Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Já, við vitum að Rás 2 er fertug á árinu og margt hefur gerst á ,,áttunni"

Rás 2 var hressandi viðbót við fátæklega útvarpsflóru í upphafi níunda áratugarins, áttunnar, eins og farið er að kalla hann. Þórarni Eldjárn hefur verið eignuð sú nafngipt, með réttu eða röngu, og þetta venst. Eftir útvarpsvinnu frá árinu 1978 fannst mér upplagt að sækjast eftir því að vinna eitthvað fyrir Rás 2 en aldrei varð það mikið. Hafði verið með smálegt af tónlistartengdu efni á Rás 1 (sem þá var eina útvarpið) og Zappa-þátturinn minn líklega best þekktur hann hét auðvitað: Zappa getur ekki verið alvara, í takt við úrklippuna hér að neðan. En þá var Rás 2 ekki til.

2020-07-10_23-49-24

 

Fékk þó að leika lausum hala í einhverjum klukkutímaþætti á Rás 2 einhvern tíma á þessari margnefndu áttu, en það var kannski aldrei mitt uppáhaldstímabil í tónlist, þótt ég hefði vissulega fallið fyrir ýmsu, pönki hjá Clash, Utangarðsmönnum og Stranglers, kvennarokkinu hjá Grýlunum. Tók eitt af þremur stærri viðtölunum við þær fyrir Vikuna, mjög gaman, fannst þær hressar og skemmtilegar. Spilaði seinna skvass við Herdísi um tíma og það var svosem ekki minna hresst, önnur hlið á þessum snillingi. En í þessum eina þætti tæmdi ég til öryggis vel af listanum yfir mín uppáhalds á þeim tíma, man bara eftir Special Aka með Free Nelson Mandela (það var líka gert).

Skemmtilegasta verkefnið var þó án efa að fá, ásamt Andreu Jónsdóttur, að kynna upptöku Rásar 2 af tónleikum Leonards Cohen á Íslandi 1988. Andrea hafði farið á blaðamannafundinn fyrir hönd RUV og inn í þættina, sem voru tveir, fléttuðum við klippum þar úr. Þar sem ég hafði gert BA-ritgerðina mína í almennri bókmenntasögu um ljóðagerð Leonards Cohen fékk ég að taka þátt í þessu verkefni og fannst það alveg dásamlegt. Andrea alltaf ein af mínum allra uppáhalds, datt þetta einmitt í hug áðan þegar ég fór að hlusta á þátt hennar Pressuna í einhverju hlaðvarpinu. Vonandi hef ég í þessum þáttum okkar Andreu bætt fyrir prakkarastrik í þætti sem ég var með skömmu fyrr á Rás 1 um ljóðagerð Leonards Cohen, því í honum fjallaði ég nákvæmlega um það efni (og spilaði enga tónlist, mörgum til mikillar armæðu).  

2023-06-24_00-05-22

unnamedcohen


Þú ættir endilega að ,,láta" hann hlæja í útvarpið!

Þegar ég byrjaði í blaðamennsku og þáttagerð fyrir útvarp, rétt tæplega þrítug, fann ég vel fyrir því hvað margir höfðu sínar eigin hugmyndir um hvernig þætti ég ætti að gera. Þetta var heldur skárra þegar ég fór í pappírsblaðamennsku, þá var auðveldara að útfæra þær hugmyndir sem voru raunverulega bitastæðar á sinn hátt. Núna get ég hlegið að því, en mér var ekki hlátur í hug þegar manneskja mér nákomin vildi endilega að ég tæki blásaklausan, sameiginlegan vin í útvarpsviðtal af því hana langaði svo óskaplega að heyra dillandi hláturinn hans í útvarpi. Það var þrautin þyngri að finna undir hvaða yfirskini ég lokkaði hann í viðtal, en vegna velvilja í garð þessarar konu tókst mér loks að ná honum í viðtal í þætti um húsbyggingar og meiningin var að ,,láta" hann hlæja, enda var það verkefnið sem mér hafði verið falið. Hann var auðvitað gaddfreðinn í þessu viðtali og það seinasta sem honum hefði dottið  í hug þann daginn var að hlæja. Röddin kreist og kvalin og sama þótt ég hefði fundið alla heimsins fleti á því að gera listina að byggja að fyndnu útvarpsefni, vitnaði meira að segja í Gísla J. Ástþórsson, ekki tókst mér svo mikið sem að kreista fram bros (enda hefði það ekki sést í útvarpi). 

Lítið skárra var það þegar frændi minn vænn króaði tvo sæmilega þekkta karla af í lyftu í London þegar þar stóð yfir samveldisráðstefna. Hann gerði sér lítið fyrir og tók við þá óralöng viðtöl ,,handa mér" og afhenti mér síðan spólur með hátt í tveggja tíma efni, ómarkvissu og ekkert voðalega áhugaverðu. Fór í gegnum efnið með það fyrir augum að fylla í skörðin og skýra orð þeirra betur og samhengið sem Íslendingar þekktu ekki nema takmarkað. Þetta hefði getað orðið skítsæmilegur þáttur, en reyndist þegar til átti að taka mæta fullkomnu áhugaleysi hjá útvarpsfólkinu og þetta var í eina skiptið sem hugmyndum ,,mínum" að útvarpsþáttum var hafnað. Ég fékk náðarsamlegast að búa til 10 mínútna innskot í morgunþátt sem Páll Heiðar og Sigmar B. voru þá með á útvarpinu eina.  Hrikalega mikil vinna og afraksturinn að vísu alveg þokkalegur, en ég hefði aldrei í lífinu gert þetta að umfjöllunarefni ef ekki hefði verið fyrir ,,hjálpsemi" frænda míns. Þrátt fyrir skaðræðis gott uppeldi lærði ég fljótlega að segja nei og/eða humma svona sértækar hugmyndir ákveðið fram af mér.

Aftur á móti eru ábendingar, sem eru ekki svona sértækar, oft upphafið að stórskemmtilegum viðtölum og greinum, en æ, ekki biðja okkur um að ,,láta" einhvern hlæja í útvarp eða henda í okkur haug af óklipptu efni og segja okkur að gera úr því kraftaverk. Meira að segja komandi páskar geta ekki reddað því. 


Blaðamenn og heimildamenn - óhugnanleg þróun ef Geirar Goldfingers geta stoppað alvarlega fjölmiðlaumfjöllun um mikilvæg mál

Þegar blaðamaður tekur viðtal um þjóðfélagsmein, við heimildarmann sem er að greina frá einhverju háskalegu, jafnvel hættulegu, þá eru báðir aðilar þegar að taka nokkra áhættu. Frjáls blaðamennska hefur alltaf átt undir högg að sækja í heiminum og nú er búið að slá enn einn naglann í líkkistu hugrakkrar blaðamennsku á Íslandi, með dómi yfir blaðamanni Vikunnar. Ekkert er hægt að fetta fingur út í vinnubrögð blaðamannsins, það hefur komið fram. Það sem hæstiréttur er að gera með því að snúa dómi héraðsdóms um Goldfinger málið er að segja: Þú mátt ekki taka viðtal við manneskju sem gárar yfirborð hættulegrar umræðu, jafnvel þótt þú hafir hárrétt eftir heimildarmanni. Umræða um vændi og mansal er hættuleg umræða, því þar er verið að ýta við þeim sem eiga mikla fjárhagslega hagsmuni undir. Það þarf kjark til að fjalla um tabú samfélagsins og það þarf hugrekki til að koma í viðtal um slík málefni. Fylgifiskur er oftar en ekki hótanir eða jafnvel annað verra. 

Blaðamannafélagið hefur brugðist við af mikilli festu og ábyrgð. Mér þykir vænt um að þetta góða stéttarfélag mitt til margra ára er enn einu sinni vel vakandi fyrir ábyrgð á aðstæðum blaðamanna. Á www.press.is er að finna vandaða umfjöllun um málið og ég stikla aðeins á því helsta en mæli með að fólk skoði síðu félagsins. Leturbreyting er mín:

Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur ákveðið að láta kanna hvort efni séu til að senda nýlegan dóm Hæstaréttar Íslands í máli Ágeirs Þórs Davíðssonar gegn Björku Eiðsdóttur blaðamanns á Vikunni til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg. í ályktun sem stjórnin samþykkti fyrr í dag segir m.a. að brýnt sé "að blaðamenn viti hvort það sé réttmæt niðurstaða að blaðamenn beri ábyrgð á öllu því sem viðmælendur þeirra segja. Þá þurfa blaðamenn að vita hvort þessi túlkun Hæstaréttar á við um alla miðla. Hvað með beinar útsendingar til dæmis? Hver er þá ábyrgur?".

Þess má geta að í júní 2008 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Ásgeirs gegn tímaritinu Ísafold (Nýju lífi)  þar sem blaðamaður og ritstjóri voru dæmd til að greiða honum eina milljón króna í miskabætur fyrir grein sem fjallaði um vændi og mansal í tengslum við súlsustað Ásgeirs í Kópavogi. Þar þótti þó ekki meiðandi að fjallað var um vændi  á staðnum enda umræðan ekki talin tilefnislaus, heldur var það hugtakið "mansal" sem þótti meiðandi fyrir Ásgeir - miðað við skýringar orðabókar á hugtakinu.

Ályktun stjórnar Blaðamannafélags Íslands 11. mars:

"Blaðamannafélag Íslands mótmælir harðlega nýlegum dómi Hæstaréttar þar sem blaðamaður Vikunnar er dæmdur í háar fjársektir vegna dómsmáls sem Ásgeir Davíðsson veitingamaður á Goldfinger höfðaði. ... Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að viðmælandi Vikunnar bæri ábyrgð á ummælum sínum. Þar sem fallið hefði verið frá kröfum á hendur henni bæri að sýkna blaðamanninn. Niðurstaða Hæstaréttar er hinsvegar þveröfug. Hún er sú að skjóta sendiboðann og skilja þar með gervalla blaðamannastéttina eftir í algerri réttaróvissu.  ...

Ljóst er að þessi nálgun Hæstaréttar breytir verulega starfsumhverfi blaðamanna og möguleikum þeirra á því að fjalla um umdeild samfélagsmál."

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband