Málefnaleg Evrópusambandsumræða á Café Rót í dag - og áframhalds má vænta hjá mörgum góðum bloggurum

Fundur Heimssýnar á Café Rót í dag var fróðlegur og gott dæmi um þá málefnalegu umræðu sem oft hefur skort í Evrópusambandsumræðunni. Fundaröð Heimssýnar hefur verið haldið úti í því skyni að skapa umræðugrundvöll sem sárlega vantar.

Egill Jóhannsson frummælandi er einn þeirra manna sem ekki hefur gert upp hug sinn varðandi aðild Íslands að ESB og tók það fram í upphafi fundar. Hann hefur hins vegar á bloggi sínu (www.egill.blog.is) spurt áleitinna spurninga varðandi þá umræðu sem upp gaus í haust í kjölfar efnahagshrunsins þegar sumir töldu að nú ætti að nota tækifærið og drífa Ísland, umræðu- og gagnrýnilaust inn í ESB og taka upp evru hið snarasta til að ,,redda öllu" (allir sem til málsins þekkja vita að við uppfyllum ekki þau skilyrði sem eru fyrir upptöku evru innan ESB svo það út af fyrir sig var marklaus umræða).

Umræðan í dag var svo yfirgripsmikil að ég ætla mér ekki þá dul að endursegja fundinn, eins og mig hefði langað. Þess í stað vísa ég til góðs efnis á blogginu, bæði þess sem Egill hefur skrifað og aðrir sem þátt tóku í umræðunni í dag. Þar ber fyrstan að nefna Gunnar Albert Rögnvaldsson sem búsettur hefur verið í Danmörku og bloggar undir yfirskriftinn: Tilveran í ESB. Hans blogg er að finna á þessari slóð: http://tilveran-i-esb.blog.is/ - á blogginu hans er einnig að finna ýmis gögn um veru Danmerkur í ESB og fleira sem eiginkona hans, Sigrún Guttormsdóttir Þormar hagfræðingur ræddi um við okkur fundargesti eftir fundinn, en þá hélt áfram líflegt spjall meðal fundagesta. Loks má nefna að enn einn fundargestur og þungavigtarmaður í Heimssýn, Bjarni Harðason, bloggar oft um ESB á bloggi sínu, www. barnihardar.blog.is þó ég sé nú ekki sammála þeim vangaveltum sem bærast í huga hans nákvæmlega í dag um Evrópusambandsmálin og VG. Miklu bjartsýnni en hann á að VG haldi við þá stefnu sem fylgt hefur verið í ESB málum fram til þessa. 

ESB-umræðan er í nokkrum dvala núna en hins vegar getur hún blossað upp hvernær sem er og umræðan er enn skammt á veg komin á Íslandi. Egill Jóhannsson lýsti þeirri skoðun sinni á fundinum í dag að líklega ættum við Íslendingar 10-15 ára verk fyrir höndum til að sinna þessari umræðu af einhverju gagni.

En núna eru það lausnir í efnahagsmálum sem eru mér efst í huga, það er mál sem brennur á öllum þessa dagana og sem betur fer er umræðan frjórri en svo að einblína bara á einhverjar hókus-pókus aðferðir, hvort sem eru ESB-innganga eða aðrar. Í næstu bloggum er röðin komin að þeirri umræðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Anna. Það er vissulega þörf á að umræðan um ESB komist á málefnalegan grundvöll. Þessvegna bið ég þig og aðra um að lesa innlegg Gunnars Rögnvaldssonar með virðingu. Ég á bátt með að sjá einhvern málefnalegan grundvöll í umfjöllun Gunnars -  nema þann einan að honum er mest annt um að viðhalda þeirri ofurfrjálshyggju sem riðið hefur okkar búi að fullu og er á góðri leið með að kollvarpa efnahagslífinu alþjóðlega. Ef það er gjaldið fyrir að standa utan við ESB þá sýnist mér það vera full hátt gjald. ÉSB er vissulega ein leið fyrir Ísland - gölluð eins og flestar leiðir. Ég hef reyndar ekki heyrt um aðrar leiðir, önnur samflot eða þá hvort Ísland eitt og sér fái staðist yfirleitt. Binding við þá norsku er nánast aðhlátursefni hér í Noregi - það væri betra að kaupa Ísland! Eru einhverjir valkostir eftir að vinir Gunnars hafa herjað með bæði fjármálin og lýðræðið? Ég bara spyr!

Albert Einarsson 23.2.2009 kl. 10:48

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Málefnalegar grundvöll segir þú Albert á sama tíma og þú segir Íslendinga ekki geta stjórnað sér sjálfir:

http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/730665/

Hjörtur J. Guðmundsson, 23.2.2009 kl. 10:55

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það merkilega við afstöðu okkar til ESB er að bæði meðal fylgjenda og andstæðinga aðildar Íslands að ESB er fjölbreytt rök að finna. Lýðræðishallinn innan ESB er sá þáttur aðildarinnar sem ég á erfiðast með að sætta mig við, fyrir aðra eru rökin önnur og hluti af málefnalegri umræðu er einmitt að vega öll þessi rök og meta. Fundur Heimssýnar í gær var með áhersluna á þessum þætti aðildar, aðrir fundir hafa verið með allt annars konar áherslum, til dæmis þegar fulltrúar ungliða í VG og Samfylkingu kynntu sín sjónarmið fyrir skemmstu. Við finnum aldrei eitthvert ,,meðaltal" af sjónarmiðum fylgjenda (Ari Skúlason og Vilhjálmur Egilsson???) annars vegar og andstæðinga hins vegar. Umræðan er hins vegar fyrst málefnaleg þegar farið er að fjalla um rök með og á móti. Í umræðum á fundum Heimssýnar hefur þessi fjölbreytileiki fengið að njóta sín mjög.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.2.2009 kl. 13:09

4 identicon

Sæl, Anna! - Það er skrýtin staða að vera allt í einu á sama báti og ýmsir örgustu íhaldskurfar, en ég get ekki séð nein þau rök með ESB sem eru sterkari en mótrökin. Eigum við að arka með okkar nýfnundna og brotthætta lýðræði beint inn í það ofurstýrða batterí um leið og við erum búin að uppgötva að það er hægt að stjórna landinu með öðru en ráðherravaldi? Eigum við að trúa því pg treysta að allir draumar um Evrópustórveldi með sameiginlega utanríkisstefnu og sameiginlegan herafla séu fyrir bí? Hvernig dettur nokkrum manni í hug að yfirráðin yfir fiskimiðunum séu betur komin í Brussel? Jafnvel þótt við höfum klúðrað okkar málum stórfenglega höfum við þó ennþá tækifæri til að gera bragarbót sjálf og miða við okkar veruleika og okkar aðstæður. Mér finnst svo undarlegt að heyra kröfuna um inngöngu í ESB í bland við tal um virkara lýðræði ... þvílík mótsögn!

Ragnheiður Gestsdóttir 23.2.2009 kl. 13:47

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það sem mér finnst skipta máli er að hver einasta manneskja hlýtur að taka afstöðu út frá sannfæringu sinni, út frá þeim rökum sem fyrir liggja og út frá því hvort eittthvert eitt eða fleiri atriði ráða úrslitum. Ragnheiður Gestsdóttir hefur í rauninni alveg sömu sýn og ég, tek undir hvert orð með henni. Það að eiga samleið með fólki sem er andvígt inngöngu í ESB á allt öðrum forsendum er bara staðreynd og reyndar eiga fylgjendur ESB-aðildar við svipaða togstreitu að stríða. Ég man eftir góðri konu sem var hlynnt inngöngu í ESB, þótt hún væri á þeim tíma að vefja þá afstöðu sína í þoku, en þegar hún áttaði sig á því að Jón Baldvin var farin að hrósa henni í hástert fyrir ,,hugrekkið" brást hún öndverð við og svo heitt í hamsi að hún harðbannaði honum að hrósa sér (mig minnir að hún hafi sagt: Ég fyrirbýð þér ...).

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.2.2009 kl. 19:29

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband