandi forviða. ,,Þú hefðir kannski átt að spyrja mig," svaraði ég. Um þessar mundir sá ég um ritstjórn og blaðamennsku fyrir ýmis félagasamtök, meðal annars SÁÁ, og þar var enginn misskilningur á ferðinni, heldur voru gerðar skipulagsbreytingar á SÁÁ-blaðinu sem skrifuðu mig út úr því handriti. Svo ég fórnaði meira að segja skemmtilegu verkefni fyrir bjórinn. Hafði þó fullan skilning á afstöðunni en það haggaði ekki minni skoðun. 

Þegar ég var í Cordóba fyrr á árinu var spánskur félagi okkar Íslendinganna, virðulegur eldri maður, að segja mér að ég þyrfti alls ekki að vera svona hógvær og feimin eins og ég væri. Hmm, það má vel vera að ég hafi einhvern tíma verið bæði hógvær og feimin, en það hefur elst vel af mér. Reyndi að segja honum það, en hann sat við sinn keip. Daginn eftir þennan fræðslupistil sem hann færði mér alveg frítt, vildi svo til að við vorum í sameiginlegri skoðunarferð um fornleifasvæði með fínasta leiðsögutæki um hálsinn. Nema hvað ég var búin að stilla vel á rétta, enskumælandi rás og setja á réttan hljóðstyrk þegar hann kom askvaðandi og ætlaði að fara að stilla þetta allt saman ,,fyrir mig". Alveg ósjálfrátt sló ég á fingurna á honum áður en þeir náðu að klófesta leiðsöguhálsmenið mitt. Það var alveg dásamlegt að sjá hvað blessaður maðurinn hrökk í kút. Held hann trúi því núna að ég sé ekki beint feimin.

335078214_928969771565715_7299436930915457062_n

Skömmu eftir heimkomuna kom upp faglegur ágreiningur milli mín og annars aðila, eins og gengur. Það var í sjálfu sér bara eitthvað sem getur gerst, en mér fannst ákveðinn óheiðarleiki í vinnubrögðum í málinu. Þá var mér sagt að það væri fullur skilningur á því að ég væri frústreruð út af þessu. ,,Frústreruð?" sagði ég og var fljót að leiðrétta málið. ,,Ekki frústreruð, bara reið." 

Mér þætti gaman að vita hvort karlmenn lendi oft í svona stöðu? Að einhver segi blákalt fyrir framan þá hvaða skoðun þeir hafa á ákveðnum málum. Jú, ég hef reyndar séð vandræðalegt dæmi um slíkt en þá var það dómadags frekur nemandi (karlkyns) sem ákvað að útskýra fyrir okkur samnemendum hvað óvenju kurteisi kennarinn (líka karlkyns) hefði í rauninni verið að segja í kennslustundinni sem var nánast á enda. Einhverjar aldraðar frænkur mínar gætu líka hafa verið eins handóðar og roskni Spánverjinn í Cordóba. En þegar ég máta þær inn í svona aðstæður sé ég ekki betur en að þær tækju það frekar út á börnum og gamalmennum en miðaldra, hvítum karlmönnum. Og nýjasta dæmið, um frústrasjónina, sé það engan veginn fyrir mér að karlmanni sé tilkynnt að hann njóti fulls skilnings á því að vera frústreraður. Alveg sama hversu frústreraður hann kynni nú annars að vera.

Þessar svipmyndir gamlar og nýjar hafa skotið upp kollinum hjá mér af og til að undanförnu, og hvað er þá betra en að varpa þessum vangaveltum yfir til ykkar, kæru lesendur?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband