Dýrin í lífi okkar - mestmegnis um ketti

Veit ekki hvort það er nánd jólanna eða eitthvað annað, en mér verður hugsað til dýranna í lífinu þessa dagana. Simbi liggur á rauðum púða við hlið mér og er eina dýrið sem eftir er hér heima. Indælis köttur, mjög street-smart, alinn upp annars staðar í fjölskyldunni, en kom til okkar sem sumardvalarköttur og var fyrst í stað tekið frekar illa af hinum tveimur sem voru heimilisfastir hjá okkur þá stundina. Annað sumarið hans hér rættist úr því og síðan hefur hann búið hér hjá okkur og er bara sæmilega sáttur með okkur, held ég. Hann tekur blíðuköst af og til en er frekar sjálfstæður inn á milli.

Ari og Simbi

Ein kattafjölskylda hefur fylgt okkur öðrum fremur, amman, Kría, var sumardvalarköttur hjá okkur fyrir meira en tuttugu árum, við fengum kettling undan henni, hinn stórkostlega Bjart (sem yfirleitt var kallaður ,,Bjartur og fagur") og var einn blíðasti köttur sem um getur. Hann eignaðist dóttur, með læðu úr sömu kattafjölskyldu, Fjólu hinni fögru, sem Gurrí stórbloggari átti. Dóttirin, Mjallhvít, var sem sagt alin upp hjá einstæðum föður og var mikill villingur en gullfalleg, loðin og hvít eins og Kría, amman. Mjallhvít var sönn prinsessa, mjög vönd að virðingu sinni og heillaði alla fressketti í nágrenninu en hafnaði þeim öllum. Bjartur varð fyrir bíl ungur að árum en átti von á kettlingum í nágrenninu og við fengum einn þeirra, Grámann hinn grálynda, sem er hreinlega skemmtilegsti köttur sem ég hef nokkurn tíma kynnst. Grámann kom til okkar mjög ungur og meðal ævintýra hans var að stelast inn í ísskáp og sofa í konfektkassanum. Hann var vitlaus í kex og kartöflur. Mjallhvít hálfsystir hans tók honum ekki vel í fyrstu, þannig að það kom í hlut hundsins okkar, hans Tinna, að ala hann upp og fórst honum það svo vel (fyndið að sjá smá gráan hnoðra í fanginu á þessu frekar stóra hundi) að seinna meir, þegar Tinni var orðinn gamall og hrumur, drattaðist Grámann með honum út þegar Tinni var settur út í band, stundi að vísu og kvartaði undan þessari skyldu sinni, en hann fór með hundinum út í band alveg ótrúlega oft, merkileg tryggð, og svo er sagt að kettir séu ekki trygglyndir!Grámann og Mjallhvít náðu bæði háum aldri á kattamælikvarða, hún var 15 ára þegar hún lenti í slysi og hann var 13 er hann lét sig hverfa, en tveimur árum fyrr skilaði hann sér eftir 10 daga útivist, svo við vorum ekki mjög stressuð þegar hann hvarf. 

Tinni, eini hundurinn okkar hér í Blátúni, varð 14 ára og það var hann, miklu frekar en kettirnir, sem eyddi upp alla vega níu lífum, áður en hann varð allur. Þegar hann elti hestamennina (Ara minn og aðra) yfir Kjöl, fór hann fjórum sinnum yfir þegar þeir fóru einu sinni. Hinn hundurinn í ferðinni var reiddur mestalla leiðina en Tinni karlinn hljóp hress á undan, kom svo til baka, hljóp svona hálfan kílómetra til baka og náði svo hestamönnunum aftur. Eitt sinn var sundriðið yfir Markarfljót og þá vildi Tinni auðvitað ekki vera minni en hestarnir en fljótið bar hann langt niður eftir og allir mjög fegnir þegar hann fannst. Hann hefur dottið niður í stíflu, fallið fram af klettinum, en að lokum var það aðeins há elli og hrumleiki sem bar hann að ofurliði. 

Alltaf erfitt að kveðja dýrin sín, en ég er alin upp með gullfiskum, páfagauk, hundum og köttum. Jú, við reyndum líka að vera með skjaldbökur, þær eiga að vera langlífar, ekki mikill félagsskapur af þeim á veturna, því þá voru þær í kassa uppi á háalofti og sváfu (sem sagt í dvala). En þetta voru flottar skjaldbökur, hétu Litla og Stóra, og sú stóra var bara skemmtileg. Svo fengum við þá sem við kölluðum Minnstu og hún var víst veik og smitaði hinar. Þannig fór það, ekki nóg að geta orðið 100 ára, það þarf líka að verða það. 

Svo hefur Ari átt æði mikið af hestum en þeim hef ég ekki kynnst að ráði þótt mér finnist þeir fallegir. Eitt af seinustu skiptunum sem ég fór á hestbak fældist hesturinn og fleygði mér af baki og braut í mér hryggjarlið svo ég missti áhugann.

Þarf endilega að setja inn fleiri dýramyndir við tækifæri, en það útheimtir skönnun, sem ég gef mér ekki tíma fyrir nákvæmlega núna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Dýrin eru yndislegur félagsskapur, ég á þrjá ketti og einn hund.  Börnin elska dýrin alveg skilyrðislaust, og dýrin hjálpa börnunum í gegnum krísur.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.12.2008 kl. 01:55

2 Smámynd:

Skemmtileg dýrakynning  Ég hef alltaf átt ketti - var með 8 ketti í heimili (3 fullorðna og 5 kettlinga) þegar mest var og svo áttum við um tíma hamstur (hann lenti óvart í að leika sér við köttinn og það var hans endir), hund (sem var svo duglegur að við gátum ekki haft hann), gullfiska sem hétu Pú og Pa, frosk, hund og mýs. Þannig að það hafa alltaf verið dýr í kring um mig. Núna á ég bara einn kött sem vill ekki koma inn

, 20.12.2008 kl. 09:11

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sæt mynd af fressunum á heimilinu ... hehehehhe

Jamm, mikið var hún Fjóla mín, mamma Mjallhvítar, mikill karakter. Þegar hún var pínulítil (1987) þurfti ég að skilja hana eftir eina einn föstudaginn frá morgni og fram á nótt. Það var nægur matur hjá henni og að mig minnir opinn gluggi en þegar ég kom heim um nóttina (var að vinna á Ljósvakanum þá) og tók hana í fangið fékk ég einn á´ann frá henni. Hún sló mig utanundir til að tjá vanþóknun sína!!!! Hún opnaði líka óopnanlegafyrirketti skápa í eldhúsinu og stjórnaði öllu heimilinu. Hún er fyrsti kötturinn sem valdi mig, ég ætlaði að velja bróður hennar en hún settist fyrir framan mig og malaði þegar ég kom í kettlingsleit heim til hennar og sama gerði Tommi 10 árum síðar. Hún gerði sér lítið fyrir og tók hann að sér, eins og þú kannski manst og var með hann á spena næstu þrjú árin, eða til dauðadags. Jamm, gaman að rifja upp dýraminningar.

Guðríður Haraldsdóttir, 20.12.2008 kl. 19:04

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Já, hún Fjóla fallega, hún gerði greinilega það sama og dóttirin, löðrungaði mann ef henni fannst ástæða til. Rosalegir karakterar! Kettir sem ekki vilja koma inn, já, stundum er Simbi einmitt þannig, en best finnst honum (eins og köttum almennt) að standa í dyrunum og vilja ekki alveg ákveða sig hvort hann er að fara út eða koma inn :-). Svo margar dýraminningar sem rifjast upp, og það er sannarlega rétt að við erum aldrei ein, man vel þegar Óli minn var svona sjö eða átta ára (miðað við fæðingarár dýranna þá hefur hann verið orðin níu ára reyndar) og ég ekki komin út vinnunni, hringdi og spurði hann áhyggjufull hvort hann væri einn heima. - Einn, sagði hann hneykslaður, nei, Bjartur er heima, og Mjallhvít, og Tinni!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.12.2008 kl. 22:33

5 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Þið eruð nú meiri stelpurnar. Það vill svo til að ég keypti einu sinni hús af Guðríði á Akranesi og átti þar kött, sem Bjartur hét. Hann var mikill veiðiköttur og fór reglulega á læðufar - en fékk sér alltaf eitt lap af bjór áður en lagt var í hann. Gretti sig í hvert skipti en var alltaf jafnsannfærður um að það sem ég var að drekka væri betra en vatnsgutlið hans.

Björgvin R. Leifsson, 20.12.2008 kl. 23:29

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Greinilega kattarkunnugur maður sem keypti húsið hennar Gurríar, með briminu góða.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.12.2008 kl. 01:07

7 Smámynd:

Gurrý talar um að vera með fullvaxinn kettling á spena og þá rifjaðist upp fyrir mér hann Svínki minn sem var gulbröndóttur fressköttur og yndislegasta dýr sem ég hef kynnst. Þegar systir hans dó frá kettlingunum sínum 3 mánaða gömlum tók hann þá að sér og var með á spena þar til þeir fóru á önnur heimili um 4-5mánaða aldurinn. Hann lagðist í þunglyndi eftir að þeir fóru (tveir gráir fressar) og lenti tveim mánuðum síðar undir bíl og dó. Sjálfsmorð? Sakna hans ennþá þótt liðin séu 14 ár frá því hann dó.

, 21.12.2008 kl. 11:10

8 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Anna skrifaði:"Greinilega kattarkunnugur maður sem keypti húsið hennar Gurríar, með briminu góða." Jamm, eitt skiptið gaf yfir húsið og kjallarinn fylltist af sjó. Eyðilagði fyrir mér eina 50 lítra af nýbrugguðum bjór.

Björgvin R. Leifsson, 21.12.2008 kl. 11:34

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Úpps, bjór með sjó, nei, gerir sig ekki alveg.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.12.2008 kl. 00:38

10 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Dagný, kötturinn hans móðurafa míns svelti sig í hel þegar hann fór suður til náms. Hann skrifaði kettinum allan veturinn og enginn þorði að segja honum hvers kyns var. Já, dýrin hafa stundum bugast líkt og mennirnir ... og ég held að hann Grámsi okkar (Grámann) hafi farið að heiman með það í huga að koma ekki til baka þegar hann var að eldast og veikjast.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.12.2008 kl. 02:06

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband