Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Sautjándi júní er alltaf sérstakur

Sautjándi júní runninn upp og mörgum eftirminnilegum skýtur upp kollinum. Skrúðgöngur bernskunnar, sautjándi júní á Seyðisfirði 1964 þegar pabbi sagði að Haukur Mortens eða Bítlanirnir myndu spila og Haukur mætti, en ég fékk samt að fara á ballið og vera til klukkan hálf 12 rétt nýskriðin á þrettánda árið. Hvort pabbi þurfti að beita sér til að breyta reglunum veit ég ekki, en við krakkarnir tveir sem vorum þarna eyddum kvöldinu í að flissa og blása upp blöðrur. Á Seyðisfirði var sjómannadagurinn miklu meiri hátíðisdagur, en það skyggði ekkert á þennan tiltekna sautjánda.

Stúdentsárið, þá var frostnótt á sautjándann en úti skokkaði maður með stúdentshúfuna aftur á baki (bandið sem á að liggja framan á svarta hlutanum er nefnilega ágætt til að halda svona sumarhúfum um hálsinn ;-) óformlegheit hippaáranna urðu til þess að það var bara fyndið og gaman að eignast húfu, en svo var aftur á móti annað mál með notkunina. Húfan hefur prýtt marga góða kolla eftir það, einkum í minni ágætu tengdafjölskyldu. Með krakkana okkar nýflutt á Álftanesið, rétt fyrir neðan húsið okkar þar sem þá var sundlaugargrunnur sem síðar var fyllt uppí og laugin færð hinu megin við skólann. Það var heitur og sólríkur dagur. Einhvern tíma lék ég fótbolta í regngalla með hreppsnefndinni, í annað skipti var það hátíðarræðan og einhvern tíma var Ari í reiptogi og fleiri fíflalátum með Lions. Ófáar skrúðgöngur fór maður frá Bessastaðakirkju, meðan krakkarnir voru á skrúðgöngualdrinum.

Og svo var það árið sem ég hélt hátíðarræðuna í Sandgerði, þá nýbyrjuð að skrifa sögu sveitarfélagsins, sem bíður útgáfu í handriti, kemur vonandi út fyrr eða síðar. Það var gaman, enn meira gaman fannst mér þegar fótboltaleikurinn Ísland-Pólland hófs þar, en svo var brennt í bæinn (okkar, Álftanes) með viðkomu í sjoppunni hjá Fitjum, en þar skófluðum við Ari í okkur pulsum. Veðrið var ágætt en allt í einu fauk bíllinn harkalega til og Ari hafði orð á því að hann væri aldeilis farinn að blása og þetta hefði verið snörp vindhviða. Skömmu síðar hringdi nágranninn að norðan og spurði hvernig ástandið væri á Álftanesinu eftir jarðskjálftann. ,,Vindhviða, hvað?" Heima var allt uppistandandi nema ein stytta og enginn í stressinu. Vinir okkar af nesinu sem voru á Selfossi urðu betur varir við skjálftann og í dag heyrði ég að á Arnarhóli hefði mannskapurinn klappað ;-) 

Gleðilega þjóðhátíð! 


Gangi ykkur vel að stöðva þá áður en þeir skaða einhvern alvarlega

Óska lögreglunni góðs gengis í þessu mikilvæga verkefni, fann heldur betur fyrir þessu hraðakstri í Borgarfirðinum í dag og svo virðist sem viðkomandi bíll. svartur frekar flottur fólksbíll, hafi ógnað öryggi fleiri en minnar fjölskyldu, sjaldan séð annan eins glæfraakstur. Blöndóslögregluna um land allt, takk, áður en fleiri skaðast!
mbl.is Lögregla minnir á hærri sektir og betri tækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurnýting

Rosalega höfum við verið heppin varðandi sumarbústaðinn okkar, við höfum fengið meira og minna heilt innbú í hann án þess að þurfa að kaupa eiginlega neitt. Þetta dettur mér nú í hug af þvi við vorum að fá fallegt hornsófasett gefins sem smellpassar svona í bústaðinn okkar, og ekki nóg með að vinir og ættingjar hugsi til okkar (og viti að við erum rosalega endurnýtin) heldur er þetta alltaf svo fallegt sem okkur áskotnast.

Þegar ég lít í kringum mig heima, þá er í rauninni sömu sögu að segja, fyrir utan nokkrar bókahillur, þá lítið af innbúinu aðkeypt, nema hvað við enduðum með að kaupa okkur sófasett fyrir 6-7 árum, eftir að sófasettið sem við keyptum notað 1979 og ég hafði margsaumað utan um, hreinlega dó. Jú, einn fallegan, háan skáp fengum við okkur í millibilsástandinu þegar við vorum búin að rífa út gömllu bráðabirgðaeldhúsinnréttinguna en ekki setja hina upp. Það olli því reyndar að þegar jólamáltíðin var að verða tilbúin uppgötvaðist allt í einu að allir diskarnir voru enn inni í skápnum og ýmsum hafði verið raðað fyrir hann, enda var þá (endur)byggingartímabil hússins rétt að byrja. 

Þarna eru borðstofugömlu stólarnir sem mamma átti, hún var eflaust þriðji eigandi og af því þeir eru bara 5 þá eigum við líka einn Louis Ghost við, kaupum kannski fleiri því stofuborðið hennar ömmu er stækkanlegt, þarna er líka skápurinn sem mamma og pabbi keyptu sér um 1950, og ,,danish modern" ruggustóllinn kauptu þau líka (þarfnast yfirdekkingar - sé hann fyrir mér knallrauðan). Sófaborðið er hurð með grind undir sem smíðuð var í stíl vil gluggana okkar, Britannica í fallegum skáp, sem dagaði uppi frá tengdaforeldrum mínum, gullfallegt og gagnlegt ennþá, mamma er byrjuð að lauma að mér antíkhlutum sem hún þykist hafa keypt fyrir sjálfa sig, ég fékk líka gamla dúnkofastólinn, sem reyndist vera í stíl Arts and Crafts og þannig mætti lengi telja. Eins og sakir standa ægir öllu saman, enda húsið að hluta enn á (endur)byggingarstigi, en ég er að verða spennt að endurraða þessum fallegu hlutum sem við höfum fengið úr ýmsum áttum. Samræmi mun ég aldrei geta lofað, en áhugavert, já, ekki spurning ;-)

Ég á ágæta vinkonu sem líka er dugleg að endurnýta og eftir að hafa grúskað á antíksölum í London lengi vel og halað inn ýmislegt þar fluttist hún heim til Íslands og uppgötvaði góða hirðinn. Á fimmtugsafmælinu hennar héldu systkini hennar, sem eru greinilega ekki eins endurnýtingarsinnuð, ræðu sem mér fannst reyndar á mörkunum, en þeim fyrirgefst af því þau eru svo rosalega skemmtileg. Þau kölluðu nefnilega innbúið hennar ,,haugana heim". Hvað á ég þá að kalla okkar innbú? Kannski ,,háaloftin heim"?


Yndislegur skreppitúr í bústaðinn, útskriftarveisla og tveir undanlega ólíkir umferðardagar

Trú veðurspánni ákvaðum við að skjótast upp í sumarbústað um miðjan dag í gær, en ég hafði einmitt mætti allt of snemma í vinnuna til að losna snemma. Það reyndist mikið heillaákvörðun því umferðin um vesturlandsveg var skapleg, skapgóð og afskaplega þægileg. Það var ekkert smá yndislegt að komast í bústaðinn okkar góða, veðrið afskaplega fallegt og bústaðurinn auðvitað alltaf jafn yndislegur. Hlóðum batteríin vel, sváfum mikið og höfðum það í alla staði ljúft. Vorum að endurskipuleggja stpfuna Nýtt skipulag í stofunni heppnaðist velmeð tilliti til nýrra endurvinnsluhúsgagna (kannski skrifa ég bráðum um endurvinnsluhúsgögnin sem oftar en ekki enda sögu sína hjá okkur). Það var skemmtileg törn og maður svitnaði mátulega í húsgagnaburði. Óli var hálf hissa þegar hann kom um 9-leytið uppeftir til okkar.

 

 

 

 

 

Í dag var síðan Oddrún vinkona okkar að útskrifast úr Kennaraháskólanum og við í bæinn í útskriftarveislu. Oddrún útskriftarprinsessa skrifaði um Alzheimer í lokaritgerðinniVeislan afskaplega ljúf, en umferðin í bæinn var einhvers konar vígvöllur umskiptinga. Spurning hvort nú hafi verið á ferð fullt af geðvonskupúkum sem komust ekki af stað í gærkvöldi og létu það bitna á okkur hinum, eða kannski þeir sem eru orðnir svo aldraðir að þeir komust ekki af þeim sökum úr stað í gær. Alla vega tel ég okkur ljónheppin að hafa lifað af þrjár morðtilraunir (þar af eina alvarlega) og einn aldinn heiðursmann sem stefndi harðákveðinn beint á okkur á miðjum örmjóum Álftanesveginum þar til Ari neyddist til að nauðhemla og við ískrið úr hemlunum okkar hefur sá gamli greinilega vaknað og vippaði sér á réttan vegarhelming. Öllu alvarlegri var morðtilraunin hjá ökumanni flotta svarta bílsins rétt sunnan við Borgarfjarðarbrú, en þegar við vorum rétt að mæta bíl þar, tók sá svarti sauður sig til og ákvað að blússa framúr bílnum sem við mættum, og hætti ekkert við þótt við kæmum á móti. Ef vegurinn þarna hefði verið jafn mjór og Álftanesvegurinn værum við steindauð, slíkur var hraðinn á fíflinu. En vegurinn er breiður og með því að Ari keyrði alveg út í blákantinn dó enginn. Ef þið heyrið af banaslysi á leiðinni norður eða til baka um helgina er ég hálf hrædd um að annar bílanna sé svartur, dýr og með afskaplega hættulegan mann undir stýri.

Og enn horfi ég á nýja veðurspá helgarinnar, allt öðru vísi en þá sem ég treysti um miðjan dag í gær. Spennan magnast.  


Sumardagurinn EINI

Samkvæmt öllum langtímaveðurspám er sumardagurinn EINI á morgun, hér á suðvesturhorninu. Þess vegna er brýnt að nota sólina og vera dugleg að njóta góða veðursins. Ekki hægt að treysta því að fleiri svona dagar komi. Gleðilegt sumar!

 

 


Ástir sundurlyndra hjóna

Heyrði þá furðulegu söguskoðun í dag úr munni eins nýbakaðs ráðherra að það væri hreinlega styrkleiki nýu ríkisstjórnarinnar hversu sundurlyndur meiirhlutinn væri. Þetta þykja mér heldur undarleg tíðindi. Þetta er auðvitað sagt í trausti þess að meirihlutinn sé nógu stór til að sumir þingmenn ,,megi" hlaupa útundan sér. En spurningin er, hverjir þeirra, hve margir hverju sinni og hvar eru mörkin? Mér finnst þetta reyndar mjög fíflalegt, leyfa þeim að sprikla í búrinu (ríkisstjórnarmeirihlutans) og kannski að skora meðal kjósenda sinna, allt í lagi á meðan það hefur engin áhrif! 

Mér finnst tvennt koma til greina þegar samsteypustjórnir eru myndaðar, annars vegar að þær eigi það mikla samleið málefnalega, að ekki þurfi að semja fyrirfram um nema örfá ágreiningsmál. Hins vegar, ef um mjög ólíka flokka er að ræða, að gera ítarlegan málefnasamning sem tekur bæði til þess hvaða málum á að þoka áfram og einnig til þess hvaða mál þarf að setja í salt, af því ekki næst samstaða um þau.

Í fyrra tilfellinu hefði til dæmis væntanleg vinstri stjórn getað komið velferðarmálunum áfram án þess að negla þyrfti þau of mikið niður (hér er gengið út frá því að vinstri öflin í Samfylkingunni hefðu ráðið ferðinni, því út á þau fékk Samfylking það fylgi sem þó halaðist inn), á meðan setja hefði þurft sannanleg ágreiningsmál eins og  ESB á ,,hold".

Ef VG og Sjálfstæðisflokkur hefðu myndað saman stjórn, mynstur sem margir telja að hefði getað orðið nokkuð farsælt, þá hefði það samstarf ekki verið mögulegt nema að negla niður afskaplega ítarlegan málefnasamning.

En núna munum við þurfa að horfa upp á hjónabandserjur fyrir opnum tjöldum í fjögur ár, í ca. 43 manna hjónabandi!

 


Formúlan

Ég hef ekki á takteinum formúluna fyrir hamingju, ekki fyrir réttlæti, nei, formúlan sem ég ætla að tala um er Formúla 1 kappaksturinn. Kannski hálf ,,splittað" að hafa gaman af því að horfa á kappakstur í sjónvarpi en vera um leið ofurgætin og hatrammur andstæðingur glæfraaksturs - á götum úti. Það er einmitt þetta seinasta sem skiptir máli, íþróttir eru vissulega margar hverjar hættuspil, Georg bróðir til að mynda tvisvar lent á slysó eftir að spila skvass við mig, en í íþróttum eiga allir að vera meðvitaðir um áhættuna sem tekin er. Þannig að lengi vel fannst mér formúlan meðal betra íþróttaefnis í sjónvarpi og hélt með mínum ágæta skoska Coultard. Hins vegar hefur hann ekki verið á nógu góðum bíl að undanförnu, þrátt fyrir góðan vilja Red Bull. Ég mun halda með honum áfram, á því leikur enginn vafi, en þegar hann er ekki að blanda sér í toppbaráttuna, er hætt að vera skemmtilegt að horfa nema endrum og sinnum. 

En nú held ég að áhugi minn sé að vakna á nýjan leik. Hamilton er spennandi karakter og ég hlakka til að fylgjast með honum á næstunni. Þannig að hver veit nema ég geti farið að horfa á formúluna af auknum áhuga fyrr en varir? Það sem er spennandi er að brjóta upp klissjurnar í íþróttinni, ungir hvítir karlar hafa ,,átt" þessa íþrótt fram til þessa, en nú e r óspart vitnað til Tiger Woods í golfinu sem hliðstæða innkomu og Hamilton á nú, þar sem einokun hvíta kynþáttarins er rofin. Ég vil líka benda á að Annika Sörenstam og Michelle Wie  eru að breyta ímynd kven-golfarans, þannig að ég á von á konum í keppendahóp í formúlunni innan fárra ára. Konur eru nefnilega svo lúmskt góðr bílstjórar ;-)


Hjónabönd fólks af gagnstæðu kyni bönnuð - hvað?

Oft gaman að hlusta á morgunútvarpið á leiðinni í vinnuna. Stundum eins og menn séu ekki alveg vaknaðir. Þannig heyrði ég í upprifjun á sögu dagsins að X. ár væru síðan lög sem bönnuðu hjónabönd fólks af gagnstæðu kyni (!) hefði verið samþykkt einmitt á þessum degi.

Samhengið leiddi síðan í ljós, eins og hægt var að giska á, að það sem bannað var átti við fólk af gagnstæðum kynþætti, ekki gagnstæðu kyni. Og eitt annað úr sama morgunútvarpi, Richard Thompson og lagið Dad's gonna kill me, alger snilld.

 


Mike McGear/McCartney fundinn - í Mogganum

Dyggir lesendur vita að ég hef verið í miklum eltingaleik út um allan heim að reyna að hafa upp á Scaffold plötunni Fresh Liver. Þeirri leit lyktaði farsællega með því að ég fann hana og fékk senda einhvers staðar utan úr heim, svolítið dýrari en seinast, en vel þess virði. Inn í þetta blönduðust vangaveltur um afdrif hljómsveitarmeðlima, sem ekki verða frekar raktar hér, en hvað gerðis? Þegar ég fletti Mogganum núna fyrir svefninn, er ekki Mike McGear fundinn, og búinn að taka aftur upp rétt eftirnafn eins og Páll bróðir hans. Nú er hann sem sagt menningarfrömuður í Liverpool og með Andra Snæ í nefnd. Gaman að heyra af honum, svona glóðvolgar fréttir. Eini gallinn við færslur á netinu er að það er misauðvelt að aldursgreina þær, allt er hægt, en er maður að hafa fyrir því?

Umferðarharmleikir

Það kemur alltaf illa við mann að heyra af alvarlegum slysum í umferðinni og sýnu verst þegar um háskaakstur er að ræða. Það er hreinlega vitað hvaða afleiðingar slíkur akstur getur haft í för með sér og sorglegt að það skuli ekki ná að stoppa alla af. Langflestir haga sér reyndar ágætlega í umferðinni, en það dugar bara ekki. Og afleiðingarnar geta orðið svo óskaplegar,  fjölmiðlar fylgja stöku sinnum eftir þeim slysum sem ekki leiða til dauða, og það er alltaf þörf áminning.

Það eru liðin meira en 30 ár síðan ég lenti í því að verða fyrir bíl, á gangbraut reyndar, og eftir á að hyggja þá hefur sú lífsreynsla breytt talsverðu í minni tilveru, bæði til hins verra og hins betra. Tryggvi Þorsteinsson læknir, hlýr og góður maður, sem giftur er frænku minni, kom á öðrum eða þriðja degi til mín þar sem hann hafði frétt að ég lægi á Borgarspítalanum, sem þá var og hét, og hafi skoðað skýrslur um slysið og áverkana og sagði mér að strangt til tekið ætti ég að vera steindauð. Það þarf reyndar mjög sérstakan mann til að geta sagt manni svona lagað þannig að maður finnur bara fyrir þakklæti en engu öðru, en það er líklega galdur sem Tryggvi kann. Sennilega hefur þetta raskað náminu hjá mér til lengri tíma litið, en ég var í tvöföldu listaskóla og háskólanámi þegar þetta var, og í sjálfu sér var ekkert gott við að mölbrotna á tveimur stöðum, en aðrar afleiðingar hafa verið þrálátari og hvimleiðari. 

Mér verður alltaf þegar ég les um ný slys hugsað til þessa litla andartaks, þegar kurteis leigubílsstjóri stoppaði fyrir mér á gangbraut, en annar, ógætinn í augnablik, kom og ,,náði mér". Ég er ein af þessum heppnu. Röð af góðum tilviljunum urðu til að ég fór ekki verr. Vinir mínir og fjölskylda gerðu mér lífið sannarlega auðvelt á meðan ég var uppi á spítala og heima að jafna mig, sem tók drjúgt langan tíma. Ekki síst vinkona mín í Myndlista- og handíðaskólanum, sem kom með vélritaðar glósur handa mér. Og svo kynntist ég manninum mínum þegar hann skutlaði vinum mínum í sjúkraheimsókn.  En ég veit það ósköp vel að það eru ekki allir svona heppnir. 

Við vorum að ræða þetta í vinnunni í dag og vinnufélagi minn undraðist að ekki væru til sérstök afmörkuð og örugg svæði þar sem fólk gæti fengið útrás fyrir löngun sína til hraðaksturs (án þess að tilheyra akstursíþróttahópi). Þótt það myndi sjálfsagt ekki koma í veg fyrir öll tilvik hraðaksturs, þá gæti það verið vel þess virði að reyna það. Kostnaðarlega gæti það ekki komið út öðru vísi en í plús, ef eitthvað drægi úr vondum slysum. Einhvers staðar á Reykjanesi er að vísu einhver spyrnubraut, ef ég man rétt, en það sem hann var að tala um var annars eðlis og ég held að þetta sé eldsnjöll hugmynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband