Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Mig grunar að ESB-könnun á visir.is og Bylgjunni gefi VÍSbendingu um breytt viðhorf

Vonandi er þjóðin hætt að vera hissa og lúbarin og orðin reið og hugrökk! Sé að visir.is hefur gert könnun á viðhorfi þjóðarinnar til ESB-aðildar með og án krónu og Íslands án ESB með og án krónunnar. Svörin eru birt á vef Bylgjunnar (neðst á síðunni): http://www.bylgjan.is/ - svona alla vega smá stund í viðbót. Annars eru upplýsingarnar birtar á síðu Vilborgar bloggvinkonu minnar með meiru: http://www.villagunn.blog.is

Þótt þátttaka á svona síðum sé sjálfsprottin, þá finnst mér þetta í takt við það sem ég heyri í kring um mig. Uppgjöfin er að verða að bakai og þeim fer fækkandi athugasemdunum á borð við: Getum við gert nokkuð annað en að fara í ESB, ... neyðumst við ekki til að ganga inn! ... er nokkuð hægt að klúðra þessu meira? (sem er reyndar alveg hægt, bæði í aðildaviðræðum, samningum og innan ESB). Bíð spennt eftir næstu könnun með vísindanlegu úrtaki, það skyldi þá aldrei fara svo að eitthvað merkilegt kæmi út úr því?

Á morgun verður krónan sett á flot og það getur svosem komið smá bakslag í umræðuna þá, en hmmm, ESB-sinnum hefur ekki tekist að sannfæra fólk um að aðild að ESB og umræða um möguleika á öðrum gjaldmiðlum sé ein og hin sama. Það er hún nefnilega alls ekki, EF fólk er tilbúið til að hugsa út fyrir þrengsta kassann! 

 


Vinkonurnar og fundirnir settu svip sinn á 1. desember - og VG á flugi!

Allt of sjaldan sem Gunna vinkona mín á leið í bæinn, þannig að ég var heppin að geta slakað út fráteknum tíma, sem ég hefði annars eytt í Myndlistarskólanum í Kópavogi (sem er líka gott mál en fleiri tækifæri gefast) og verið með Gunnu sæmilegan hluta úr deginum. Hún og Heiða mættu til mín í morgun, ekkert óguðlega snemma, og svo þurfti Heiða að fara í vinnuna, en Gunna varð eftir hjá mér og við byrjuðum daginn á latte hérna heima og vorum svo ótrúlega duglegar að saxa á listann sem Gunna hafði með sér þar til ég skildi við hana í heimsókn hjá Sigríði, sem er á tíræðisaldri. Fengum sem betur fer líka tíma til þess að spjalla. Við náðum fyrsta korterinu á fundinum á Arnarhóli og það var líka ágætt að sýna lit þar.

Aðalfundur dagsins var svo fullveldishátíð Heimssýnar í Salnum, flott dagskrá og fín mæting og mér þótti vænt um hve margar úr hópi vinkvenna minna er annt um blessað fullveldið okkar og fyrir utan nánustu fjölskylduna, þá hitti ég þarna líka ættingja sem mér finnst gaman að vita eru sama sinnis, vissi ekki um þá alla, svo fær maður líka alltaf góðar ábendingar og pælingar á svona mannamótum. Bjarni Harðarson komst nokkuð nærri kjarna málsins er hann sagði að í samtökum okkar væri fólk sem væri á móti Evrópusambandsaðild á mjög mismunandi forsendum og hefði að öðru leyti mjög mismunandi skoðanir. Þetta endurspeglaðist einmitt skemmtilega hjá ræðumönnunum Katrínu Jakobsdóttur og Styrmi Gunnarssyni, sem bæði voru skrambi góð. Framlag listamannanna var líka sérlega vel heppnað, held ég hafi ekki verið að ímynda mér hvað þau tóku einlæglegan þátt í dagskránni. Þórarinn Eldjárn, Diddú, Eydís og Jónas. Frábært! Enda daginn á sama hátt og ég byrjaði, hitti Gunnu og Heiðu, í þetta sinn heima hjá Heiðu.

Og svo þessar frábæru fylgistölur í nýjustu skoðanakönnuninni sem segja mér að VG stendur fyrir það sem þjóðin vill stefna að núna á þessum erfiðu tímum, það eru engin smá skilaboð. Jamm, ég veit að þetta eru ekki kosningar, við öll í VG erum meðvituð um það. Þjóðin vill vissulega kjósa, en ætli hún fái það. Ætli valdamenn vilji að þjóðin kjósi VG? Því miður ekki.


Gospel söngur, afmæli Ingu Birnu og ekki gleyma 1. des. hátíð Heimssýnar í Salnum klukkan 17

Ljúft og gott kvöld í faðmi vina. Inga Birna dóttir vina okkar Ása og Önnu er orðin sextán ára og hélt uppá afmælið með því að syngja með gospelkórnum sínum, sem kenndur er við sjálfan Vídalín í Vídalínskirkju í Garðabæ. Flottir tónleikar - ekki síst verk eftir Maríu Magnúsdóttur kórstjóra, frá Dysjum heyrist mér (ætli hún sé dóttir Magga Björns, eða átti Guðmann á Dysjum son sem heitir Magnús, gæti mjög vel verið) en Inga Birna ... fínn kór sem hún er í! Og á eftir var boðið til afmælisveislu í Brekkuskógunum og kræsingarnar voru þvílíkar að ég neyddist til að setja diskinn minn í vaskinn eftir tvær ferðir að borðinu, og valdi þó nóg af hollustu með hnallþórunum. Sólu kippir alvarlega í kynið og þeim öðrum sem bera ábyrgð á veislunni!

Svo bendi ég á næstu bloggfærslu á undan og minni á 1. des fundinn í Salnum í Kópgavogi klukkan 17, á vegum Heimssýnar, frekari upplýsingar hér að undan.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband