Umferðarharmleikir

Það kemur alltaf illa við mann að heyra af alvarlegum slysum í umferðinni og sýnu verst þegar um háskaakstur er að ræða. Það er hreinlega vitað hvaða afleiðingar slíkur akstur getur haft í för með sér og sorglegt að það skuli ekki ná að stoppa alla af. Langflestir haga sér reyndar ágætlega í umferðinni, en það dugar bara ekki. Og afleiðingarnar geta orðið svo óskaplegar,  fjölmiðlar fylgja stöku sinnum eftir þeim slysum sem ekki leiða til dauða, og það er alltaf þörf áminning.

Það eru liðin meira en 30 ár síðan ég lenti í því að verða fyrir bíl, á gangbraut reyndar, og eftir á að hyggja þá hefur sú lífsreynsla breytt talsverðu í minni tilveru, bæði til hins verra og hins betra. Tryggvi Þorsteinsson læknir, hlýr og góður maður, sem giftur er frænku minni, kom á öðrum eða þriðja degi til mín þar sem hann hafði frétt að ég lægi á Borgarspítalanum, sem þá var og hét, og hafi skoðað skýrslur um slysið og áverkana og sagði mér að strangt til tekið ætti ég að vera steindauð. Það þarf reyndar mjög sérstakan mann til að geta sagt manni svona lagað þannig að maður finnur bara fyrir þakklæti en engu öðru, en það er líklega galdur sem Tryggvi kann. Sennilega hefur þetta raskað náminu hjá mér til lengri tíma litið, en ég var í tvöföldu listaskóla og háskólanámi þegar þetta var, og í sjálfu sér var ekkert gott við að mölbrotna á tveimur stöðum, en aðrar afleiðingar hafa verið þrálátari og hvimleiðari. 

Mér verður alltaf þegar ég les um ný slys hugsað til þessa litla andartaks, þegar kurteis leigubílsstjóri stoppaði fyrir mér á gangbraut, en annar, ógætinn í augnablik, kom og ,,náði mér". Ég er ein af þessum heppnu. Röð af góðum tilviljunum urðu til að ég fór ekki verr. Vinir mínir og fjölskylda gerðu mér lífið sannarlega auðvelt á meðan ég var uppi á spítala og heima að jafna mig, sem tók drjúgt langan tíma. Ekki síst vinkona mín í Myndlista- og handíðaskólanum, sem kom með vélritaðar glósur handa mér. Og svo kynntist ég manninum mínum þegar hann skutlaði vinum mínum í sjúkraheimsókn.  En ég veit það ósköp vel að það eru ekki allir svona heppnir. 

Við vorum að ræða þetta í vinnunni í dag og vinnufélagi minn undraðist að ekki væru til sérstök afmörkuð og örugg svæði þar sem fólk gæti fengið útrás fyrir löngun sína til hraðaksturs (án þess að tilheyra akstursíþróttahópi). Þótt það myndi sjálfsagt ekki koma í veg fyrir öll tilvik hraðaksturs, þá gæti það verið vel þess virði að reyna það. Kostnaðarlega gæti það ekki komið út öðru vísi en í plús, ef eitthvað drægi úr vondum slysum. Einhvers staðar á Reykjanesi er að vísu einhver spyrnubraut, ef ég man rétt, en það sem hann var að tala um var annars eðlis og ég held að þetta sé eldsnjöll hugmynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband