Útrás og einka(vina)væðing

Fylgist í forundran með umræðunni um sameiningu ,,grænu" orkufyrirtækjanna, þar sem mikið er um þversagnir og furðufréttir. Kemur ekki á óvart að fulltrúar Vinstri grænna eru einir án þversagna að gagnrýna þennan gjörning og Framsóknarmenn virðast einir fagna án efasemda. Sé það rétt að Sjálfstæðismenn séu klofnir í borgarstjórn þá sætir það tíðindum, þótt forsaga Línu.net sé svo sem ávísun á einmitt það. Augljóslega á ýmislegt eftir að koma upp á yfirborðið áður en þessi umræða er til lykta leidd, en það sem mér finnst mikilvægt á þessu stigi er að almannafé verði ekki stefnt í áhætturekstur, að tækifærið verði ekki notað til að hygla enn og aftur einkavinum með almannafé (þetta virðist því miður vera orðinn hlutur) og að auðlindir þjóðarinnar verði ekki einka(vina)væddar, því þegar heyrast raddir um að þetta sé svo spilltur gjörningur að það sé bara eins gott að einkavæða orkufyrirtækin. Málið á ekki að snúast um þetta síðastnefnda, heldur útrás með áhættufé á erlendum vettvangi, en þó líður varla korter áður en sá söngur er kominn af stað.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég segi nú eins og einhver forðum: Það er skítalykt af þessu máli öllu saman. Og hún Svandís Svavarsdóttir á heiður skilinn fyrir það að upplýsa okkur um það sem þarna er að gerast. Vona að málinu verði haldið vakandi. Það eru örugglega ekki öll kurl komin til grafar enn.

Anna Ólafsdóttir (anno) 4.10.2007 kl. 20:48

2 identicon

Það virðist alltaf koma fólki jafnmikið á óvart þegar þessir menn sýna sitt rétta andlit.  Borgarstjórinn er búinn að gera á sig.  Gamli góði Villi sem fyrir örfáum mánuðum hjalaði svo blítt.

Jóhann 4.10.2007 kl. 20:56

3 identicon

Jæja, ég lagði það á mig að hlusta á bæði fréttir og Kastljós og er enn með óbragð í munninum eftir að hafa hlustað með bæði eyru opin á borgarstjórann. "Þarf ekki að hafa eftirlit með þessum mönnum"?, spurði Svandís í Kastljósinu. Það mun taka mig nokkurn tíma að ná áttum í þessu máli, en í bili spyr ég hvort búið sé að leggja grunninn að nýju kvótamáli?

Helga 4.10.2007 kl. 23:43

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Þetta hefur ekkert með orkulindir landsins að gera.  REI er að fara að virkja orkulindir ANNARRA LANDA með okkar þekkingu hins vegar.  Þess vegna er REI gert að sérstöku fyrirtæki í stað þess að OR fari út í ævintýrið á eigin forsendum.  Það er engin ástæða til að einkavæða OR þar sem OR heldur utan um grunnsamfélagsþjónustu.

Það eru hins vegar ótrúleg tækifæri í þessum spilum og væri beinlínis brot í starfi af hálfu okkar kjörnu fulltrúa að taka ekki af skarið við að nýta tækifærin.  Þetta verður ennþá stærra en bankaútrásin.  Skv. áætlunum fyrirtækisins ætlar það að virkja 3-4000 mw árið 2009 (eftir aðeins tvö ár).  Það er hvorki meira né minna en ígildi 5-6 Kárahnjúkavirkjanna eða um 20 Hellisheiðavirkjanna og það er bara byrjunin.  Þetta verða stærri tölur en hafa nokkurn tíman sést á Íslandi og það að þetta sé íslenskt fyrirtæki þýðir að það mun greiða skatt af hagnaði sínum á Íslandi.  Það verður hægt að halda út nokkrum hjúkrunardeildum fyrir það.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 4.10.2007 kl. 23:57

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það voru ekki mín orð að blanda íslenskum orkulindum í þetta, heldur voru þær raddir þegar vaknaðar í miðdegisfréttum og urðu háværar er leið á daginn. Röksemdin er, fyrst það er verið að setja allt á hvolf þa´er best að einkavæða orkufyrirtækin líka, og enginn fyrirvari á því. Það þýðir ekki að láta eins og maður heyri ekki þessar raddir. Þetta með tækifærin mun koma í ljós, en fyrst og fremst finnst mér að ástæða væri til að hlúa að þeirri útrás sem þegar er í gangi og gengur ekki gegn réttlætiskennd vegna ráðstöfunar opinberra peninga í einkaþágu. Þarna á ég til dæmis við hugbúnaðarfyrirtæki í útrás sem flest hver eru fjársvelt og mæta litlum skilningi.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 5.10.2007 kl. 00:13

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband