Pottormar á ferð og flugi - og hve lengi verður hægt að kjósa fegursta orð íslenskrar tungu?

Við Ari erum orðin hálfgerðir pottormar - sem er reyndar flott orð - núna vegur maður og metur hvert orð ;-) - Þannig er nefnilega mál með vexti að fyrir ári gaf tengdamamma okkur æðislegan heitan pott, sem upphaflega hafði verið ætlað annað hlutverk og hafði því staðið í sennilega eitt til tvö ár. Nú er búið að yfirfara hann og byggja inn í sumarbústaðarpallinn okkar en þá vill ekki betur til en að straumurinn í bústaðinn okkar megnar ekki að hita hann upp í upphafshita. Þannig að við höfum búið uppi í bústað frá því um helgina til að reyna að finna út úr þessu og sótt vinnu í bæinn og mættum svo með rafstöð í gær (sem bjargaði okkur alveg þar til við fengum rafmagn í bústaðinn fyrir einu og hálfu ári). En fyrst passaði ekki klóin á rafmagnskapalinn í pottinn og síðan gaf rafstöðin engan straum :-( - mjög furðulegt mál.

Þannig að það er spurning hvenær við flytjum heim aftur, ef við gerum það. Það er yndislegt uppi í bústað, en mig er farið að langa til að hitta hana dóttur mína sem kom frá Ungverjalandi fyrir 2 vikum! Ýmist hefur hún verið í útilegu eða uppi í bústað eða við uppi í bústað og ótrúlega fáar stundir gefist til að spjalla saman. Hún var að vísu að hugga mig á því í gærkvöldi að hún hefði verið með eindæmum upptekin að undanförnu þannig að þótt við hefðum verið í sama kjördæmi hefði það litlu breytt. Við höfum líka verið að reyna að véla son okkar til að vera með okkur uppfrá, bara upp á samveruna, og hann hefur reyndar stundum verið á sama tíma og við, en oftar einn síns liðs eða með sínum vinum. Á þessu stigi málins ætti ég kannski að upplýsa að ,,börnin" okkar eru 28 og 30 ára. 

Eins og ljóst má vera hef ég verið mjög upptekin af íslenskri tungu að undanförnu. Meðan þátttaka er enn góð í atkvæðagreiðslunni verður hægt að kjósa hér á síðunni um það hvert þessara 12 orða hér á vinstri hönd verður valið fegursta orð íslenskrar tungu. Þegar atkvæðum fer að fækka verulega, dag hvern, þá auglýsi ég þriggja daga lokafrest til að taka þátt. Síðan verður sigurvegarinn kynntur með pompi og pragt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband