Ljúft veður, smá dugnaður og annað skemmtilegt

Eftir ágæta vinnurispu seinni partinn í gær og í gærkvöldi tók ég letimorgun í sólinni, eins og ég geri gjarnan hér uppi í bústað, en svo allt í einu sá ég að við svo búið mátti ekki standa og dreif í að vökva tré og blágresisvesalinginn sem ég tók upp úr garðinum heima og setti niður hér, þetta er önnur tilraun til að koma upp blágresisbrekku hér bakvið bústaðinn og vonandi tekst þessi. Þegar ég var komin með slönguna í hendi og vígaleg í gúmmístígvélum fannst mér næst tilvalið að bera á einn þyrstan vegg tæpan þriðjung af pallinum okkar, það er að segja þeim efri. Þetta var bara stórskemmtilegt trimm og manni líður afskaplega vel í skrokknum eftir svona ævintýri. Held ég skelli mér bara í pottinn eftir þetta, það gæti að vísu orðið til að flýta ferð hestamannanna í Fornahvamm (lógískt að Ari hringi þegar ég er komin í pottinn, ekki satt?). En þá er bara að fara uppúr, þurrka sér og sækja mannskapinn ef með þarf. Og svo er ég líka búin að forgangsraða vinnunni næstu tvo daga, og það er alltaf ágætt mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Mikið væri gaman að vera hjá þér þarna í paradísinni í Borgarfirði. Það væri alveg dæmigert að fá símtal eða heimsókn staddur ofan í heita pottinum.

Knús og kveðjur í sveitina.

Guðríður Haraldsdóttir, 19.7.2008 kl. 16:00

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ari hringdi fljótlega eftir að ég var sest í pottinn, auðvitað, en ekki til að láta sækja sig, sem betur fór. Þetta er sko ekki eina símtalið sem ég hef tekið á móti í pottinum, en ef ég má vera kyrr í honum á meðan er það besta mál.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 19.7.2008 kl. 16:55

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband