Fylgjumst með, hlustum grannt

Orkumálin og atburðarásin í dag leggur þá ábyrgð á herðar almennings að fylgjast grannt með málinu. Enn er framvindan ný og skoðanir skiptar, en sumt af því sem fréttir greina frá er nú þegar með ólíkindum. Fylgjmst með. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fór að ráðum þínum um að fylgjast með og gleypti hádegisfréttirnar í mig... nema hvað ég verð að biðjast forláts á að hafa aðeins slakað á athyglinni þegar BIH fékk að láta dæluna ganga - ég bara get ekki hlustað á þann einstakling.

Athyglisvert það sem haft var eftir prófessor á Bifröst um "að leikreglur lýðræðisins og hraði viðskiptalífsins fari ekki saman." Ég átta mig ekki alveg á því hvað maðurinn á við, en veit hins vegar að sumar ákvarðanir stjórnvalda þola ekki dagsljós.

Vonandi verður Svandísi og hennar fólki ágengt.

Helga 5.10.2007 kl. 13:01

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Trúðu mér, ég fylgist með og svo er ekki verra að hafa Svandísi Svavarsdóttur á vaktinni líka fyrir hönd fólksins.  Sko hins almenna borgara.

Jenný Anna Baldursdóttir, 5.10.2007 kl. 16:44

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Spurningin núna er, gerist eitthvað eða tekst að láta þessa reiðni ,,hjaðna", ,,líða frá" eða eyðast út í ekki neitt? Næstu virku dagar munu væntanlega skera úr um það, þrýstingur almennings dugar stundum til að breyta gangi sögunnar og bloggið er orðið umtalsverður þáttur í þeim þrýstingi. Þá er það bara spurning um hversu einbeittur brotaviljinn er. Alla vega held ég að seint verði hægt að fallast á að fundurinn hafi verið löglega boðaður, hvað sem inndregnir hæstaréttalögmenn segja.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.10.2007 kl. 15:19

4 identicon

Anna, vonandi hjaðnar þessi reiði ekki vegna þess að fólk á aldrei að láta réttláta reiði hjaðna heldur nota hana sem orku til að knýja fram sanngirni.

Hvort þessi reiðialda verður bóla sem springur eða sögulegur atburður um að Íslendingum hafi loksins verðið svo nóg boðið að valdspilltir stjórnmálakarlar og peningagírugir karlar urðu undan að láta veltur ekki síst á því að fréttamenn standi vaktina. Þeir hafa gefið sér hið mikla heiti "fjórða valdið" og nú er að sjá hvort þeir standa undir þessari gríðarmiklu nafngift. Telji þeir sig þurfa stuðning almennings þá ætti þeim að vera nóg að líta á blogg kvenna og karla og sjá að fólki er misboðið. 

Því miður þá komst ég ekki á fund VG í morgun þar sem Svandís rakti þetta mikla siðleysi (kannski ætti maður bara að nota sterkara orð en siðleysi til að lýsa þessu! ) en Mbl. hefur þetta eftir henni: "Hlutur ríkisins er 32% og benti Svandís á að hefði borgin átt tæpum tveimur prósentum meira, væri ekki hægt að breyta samþykktum félagsins án samþykkis frá borginni. „Það þýðir meðal annars að við höfum afsalað okkur þekkingunni. Hún er á meðal Visakorta í vasanum á Hannesi Smárasyni og öllum hinum kapítalistadrengjunum. Þekkingin sem við söfnuðum saman í okkar fyrirtæki og þekking sem ekki er til annars staðar í heiminum. Það er búið að gefa hana inn í fyrirtæki sem við ráðum ekkert í.“" (Leturbr. mín).

Legg í bili traust mitt á að hinn örlagaríki fundur verði dæmdur ólöglegur í dómsmálinu sem VG ætlar að höfða, en það þýðir ekki að fjölmiðlamenn eigi að sofna á verðinum og bíða.

Helga 6.10.2007 kl. 16:26

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Framvindan er í fullum gangi ennþá, ekki allt í höfn og ekki öll málalok orðin ljós, en málið er alla vega ekki að sofna.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.10.2007 kl. 12:27

6 identicon

Ánetjast fólk völdum? Þetta er spurning sem ég hef spurt mig síðan fréttir bárust af niðurstöðu fundar borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Hvers vegna valdi fólkið ekki að standa upp af stólnum í stað þess að leggjast kylliflatt fyrir völdunum? Sjálfsvirðing, að kunna að skammast sín, að þekkja sinn vitjunartíma! Nei, frekar skulu þau sitja pikkföst á valdastólunum af sömu þrautseigju og hundur stendur á roði!  Fulltrúi framsóknarmanna situr auðvitað sem fastast - á sumt gerir maður einfaldlega ekki kröfur - það er ljótt að ætla fólki að gera eitthvað sem það ræður ekki við.

Þann 4. þ.m. varpaði ég fram hér í athugasemdum spurningunni hvort sjálfstæðismenn í Reykjavík ásamt spjátrungnum úr Framsóknarflokknum væru búnir að leggja grunn að nýju kvótamáli? Mér fannst flest benda til þess en á þeim tíma náði ég hreinlega ekki að átta mig fyllilega á þessu fáránlega máli. En núna sýnist mér, því miður, að svo sé: Að það sé raunverulega búið að afhenda dýrmætan ráðstöfunarrétt í hendur fárra. Hvað ráðstöfunarrétturinn felur í sér er hins vegar ekki ljóst því engar upplýsingar hefur enn verið að hafa um hvaða eignir fyrirtækið Reykjavik Energy Invest (REI) á. REI á heimasíðu (http://www.reykjavikenergy.com/), en þar er ekki að finna svör við því hvaða eignir fyrirtækið hefur yfir að ráða.

Talandi um heimasíðu REI þá er það saga til næsta bæjar að heimasíðan er á uppáhaldstungumáli sumra "business-manna; ensku; karlanna sem vilja hvíla íslenskuna (enda tungumálið orðið hundgamalt og sennilega líka úrelt), og brúka í staðinn enn eldra tungumál. Það kann að segja sauðsvörtum almúganum á Íslandi (sem skóp verðmætin sem REI hefur yfir að ráða) nokkra sögu að talsmenn fyrirtækisins beina orðum sínum eingöngu til enskumælandi. Þeim sem glíma ekki við önnur tungumál en sína ástkæru ilhýru íslensku er ekki ætlað að vita neitt um þetta fyrirtæki.

Það hefur vakið furðu mína hve margir eru sammála um að eðlilegt hafi verið að REI og Geysir Green Energy (GGE) hafi verið sameinuð? Hvað er eðlilegt við það að fyrirtæki sem var a.m.k. þá í eigu Reykvíkinga var sameinað fyrirtæki sem er að töluverðum hluta í eigu einkafyrirtækja og einstaklinga? Hvers vegna mega þessi fyrirtæki ekki keppa um verkefni í útlöndunum? Ekki hefur það háð bönkunum að vera aðskildir hver frá öðrum. Nei, ætli svarið við spurningunni um hvers vegna þessi fyrirtæki voru sameinuð felist ekki í allt öðru en því að saman séu þau sterkari?

Fullyrt er (og engar athugasemdir gerðar við þá fullyrðingu, svo ég heyri) að Reykjavíkurborg geti fengið 10 milljarða fyrir eignarhlut sinn í REI. Skemmtileg tala, en hvaðan ætli hún sé ættuð? Í fréttum RÚV þann 5. þ.m. var BÁ spurður út í þetta mat og hann upplýsti að fyrirtækið hefði sína "eigin sérfræðinga". Hverjir eru þeir? Þá daga sem síðan eru liðnir hefur BIH komið fram í fjölmiðlum og farið mikinn (að venju) þegar hann lætur dæluna ganga um verðmæti fyrirtækisins REI eftir sameiningu þess við GGE: Hvort hann er einn "sérfræðinganna", fæst ekki uppgefið, en á hvaða stoðum byggir hann fullyrðingar um verðmæti fyrirtækisins. Má ég biðja um að leitað verði til manna sem búa yfir sérfræðiþekkingu því ég gef lítið fyrir fullyrðingar manna sem fyrst og fremst eru ánægðir með sig og alltaf tilbúnir að láta "ljós" sitt skína.

Að endingu þá fannst mér afskaplega þægilegt að hlusta á Illuga Gunnarsson í Íslandi í dag á Stöð 2. Það er virkilega þægilegt til þess að vita að til séu stjórnmálamenn sem fylgja ekki flokkslínum í blindni heldur mynda sér skoðun og í hans tilfelli skoðun sem hann byggir á þekkingu, því hagfræði er honum ekki framandi.

Helga 9.10.2007 kl. 01:53

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband