Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Kappræðurnar í kvöld - mikilvægur atburður og bolabrögð repúblikana

Kappræðurnar milli Obama og McCain í kvöld munu skipta miklu máli - þótt ég sjái ekki hvernig McCain ætti að hafa betur, miðað við ástandið á karlinum, þá verð ég samt fegin þegar þær verða búnar með góðum sigri Obama. Því miður eru farin í gang alls konar bolabrögð repúblikana til þess að fæla fátækt fólk frá því að kjósa, til dæmis með því að telja því trú um að ef það eigi einhverjar opinberar skuldir útistandandi, þá verði það handtekið á kjörstað. Hafi menn ekki góðan málstað að verja þá er gripið til slíkra ráða. Við erum ekki búin að gleyma Florida fyrir átta árum, Bush hefði aldrei átt að ná kjöri, en bolabrögð eru því miður nothæf og máli skiptir að reyna að vinna gegn svoleiðis andstyggilegheitum. Markaðir um allan heim sveiflast eins og róla í roki og þótt við Íslendingar þurfum auðvitað alltaf að vera mest og best í öllu, líka í efnahagshörmungunum, þá er greinilega að víða um heim er mikil barátta fyrir að viðhalda þokkalegum lífskjörum (þar sem þeim er til að dreifa) í gangi.

Skárra en ekkert eða of lítið og seint?

Lengi er búið benda á þann möguleika að létta fjölskyldum og fyrirtækjum lífið með stýrivaxtahækkun án þess að taka mikla áhættu í málefnum þjóðarinnar. Þenslan var hætt og þessi ákvörðun, fyrr, hefði án efa létt þann róður sem nú er róinn víða. En kannski er þetta skárra en ekkert, ég hefði viljað sjá mun róttækari tilkynningu og held að hún hefði ekki gert neitt nema gott.
mbl.is Stýrivextir lækkaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forskot Obama eykst - Obamaskiltum stolið úr görðum - og spennandi kappræður annað kvöld - góðar fréttir fyrir efnahagslífið

Flestir hér í Bandaríkjunum binda miklar vonir við að kjör Obama muni reynast vítamínsprauta fyrir efnahagslífið. Nú er beðið með spenningi eftir þriðju og síðustu kappræðum þeirra Obama og McCain og forskot Obama hefur aukist talsvert að undanförnu. Samt held ég að flestir verði óskaplega fegnir þegar 4. nóvember verður um garð genginn og við sjáum niðurstöðurnar, sem verða vonandi virkilega góðar.

Annað kvöld verður safnast saman heima hjá Annie systurdóttur minni eins og seinast og við ætlum að horfa allmörg saman á umræðurnar. Á eftir förum við á kosningaskrifstofuna hér í Portales og það verður haldinn strategíufundur, sem ég fæ að vera á. Áhugavert. Við erum í biblíubeltinu, jaðri þess reyndar, hér í Portales eru 26 kirkjur í 12.000 manna bæ, McCain skiltin í görðunum eru fleiri en Obamaskiltin, en í götunni hennar Nínu eru Obamaskiltin fleiri, blessunarlega, enda erum við nálægt háskólanum, þar sem Obama á yfirgnæfandi stuðning. Búið er að stela Obamaskiltum úr görðum nokkrum sinnum og Annie frænka mín skrifaði á það nýjasta eitthvað á þessa leið: Endilega stelið skiltinu og styrkið kosningabaráttu Obama, í hvert sinn sem ég kaupi nýtt skilti renna 5 dollarar í baráttuna.


Er nýjabrumið farið af kreppunni?

Heyrði aðeins í fólkinu mínu heima í dag og fékk að einhverju leyti staðfest það sem mér finnst á vefsíðum og gegnum fréttir, gálgahúmorinn er að minnka og alvarleiki ástandsins að hellast yfir fólk. Hvað finnst ykkur, er mesta panikin liðin hjá og mestu hrollbrandarnir búnir? Eða er það allt misskilningur hjá mér?


,, Ísland þarf öflugra skip og meiri varnir ef það ætlar á annað borð að taka þátt í því fjórfrelsi sem fylgir samstarfinu í Evrópu.

Las með athygli grein Ingibjargar Sólrúnar í Morgunblaðinu. Það hlýtur að vera erfitt að vera kippt út úr hringiðunni vegna veikinda þegar slíkir atburðir gerast. Nógu einkennilegt finnst mér að fylgjast með gegnum netið og símtöl við mína nánustu og vera stödd erlendis núna, en ég hef þó verið á hliðarlínu stjórnmálanna svo lengi og kann því vel. En sem sagt það sem ég gríp á lofti í grein Ingibjargar Sólrúnar er þessi setning:  ,,Ísland þarf öflugra skip og meiri varnir ef það ætlar á annað borð að taka þátt í því fjórfrelsi sem fylgir samstarfinu í Evrópu." Þetta er angi af því sama og Björgvin G. Sigurðsson sagði um daginn um að ekki hefði verið hægt að stöðva of mikla útþenslu bankanna vegna EES. Við erum sem sagt ekki í stakk búin til að vinna undir regluverki fjórfrelsisins og ESB eins og sakir standa, það er deginum ljósara. Úr því þarf að bæta með öllum tiltækum ráðum. Síðan getum við tekið slaginn um hvort Íslandi sé betur borgið innan ESB eða utan og hvort Euro-ið (sem við myndum ekki fá að kalla Evru) henti okkur betur en annar gjaldmiðill, til dæmis endurreist íslensk króna. Það er verðugt verkefni að uppfylla þau skilyrði sem eru fyrir aðild að myntbandalagi Evrópu, en niðurstaðan þarf ekki að vera sú, í fyllingu tímans, að það sé best til að vernda hagsmuni okkar.

Þetta er dýr lexía sem við erum að læra núna. Næstu markmið ættu að liggja nokkuð ljós fyrir, við þurfum að bæta og breyta um efnahagsstefnu og hafa skýrara regluverk í kringum fjármálaumsvif þau sem við eigum aðild að í framtíðinni. Við vitum ekki hvernig staðan verður þegar þessari tiltekt er lokið og sá slagur hvað þá tekur við mun óhjákvæmlega bíða betri tíma.


Sínum augum lítur hver á Silfrið

Las í morgun (er sex tímum á eftir ykkur) mjög misjöfn skilaboð um Silfur Egils. Var Egill ruddi og Jón Ásgeir rólegur, var Jón Ásgeir bara loddari og Egill að spyrja spurninganna sem þurfti að spyrja? Ég fór auðvitað að hlusta á netinu.

Fyrst er auðvitað til að taka að viðtalið við Ragnar Önundarson var auðvitað snilld. Og þessi bankabóla var auðvitað nokkuð sem búið var að vara margsinnis við og hann var þar fremstur meðal jafningja. Það sem hann segir um nútímann finnst mér þó merkilegast. Varar mjög við skilyrðum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem er í takt við það sem ég hef alltaf heyrt.

Ég veit ekki hvað segja skal um viðtal Egils við Jón Ásgeir. Egill er alltaf frekur, það er ekkert nýtt. Jón Ásgeir var sannfærandi á köflum en ég er ekkert sannfærð um að saman fari orð og athafnir.  Atburðarásin mun vonandi fara undir smásjá góðrar rannsóknar og lærdómur verði dreginn af þessari framvindu.

Jóhanna hefur lög að mæla varðandi fall nýfrjálshyggjunnar og græðgisvæðinguna. Hún hefur sannarlega verk að vinna og það verður ekki auðvelt. Eins gott að hún fái þann stuðning sem hún á skilinn. Af hverju er ég með efasemdir, en kannski var það þetta sem þurfti til.

Nína systir átti góða línu í öllu þessu ati: Heimurinn er blankur!


Íslandsmeistaramót í hálfkæringi

Núna, þegar ein erfiðasta vika í íslenskri efnahagssögu er að baki, mætti halda að brostið væri á Íslandsmeistaramóti í hálfkæringi. Á Facebook eru mýmargar góðar hugmyndir á sveimi, ég er skotnust í Dallas-aðferðinni, að er að íslenska þjóðin muni vakna upp við vondan draum og árið sé 1991, snemma árs, og Steingrímur Hermannsson enn forsætisráðherra. Þeir sem ekki muna Dallas-þættina ættu að spyrja foreldra sína hvað þetta eigi að fyrirstilla. En meiningin er reyndar sú að afstýra því að Davíð Oddson verði ...... forsætisráðherra.

http://www.facebook.com/group.php?gid=34337461919&ref=nf

Bloggsíður spretta upp og undarlegir bloggvinir biðja um vináttu. Brandarar eru sendir með ýmsum hætti um landið. 

Baggalútur hefur líka farið hamförum, eins og við er að búast:

Vantar þig gjaldeyri?

Eigum slatta af erlendri mynt sem fáanleg er gegn vægu gjaldi. Skilyrði er að gjaldeyriskaupendur kafi sjálfir eftir myntinni.

-Þingvallanefnd-

 

 


Himneskur brandari

Eiginlega finnst mér að þið eigið að skoða þennan brandara á réttum linki sem er hér:

www.svavaralfred.blog.is

En til öryggis, ef þið viljið ekki, getið ekki eða nennið ekki að smella á nýja síðu þá er brandarinn sem birtist í þessu himneska bloggi sem hér segir:

Gamla fólkið á elliheimili úti á landi var orðið afar þrúgað og meðtekið af efnahagsbölsýnisíbyljunni í fjölmiðlunum.

Forstöðukonan hafði sverar áhyggjur af þessu.

Í morgun var leikfimi á heimilinu. Forstöðukonan bað íþróttafræðinginn að vera nú heldur á léttu nótunum og fyrir alla muni ekki minnast á efnahagsmál eða þrengingar.

Þetta væri alveg að fara með gamla fólkið.

Íþróttafræðingurinn sagði það ekki nema sjálfsagt.

Svona hóf hann tímann:

"Kæru vinir! Í dag byrjum við á mjög léttri æfingu. Við réttum hendur út frá hliðunum, beygjum olnbogana og bönkum flötum lófum létt á bringuna, síðan réttum við úr höndunum og kreppum snöggt hnefana og endurtökum allt aftur og aftur," og svo hrópaði hann:

"Koma svo! Banka - kreppa, banka - kreppa, banka - kreppa......!" 

 

 


Eru tímar ,,hinnar hagsýnu húsmóður" runnir upp

Björgvin Sigurðsson sagði á fréttamannafundinum efnislega að fyrr eða síðar yrðu þeir dregnir til ábyrgðar sem ástæða væri til. Geir sagði að ef svo vildi til að óeðlilegar peningatilfærslur ættu sér stað þá yrði tekið á því. Þetta er góður tónn. Ekki skal ég verja örvæntingarhjalið í hinum fylgis-rúna Gordon Brown sem er að leita að eigin Falklandseyjastríði, en rétt skal vera rétt. Endurskipulagning bankanna er í gangi og búið að ráða tvær konur í bankastjórastöður, Landsbanka, og er marka má fréttir einnig Glitni. Það skyldi þó aldrei vera að stefna ,,hinnar hagsýnu húsmóður" sem eitt sinn var talsvert í umræðunni, muni nú fá að ráða ferðinni eftir rússíbanareiðina í fjármálafyrirtækjum okkar? Vissulega er ekki nema hluti vandans vegna ákvarðana okkar fólks, við höfum ekki stýrt þróun á alþjóðlegum mörkuðum og hún hefur verið erfið líka, en kreppan leggst þrungt á Ísland vegna þessara miklu umsvifa okkar bankakerfis, sem í krafti EES gat orðið svona stórt og varnarlaust.
mbl.is Brown gekk allt of langt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í samhengi heimsins

Ég hvet til þess að við fylgjumst líka með heimsfréttunum, þar er alvarleg staða víða, þótt auðvelt sé að drukkna í heimafréttunum, mjög auðvelt reyndar. Vonandi hafa þeir rétt fyrir sér sem telja að kjör Obama muni hafa jákvæð áhrif á heimsviðskiptin, það kemur öllum til góða, líka okkur. Víða er panik og misvitrir stjórnmálamenn víðar en á Íslandi, en það er verið að reyna mjög ákaft að koma böndum á ástandið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband