Nokkrar jólabækur - vertíðin lofar góðu - og bera konan með spottann!

Byrjuð að lesa jólabækurnar, á milli þess sem ég les Robert B. Parker krimmana sem alltaf liggja við rúmstokkinn (þær hafa þann kost að vera skrifaðar í knöppum ,,Íslendingasagnastíl" og stuttir kaflar mátulegir fyrir svefninn, á ferðalögum og jafnvel á umferðaljósum - djók) og gríp í ljóðabækur, sem eiga sér sama samastað. Ein þeirra verðskuldar reyndar umræðu, Blótgælur, sem ég var lengi búin að ætla mér að kaupa. Afgreiðslufólkið í Máli og menningu hafði ágætar skoðanir á þeirri bók, hrifin (afsakið, ég bara get ekki sett ,,hrifið" (-fólkið) hér inn þegar ég sé stelpu og strák í afgreiðslunni fyrir mér, enda segi ég alltaf ,,hún" um kvenkyns forseta, ráðherra og aðra -seta og -herra). Annað þeirra var sem sagt hrifið af öllum ljóðunum og hitt af sumum þeirra. Ég er í hópi þeirra sem er hrifin af allflestum ljóðunum og hef lúmskt gaman af paródíunum sem þar á milli leynast.

En þetta er jólabók síðasta árs. Nú ætla ég að hafa skoðanir á þessum sem ég er búin að lesa, var reyndar búin að ræða aðeins um Myrká Arnaldar, en langar að bæta því við að ég er sérstaklega spennt að sjá næstu bók hans, mér finnst Arnaldi takast betur að líta í aðrar áttir en áður í þessari bók en í öðrum þar sem hann hefur yfirgefið Erlend. Vona samt að Erlendur komi ,,hress og kátur" (ekki alveg hans stíll auðvitað) í næstu bók, en ég þori engan veginn að treysta því.

Dimmar rósir, eftir Ólaf Gunnarsson. Skrambi góð bók. Ég fór að lesa hana á bandvitlausum forsendum, var komin með smá löngun til þess að detta inn í sixties stemmningu, einkum þar sem titillinn vísar til eins flottasta íslenskra lagsins frá þeim tíma, mig minnir með Töturum. Jú, vissulega er það andrúmsloft á svæðinu með skáldaleyfi sem hefur greinilega pirrað einhverja - ekki mig þótt ég hafi verið í Austurbæjarbíói á Kinks-tónleikum. Það sem heillaði mig við bókina er samt eitthvað allt annað og ekki endilega það sem ég ef fundið í fyrri verkum Ólafs, sem ég hef lesið (á enn góðar bækur ólesnar og hlakka til). Andrúmsloftið er þessi margslungna tenging fólksins innbyrðis, sem mér finnst sterkasti þátturinn í bókinni og skilar sér fullkomlega. Til eru kvikmyndir, að vísu mun lakari, sem spila á þessar tengingar á svipaðan hátt, bókin tengist þeim í raun betur að mínu mati en þær skáldsögur sem spinna svipaðan vef, og það finnst mér kostur.

Viðtalsbók/ævisaga sem fjallar um ævi Margrétar Pálu Ólafsdóttur, Ég skal vera Grýla, eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur (minnir mig). Ég fer yfirleitt á hundavaði yfir ævisögur, fletti upp á markverðum atburðum eða spennandi frásögnum og les þetta efni meira eins og sagnfræðingur í heimildaleit, enda farið í gegnum svona hundrað slíkar í þeim tilgangi. En þessi er sér á parti. Auðvitað fyrst og fremst vegna þess að Magga Pála er einstök. Ég var svo ljónheppin að fá tækifæri til að taka viðtal við hana snemma á þessu ári og það var draumahlutskipti, nú orðið er blaðamennska mín nánast eingöngu lúxushobbý hjá mér, tækifæri til að tala við áhugaverðar konur. Þess vegna hlaut ég að lesa þessa bók með gagnrýnum augum, en útkoman var mjög jákvæð. Eftir smá skann fram og til baka, eins og ég les svona bækur, byrjaði ég á byrjuninni og las bókina í tveimur mislöngum lotum og gat eiginlega ekki lagt hana frá mér í seinni - lengri - lotunni. Mér finnst Margrét Pála stökkva ljóslifandi út úr bókinni af miklum lífskrafti, hugrekki og samt svo margslungin, eins og hún sannarlega er. Þessi bók gladdi mig ósegjanlega.

Nú er ég byrjuð á Auðninni hennar Yrsu og lofar góðu, þótt ég sé svolítið á móti því að kvelja mig á að lesa um eitthvað kalt eða kuldalegt. En þetta get ég auðvitað ekki sagt eftir að hafa nánast drukknað í Smillas fornemmelse for sne ... eins og sú ágæta bók Peters Hoeg hét, svona sirkabát.

Byrja óvenju snemma á jólabókunum í ár, venjulega hef ég verið í prófum eða verkefnaskilum, en ekki núna, setti verkefnaskil viljandi eftir áramót og sé ekki eftir því. Þannig að ég hlakka til að lesa þær allar sem ég man ekki nákvæmlega hvað heita, Segðu mömmu að mér líði vel, Sjöunda soninn og allar hinar sem ég ætla svo sannarlega að lesa ... Þetta með að muna ekki nákvæmlega hvað bækur heita getur stundum endað með skemmtilegum afbökunum (óviljandi) en engin jafnast þó á við það þegar Þórarinn á Skriðuklaustri var í miðri ræðu og mundi ekki alveg málsháttinn sem hann ætlaði að vitna til þannig að hann sagði ,,æ, þið munið ... bera konan með spottann!" Og auðvitað mundu allir: Neyðin kennir naktri konu að spinna.

Já, þetta ætlar að verða góð vertíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Svo sammála þér um MP.  Bókin nær henni afskaplega vel.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.12.2008 kl. 08:15

2 identicon

Mikið er ég nú ánægð með þig að vera komin með svona gott úrval af einhverjum "skemmtilegri" bókum heldur en ég er að lesa núna...

Hlakka mikið til að lesa þær... Verður pabbi ekki alveg örugglega búin þegar ég kem heim...

Jóhanna 17.12.2008 kl. 10:18

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Pabbi þinn er að vísu búinn að týna Myrká, en ég held að hún finnist, jafnvel í dag, veit ekki hvað hann er búinn að lesa, hann vinnur svo mikið í hesthúsinu að hann er bara sofnaður löngu fyrir miðnætti flest kvöld - en það verður ekki vandamál.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.12.2008 kl. 15:45

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband