Bækur, bækur, bækur og glæsileg garðveisla þar sem gestgjafinn kemur á óvart (sem var kannski ekki svo óvænt ;-)

Er stödd á þeim punkti í tveimur aðalverkefnum mínum að heimsókn í Þjóðarbókhlöðuna er óhjákvæmileg. Þess vegna meðal annars er ég enn í bænum. Átti góða stund í dag þar sem ég fór í gegnum tímarit sem geymd eru niðri í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar og dáðist enn og aftur að því hversu gott er að vinna í því ágæta húsi, jafnvel þótt vatnið umhverfis húsið sé ekki til staðar eins og sakir standa. Hvort það er vegna yfirstandandi gluggaþvottar veit ég ekki, en hvers vegna ætti það að vera? En það er nú annað mál. Hins vegar hef ég ekki þurft að fara klyfjuð bókum af safninu að undanförnu, hef yfirleitt lokið ætlunarverkinu á staðnum, en nú brá svo við að ég þrammaði með svona 15 kíló af bókum út, fann nefnilega tilvísun í áhugaverða bók þegar ég var rétt að ljúka vinnu upp úr tímaritunum sem ég var með í höndunum og þegar ég var komin að hillunum sýndist mér að nokkrar aðrar bækur kynnu að vera gagnlegar líka. Þannig að nú er bíllinn minn hlaðinn bókum um sjávarútveg fyrr og nú, flestum nýútkomnum reyndar, því ég var búin að kanna ýmsar eldri heimildir. Meiri ósköpin sem er skrifað, en ég þarf að skoða allar mögulega bitastæðar heimildir.

Svo var að bruna heim og skipta um föt og hlutverk. Var á leið í afskaplega vel heppnaða garðveislu, þar sem Ragnar Arnalds var að halda uppá sjötugsafmælið, sem er auðvitað fáránlegt, þar sem hann ætti ekki að vera mikið meira en sextugur og heldur ekki hans ágæta kona, Hallveig, sem er nýkomin úr brúðuleikhúsferð til Síberíu, eins og kom fram í viðtali við Ragnar um daginn í einhverju blaðinu. Ragnar er formaður Heimssýnar og þar liggja okkar leiðir saman um þessar mundir, hann er góður málsvari sjálfstæðis þjóðarinnar. Flestir vita líklega einnig af því að hann er góður rithöfundur, hefur aðallega fengist við leikritun, en ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um að hann væri farinn að semja sönglög, en við fengum að heyra dæmi um það í garðveislunni góðu og ekki spurning að listahæfileikar hans ná til þess sviðs einnig. Þetta var bæði óvænt uppgötvun og um leið ekkert svo óvænt. Gott fólk í kringum Ragnar og skemmtilegir endurfundir við gamla vinkonu sem ég vissi að yrði þarna, en hef ekki séð í óþarflega mörg ár, ekki síðan ég stundaði afmælisveislur á Sundlaugaveginum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband