Ekki snúin af glæpa(sagna)brautinni - hliðarspor og áframhald

Vatnsliturinn hefur átt hug, hönd og hjarta þetta misserið, en ég er ekki hætt að hugsa (um glæpi). Þannig þróast mínar glæpasögur, í hausnum á mér. Þegar ég fór aftur í fasta vinnu eftir fjögurra ára eftirlaunatíma (sem var erilsamur í meira lagi) þá var ég langt komin með glæpasögu nr. 3, en hins vegar var nr. 2 ekki komin út og kom ekki formlega út fyrr en um mánaðarmótin maí/júní í fyrra. Hausinn á mér hefur nokkrum sinnum farið á yfirsnúning síðan, eins og gjarnan gerist þegar ég er að setja saman andstyggileg plott og hugsa einhver svikráð á glæpa(sagna)brautinni og tíminn frá útkomu síðustu bókar er engin undantekning. Hef haldið í við að skrá hjá mér allar vendingar á söguþræðinum og unnið í einstökum köflum en í augnablikinu er meira eftir óskrifað af þeirri sögu en var fyrir rúmu ári þegar ég henti mér aftur út á vinnumarkaðinn. Engin tilviljun að ég er ekki að fara í páskaflippsreisu í ár, eins og í fyrra (þegar ég fór til Rómar í annað sinn á hálfu ári). Fyrir utan fjölskyldusamveru er ég ,,bara" búin að skipuleggja að hitta tvær vinkonur, og á ekki nema tvær hálfkláraðar vatnslitamyndir sem gætu gripið hugann. Held samt að blessuð sagan mín fái að njóta páskanna að þessu sinni. 

290566812_10228409526081666_7266678403555551340_n

Annars hef ég alls ekki lifað eins glæpasnauðu lífi og ætlað mætti nú í vetur. Tók nefnilega hliðarspor og skellti mér í verkefni sem er glæpagáta sem þú, lesandi góður, getur nálgast í símanum þínum, væntanlega með vorinu. Þá er ætlunin að koma út allmörgum morðgátum og ég á eina þeirra, og vonandi sjáum við fólk hlaupandi með símana sína út um allar koppagrundir í leit að vísbendingum. Sá sem fékk mig til að taka þetta hliðarspor er sami maður og gaf út vel lukkað leiðsögukerfi fyrir snjallsíma, kringum.is og eftir samskiptum okkar að dæma veit hann svo sannarlega hvað hann er að gera á glæpa(appa)brautinni. Kápan sem hér er sýnd er ekkert endilega sú sem verður á minni glæpagátu þegar nær dregur formlegri útgáfu, en ég held að nafnið haldist. Alla vega nafnið á höfundinum :-) Leyfi ykkur blogglesendum mínum að fylgjast með. 

316891228_871377287635362_5154563558059990801_n

Svo þegar útgefandinn minn góði, á pappírsglæpasögunum tveimur sem út hafa komið, kemur heim úr næstum árlegri langferð sinni, þá setjumst við sjálfsagt niður og plönum næstu skref. Hvort sem við ætlum að vera samferða áfram eða ekki. Ég er með ákveðnar hugmyndir og hann er alls ekki skyldugur til að vera sammála mér, það vitum við bæði, en fyrst þurfum við bara að ná að vera bæði á landinu á sama tíma. Með fullri virðingu fyrir fjarfundum og þess konar samskiptum, eru þetta mál sem mest gaman er að ræða saman yfir kaffibolla og meira að segja í há-covid, þegar hinar bækurnar mínar komu út, tókst okkur það. Bara spennandi, hvaða leið sem við veljum, mun áreiðanlega líka halda bloggvinum mínum upplýstum um þann hluta tilverunnar. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband