Efni í græna ríkisstjórn - skýr skilaboð eftir fyrstu könnunina með Íslandshreyfinguna innanborðs

Ef fyrsta skoðanakönnunin er rétt, um fylgi flokkanna eftir að Íslandshreyfingin var kynnt, eru það stórtíðindi. Tiðindin eru þau að græni liturinn hefur bætt við sig enn fleiri prósentum, Íslandshreyfingin er að mestu leyti viðbót við ævintýralegt fylgi VG. Spár um að fylgið kæmi að mestu frá VG virðast ekki ganga eftir, saxað er í raðir Sjálfstæðismanna og Frjálslyndra, sem ekki hafa vakið trúverðugleika í tilraunum sínum til að sýna græna slikju. Það að Samfylkingin sé aðeins að rétta úr kútnum merkir einfaldlega að hægt er að hafa hana sem þriðja hjól undir græna vagninn. Varla mun vafi leika á að mikil ásókn mun verða í félagsskap grænu flokkanna tveggja, VG og Íslandshreyfingarinnar, sem virðast ætla að verða ótvíræðir sigurvegarar kosninganna gangi þessar spár eftir. Erfitt verður fyrir forseta Íslands að gera annað en sinna þessu græna kalli þjóðarinnar.

Græna sveiflan er þekkt stærð, en við megum ekki missa sjónar á því sem einnig þarf að vera skýrt við stofnun næstu ríkisstjórnar:

Nýsköpun og hugvit í stað stóriðjustefnu. Mjög skýrar áherslur hjá VG og Íslandshreyfingin sama sinnis. Áreiðanlega hægt að fá fleiri til að taka undir í þeim efnum.

Hafna Evrópusambandinu. Ótvíræð stefna þjóðarinnar og VG þarf að taka forystu til að hlustað verði á þjóðina.

Skýr kvenfrelsisstefna. Ekki vafi í mínum huga að þetta er hinn máttarstólpi hinnar miklu fylgisaukningar VG. Þarna þarf VG að leiða og ég efast ekki um að hljómgrunnur er meðal annarra flokka sem aðeins þarf að örva lítillega.

Aukinn jöfnuður í samfélaginu. Réttlætiskennd þjóðarinnar er misboðið. VG hefur alltaf verið leiðandi í kröfunni um aukinn jöfnuð og nú munu aðrir án efa vera tilbúnir að taka undir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Það sorglega við þetta græna kjaftæði er að fólkið sem stendur að því er allt það

ungt að ástandið fyrir 1970 er sem lokuð bók fyrir því og það heldur að lífið hafi

alltaf verið dans á rósum. Það veit ekki að með viðreisnar stjórninni fóru hlutirnir

að gerast. En að lesa það sem SJS skrifar um atvinnumál fær mann til að skilja

hversu fáránlegar hugmyndir eru í gangi, um þetta annað sem hann kallar atvinnu (þjónustustörf og fjallagras tínslu). Störf sem skapa engin verðmæti og gera ekki

annað en aðfella gjaldmiðilinn og safna skuldum.

Leifur Þorsteinsson, 25.3.2007 kl. 17:34

2 identicon

Þú hefur svo sannarlega brett upp ermarnar síðan þú komst úr pólitíska fríinu!  Bara komin vel á veg með að setja saman ríkisstjórn og það græna.  En vissirðu að þú ert líka búin að gera mig pólitíska á ný?  HG (græn upp fyrir haus, en samt fædd löngu fyrir 1970).

HG 25.3.2007 kl. 19:36

3 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Ef könnunin er rétt....? Þú getur lesið út úr könnuninni að fylgi stjórnmálaflokkanna hefur ekkert breyst í þessum mánuði ef við tökum mark á þeim virkmörkum sem eru samviskusamlega gefin upp. Þetta þýðir að tölurnar sem Íslandshreyfingin fær nægja ekki til þess að hafa nein marktæk áhrif á styrkelikahlutföll hinna flokkanna.

Vek athygli á bloggi mínu í dag um niðurstöður þessarar könnunar. Það er engin ástæða fyrir neinn að fara á límingunum né heldur að hoppa hæð sína af kátínu.

Pétur Tyrfingsson, 25.3.2007 kl. 21:04

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ekkert okkar veit svo sem hve rétt könnunin er, en mér finnast niðurstöðurnar frekar trúverðugar, það er að meiri líkur séu en minni á því að Íslandshreyfingin verði inni með einhverja fulltrúa og Frjálslyndi flokkurinn úti. Vangavelturnar á þínu bloggi eru vissulega réttar, einkum það sem við kemur vikmörkum, en ég yrði ekki hissa þótt þessi könnun (sem ég set svo sem fyrirvara í mínu bloggi á að sé rétt) yrði í takt við það sem við sjáum á næstunni í könnunum. Svo er auðvitað stóra könnunin eftir, 12. maí.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.3.2007 kl. 21:22

5 Smámynd: Ólafur Sigurðsson

Hæ Anna. Nú er Óli Sig farinn að blogga eins og allt hitt fullorðna fólkið

Það væri aldeilis breyting ef græni liturinn tæki stjórnina, en fyrst þarf að vinna heima í héraði með því að segja NEI við álveri í Hafnarfirði! Það yrði æðislegt  

Ólafur Sigurðsson, 25.3.2007 kl. 21:52

6 Smámynd: Ólafur Sigurðsson

P.S. Varstu búin að sjá greinina mína um Nörrebro í mbl í dag?

Hún er líka á blogginu mínu..  Er eitthvað að "byltast".

Ólafur Sigurðsson, 25.3.2007 kl. 21:53

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hæ Óli, gaman að sjá þig á blogginu líka. Nú fer ég að skoða þitt líka, takk fyrir að láta mig vita. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.3.2007 kl. 23:15

8 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Sæl aftur Anna. Trúverðugt eða ekki trúverðugt. Könnun er könnun og við getum vitað um hve forspárgildi þeirra er gott með hliðsjón af tölfræði og úrtaksfræðum. Af könnuninni sjálfri er ekki hægt að draga þínar ályktanir. Aftur á móti sakna ég þess að fólið á Fréttablaðinu hafi ekki látið sér detta í hug að skoða fjölda óákveðinna. Ef fjöldi þeirra jókst milli kannana í mánuðinum svo tölfræðilega megi taka mark á því gætu fullyrðingar þínar um "stórtíðindi" átt við einhver rök að styðjast. Enn sem komið er þá trúi ég því ekki að Íslandshreyfingin sé meira en Margrét Sverris og hennar liði þegar upp er staðið. En auðvitað getur það breyst. Ég er bara að tala um ályktanir sem réttmætt er að draga af skoðanakönnunum samkvæmt þeim ályktunarreglum sem við eiga í þessu tilviki.

Pétur Tyrfingsson, 26.3.2007 kl. 01:46

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Fyrir utan þann fyrirvara að skoðanakannanir sýni ekkert annað en skoðanir þeirra sem spurðir eru á þeim tíma sem þeir eru spurðir, þá er ég engu að síður farin að leyfa mér að hafa ákveðna ,,tilfinningu" fyrir skoðanakönnunum. Eitt sinn fórum við allmörg úr Blaðamannafélaginu í endurmenntun hjá Ólafi Harðarssyni og þóttumst hafa lært allt um skoðanakannanir, en það sem gerðist síðan var að það voru ekki vísindalegustu kannanirnar (með nógu stóru úrtaki, rétt saman settu varðandi aldur, búsetu og þess háttar og þar sem var þráspurt til að hækka svarprósentuna) sem reyndust best heldur voru það frekar spontant kannanir blaðanna. Svo eruð auðvitað líka til arfavitlausar kannanir eins og þær sem gefa fólki kost á að kjósa sjálfviljugt á netsíðum, og þær hafa nákvæmlega ekkert forspárgildi. En það getur vel verið að nú séu félagsvísindin orðin enn fullkomnari en áður og ég bíð spennt eftir fleiri könnunum.  

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.3.2007 kl. 11:28

10 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Loksins fékk ég smá viðbrögð við þriðja hjólinu. Viðurkenni fúslega að ég setti það inn til að ögra smá. Græna áherslan er tvímælalaust ofarlega í hugum fólks og mér finnst ekkert nema sanngirni að þess gæti í stjórnamyndun eftir kosningar, og já, við skulum bara sjá hver verður stærstur af stjórnarmyndunarflokkunum sem ég leyfi mér að raða saman.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.3.2007 kl. 23:43

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband