Vinkonurnar og fundirnir settu svip sinn á 1. desember - og VG á flugi!

Allt of sjaldan sem Gunna vinkona mín á leið í bæinn, þannig að ég var heppin að geta slakað út fráteknum tíma, sem ég hefði annars eytt í Myndlistarskólanum í Kópavogi (sem er líka gott mál en fleiri tækifæri gefast) og verið með Gunnu sæmilegan hluta úr deginum. Hún og Heiða mættu til mín í morgun, ekkert óguðlega snemma, og svo þurfti Heiða að fara í vinnuna, en Gunna varð eftir hjá mér og við byrjuðum daginn á latte hérna heima og vorum svo ótrúlega duglegar að saxa á listann sem Gunna hafði með sér þar til ég skildi við hana í heimsókn hjá Sigríði, sem er á tíræðisaldri. Fengum sem betur fer líka tíma til þess að spjalla. Við náðum fyrsta korterinu á fundinum á Arnarhóli og það var líka ágætt að sýna lit þar.

Aðalfundur dagsins var svo fullveldishátíð Heimssýnar í Salnum, flott dagskrá og fín mæting og mér þótti vænt um hve margar úr hópi vinkvenna minna er annt um blessað fullveldið okkar og fyrir utan nánustu fjölskylduna, þá hitti ég þarna líka ættingja sem mér finnst gaman að vita eru sama sinnis, vissi ekki um þá alla, svo fær maður líka alltaf góðar ábendingar og pælingar á svona mannamótum. Bjarni Harðarson komst nokkuð nærri kjarna málsins er hann sagði að í samtökum okkar væri fólk sem væri á móti Evrópusambandsaðild á mjög mismunandi forsendum og hefði að öðru leyti mjög mismunandi skoðanir. Þetta endurspeglaðist einmitt skemmtilega hjá ræðumönnunum Katrínu Jakobsdóttur og Styrmi Gunnarssyni, sem bæði voru skrambi góð. Framlag listamannanna var líka sérlega vel heppnað, held ég hafi ekki verið að ímynda mér hvað þau tóku einlæglegan þátt í dagskránni. Þórarinn Eldjárn, Diddú, Eydís og Jónas. Frábært! Enda daginn á sama hátt og ég byrjaði, hitti Gunnu og Heiðu, í þetta sinn heima hjá Heiðu.

Og svo þessar frábæru fylgistölur í nýjustu skoðanakönnuninni sem segja mér að VG stendur fyrir það sem þjóðin vill stefna að núna á þessum erfiðu tímum, það eru engin smá skilaboð. Jamm, ég veit að þetta eru ekki kosningar, við öll í VG erum meðvituð um það. Þjóðin vill vissulega kjósa, en ætli hún fái það. Ætli valdamenn vilji að þjóðin kjósi VG? Því miður ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef vinstri grænir komast til valda þá deyja Vestfirðir út. Og vona ég sannarlega að þeir komist ekki að því þeir eru bara flokkur sem mótmælir og það öllu. Voru þeir ekki bæði á móti bjórnum og litasjónvarpi eins og ein góð kona sagði um árið. En vonandi kemur fólk á Vestfjörðum í veg fyrir það

Guðrún Vestfirðingur 2.12.2008 kl. 18:14

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sannarlega væri nú málefnalegra að fæa rökstuðning við þþesari furðulegu athugasemd.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.12.2008 kl. 20:54

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

... þessari.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.12.2008 kl. 20:55

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband